• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júlí 2010
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    25262728293031
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Út að hlaupa – sem oftast

Það er ekki nóg að hlaupa langt, maður þarf líka að hlaupa oft. Þetta hef ég fundið síðustu vikur, þar sem hlaupin hafa orðið stopul annað slagið vegna annarra verkefna. Tilfinning mín er sú, að um leið og hlaupum fækkar, við skulum segja niður fyrir þrjú á viku, verður maður viðkvæmari fyrir hnjaski.

Annars var ég að bera hlaupaæfingar mínar þetta árið saman við árið í fyrra. Öfugt við það sem ég hélt eru hlaupadagar þessa árs orðnir fleiri en í fyrra. Núna í lok júní hafði ég sem sagt náð 73 hlaupadögum, borið saman við 69 í fyrra, þrátt fyrir hlé sem varð á æfingum síðari hluta janúar og fyrri hluta febrúar vegna tognunar. Hins vegar er heildarvegalengd ársins um 140 km styttri en í fyrra, þ.e. 954 km í stað 1.096. Skýringin á því er aðallega sú að þetta ár hefur verið helgað skammhlaupum það sem af er, þ.e. hálfu maraþoni og þaðan af styttri hlaupum. Æfingar hafa eðlilega tekið eitthvert mið af því.

Eins og fram kom í bloggfærslu 11. júní sl. er ég reyndar á fjallvegahlaupatímabilinu núna, og hef sagt skilið við skammhlaupin í bili. Þó getur svo sem vel verið að ég bregði mér í Ármannshlaupið á þriðjudagskvöldið. Þar eru hlaupnir 10 km á sæmilega flatri braut. Það er aldrei að vita nema ég reyni að bæta fimmtugs-, já og reyndar líka fertugsmetið mitt, sem er 42:03 mín. Svo er heldur ekki langt í þrítugs- og tvítugsmetið upp á 41:00 mín. Markmið ársins upp á 40:00 mín bíður hins vegar betri tíma (í orðsins fyllstu merkingu). Og að hvers kyns metum slepptum eru götuhlaup líka tækifæri til að hitta fleira fólk en í fjallvegahlaupunum. Götuhlaupin eru mér svolítið eins og krydd á góðan mat, rosalega góðan mat.

Og ég ætla að halda áfram að hlaupa sem oftast til að halda mér í formi. 🙂

Fimmta bloggsíðan

Ég setti upp þessa bloggsíðu fyrir nokkrum dögum, aðallega vegna þess hversu illa gekk að meðhöndla myndir á Vísisblogginu þar sem ég hef verið síðustu mánuði, þ.e.a.s. frá 4. apríl sl.

Já, ég veit að þetta jaðrar við fjöllyndi. Þetta er sem sagt fimmta bloggsíðan mín á þremur og hálfu ári. (Mig minnir einmitt að þriggja og hálfs árs afmælið sé á morgun). Fyrst var það http://stefangisla.blogcentral.is frá 11. janúar 2007 til 29. febrúar 2008, þá http://stefangisla.blog.is frá 29. febrúar 2008 til 24. september 2009 (kl. 16.30), næst http://stefangisla.bloggar.is frá 24. október 2009 til 20. mars 2010 og loks http://blogg.visir.is/stefangisla frá 4. apríl til 5. júlí 2010, sem er stysti líftíminn hingað til.

Fyrstu kynni mín af WordPress eru jákvæð. Alla vega virðist allt virka eins og það á að gera,  þ.m.t. myndvinnsla. Auk þess er boðið upp á fjölmarga möguleika til að laga útlitið að eigin smekk. Gallinn er hins vegar sá að slóðin er pínulítið torkennileg, af því að WordPress er jú útlenskt orð, sem maður veit jafnvel ekki hvort eigi að skrifa með einu eða tveimur essum. Svo tengist síðan heldur ekki neinum fjölmiðli sem netverjar heimsækja tíðum. Þess vegna rambar fólk kannski síður inn á svona wordpress-síðu en sumar aðrar síður. En það verður þá bara að hafa það.

Býst við að dvelja hér um stund. Síðan er enn á tilraunastigi og skrifuð í kyrrþey. En þegar fram í sækir vonast ég til að ná augum sem flestra, því að sá eru jú tilgangurinn, auk þess að varðveita eitt og annað sem mér dettur í hug að skrifa.