• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • ágúst 2010
  S M F V F F S
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Er snigillinn lifnaður við?

Í morgun var sagt frá því á visir.is að verið væri að ganga frá frumvörpum um breytta skattlagningu á ökutækjum og eldsneyti, sem byggð verði á losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta gleður mig mjög, enda hlýtur þessi breyting að verða umhverfinu og komandi kynslóðum til hagsbóta. Reyndar hefði ég viljað sjá þessa frétt fyrir tveimur árum, en betra er seint en aldrei. Miklu betra.

Ég hef áður bloggað um þessa skattlagningu, allpirraður yfir því að vönduðum tillögum starfshóps um heildarstefnumótun skattlagningar á eldsneyti og ökutæki, sem kynntar voru 2. júní 2008, skyldi hafa verið stungið undir stól. Þá kom fram að taka ætti sumarið í að fara yfir tillögurnar og leggja síðan fram frumvörp með haustinu. Mér fannst þetta allt ganga með hraða snigilsins, enda bólaði ekkert á frumvörpunum um haustið. Í lok maí 2009 voru svo kynntar breytingar á skattlagningu, þar sem engin tilraun var gerð til að færa skattheimtuna í þá átt sem starfshópurinn hafði lagt til. Þá sá ég ekki betur en snigillinn væri hreinlega dauður.

En nú virðist snigillinn sem sagt lifnaður við – og vonandi tekur hann á rás á næstu vikum. Í skattkerfinu liggja nefnilega stærri tækifæri en víðast annars staðar til að sveigja neyslu okkar í átt að sjálfbærari lífsháttum. Þessi tækifæri er löngu orðið tímabært að nýta!

Reyndar hnaut ég um tvö smáatriði í fréttaskýringunni á visir.is, sem mér virðast stangast á við grundvallarhugmyndina. Annars vegar kom þar fram að í framtíðinni myndu vörugjöldin geta farið allt niður í 5% fyrir neyslugranna bíla sem ganga fyrir dísilolíu. Og hins vegar kom fram að engin vörugjöld yrðu lögð á rafmagnsbíla eða tvinnbíla. Í þessu sambandi vil ég benda á, að það er í sjálfu sér aukaatriði í þessu sambandi fyrir hvaða olíu bílar ganga. Málið snýst bara um það hversu miklar gróðurhúsalofttegundir þeir losa. Til dæmis losar bensínbíll sem eyðir 4 á hundraðið u.þ.b. 15% minni koltvísýring en díselbíll sem eyðir 4 á hundraðið. Og svo er engin ástæða til að nefna tvinnbíla sérstaklega í þessu samhengi. Tvinnbílar eru bara sparneytnir bensínbílar og eiga auðvitað að skattleggjast sem slíkir. En þetta eru smáatriði, sem hafa sjálfsagt bara slysast inn í þessa frétt. Það er jú hin endanlega niðurstaða sem skiptir máli, en ekki orðalag fréttarinnar.

En fyrst ég er byrjaður að hnýta í orðalag, þá get ég svo sem bætt þriðja atriðinu við. Mér finnst sem sagt rangt að tala um „umhverfisvæna“ bíla eða „umhverfisvæn“ ökutæki. Svoleiðis dót er ekki til. Hins vegar eru sum tæki umhverfisvænni en önnur, og mega mín vegna kallast visthæf til að hægt sé að tala um þau á einu bretti á sæmilega fljótlegan hátt.

En aðalatriðið er þetta: Snigillinn er lifandi, fjármálaráðuneytið er á réttri leið og ég er bjartsýnn á framhaldið.

Fyrri bloggfærslur um málið:
2. júní 2008
12. desember 2008
29. maí 2009

Ungfrú Noregur krýnd í kvöld

Lene Okkerstrøm

Í kvöld kemur í ljós hver verður „Ungfrú Noregur 2010“. Einhverjum kann að koma á óvart að ég geri þetta að umtalsefni á blogginu mínu, en umrædd keppni er óvenjuleg að því leyti, að þar er ekki bara lögð áhersla á ytri fegurð, heldur einnig þekkingu á umhverfismálum.

Tólf  stúlkur komust í úrslitakeppnina í „Ungfrú Noregur 2010“. Mikilvægur hluti af undirbúningi þeirra hefur verið umhverfisfræðsla af ýmsu tagi, enda fær sigurvegarinn að taka þátt í keppninni „Miss Earth 2010“, sem fram fer í Víetnam, en þar verður mikil áhersla lögð á umhverfis- og loftslagsmál. Ungfrú Noregi 2010 er einnig ætlað það hlutverk að kynna nýjungar í umhverfisvænni norskri tækni.

Sigurvegarinn í „Miss Earth“ verður sérstakur talsmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) árið sem hún ber titilinn.

Hægt er að lesa meira um keppnina „Ungfrú Noregur 2010“ í frétt á heimasíðu Grønn Hverdag í fyrradag. Þar fékk ég líka lánaða meðfylgjandi mynd af Lenu Okkerstrøm, sem er ein þeirra 12 stúlkna sem komust í úrslit og keppa um titilinn í kvöld.

