Það er ekki nóg að hlaupa langt, maður þarf líka að hlaupa oft. Þetta hef ég fundið síðustu vikur, þar sem hlaupin hafa orðið stopul annað slagið vegna annarra verkefna. Tilfinning mín er sú, að um leið og hlaupum fækkar, við skulum segja niður fyrir þrjú á viku, verður maður viðkvæmari fyrir hnjaski.
Annars var ég að bera hlaupaæfingar mínar þetta árið saman við árið í fyrra. Öfugt við það sem ég hélt eru hlaupadagar þessa árs orðnir fleiri en í fyrra. Núna í lok júní hafði ég sem sagt náð 73 hlaupadögum, borið saman við 69 í fyrra, þrátt fyrir hlé sem varð á æfingum síðari hluta janúar og fyrri hluta febrúar vegna tognunar. Hins vegar er heildarvegalengd ársins um 140 km styttri en í fyrra, þ.e. 954 km í stað 1.096. Skýringin á því er aðallega sú að þetta ár hefur verið helgað skammhlaupum það sem af er, þ.e. hálfu maraþoni og þaðan af styttri hlaupum. Æfingar hafa eðlilega tekið eitthvert mið af því.
Eins og fram kom í bloggfærslu 11. júní sl. er ég reyndar á fjallvegahlaupatímabilinu núna, og hef sagt skilið við skammhlaupin í bili. Þó getur svo sem vel verið að ég bregði mér í Ármannshlaupið á þriðjudagskvöldið. Þar eru hlaupnir 10 km á sæmilega flatri braut. Það er aldrei að vita nema ég reyni að bæta fimmtugs-, já og reyndar líka fertugsmetið mitt, sem er 42:03 mín. Svo er heldur ekki langt í þrítugs- og tvítugsmetið upp á 41:00 mín. Markmið ársins upp á 40:00 mín bíður hins vegar betri tíma (í orðsins fyllstu merkingu). Og að hvers kyns metum slepptum eru götuhlaup líka tækifæri til að hitta fleira fólk en í fjallvegahlaupunum. Götuhlaupin eru mér svolítið eins og krydd á góðan mat, rosalega góðan mat.
Og ég ætla að halda áfram að hlaupa sem oftast til að halda mér í formi. 🙂
Filed under: Hlaup | Leave a comment »