• Heimsóknir

    • 119.009 hits
  • ágúst 2010
    S M F V F F S
    1234567
    891011121314
    15161718192021
    22232425262728
    293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Gott feðgamaraþon í gær

Í gær tókum við feðgarnir þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var 7. maraþonið mitt en það fyrsta hjá Þorkeli. Fyrir hlaupið hafi ég svo sem engar væntingar um árangur, því að bæði hafði ég átt við lítils háttar meiðsli að stríða, og eins hafði ég ekki hlaupið nógu miklar vegalengdir vikurnar á undan til að teljast almennilega undirbúinn fyrir þessa 42 kílómetra. Sama mátti reyndar segja um Þorkel, því að hann er jú 400 m hlaupari og æfir sem slíkur, en þarna var hann að takast á við rúmlega 100-falda þá vegalengd. En það er skemmst frá því að segja að árangurinn varð langt umfram væntingar. Ég var ekki nema 100 sekúndum frá mínum besta tíma og Þorkell var 52 sekúndum á eftir mér í mark eftir að hafa fylgt mér fyrstu 34 kílómetrana.

Á svölum ágústmorgni
Það var fremur kalt þennan morgun, hitinn ekki nema eitthvað um 7°C. Og undir Hafnarfjalli voru rauðar tölur á vindskiltum Vegagerðarinnar. Rétt fyrir klukkan 8 vorum við feðgarnir komnir til höfuðborgarinnar, þar sem við tókum hús á Ingimundi Grétarssyni, sem var líka að fara að takast á við sömu áskorun. Þarna hnýttum við síðustu lausu endana fyrir hlaupið, ræddum m.a. um heppilegan klæðnað, enda benti veðurspáin kvöldið áður til að um okkur myndi leika svalur norðanvindur. Okkur þótti þó einsýnt að þegar kæmi fram á morguninn yrði ágætt stuttbuxnaveður, enda líkur á sólskini. Við þrír skokkuðum svo saman úr Háskólahverfinu niður í Lækjargötu, og fyrr en varði var klukkan orðin 8:40 og við lagðir af stað í maraþonið ásamt þéttum hópi af öðrum hlaupurum.

Hratt af stað
Fyrstu metrarnir voru seinfarnir eins og oft vill verða, enda við staðsettir helst til aftarlega í þvögunni. En úr þessu greiddist þegar við vorum komnir á Skothúsveginn. Ég var léttur á mér þennan fyrsta spöl. Hafði enda ekki hlaupið neitt í nokkra daga og var virkilega farinn að hlakka til að spretta úr spori. Fyrstu 5 kílómetrana fylgdumst við þrír að lengst af. Eitthvað ræddum við um að hraðinn á okkur væri kannski helst til mikill, en áætlun mín fyrir hlaupið snerist um að hlaupa jafn hratt og mér þætti þægilegast eða skemmtilegast þá stundina. Ég hafði lauslega hugmynd um að fyrstu kílómetrarnir mættu gjarnan hlaupast á 4:40 mín stykkið, en annars var mér svo sem alveg sama. Var búinn að lýsa því yfir fyrir hlaupið að lokatími undir 3:30 klst. væri stórsigur fyrir mig, miðað við ástand síðustu vikna. Og miðað við líðanina fyrstu kílómetrana fannst mér allt benda til að sá sigur myndi vinnast, nema ef meiðslin myndu ágerast verulega.

Velvild annarra léttir sporin
Á þessum fyrstu kílómetrum kom ég auga á eitthvað af fólki sem ég þekkti, bæði meðal hlauparanna og áhorfenda. Í svona hlaupum skiptir miklu máli að sjá kunnugleg andlit, ekki síst þegar lengra líður á hlaupið. Bros og hvatningarorð frá áhorfendum létta manni lífið svo um munar. Annað sem létti mér lífið var að fyrir hlaupið gafst fólki tækifæri á að heita á hlaupara og afla þannig fjár til góðgerðarsamtaka. Ég bauð þeim sem vildu að styrkja FSMA af þessu tilefni, en FSMA er félag aðstandenda fólks með SMA-sjúkdóminn. Þessi söfnun fékk afar góðar móttökur, bæði talið í krónum og þakklæti. Þakklætið sem ég hafði orðið var við var gott veganesti í hlaupinu og gerði sporin enn léttari en ella.