Gott feðgamaraþon í gær

Í gær tókum við feðgarnir þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var 7. maraþonið mitt en það fyrsta hjá Þorkeli. Fyrir hlaupið hafi ég svo sem engar væntingar um árangur, því að bæði hafði ég átt við lítils háttar meiðsli að stríða, og eins hafði ég ekki hlaupið nógu miklar vegalengdir vikurnar á undan til að teljast almennilega undirbúinn fyrir þessa 42 kílómetra. Sama mátti reyndar segja um Þorkel, því að hann er jú 400 m hlaupari og æfir sem slíkur, en þarna var hann að takast á við rúmlega 100-falda þá vegalengd. En það er skemmst frá því að segja að árangurinn varð langt umfram væntingar. Ég var ekki nema 100 sekúndum frá mínum besta tíma og Þorkell var 52 sekúndum á eftir mér í mark eftir að hafa fylgt mér fyrstu 34 kílómetrana.

Á svölum ágústmorgni
Það var fremur kalt þennan morgun, hitinn ekki nema eitthvað um 7°C. Og undir Hafnarfjalli voru rauðar tölur á vindskiltum Vegagerðarinnar. Rétt fyrir klukkan 8 vorum við feðgarnir komnir til höfuðborgarinnar, þar sem við tókum hús á Ingimundi Grétarssyni, sem var líka að fara að takast á við sömu áskorun. Þarna hnýttum við síðustu lausu endana fyrir hlaupið, ræddum m.a. um heppilegan klæðnað, enda benti veðurspáin kvöldið áður til að um okkur myndi leika svalur norðanvindur. Okkur þótti þó einsýnt að þegar kæmi fram á morguninn yrði ágætt stuttbuxnaveður, enda líkur á sólskini. Við þrír skokkuðum svo saman úr Háskólahverfinu niður í Lækjargötu, og fyrr en varði var klukkan orðin 8:40 og við lagðir af stað í maraþonið ásamt þéttum hópi af öðrum hlaupurum.

Hratt af stað
Fyrstu metrarnir voru seinfarnir eins og oft vill verða, enda við staðsettir helst til aftarlega í þvögunni. En úr þessu greiddist þegar við vorum komnir á Skothúsveginn. Ég var léttur á mér þennan fyrsta spöl. Hafði enda ekki hlaupið neitt í nokkra daga og var virkilega farinn að hlakka til að spretta úr spori. Fyrstu 5 kílómetrana fylgdumst við þrír að lengst af. Eitthvað ræddum við um að hraðinn á okkur væri kannski helst til mikill, en áætlun mín fyrir hlaupið snerist um að hlaupa jafn hratt og mér þætti þægilegast eða skemmtilegast þá stundina. Ég hafði lauslega hugmynd um að fyrstu kílómetrarnir mættu gjarnan hlaupast á 4:40 mín stykkið, en annars var mér svo sem alveg sama. Var búinn að lýsa því yfir fyrir hlaupið að lokatími undir 3:30 klst. væri stórsigur fyrir mig, miðað við ástand síðustu vikna. Og miðað við líðanina fyrstu kílómetrana fannst mér allt benda til að sá sigur myndi vinnast, nema ef meiðslin myndu ágerast verulega.

Velvild annarra léttir sporin
Á þessum fyrstu kílómetrum kom ég auga á eitthvað af fólki sem ég þekkti, bæði meðal hlauparanna og áhorfenda. Í svona hlaupum skiptir miklu máli að sjá kunnugleg andlit, ekki síst þegar lengra líður á hlaupið. Bros og hvatningarorð frá áhorfendum létta manni lífið svo um munar. Annað sem létti mér lífið var að fyrir hlaupið gafst fólki tækifæri á að heita á hlaupara og afla þannig fjár til góðgerðarsamtaka. Ég bauð þeim sem vildu að styrkja FSMA af þessu tilefni, en FSMA er félag aðstandenda fólks með SMA-sjúkdóminn. Þessi söfnun fékk afar góðar móttökur, bæði talið í krónum og þakklæti. Þakklætið sem ég hafði orðið var við var gott veganesti í hlaupinu og gerði sporin enn léttari en ella.

5 km að baki
Millitíminn eftir 5 km var 23:17 mín, sem var svo sem svipaður hraði og ég hafði búist við – og reyndar 25 sek. betri tími en í fyrra þegar ég náði mínum besta tíma frá upphafi (3:17:07 klst). Mér fannst ástæðulaust að hægja ferðina á meðan mér leið vel. Ingimundi fannst hins vegar heldur hratt farið og drógst aftur úr. Ég sá heldur ekki mikið til Þorkels, en bjóst við að hann væri skammt á eftir mér, enda ræður hann við miklu meiri hraða en þetta fyrstu kílómetrana. Um þetta leyti hljóp ég fram á Sigurð Ingvarsson, margreyndan maraþonhlaupara og skólabróður minn úr líffræðinni í HÍ fyrir margt löngu. Við áttum síðan góða samfylgd þó nokkurn hluta hlaupsins.

