Formúla-1 fer ekki varhluta af umhverfisumræðunni. Þar á bæ eru uppi áform um aðgerðir til að draga verulega úr koltvísýringslosun formúlunnar.
Kappakstursbílar eru ekki sérlega sparneytnir. Venjulegur formúlubíll með 2,4 lítra vél notar t.d. um 160 kg af eldsneyti í hverri keppni. Öfugt við það sem margir kannski halda, hefur eldsneytisnotkun bílanna hins vegar minnst að segja um heildarlosunina. Þaðan kemur nefnilega aðeins um 1% af þeim koltvísýringi sem Formúla-1 losar út í andrúmsloftið á hverju ári. Um helmingur af allri losun formúlunnar stafar frá tækjum og varningi sem keyptur er og notaður í tengslum við keppnirnar – og hinn helmingurinn stafar frá flutningum á bílum, búnaði og starfsliði milli keppnisstaða.
Samtök keppnisliða í Formúlu-1 (Formula One Teams Association (FOTA)) og Alþjóða akstursíþróttasambandið (Federation Internationale de l’Automobile (FIA)) hafa tekið sig saman um að draga úr koltvísýringslosun vegna formúlunnar. Samtökin hafa m.a. sett sér það markmið að bæta eldsneytisnýtingu formúlubíla verulega á næstu þremur árum. Þetta verður m.a. gert með því að minnka slagrými vélanna úr 2,4 lítrum í 1,5 lítra. Frá og með árinu 2013 er þess því að vænta að bílarnir í Formúlu-1 verði búnir línulegum 4-strokka vélum eða V6-vélum sem eyða allt að helmingi minna eldsneyti en tíðkast í dag, þ.e. um 80 kg í hverri keppni, en verði engu að síður álíka kraftmiklir.
Eins og ráða má af því sem hér hefur verið sagt, munu þessar miklu framfarir í eldsneytisnýtingu formúlubílanna ekki leiða til neinna stórra úrbóta hvað heildarlosun formúlunnar varðar. FOTA og FIA eru því að skoða aðra möguleika í því sambandi. Þar binda menn hvað mestar vonir við endurbætur á mótaskrá formúlunnar, en þannig má draga verulega úr flutningum á fólki og tækjum heimshorna á milli. Einnig mætti ná fram miklum samdrætti í losun með því að nota tölvulíkön í stað vindganga við hönnun bílanna.
Því hefur löngum verið haldið fram að tæknilegar framfarir í Formúlu-1 skili sér í framleiðslu á venjulegum bílum. Að vissu leyti má segja að þessi þróun hafi nú snúist við, því að fyrirhugaðar endurbætur á formúlubílunum taka í raun mið af því sem hefur verið að gerast á hinum hefðbundna bílamarkaði. Hvað sem því líður hlýtur þróun formúlubílanna næstu ár að leiða til einhverra umhverfislegra umbóta í bílaiðnaði almennt. Sömuleiðis hlýtur umhverfisvakning á þessu sviði að smita út frá sér á fleiri sviðum.
(Byggt á pistli Jörgen Städje í MiljöAktuellt í dag)
Filed under: Umhverfismál | Leave a comment »