Í kvöld var sagt frá því í útvarps- og sjónvarpsfréttum RÚV að öllum starfsmönnum fiskverkunar Karls Sveinssonar á Borgarfirði eystri hefði verið sagt upp störfum í dag. Ástæðan kvað einkum vera sú að saltfiskur frá Karli væri ekki lengur samkeppnishæfur í útflutningi, þar sem hann hafi ekki viljað sprauta fiskinn með hvítunarefni, eins og aðrir íslenskir saltfiskverkendur hafi gert síðustu ár, þrátt fyrir að notkun efnisins sé bönnuð í saltfiskvinnslu. Mér þykir þetta mál einkar athyglisvert, hvernig sem á það er litið, og ætla að velta upp nokkrum hliðum þess í þessum pistli.
Hvaða efni er þetta?
Hvítunarefnið sem um ræðir er fjölfosfat (e: polyphosphate) sem selt er undir nafninu Carnal, (líklega Carnal 2110). Eftir því sem ég kemst næst er þar um að ræða natríumkalíumfjölfosfat, þ.e.a.s. efnasamband sem sett er saman úr natríum- og kalíumfosfötum með fleiri en þrjá fosfathópa í hverri sameind.
Til hvers er efnið notað?
Eins og fyrr segir er umræddu efni sprautað í fisk til að gera hann hvítari. Efnið hefur fyrst og fremst áhrif á yfirborð fisksins, en breytir sem slíkt ekki gæðum hans eða bragði. Það gerir yfirborð fisksins sleipara, sem getur auðveldað pökkun og aðra meðhöndlun. Auk þess dregur það úr útstreymi vatns. Sem slíkt þykir það eftirsóknarvert í fiskvinnslu, sérstaklega þegar unnið er úr lélegu hráefni. Lélegt hráefni heldur nefnilega ekki eins vel í sér vatni og ferskt og gott hráefni. Þetta þýðir m.a. að fiskafurðir úr lélegu hráefni verða enn ótútlegri en ella vegna vökvans sem lekur úr fiskinum og safnast í umbúðirnar. Fjölfosföt gera ekki lélegar fiskafurðir betri, en þau láta þær líta betur út.
Færri grömm af fiski í kílóinu!
Sem fyrr segir draga fjölfosföt úr útstreymi vatns úr fiski, sérstaklega lélegum fiski. Með því að nota þessi efni í fiskvinnslu fæst því eilítið þyngri afurð en ella. Í raun er þar verið að villa um fyrir kaupandanum hvort sem það er viljandi eða óviljandi, því að hvert meðhöndlað fiskstykki vegur þá þyngra en sambærilegt ómeðhöndlað stykki. Það eru bara færri grömm af fiski og fleiri grömm af vatni í hverju kílói!
Hver segir að þetta sé bannað?
Í 5. grein reglugerðar nr. 285/2002 um aukefni í matvælum er sett fram eftirfarandi meginregla: “Við tilbúning og framreiðslu matvæla er einungis heimilt að nota þau aukefni sem fram koma í viðauka II (aukefnalisti) og með þeim skilyrðum sem þar koma fram”. Aukefni er í þessu sambandi skilgreind sem “efni sem aukið er í matvæli til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla, […]. Í fullunninni vöru eru aukefni til staðar að öllu leyti eða að hluta, í breyttri eða óbreyttri mynd”. Fjölfosföt falla undir þessa skilgreiningu, enda virðist ljóst að í þeim tilvikum sem hér um ræðir sé þeim bætt í fiskinn til að hafa áhrif á lit hans (og e.t.v. rakaheldni). Við matvælaframleiðslu eru líka notuð svonefnd “tæknileg hjálparefni”, en það eru “efni sem notuð eru til að ná ákveðnum tæknilegum tilgangi í meðhöndlun eða vinnslu matvæla eða efnisþátta sem notaðir eru við framleiðslu þeirra, án þess að efnunum sé ætlað að koma fyrir eða hafa tæknileg áhrif í fullunninni vöru”. Munurinn á aukefnum annars vegar og tæknilegum hjálparefnum hins vegar skiptir máli í rökræðum um lögmæti efna, eins og síðar verður vikið að.
Og hvað með það?