Gelát samkvæmt áætlun
Nálægt 8 km markinu var kominn tími á fyrsta matartímann. Maturinn var reyndar bara orkugel, sem ég tek að jafnaði á u.þ.b. 7 km fresti í maraþonhlaupum. Þessari fæðu þarf að skola niður með vatni til að hún nýtist líkamanum, og að þessu sinni hafði ég ákveðið að bera ekkert vatn með mér sjálfur. Þess vegna miðuðust matartímarnir við staðsetningu drykkjarstöðva. Ég var sem sagt búinn að gera sérstaka geláætlun fyrir hlaupið út frá korti af hlaupaleiðinni. Reyndar finnst mér ákaflega mikilvægt að ákveða allt slíkt fyrirfram, vegna þess að þegar líður á hlaupið minnkar geta manns til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Sú er alla vega reynsla mín.

Af járnkörlum
Á 10. kílómetranum, í Tryggvagötunni, náðum við Trausta Valdimarssyni, lækni og stórhlaupara. Það var hvetjandi að hitta Trausta, enda fær maður sjaldan tækifæri til að hlaupa fram úr honum! Í þetta sinn var hann að fylgja Guðjóni syni sínum í gegnum maraþonið, og þess verður líka að geta að sex dögum fyrr hafði hann afgreitt Járnkarlinn í Kaupmannahöfn. Járnkarlinn (e: Ironman) er þríþrautarkeppni þar sem menn synda fyrst 3,8 km í sjónum, hjóla síðan 180 km og enda á því að skokka eitt maraþon, allt á svo sem hálfum sólarhring. Það er hreint ekki á færi venjulegra manna á sextugsaldri, né á nokkrum öðrum aldri, að klára þann pakka á einum degi og vera svo aftur mættir í maraþon sex dögum síðar!

Hvenær fer maður of hratt?
Mér er ekki grunlaust um að við Sigurður höfum heldur hvatt hvorn annan en latt á þessum kafla, því að smátt og smátt jókst hraðinn í hlaupinu. Eitthvað höfðum við á orði að þetta væri kannski ekki skynsamleg þróun, en gerðum náttúrulega ekkert í því að leiðrétta hana. Millitíminn eftir 10 km var 46:11 mín, sem þýddi að 5 kílómetra kafli númer tvö hafði tekið 22:54 mín. Þarna var ég kominn með 50 sek. forskot á tímann minn frá því í fyrra, en það skipti mig svo sem engu máli til eða frá. Mér leið bara vel og fannst gaman, og það var nóg.

15 km að baki
Næstu tvo kílómetra eða svo var ég að miklu leyti einn á ferð, því að eitthvað hægðist á Sigurði, en ég bætti heldur í ef eitthvað var. Þessi einsemd stóð reyndar stutt, því að fyrr en varði var Sigurður mættur aftur. Inn við Sundahöfn var drykkjarstöð þar sem hentaði vel að sporðrenna geli nr. 2, og um svipað leyti voru 15 km að baki. Þar var millitíminn 1:08:44 klst, sem var hátt í 2 mín betra en árið áður. Þriðji 5 km kaflinn hafði sem sagt verið hlaupinn á 22:33 mín. Hraðinn hafði með öðrum orðið aukist jafnt og þétt. Við tók brattasta brekkan í hlaupinu, upp Vatnagarða. Þar hægðist vel á mér, en Sigurður náði forskoti og Þorkell var aftur kominn í hópinn.

Þrír vaskir hlauparar
Á Kirkjusandi er jafnan drykkjarstöð í Reykjavíkurmaraþonum. Og þar er gjarnan einhver tónlist í gangi líka, sem mér finnst afar jákvætt og hvetjandi. Þarna voru um 18 km að baki og allt í góðu gengi. Framundan var Kringlumýrarbrautin og þar sigu Þorkell og Sigurður fram úr mér, enda leiðin heldur á fótinn ef eitthvað er. Ég náði þeim svo aftur þegar fór að halla niður í Laugardalinn. Brekkur eru nefnilega kjörlendi mitt á hlaupum, en bara ef þær hallast rétt. Millitíminn eftir 20 km var 1:31:45 klst. Tíu kílómetra spölur nr. 2 hafði sem sagt verið hlaupinn á 45:34 mín og fjórði 5 km kaflinn á 23:01 mín.

Hálft maraþon á góðum tíma
Í Laugardalnum var hlaupið hálfnað. Þetta hálfa maraþon tók ekki nema 1:36:38 klst., sem var 2:20 mín. betri tími en í hlaupinu árið áður og reyndar ekki nema 4 mín frá besta hálfmaraþontímanum mínum til þessa. Þarna var líka drykkjarstöð og tími fyrir þriðja gelbréfið.