5 km að baki
Millitíminn eftir 5 km var 23:17 mín, sem var svo sem svipaður hraði og ég hafði búist við – og reyndar 25 sek. betri tími en í fyrra þegar ég náði mínum besta tíma frá upphafi (3:17:07 klst). Mér fannst ástæðulaust að hægja ferðina á meðan mér leið vel. Ingimundi fannst hins vegar heldur hratt farið og drógst aftur úr. Ég sá heldur ekki mikið til Þorkels, en bjóst við að hann væri skammt á eftir mér, enda ræður hann við miklu meiri hraða en þetta fyrstu kílómetrana. Um þetta leyti hljóp ég fram á Sigurð Ingvarsson, margreyndan maraþonhlaupara og skólabróður minn úr líffræðinni í HÍ fyrir margt löngu. Við áttum síðan góða samfylgd þó nokkurn hluta hlaupsins.

Gelát samkvæmt áætlun
Nálægt 8 km markinu var kominn tími á fyrsta matartímann. Maturinn var reyndar bara orkugel, sem ég tek að jafnaði á u.þ.b. 7 km fresti í maraþonhlaupum. Þessari fæðu þarf að skola niður með vatni til að hún nýtist líkamanum, og að þessu sinni hafði ég ákveðið að bera ekkert vatn með mér sjálfur. Þess vegna miðuðust matartímarnir við staðsetningu drykkjarstöðva. Ég var sem sagt búinn að gera sérstaka geláætlun fyrir hlaupið út frá korti af hlaupaleiðinni. Reyndar finnst mér ákaflega mikilvægt að ákveða allt slíkt fyrirfram, vegna þess að þegar líður á hlaupið minnkar geta manns til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Sú er alla vega reynsla mín.

Af járnkörlum
Á 10. kílómetranum, í Tryggvagötunni, náðum við Trausta Valdimarssyni, lækni og stórhlaupara. Það var hvetjandi að hitta Trausta, enda fær maður sjaldan tækifæri til að hlaupa fram úr honum! Í þetta sinn var hann að fylgja Guðjóni syni sínum í gegnum maraþonið, og þess verður líka að geta að sex dögum fyrr hafði hann afgreitt Járnkarlinn í Kaupmannahöfn. Járnkarlinn (e: Ironman) er þríþrautarkeppni þar sem menn synda fyrst 3,8 km í sjónum, hjóla síðan 180 km og enda á því að skokka eitt maraþon, allt á svo sem hálfum sólarhring. Það er hreint ekki á færi venjulegra manna á sextugsaldri, né á nokkrum öðrum aldri, að klára þann pakka á einum degi og vera svo aftur mættir í maraþon sex dögum síðar!

Hvenær fer maður of hratt?
Mér er ekki grunlaust um að við Sigurður höfum heldur hvatt hvorn annan en latt á þessum kafla, því að smátt og smátt jókst hraðinn í hlaupinu. Eitthvað höfðum við á orði að þetta væri kannski ekki skynsamleg þróun, en gerðum náttúrulega ekkert í því að leiðrétta hana. Millitíminn eftir 10 km var 46:11 mín, sem þýddi að 5 kílómetra kafli númer tvö hafði tekið 22:54 mín. Þarna var ég kominn með 50 sek. forskot á tímann minn frá því í fyrra, en það skipti mig svo sem engu máli til eða frá. Mér leið bara vel og fannst gaman, og það var nóg.

