Ég hélt uppteknum hætti þetta árið og hljóp hamingjuhlaup í tengslum við Hamingjudagana á Hólmavík. Að þessu sinni lá leiðin sunnan úr Reykhólasveit um Gautsdal, Þröskulda og Arnkötludal. Endamarkið var að sjálfsögðu á hátíðasvæðinu neðan við Klifstúnið á Hólmavík.
Við lögðum fjórir saman upp frá vegamótunum neðan við bæinn Tinda í Geiradal sl. laugardagsmorgun kl. 10.46, þ.e. einni mínútu síðar en ætlað var. Með mér í för voru þeir Birkir Stefánsson skíðagöngumeistari og bóndi í Tröllatungu og Ingimundur Grétarsson sagnfræðinemi og sérlegur hlaupavinur minn úr Borgarnesi. Þeir tóku líka báðir þátt í hamingjuhlaupinu í fyrra, þegar við hlupum frá Drangsnesi til Hólmavíkur af sama tilefni. Fjórði maðurinn var Kristinn Schram þjóðfræðingur og forstöðumaður Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Þarna var sem sagt valinn maður í hverju rúmi, enda á brattann að sækja.
Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er vegalengdin frá umræddum vegamótum til Hólmavíkur alveg um 31 km, nánar tiltekið 31,36 km skv. opinberum tölum Vegagerðarinnar. Fyrstu 10 kílómetrarnir eru allir á fótinn, allt þar til 367 m hæð er náð á Þröskuldunum sjálfum. Þá tekur við 15 kílómetra kafli á þægilegu undanhaldi niður að Hrófá við Steingrímsfjörð, og þaðan eru svo um 6,5 km meðfram ströndinni til Hólmavíkur.

Tilbúnir til brottfarar. F.v. Kristinn, Birkir, Stefán og Ingimundur. Tindar í Geiradal í baksýn og 31 km til Hólmavíkur.
Veðrið þennan dag var svo sem ágætt, nema hvað strekkingsvindur úr norðri blés í fangið á okkur allan tímann. Veður var hins vegar þurrt að mestu og hitinn á láglendi 12-14 stig. Því var ástæðulaust að kvarta yfir veðrinu, sérstaklega þegar hugurinn reikaði tvö ár aftur í tímann þegar við Birkir og Ingimundur börðumst yfir Laxárdalsheiði milli þessara sömu byggða í stífum norðanvindi og slyddu. Þá voru líka hamingjudagar, þó að hlaupið væri ekki formlegur hluti af þeim eins og nú og í fyrra.
Það bar svo sem ekki margt til tíðinda á þessari leið okkar á laugardaginn. Að vanda gengum við að mestu upp brekkurnar, nema Kristinn sem hljóp þær allar sem ekkert væri og náði fljótlega góðu forskoti. Þegar komið var efst í Gautsdalinn hittum við tvö lömb, sem gerðu sig líkleg til að slást í för með okkur, en hættu við eftir stutta umhugsun. Það er reyndar frekar óvenjulegt að hitta svona spök lömb á fjalli, en líklega hafa þau alist upp sem heimalingar í vor af einhverjum ástæðum.
Ég hafði gert ráð fyrir að við yrðum komnir upp á Þröskulda kl. 11:45. Það gekk þó ekki eftir, því að klukkan var orðin 12:03 þegar við náðum toppnum. Þetta var náttúrulega ekki alveg nógu gott skipulag, en ég þykist hafa tvennt mér til málsbóta. Annars vegar var spölurinn upp 10 km en ekki 8 eins og ég hafði reiknað með, og hins vegar gerði ég ekki ráð fyrir mótvindi, sem var reyndar töluverður, sérstaklega efst í Gautsdalnum, væntanlega eitthvað yfir 10 m/s.
Uppi á Þröskuldum bættist fimmti maðurinn í hópinn. Þetta var Rósmundur Númason á Hólmavík, skíðagöngukappi með meiru. Þegar þarna var komið sögu var Kristinn nær horfinn sjónum, en Birkir tekinn að dragast aftur úr. Við hinir þrír fylgdumst að áleiðis niður Arnkötludal, þangað til Rósmundur ákvað að bíða eftir Birki og við Ingimundur ákváðum að ná Kristni. Það reyndist seinlegt verk, en hafðist þó áður en komið var til byggða.
Þegar við komum á vegamótin við Hrófá var klukkan orðin 13:23, eða 8 mínútum meira en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Þetta var þó ekkert sérstakt áhyggjuefni, því að tímaáætlunin fyrir síðasta áfangann var býsna rúm. Við höfðum að sjálfsögðu gert ráð fyrir að þarna væri búið að strengja línur meðfram veginum til að halda æstum mannfjöldanum í hæfilegri fjarlægð frá okkur. Við vorum enda vel undir þetta búnir, t.d. höfðum við sammælst um að veita engar eiginhandaráritanir fyrr en í markinu. En af einhverjum ástæðum var mannfjöldinn ekki eins þéttur og ætla mátti. Reyndar kom Sólrún, svilkona mín og fyrrum nágranni, á móti okkur út að Hnitbjörgum á hjóli og fylgdi okkur það sem eftir var. Hún var alveg nægur mannfjöldi til að gera síðasta spölinn hátíðlegan.
Ætlunin var að við myndum skeiða inn á hátíðarsvæðið rétt í þann mund sem Jón Gísli oddviti hefði lokið setningarávarpi sínu. Eitthvað dróst að ávarpið hæfist, og því varð úr að við hímdum hæfilega stund undir gafli félagsheimilisins áður en við tækjum lokasprettinn. Þetta var reyndar í góðu lagi, því að veðrið var hagstætt og enginn skafrenningur. Þarna gafst líka tími til að gera nokkrar teygjuæfingar, auk þess sem Ingimundur lumaði á góðu nesti sem við Kristinn átum frá honum þarna undir gaflinum. Eftir 11 mínútna bið þótti óhætt að hleypa okkur inn á staðinn, og þá skeiðuðum við léttir í spori, eða alla vega í huga, niður Sýslumannshallann og eftir Hafnarbrautinni inn á hátíðasvæðið. Birkir og Rósmundur skiluðu sér skömmu síðar, og þar með var þessu skemmtilega verkefni lokið.
Svona til að hafa tölfræðina á hreinu, þá mældist hlaupið allt 31,40 km þegar búið var að draga frá krókinn upp undir félagsheimilisgaflinn. Þetta verður að teljast vel innan skekkjumarka, þar sem opinber tala Vegagerðarinnar er 31,36 km eins og fyrr segir. Hlaupið allt tók okkur 3 tíma og 20 mínútur að frádregnum sama króki. Þetta var 5 mínútum lengri tími en áætlað var, en það var með vilja gert.
Ég er ekki í vafa um að hlaupið jók enn á hamingju mína, sem var þó ærin fyrir. Sama held ég að hafi gilt um hina fjóra. Hins vegar væri gaman að fá tillögur frá öðrum um það hvernig hægt væri að tengja svona hlaup betur við dagskrá hamingjudaganna. Ég velti því nefnilega fyrir mér hvort að það bæti einhverju við skemmtan eða hamingju þeirra sem standa eða sitja á Klifstúninu og fylgjast með setningarathöfn Hamingjudaga að sjá nokkra þreytta karla hlaupa inn á svæðið á fyrirfram ákveðnum tíma. Allar athugasemdir og ábendingar um þetta eru þegnar með þökkum.
Filed under: Hlaup | 4 Comments »