Frumburðurinn tekur forystu
Eftir þetta sá ég lítið til Sigurðar, en við feðgarnir fylgdumst að næstu kílómetrana. Við Víkingsheimilið í Fossvogi voru 25 km að baki og hraðinn enn svipaður. Millitíminn var 1:54:32 klst. og síðustu 5 km á 22:47 mín. Þarna gleypti ég fjórða gelið, þó að skammt væri liðið frá því síðasta. Nú tók Fossvogurinn við og Þorkell fór að síga framúr. Mér leið vel og fannst alltaf jafn gaman. Í Fossvoginum eru þó nokkrar litlar brekkur, og þar var ég aðeins farinn að finna fyrir þreytu í fótunum.

Tvær og hálf mínúta í plús
Áfram var haldið vestur yfir Kringlumýrarbraut, meðfram Fossvogskirkjugarði, um Nauthólsvík og svo framvegis. Einhvers staðar fyrir neðan flugvöllinn voru 30 km að baki, og enn hafði forskotið á sjálfan mig frá árinu áður aukist. Millitíminn var 2:17:35 klst., eða næstum 2 ½ mín betri en þá, síðustu 10 km á 45:50 mín og síðustu fimm á 23:03 mín. Þarna var ég farinn að eygja möguleika á að bæta tímann minn frá því í fyrra, en fyrir hlaupið hafði ég alls ekki gert mér neinar slíkar grillur. Var þó meðvitaður um að eitthvað kynni að bera út af undir lokin, sérstaklega vegna þess að vinstra lærið á mér hafði verið eitthvað í ólagi frá því fyrr á árinu. Og ef ég fæ krampa á hlaupum, þá byrjar hann þar. Krampi var eitthvað sem ég gat búist við, því að maraþonvegalengdin var í raun aðeins of löng fyrir mig miðað við æfingar sumarsins. En það var allt í lagi ennþá – og alltaf jafn gaman hjá mér.

Erfiðasti kaflinn framundan
Næsta drykkjarstöð var nálægt 31 km markinu, og þar tók ég sjötta gelið skv. áætlun. Enn vorum við feðgarnir að mestu leyti samferða, en eftir að 34 km voru að baki tók Þorkell heldur að dragast aftur úr. Reyndar var þá farið að hægjast á mér líka, en annars var ég svo sem ágætlega haldinn. En við tók langerfiðasti kafli hlaupsins, frá Eiðistorgi og um Seltjarnarnes.

Norðanátt við Gróttu
Millitíminn eftir 35 km var 2:41:39 klst. Síðustu 5 km voru sem sagt þeir hægustu í hlaupinu til þessa, á 24:04 mín. Forskotið miðað við síðasta ár var þarna komið niður í 1 ½ mínútu. Á Seltjarnarnesi var allhvass norðan vindur, líklega eitthvað yfir 10 m/s. Á 37. kílómetranum lá leiðin norður yfir nesið úti undir Gróttu. Þar var erfitt að hlaupa. Í beygjunum sá ég Þorkel stutt á eftir mér og var hæstánægður með hvað honum tókst að halda út.

Nokkur skref afturábak
Eftir 37 km var tíminn farinn að nálgast 2:52 klst. Ég vissi að við eðlilegar aðstæður ætti ég þá auðveldlega að geta lokið hlaupinu á 3:18 klst, þannig að enn var jafnvel möguleiki á að bæta tímann frá því í fyrra ef allt gengi upp. En sú varð ekki raunin. Rétt í þann mund sem ég fór fram hjá 39 km markinu fékk ég krampa í vinstra lærið, rétt eins og ég hafði hálfpartinn búist við. Ég upplifði þetta samt ekki sem neitt áfall, heldur bara sem hluta af upplifuninni. Vissi reyndar að þar með gæti ég hætt að hugsa um bætingu, en var fullkomlega sáttur við það. Eftir að hafa haldið kyrru fyrir smástund, teygt á lærinu og gengið nokkur skref afturábak, gat ég farið að skokka aftur. Tíminn sem fór í þessar æfingar var rétt um 1 mínúta, en ég fann að ég yrði að fara hægar það sem eftir væri hlaupsins til að minnka líkurnar á að krampinn gerði aftur vart við sig.

Ágætis markgretta
Tíminn eftir 40 km var 3:07:53 klst., eða rétt um 50 sek lakari en árið áður. Síðustu 5 km voru þeir langhægustu í hlaupinu. Tíminn á þeim var 26:14 mín og á síðustu 10 km 50:18 mín. Enn var þó gleðin við völd, enda ástandið þrátt fyrir allt miklu betra en ég hafði þorað að vona fyrir hlaupið. Skokkaði síðustu tvo kílómetrana í rólegheitum, en leyfði mér þó að bæta svolítið í þegar u.þ.b. 500 metrar voru eftir í markið. Það er jú alltaf skemmtilegra að líta vel út á mynd undir lokin. Flest benti til að það myndi takast. Ég var kominn að umferðarljósunum neðan við Bankastrætið, alsæll og iðandi mannhafið allt um kring. En þegar svo sem 20 m voru eftir kom krampinn aftur, að þessu sinni í báða fætur. Brosið sem ég hafði ætlað að nota í markinu varð því eitthvað líkara grettu, en ég komst yfir mottuna og hafði nógan tíma til að jafna mig eftir það. Tíminn var 3:18:47 klst., og ég var bara alveg himinlifandi með það. Hins vegar missti ég af því að sjá Þorkel koma í markið. Hann var á 3:19:39 klst., eða bara 52 sek á eftir mér eins og fyrr segir. Þá var ég enn að reyna að ná stjórn á þessum krumpuðu fótavöðvum mínum.