15 km að baki
Næstu tvo kílómetra eða svo var ég að miklu leyti einn á ferð, því að eitthvað hægðist á Sigurði, en ég bætti heldur í ef eitthvað var. Þessi einsemd stóð reyndar stutt, því að fyrr en varði var Sigurður mættur aftur. Inn við Sundahöfn var drykkjarstöð þar sem hentaði vel að sporðrenna geli nr. 2, og um svipað leyti voru 15 km að baki. Þar var millitíminn 1:08:44 klst, sem var hátt í 2 mín betra en árið áður. Þriðji 5 km kaflinn hafði sem sagt verið hlaupinn á 22:33 mín. Hraðinn hafði með öðrum orðið aukist jafnt og þétt. Við tók brattasta brekkan í hlaupinu, upp Vatnagarða. Þar hægðist vel á mér, en Sigurður náði forskoti og Þorkell var aftur kominn í hópinn.

Þrír vaskir hlauparar
Á Kirkjusandi er jafnan drykkjarstöð í Reykjavíkurmaraþonum. Og þar er gjarnan einhver tónlist í gangi líka, sem mér finnst afar jákvætt og hvetjandi. Þarna voru um 18 km að baki og allt í góðu gengi. Framundan var Kringlumýrarbrautin og þar sigu Þorkell og Sigurður fram úr mér, enda leiðin heldur á fótinn ef eitthvað er. Ég náði þeim svo aftur þegar fór að halla niður í Laugardalinn. Brekkur eru nefnilega kjörlendi mitt á hlaupum, en bara ef þær hallast rétt. Millitíminn eftir 20 km var 1:31:45 klst. Tíu kílómetra spölur nr. 2 hafði sem sagt verið hlaupinn á 45:34 mín og fjórði 5 km kaflinn á 23:01 mín.

Hálft maraþon á góðum tíma
Í Laugardalnum var hlaupið hálfnað. Þetta hálfa maraþon tók ekki nema 1:36:38 klst., sem var 2:20 mín. betri tími en í hlaupinu árið áður og reyndar ekki nema 4 mín frá besta hálfmaraþontímanum mínum til þessa. Þarna var líka drykkjarstöð og tími fyrir þriðja gelbréfið.

Frumburðurinn tekur forystu
Eftir þetta sá ég lítið til Sigurðar, en við feðgarnir fylgdumst að næstu kílómetrana. Við Víkingsheimilið í Fossvogi voru 25 km að baki og hraðinn enn svipaður. Millitíminn var 1:54:32 klst. og síðustu 5 km á 22:47 mín. Þarna gleypti ég fjórða gelið, þó að skammt væri liðið frá því síðasta. Nú tók Fossvogurinn við og Þorkell fór að síga framúr. Mér leið vel og fannst alltaf jafn gaman. Í Fossvoginum eru þó nokkrar litlar brekkur, og þar var ég aðeins farinn að finna fyrir þreytu í fótunum.

Tvær og hálf mínúta í plús
Áfram var haldið vestur yfir Kringlumýrarbraut, meðfram Fossvogskirkjugarði, um Nauthólsvík og svo framvegis. Einhvers staðar fyrir neðan flugvöllinn voru 30 km að baki, og enn hafði forskotið á sjálfan mig frá árinu áður aukist. Millitíminn var 2:17:35 klst., eða næstum 2 ½ mín betri en þá, síðustu 10 km á 45:50 mín og síðustu fimm á 23:03 mín. Þarna var ég farinn að eygja möguleika á að bæta tímann minn frá því í fyrra, en fyrir hlaupið hafði ég alls ekki gert mér neinar slíkar grillur. Var þó meðvitaður um að eitthvað kynni að bera út af undir lokin, sérstaklega vegna þess að vinstra lærið á mér hafði verið eitthvað í ólagi frá því fyrr á árinu. Og ef ég fæ krampa á hlaupum, þá byrjar hann þar. Krampi var eitthvað sem ég gat búist við, því að maraþonvegalengdin var í raun aðeins of löng fyrir mig miðað við æfingar sumarsins. En það var allt í lagi ennþá – og alltaf jafn gaman hjá mér.

Erfiðasti kaflinn framundan
Næsta drykkjarstöð var nálægt 31 km markinu, og þar tók ég sjötta gelið skv. áætlun. Enn vorum við feðgarnir að mestu leyti samferða, en eftir að 34 km voru að baki tók Þorkell heldur að dragast aftur úr. Reyndar var þá farið að hægjast á mér líka, en annars var ég svo sem ágætlega haldinn. En við tók langerfiðasti kafli hlaupsins, frá Eiðistorgi og um Seltjarnarnes.