Í umræddum viðauka II við reglugerð nr. 285/2002 kemur fram að nota megi fjölfosföt í ýmsar matvörur. Þegar 9. kafli viðaukans er skoðaður, en hann fjallar um leyfileg aukefni í fiski og fiskafurðum, kemur í ljós að tiltekin fosföt eru leyfð við tilbúning og framleiðslu á frosnum fiski, þ.m.t. aukefnið E452, (en ég geri ráð fyrir að Carnal falli í þann flokk). Hins vegar eru engin fosföt á skrá yfir leyfð aukefni í ferskum fiski og saltfiski. Það þýðir einfaldlega að í slíkri framleiðslu er notkun þessara efna bönnuð.
Hvers vegna er þetta bannað?
Reglugerð nr. 285/2002 um aukefni í matvælum er sett í samræmi við tilteknar Evróputilskipanir, sem ég ætla ekki að telja upp hér, en eru samviskusamlega tíundaðar í 18. grein reglugerðarinnar. Þar með er í raun búið að svara spurningunni um það hvers vegna þetta sé bannað. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) skyldar okkur einfaldlega til að hafa sambærilegar reglur um þetta og önnur ríki innan EES.
En eru þessi efni hættuleg?
Það getur vel verið að þessi efni séu hvorki skaðleg heilsu né umhverfi, en það skiptir í raun ekki máli í þessu sambandi. Ef menn telja sig geta sýnt fram á skaðleysi efnanna er sjálfsagt hægt að fá regluverki Evrópusambandsins breytt, en þangað til gilda þessar reglur, nema veitt sé sérstök undanþága frá þeim. Svo einfalt er það nú. Samkvæmt upplýsingum frá FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) er reyndar ólíklegt að pólyfosföt hafi skaðleg áhrif á heilsu neytenda, þó að reyndar sé ekki hægt að útiloka neitt í því sambandi. Þessi efni skolast að einhverju leyti burt og brotna að mestu niður í einföld fosföt þegar fiskurinn er afvatnaður, eldaður og borðaður. Hitt er svo annað hvort það sé skynsamlegt að nota fosfór til að láta mat líta betur út, sérstaklega þegar haft er í huga að nýtanlegar fosfórbirgðir heimsins munu ganga til þurrðar á næstu áratugum og öldum, með býsna víðtækum afleiðingum fyrir mannskepnuna. En það er svo sem annað mál og efni í aðrar bloggfærslur.
Þáttur Matvælastofnunar
Matvælastofnun (MAST) á að sjá til þess að framleiðendur fylgi reglum um notkun aukefna við framleiðslu matvæla. Karl Sveinsson hefur bent á að þarna hafi MAST brugðist hlutverki sínu. Ekki er annað hægt en taka sterklega undir það sjónarmið. Vanræksla stofnunarinnar er enn meira sláandi þegar haft er í huga að þann 15. júní 2009 birtist frétt á heimasíðu MAST þess efnis að stofnunin hefði “fengið athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er varðar notkun fjölfosfata (polyphosphates) í framleiðslu á saltfiski”. Þar sé sérstaklega “bent á viðauka II, en þar kemur fram hvaða aukefni má nota í fiskafurðir. Ekki er heimilt að nota fjölfosföt í ferskan eða saltaðan fisk, en heimilt er að nota fjölfosföt í frystan fisk og fiskafurðir. Undantekningalaust þá er skylt að merkja aukefni ef þau eru notuð”. Í fréttinni kemur líka fram að Matvælastofnun muni “frá og með 1. september 2009 ganga eftir því að þessi ákvæði séu uppfyllt”. Aðgerðaleysi Matvælastofnunar í þessu máli er því ekki yfirsjón heldur ásetningur gegn betri vitund. Svör starfsmanna við fyrirspurn fréttamanna RÚV í dag bæta ekki úr skák. Þar var viðurkennt að afstaða stofnunarinnar orkaði tvímælis, en “hefði Matvælastofnun gengið harðar fram en systurstofnanir á Norðurlöndunum hefði það geta skaðað íslenskan saltfiskiðnað. Yrði banninu framfylgt yrði íslenskur saltfiskur gulari en annar saltfiskur og ekki eins eftirsóttur”. Auðvitað á stofnunin að fylgja þeim reglum sem henni ber að vinna eftir, hvað sem systurstofnanir á Norðurlöndunum gera. Allt annað er bara fúsk!
SF með í ráðum?