Stoltur faðir að leikslokum
Við feðgarnir náðum því sem sagt báðir að ljúka hlaupinu undir 3:20 klst. Ég var afar ánægður með sjálfan mig og enn ánægðari með Þorkel, sem aldrei áður hafði hlaupið neina vegalengd í líkingu við þessa. En þetta var svo sem ekki fyrsta Reykjavíkurmaraþonið þar sem við mættum báðir. Fyrsta skiptið var 1994 þegar hann var 9 ára og hljóp 3 km á 15:42 mín. Hlaup eru ágætis feðgaíþrótt – og aldrei of seint að byrja – né of snemmt.

Sagan um snyrtivörurnar

Í bloggfærslu á dögunum minntist ég á fræðslumyndina „The Story of Stuff“, þar sem fróðleikur um umhverfismál er settur fram á einkar líflegan og fræðandi hátt með einföldum teiknimyndum og með aðstoð sögumanns. Þann 21. júlí sl. var gefin út ný mynd af sama toga, „The Story of Cosmetics“. Hér á eftir ætla ég að gera hana að umtalsefni.

Í „The Story of Cosmetics“ eða „Sögunni um snyrtivörunar“ eru skaðleg efni í snyrtivörum tekin til sérstakrar umfjöllunar. Þar er m.a. bent á að í raun hafi aðeins um 20% af öllum þeim efnum sem notuð eru í þessar vörur verið prófuð með tilliti til áhrifa þeirra á líkamann. Myndu ekki flest okkar hika að fljúga með flugfélagi, þar sem aðeins 20% flugvélanna fara reglulega í skoðun?

Hvers vegna leynast hættuleg efni í snyrtivörum? Er það vegna þess að framleiðendurnir séu að reyna að eitra fyrir okkur? Nei, auðvitað ekki. Hins vegar er framleiðslan enn byggð á hálfrar aldar gömlum viðskiptahugmyndum, frá þeim tíma þegar menn höfðu ekki grun um skaðsemi margra þessara efna.

Framleiðendur viðurkenna að sjálfsögðu að í vörunum þeirra sé að finna tiltekin efni, sem vitað er að geti verið skaðleg. En tilvist efnanna er oftast varin með því að þetta sé svo lítið magn að það skipti engu máli. En þarna vantar miklu meiri rannsóknir. Hvaða áhrif getur það t.d. haft þegar maður notar reglulega pínulítið af þessu og pínulítið af hinu? Hefur einhver spáð í samanlögðu áhrifin?

Í myndinni er m.a. minnst á Varúðarregluna (e. Precautionary Principle). Hún var almennt viðtekin af ríkjum heims á Ríóráðstefnunni 1992, en samt er henni ekki beitt við framleiðslu á snyrtivörum enn þann dag í dag. Samkvæmt Varúðarreglunni ætti ekki að setja snyrtivörur á markað, nema búið sé að sýna fram á skaðleysi innihaldsefnanna. Það er sem sagt ekki neytandans að sýna fram á skaðsemina, heldur framleiðandans að sýna fram á skaðleysið! Það er ekki nóg að segja að skaðsemin sé ekki sönnuð! Fjarvist sönnunar er nefnilega ekki fjarvistarsönnun!

Sumt af því sem fram kemur í myndinni er sérstaklega miðað við bandarískar aðstæður. Þetta á helst við umfjöllun um eftirlitskerfið, en það er þó svo sem ekkert svo óskaplega frábrugðið því evrópska. Hér geta menn alla vega markaðssett alls kyns vöru sem „náttúrulega“ eða „jurta-eitthvað…“ án þess að þurfa neitt að sanna hvað sé á bak við þá fullyrðingu. Hins vegar er bannað að markaðssetja vöru sem „lífræna“ nema hún sé vottuð sem slík. Á Íslandi laumast samt nokkrir seljendur til þess, og komast upp með það af því að eftirlitið er fáliðað. Ég get nefnt fáein dæmi, en vil frekar benda viðeigandi aðilum á að úrbóta sé þörf, en að „svartmála“ einstaka seljendur á meðan aðrir sleppa.

Og hvað er þá til ráða í þessum snyrtivöruraunum? Það er t.d. hreint ekkert einfalt að botna í innihaldslýsingum sem ýmist eru með svo smáu letri að maður sér það ekki, eða fullt af orðum sem maður getur naumast stautað sig í gegnum, hvað þá skilið. Jú, fyrsta góða ráðið er náttúrulega að nota ekki vörur sem maður þarf ekki á að halda. Næsta mjög góða ráð er að kaupa umhverfismerktar vörur (t.d. Svansmerktar) og vörur með lífræna vottun (t.d. frá Vottunarstofunni Túni). Þá er maður nokkurn veginn öruggur með að ekki sé verið að selja manni neitt eitur.

