• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • ágúst 2010
    S M F V F F S
    1234567
    891011121314
    15161718192021
    22232425262728
    293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Er snigillinn lifnaður við?

Í morgun var sagt frá því á visir.is að verið væri að ganga frá frumvörpum um breytta skattlagningu á ökutækjum og eldsneyti, sem byggð verði á losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta gleður mig mjög, enda hlýtur þessi breyting að verða umhverfinu og komandi kynslóðum til hagsbóta. Reyndar hefði ég viljað sjá þessa frétt fyrir tveimur árum, en betra er seint en aldrei. Miklu betra.

Ég hef áður bloggað um þessa skattlagningu, allpirraður yfir því að vönduðum tillögum starfshóps um heildarstefnumótun skattlagningar á eldsneyti og ökutæki, sem kynntar voru 2. júní 2008, skyldi hafa verið stungið undir stól. Þá kom fram að taka ætti sumarið í að fara yfir tillögurnar og leggja síðan fram frumvörp með haustinu. Mér fannst þetta allt ganga með hraða snigilsins, enda bólaði ekkert á frumvörpunum um haustið. Í lok maí 2009 voru svo kynntar breytingar á skattlagningu, þar sem engin tilraun var gerð til að færa skattheimtuna í þá átt sem starfshópurinn hafði lagt til. Þá sá ég ekki betur en snigillinn væri hreinlega dauður.

En nú virðist snigillinn sem sagt lifnaður við – og vonandi tekur hann á rás á næstu vikum. Í skattkerfinu liggja nefnilega stærri tækifæri en víðast annars staðar til að sveigja neyslu okkar í átt að sjálfbærari lífsháttum. Þessi tækifæri er löngu orðið tímabært að nýta!

Reyndar hnaut ég um tvö smáatriði í fréttaskýringunni á visir.is, sem mér virðast stangast á við grundvallarhugmyndina. Annars vegar kom þar fram að í framtíðinni myndu vörugjöldin geta farið allt niður í 5% fyrir neyslugranna bíla sem ganga fyrir dísilolíu. Og hins vegar kom fram að engin vörugjöld yrðu lögð á rafmagnsbíla eða tvinnbíla. Í þessu sambandi vil ég benda á, að það er í sjálfu sér aukaatriði í þessu sambandi fyrir hvaða olíu bílar ganga. Málið snýst bara um það hversu miklar gróðurhúsalofttegundir þeir losa. Til dæmis losar bensínbíll sem eyðir 4 á hundraðið u.þ.b. 15% minni koltvísýring en díselbíll sem eyðir 4 á hundraðið. Og svo er engin ástæða til að nefna tvinnbíla sérstaklega í þessu samhengi. Tvinnbílar eru bara sparneytnir bensínbílar og eiga auðvitað að skattleggjast sem slíkir. En þetta eru smáatriði, sem hafa sjálfsagt bara slysast inn í þessa frétt. Það er jú hin endanlega niðurstaða sem skiptir máli, en ekki orðalag fréttarinnar.

En fyrst ég er byrjaður að hnýta í orðalag, þá get ég svo sem bætt þriðja atriðinu við. Mér finnst sem sagt rangt að tala um „umhverfisvæna“ bíla eða „umhverfisvæn“ ökutæki. Svoleiðis dót er ekki til. Hins vegar eru sum tæki umhverfisvænni en önnur, og mega mín vegna kallast visthæf til að hægt sé að tala um þau á einu bretti á sæmilega fljótlegan hátt.

En aðalatriðið er þetta: Snigillinn er lifandi, fjármálaráðuneytið er á réttri leið og ég er bjartsýnn á framhaldið.

Fyrri bloggfærslur um málið:
2. júní 2008
12. desember 2008
29. maí 2009