Það vekur athygli að á heimasíðu Samtaka fiskvinnslustöðva (SF) kemur fram að samtökin bjóða upp á námskeið fyrir saltfiskverkendur í samvinnu við Rannsóknarþjónustuna Sýni ehf., þar sem m.a. er tekið fyrir: “Íblöndunarefni; salt og fosföt, eiginleikar og virkni”. Reyndar er ekkert við þetta að athuga, þar sem þarna er fjallað um eiginleika og virkni. Þeir sem starfa í greininni þurfa að sjálfsögðu að kunna skil á þessu. Væntanlega kemur líka fram á námskeiðinu að notkun fosfata sé óheimil í saltfiskvinnslu.
Neytendur plataðir
Eins og fram kom í fyrrnefndri frétt á heimasíðu MAST um aðfinnslur ESA er “skylt að merkja aukefni ef þau eru notuð”. Nú hef ég svo sem ekki kynnt mér hvort íslenskir saltfiskframleiðendur láti þess getið á umbúðum utan um fiskinn að hann innihaldi fosföt, (sem að vísu séu óleyfileg). En ég geri fastlega ráð fyrir að menn þegi yfir því. Sé það rétt til getið er brotið því tvíþætt. Annars vegar felst það í notkun efnanna og hins vegar í ófullnægjandi merkingum. Það getur svo sem vel verið að erlendar saltfiskætur vilji endilega kaupa svolítið af fosfötum og vatni með íslenska saltfiskinum, bara ef fiskurinn er vel hvítur. En það er þá alla vega lágmark að þeim sé sagt hvað þær eru að kaupa, enda “skylt að merkja aukefni”. Karl Sveinsson orðaði það svo í dag að hann hefði ekki viljað “fjárfesta í sprautusöltunarbúnaði fyrir 30 milljónir til þess að brjóta lög og plata saklaust fólk úti í heimi”. Það væri eitthvað sem Íslendingar hefðu víst gert nóg af. Í þessum orðum liggur reyndar að mínu mati enn einn mikilvægur punktur. Allt þetta á nefnilega að mínu mati rætur í því sama agaleysi og óheilindum sem sköpuðu forsendur fyrir hrun efnahagskerfisins.
Eru fosföt kannski bara tæknileg hjálparefni?
Matís ohf. og fleiri aðilar vinna nú að því með styrk frá AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi að “safna og leggja fram upplýsingar um hvort viðbætt fosfat finnst í útvötnuðum saltfiski sem boðinn er neytendum til sölu í markaðslöndum og eyða þar með óvissu um hvort nota megi fjölfosföt sem tæknileg hjálparefni við verkun á saltfiski”. Markmið verkefnisins er að “tryggja stöðu saltfisks á mörkuðum á Spáni”. Takist að sýna fram á að fosfötin komi ekki fyrir í fullunninni vöru eða hafi tæknileg áhrif í henni, þá er hægt að halda því fram fosfötin séu “tæknileg hjálparefni” en ekki aukefni. Þá væri í raun ekki lengur tilefni til að banna notkun þeirra í saltfiskverkun. En notkun efnanna er augljóslega bönnuð þar til annað kemur í ljós. Og ef efnin gera fiskinn hvítari, hlýtur líka að vera erfitt að halda því fram að þau hafi ekki tæknileg áhrif í fullunninni vöru!
Hvað eiga heiðarlegir framleiðendur að gera?
Fréttirnar frá Borgarfirði eystri í dag minna okkur á, að það er erfitt að vera heiðarlegur í heimi þar sem flestir hafa rangt við. Ein leið út úr þeim vanda er hugsanlega að sækjast eftir alþjóðlegri vottun MSC (Marine Stewardship Council) á veiðar og vinnslu hjá viðkomandi fyrirtæki. Þar með opnast aðgangur að vaxandi og öruggum markaði þar sem greidd eru hærri verð og fúsk er í algjöru lágmarki. Um leið komast menn hjá því að keppa við aðila sem hafa rangt við. Ég get hins vegar ekkert fullyrt um það á þessu stigi hvort þessi leið sé fær í tilviki Karls Sveinssonar. Ég slæ þessu bara fram til umhugsunar.
Lokaorð
Það er erfitt að sætta sig við að þeim sem fylgja reglum sé refsað á meðan aðrir græða á að brjóta reglur og selja vörur með fölsuðu innihaldi – og það undir verndarvæng opinberra stofnana.
Helstu heimildir og frekara lesefni:
Filed under: Heilsa, Sjálfbær þróun, Umhverfismál | 7 Comments »