Ég hvet alla til að horfa á „The Story of Cosmetics“. Enskan í myndinni er auðskilin fyrir flesta sem eru sæmilega sjóaðir í því tungumáli – og svo segja myndirnar líka sitt. Sýningartíminn er eitthvað um 10 mínútur. Nú er bara að smella á http://storyofstuff.org/cosmetics/ og byrja að horfa og hlusta!

Myndin hér að neðan er tekin að láni úr „The Story of Cosmetics“. Hún gefur hugmynd um hvers konar verk er þarna á ferðinni.

Skjámynd úr „The Story of Cosmetics“. Smellið á myndina til að horfa.

Maraþon á laugardaginn

Í morgun lét ég verða af því að skrá mig í maraþonið nk. laugardag. Hef verið mjög á báðum áttum vegna smávægilegra meiðsla sem hafa verið að angra mig síðustu vikur, og eru enn til staðar, en svo stóðst ég ekki mátið. Þetta er einfaldlega of skemmtilegt til að sleppa því.

Ha, er þetta gott!?
Sumum kann að finnast það hljóma undarlega að maraþonhlaup geti verið skemmtilegt fyrir þá sem taka þátt í því. En sú er einmitt raunin. Auðvitað upplifir maður nokkur erfið augnablik í svona hlaupi, en erfiðu augnablikin í lífinu eru jú einmitt forsenda þess að maður geti virkilega notið allra hinna augnablikanna. Eða eins og mamma heitin sagði þegar ég spurði hana hvers vegna veðrið væru stundum svona vont: „Það er til þess að við kunnum að meta góða veðrið“.

Árshátíð og feðgasport
Eitt af því skemmtilega við Reykjavíkurmaraþonið er, að þetta er í raun hálfgerð árshátíð hlaupara. Þarna hittir maður fullt af fólki sem maður hittir annars sjaldan, og stemmingin öll er til þess fallin að létta lundina og auka þar með lífsgæðin. Í mínu tilviki eykur það enn á gleðina að Þorkell frumburður ætlar einmitt að hlaupa sitt fyrsta maraþonhlaup á laugardaginn, þó að vegalengdin sé rúmlega 100 sinnum lengri en sú sem hann hefur einbeitt sér að síðasta árið. Ég mæli hiklaust með maraþonhlaupum sem skemmtilegu viðfangsefni fyrir feðga!

SMART markmið
Maraþonhlaup og undirbúningur þess er æfing í að setja sér markmið og ná því. Það er skemmtilegt! Þetta kallar auðvitað á að maður setji sér markmið við hæfi, þ.e.a.s. SMART markmið (sértækt, mælanlegt, aðgengilegt, raunhæft (en samt krefjandi) og tímasett). Á löngum ferli mínum sem hlaupara hef ég náð þokkalegri færni í þessari iðju, þ.e. að stilla væntingum svo í hóf að ég geti glaðst að leikslokum. Væntingarnar verða samt að vera til staðar, því að annars hefur maður ekkert til að sigrast á.

Markmið laugardagsins
Væntingar mínar fyrir hlaupið nk. laugardag eru hófsamar, enda hef ég engan veginn getað undirbúið þetta sem skyldi vegna fyrrnefndra meiðsla. Hófsamast væri sjálfsagt að sleppa þessu, en því tími ég sem sagt ekki. Aðalmarkmiðið er náttúrulega að ljúka hlaupinu, en vera engu að síður tilbúinn til að hverfa frá ef líkaminn biðst vægðar. Helst vil ég ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 3:36 klst., en allt undir 3:30 mun ég flokka sem stórsigur.

Fyrri afrek (til samanburðar)
Svona til að setja þessar tölur í samhengi, þá verður þetta 7. maraþonhlaupið mitt. Það fyrsta þreytti ég fyrir nákvæmlega 14 árum, þ.e.a.s. 18. ágúst 1996. Þá hljóp ég á 3:36 klst, og það var langerfiðasta hlaupið hingað til. Jafnframt var það líklega stærsti sigurinn, því að mig hafði dreymt um það frá unga aldri að hlaupa maraþonhlaup einu sinni „einhvern tímann áður dey“. Þarna náðist sem sagt það markmið. Eftir þetta lét ég lengi kyrrt liggja, enda búinn að afgreiða málið eins og að var stefnt. Árið 2007 fór ég þó aftur af stað, enda orðinn fimmtugur og búinn að ákveða að hlaupa Laugaveginn þá um sumarið. Og það er snúið að hlaupa Laugaveginn ef maður ræður ekki við maraþonvegalengdina. Þess vegna tók ég Mývatnsmaraþonið þá um vorið í norðan kulda, sem æfingu fyrir Laugaveginn. Þetta tók 3:55 klst, sem dugði alveg fyrir markmið þess dags. Í ágúst hljóp ég svo aftur, í það skiptið á 3:43. Þá var markmiðið að ljúka hlaupinu á 3:45 klst, en í bloggfærslu að hlaupi loknu viðurkenndi ég að ég setti mér „yfirleitt markmið sem ég er nokkurn veginn viss um að geta náð, því að ég er nefnilega frekar tapsár og get aldrei alveg skilið keppnismanninn eftir heima“. Í mars 2008 brá ég mér svo til Rómar með fríðu föruneyti og hljóp maraþon á ógleymanlegri braut á 3:33 klst. Sá árangur kom mér satt að segja býsna mikið á óvart. Í fyrra gerðust síðan enn óvæntari atburðir, þegar ég hljóp fyrst á 3:26 á Akureyri í júlí og síðan á 3:17 í Reykjavík í ágúst.