Norðanátt við Gróttu
Millitíminn eftir 35 km var 2:41:39 klst. Síðustu 5 km voru sem sagt þeir hægustu í hlaupinu til þessa, á 24:04 mín. Forskotið miðað við síðasta ár var þarna komið niður í 1 ½ mínútu. Á Seltjarnarnesi var allhvass norðan vindur, líklega eitthvað yfir 10 m/s. Á 37. kílómetranum lá leiðin norður yfir nesið úti undir Gróttu. Þar var erfitt að hlaupa. Í beygjunum sá ég Þorkel stutt á eftir mér og var hæstánægður með hvað honum tókst að halda út.

Nokkur skref afturábak
Eftir 37 km var tíminn farinn að nálgast 2:52 klst. Ég vissi að við eðlilegar aðstæður ætti ég þá auðveldlega að geta lokið hlaupinu á 3:18 klst, þannig að enn var jafnvel möguleiki á að bæta tímann frá því í fyrra ef allt gengi upp. En sú varð ekki raunin. Rétt í þann mund sem ég fór fram hjá 39 km markinu fékk ég krampa í vinstra lærið, rétt eins og ég hafði hálfpartinn búist við. Ég upplifði þetta samt ekki sem neitt áfall, heldur bara sem hluta af upplifuninni. Vissi reyndar að þar með gæti ég hætt að hugsa um bætingu, en var fullkomlega sáttur við það. Eftir að hafa haldið kyrru fyrir smástund, teygt á lærinu og gengið nokkur skref afturábak, gat ég farið að skokka aftur. Tíminn sem fór í þessar æfingar var rétt um 1 mínúta, en ég fann að ég yrði að fara hægar það sem eftir væri hlaupsins til að minnka líkurnar á að krampinn gerði aftur vart við sig.

Ágætis markgretta
Tíminn eftir 40 km var 3:07:53 klst., eða rétt um 50 sek lakari en árið áður. Síðustu 5 km voru þeir langhægustu í hlaupinu. Tíminn á þeim var 26:14 mín og á síðustu 10 km 50:18 mín. Enn var þó gleðin við völd, enda ástandið þrátt fyrir allt miklu betra en ég hafði þorað að vona fyrir hlaupið. Skokkaði síðustu tvo kílómetrana í rólegheitum, en leyfði mér þó að bæta svolítið í þegar u.þ.b. 500 metrar voru eftir í markið. Það er jú alltaf skemmtilegra að líta vel út á mynd undir lokin. Flest benti til að það myndi takast. Ég var kominn að umferðarljósunum neðan við Bankastrætið, alsæll og iðandi mannhafið allt um kring. En þegar svo sem 20 m voru eftir kom krampinn aftur, að þessu sinni í báða fætur. Brosið sem ég hafði ætlað að nota í markinu varð því eitthvað líkara grettu, en ég komst yfir mottuna og hafði nógan tíma til að jafna mig eftir það. Tíminn var 3:18:47 klst., og ég var bara alveg himinlifandi með það. Hins vegar missti ég af því að sjá Þorkel koma í markið. Hann var á 3:19:39 klst., eða bara 52 sek á eftir mér eins og fyrr segir. Þá var ég enn að reyna að ná stjórn á þessum krumpuðu fótavöðvum mínum.

Stoltur faðir að leikslokum
Við feðgarnir náðum því sem sagt báðir að ljúka hlaupinu undir 3:20 klst. Ég var afar ánægður með sjálfan mig og enn ánægðari með Þorkel, sem aldrei áður hafði hlaupið neina vegalengd í líkingu við þessa. En þetta var svo sem ekki fyrsta Reykjavíkurmaraþonið þar sem við mættum báðir. Fyrsta skiptið var 1994 þegar hann var 9 ára og hljóp 3 km á 15:42 mín. Hlaup eru ágætis feðgaíþrótt – og aldrei of seint að byrja – né of snemmt.