Styrkið FSMA!
Eins og margir vita gefst þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoninu kostur á að skrá sig á www.hlaupastyrkur.is og safna áheitum til styrktar góðum málefnum. Ég geri mér svo sem ekki miklar vonir um framlag mitt á því sviði, þar sem ég skráði mig jú ekki fyrr en í morgun. Samt bið ég lesendur þessarar bloggfærslu að kíkja endilega inn á umrædda síðu, finna nafnið mitt og láta svolitla upphæð af hendi rakna. Það sem safnast af mínum völdum rennur til FSMA, sem er Félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum á Íslandi. Þeir sem kannast ekki við félagið eða sjúkdóminn geta fræðst um málið á hlaupastyrkssíðunni – og séð hvers vegna ég valdi einmitt þessi samtök. Svo er hægt að fræðast enn meira á heimasíðu FSMA og jafnvel í bloggfærslu sem ég skrifaði í mars 2008 í tengslum við Rómarmaraþonið.

Rafbátar í fljótasiglingum

Fyrir ári síðan áskotnaðist Henry nokkrum Thomsen, skólastjóra á austanverðu Jótlandi, lítill bátur. Hann fékk strax þá hugmynd að setja rafmótor í bátinn til að geta notið náttúrunnar án þess að trufla. Hugmyndin vatt upp á sig og nú sigla tveir rafknúnir bátar með ferðafólk um Guðaána. Ferðamálafélag svæðisins (Søhøjlandets Turistforening) stendur fyrir verkefninu, en eins og Henry segir sjálfur „er það  jú alveg út í hött að við notum jarðefnaeldsneyti til siglinga þar sem það er óþarfi“.

Sjálfsagt henta rafbátar misvel við mismunandi aðstæður, en verkefni Henrys og félaga minnir á að nú er einmitt tækifæri fyrir einstaka ferðaþjónustuaðila eða svæði til að skapa sér sérstöðu í anda sjálfbærrar þróunar. Á því leikur naumast nokkur vafi, að sjónir ferðamanna beinast í þá átt.

(Sagt var frá rafbátunum á Guðaánni í þættinum Stedsans í danska ríkisútvarpinu í gærmorgun. Og takk Auður Þórsdóttir fyrir að benda mér á þetta).

Minni úrgang takk

Mér hefur lengi (í tæp 20 ár) fundist umhverfisumræðan á Íslandi snúast allt of mikið um það hvað eigi að gera við úrgang sem þegar hefur myndast. Auðvitað er mikilvægt að standa sig vel í flokkuninni og því öllu saman, en það er samt ákaflega lítill hluti af heildarmyndinni. Þegar allt kemur til alls er miklu mikilvægara að koma í veg fyrir að úrgangur myndist.

Áður en lengra er haldið er ástæða til að minna á, að fyrir hverja ruslatunnu sem fyllist fyrir utan húsið okkar hefur fjöldinn allur af ruslatunnum fyllst einhvers staðar annars staðar. Það er jafnvel hægt að finna dæmi þess að varningurinn sem endar ævi sína með því að fylla ruslatunnuna okkar, hafi fyrr á ævinni fyllt svo sem 70 tunnur þar sem hann var framleiddur eða þar sem hráefnin í hann voru unnin. Í slíku tilviki má halda því fram með góðum rökum að það sé 70 sinnum mikilvægara að koma í veg fyrir að þessi varningur verði að úrgangi, en að meðhöndla þessa sjötugustuogfyrstu tunnu rétt.

Á síðasta vetri hleypti Umhverfisstofnun Danmerkur af stokkunum stóru átaki til að draga úr myndun úrgangs, undir yfirskriftinni „Brug mere – spild mindre“, eða „Notaðu meira – sóaðu minna“. Á heimasíðu átaksins er m.a. að finna þessi sex einföld ráð sem fólk  getur stuðst við þegar það vill draga úr myndun úrgangs:

 1. Kaupið gæði
 2. Látið hlutina ganga
 3. Notið aftur og aftur
 4. Kaupið eitthvað sem verður aldrei að úrgangi
 5. Sóið eins litlu og hægt er
 6. Forðist hættuleg efni

Hér gildir það líka eins og í flestu öðru, að umhverfisvænu ráðin eru líka sparnaðarráð.

Hægt er að fræðast meira um þetta allt saman á heimasíðu danska átaksins, www.brugmerespildmindre.dk. Svo má líka nefna, að á síðasta ári skrifaði ég svolitla grein í Fréttablað FENÚR um það sem sveitarfélög geta gert til að draga úr myndun úrgangs. Loks finnst mér sérstök ástæða til að hvetja lesendur þessa pistils til að horfa á stuttmyndina The Story of Stuff, sem auðvelt er að nálgast á síðunni www.storyofstuff.com. Þaðan er einmitt fengin ábendingin hér að framan um ruslatunnurnar sjötíu, svo og myndirnar hér að neðan.

Ein tunna (www.storyofstuff.com)

 

70 tunnur (www.storyofstuff.com)

Er það hættulegt?

Ég held að íslenskir neytendur séu fremur berskjaldaðir gagnvart hættulegum efnum í neytendavörum. Umræðan um þessi efni hérlendis virðist skemmra á veg komin og vitund fólks um þau almennt minni en í nágrannalöndunum, bæði meðal seljenda og kaupenda varningsins.

Á ferðalagi mínu um netheima í dag rakst ég á vefsíðu sem Umhverfisstofnun Noregs (Klima- og forurensningsdirektoratet (KLIF)) kom upp fyrr á þessu ári í samvinnu við Matvælastofnun Noregs og Norsku umhverfismerkjaskrifstofuna. Með síðunni er komið til móts við þörf norskra neytenda fyrir upplýsingar um efni í neytendavörum.

Norska síðan sem um ræðir heitir einfaldlega „Erþaðhættulegt?“ og finnst á slóðinni www.erdetfarlig.no. Þar er bent á leiðir til að velja umhverfisvænstu vöruna í hverjum vöruflokki um sig, gefin ráð um hvernig forðast megi hættulegustu efnin og upplýst um leiðir til að losa sig við vöruna að notkun lokinni.

Íslenskir neytendur ættu sem best að geta nýtt sér þessa norsku síðu í upplýsingaleit sinni, a.m.k. þar til sambærilegar upplýsingar verða orðnar aðgengilegar á íslensku.

Grænni Formúla-1

Formúla-1 fer ekki varhluta af umhverfisumræðunni. Þar á bæ eru uppi áform um aðgerðir til að draga verulega úr koltvísýringslosun formúlunnar.

Kappakstursbílar eru ekki sérlega sparneytnir. Venjulegur formúlubíll með 2,4 lítra vél notar t.d. um 160 kg af eldsneyti í hverri keppni. Öfugt við það sem margir kannski halda, hefur eldsneytisnotkun bílanna hins vegar minnst að segja um heildarlosunina. Þaðan kemur nefnilega aðeins um 1% af þeim koltvísýringi sem Formúla-1 losar út í andrúmsloftið á hverju ári. Um helmingur af allri losun formúlunnar stafar frá tækjum og varningi sem keyptur er og notaður í tengslum við keppnirnar – og hinn helmingurinn stafar frá flutningum á bílum, búnaði og starfsliði milli keppnisstaða.

Samtök keppnisliða í Formúlu-1 (Formula One Teams Association (FOTA)) og Alþjóða akstursíþróttasambandið (Federation Internationale de l’Automobile (FIA)) hafa tekið sig saman um að draga úr koltvísýringslosun vegna formúlunnar. Samtökin hafa m.a. sett sér það markmið að bæta eldsneytisnýtingu formúlubíla verulega á næstu þremur árum. Þetta verður m.a. gert með því að minnka slagrými vélanna úr 2,4 lítrum í 1,5 lítra. Frá og með árinu 2013 er þess því að vænta að bílarnir í Formúlu-1 verði búnir línulegum 4-strokka vélum eða V6-vélum sem eyða allt að helmingi minna eldsneyti en tíðkast í dag, þ.e. um 80 kg í hverri keppni, en verði engu að síður álíka kraftmiklir.

Eins og ráða má af því sem hér hefur verið sagt, munu þessar miklu framfarir í eldsneytisnýtingu formúlubílanna ekki leiða til neinna stórra úrbóta hvað heildarlosun formúlunnar varðar. FOTA og FIA eru því að skoða aðra möguleika í því sambandi. Þar binda menn hvað mestar vonir við endurbætur á mótaskrá formúlunnar, en þannig má draga verulega úr flutningum á fólki og tækjum heimshorna á milli. Einnig mætti ná fram miklum samdrætti í losun með því að nota tölvulíkön í stað vindganga við hönnun bílanna.

Því hefur löngum verið haldið fram að tæknilegar framfarir í Formúlu-1 skili sér í framleiðslu á venjulegum bílum. Að vissu leyti má segja að þessi þróun hafi nú snúist við, því að fyrirhugaðar endurbætur á formúlubílunum taka í raun mið af því sem hefur verið að gerast á hinum hefðbundna bílamarkaði. Hvað sem því líður hlýtur þróun formúlubílanna næstu ár að leiða til einhverra umhverfislegra umbóta í bílaiðnaði almennt. Sömuleiðis hlýtur umhverfisvakning á þessu sviði að smita út frá sér á fleiri sviðum.

(Byggt á pistli Jörgen Städje í MiljöAktuellt í dag)