• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • september 2010
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    2627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Verði ljós!

Steinolíuljós í Ghana, búið til úr gamalli glóperu. (Ljósm. Rick Wilk)

Stundum fallast manni hendur þegar talið berst að vandamálum þróunarríkjanna. En sum þessara vandamála er í sjálfu sér auðvelt að leysa. Til þess þarf kannski bara að breyta því kerfi sem fyrir er, ekki í þróunarlöndunum, heldur einmitt hérna vesturfrá.

Lýsing í híbýlum fólks er ágætt dæmi um þetta. Eins og staðan er í dag þarf um 1,7 milljarður manna, þ.e. um fjórðungar jarðarbúa, að brenna jarðefnaeldsneyti inni á heimilum sínum til að lýsa þau upp. Þar er þá oftast um að ræða steinolíulampa, ekki ósvipaða þeim sem mín kynslóð og þaðan af eldra fólk kynntist töluvert á uppvaxtarárum sínum. Af þessum sökum losna árlega um 190 milljónir tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið, eða sem svarar til útblásturs frá 30 milljón bílum! Samanlagður árlegur kostnaður vegna þessarar lýsingar er u.þ.b. 4.600 milljarðar íslenskra króna, sem er um 20% af öllum kostnaði við lýsingu í heiminum. Samt er þetta bara um 0,1% af lýsingunni! Þetta er sem sagt gríðarlega óhagkvæm lýsing – og  í þokkabót verulega heilsuspillandi. Í bloggfærslu sem ég skrifaði 2. febrúar sl. kom t.d. fram að varanleg nálægð við steinolíulampa í þröngum húsakynnum væri talin álíka heilsuspillandi og það að reykja tvo sígarettupakka á dag. Þessir lampar valda líka ótrúlegum fjölda dauðsfalla á ári hverju.

Ef hægt væri að skipta öllum þessum steinolíulömpum út fyrir ljósdíóður (LED-ljós) sem fengju straum úr sólarrafhlöðum, myndi ávinningurinn verða gríðarlegur, hvort sem hann væri mældur í rekstrarkostnaði (sem vel að merkja fellur á viðkomandi heimili, sem eru alveg nógu fátæk fyrir), losun gróðurhúsalofttegunda eða bættri heilsu. Hægt væri að ýta undir þessa þróun með því að rýmka reglur loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna um svokölluð CDM-verkefni (e: Clean Development Mechanism), en þau gera iðnríkjum kleift að telja samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna verkefna sem þau fjármagna í þróunarlöndum sér til tekna í losunarbókhaldi skv. Kyotobókuninni. Hingað til hefur aðeins verið hægt að reikna stór verkefni inn í CDM-pakkann, m.a. vegna þess hversu flókið er að hafa eftirlit með raunverulegum árangri. Í 5. tækniskýrslu Luminaverkefnisins, sem unnin var fyrir CDM-smáverkefnanefnd Loftslagssáttmálans er bent á leiðir til að rýmka CDM-reglurnar á þann hátt að þær geti náð til fjölmargra smáverkefna á borð við endurnýjun lýsingar á heimilum í þróunarlöndunum. Verði þessu hrint í framkvæmd verður ávinningurinn margfaldur, því að auk þess sem áður hefur verið nefnt, myndi þetta flýta fyrir þróun díóðuljósa og rafhlaðna. Og betri lýsing og rýmri fjárhagur heimila í þróunarlöndunum myndi líka hafa jákvæðar aukaverkanir, m.a. með því að ýta undir menntun.

Þarna er sem sagt allt að vinna. Vandamálið liggur ekki í skorti á hráefnum, fjármagni eða þekkingu, heldur bara í innviðum kerfisins. Sama gildir um býsna mörg önnur vandamál! Og bara svona til að undirstrika tæknilega yfirburði díóðuljóssins fram yfir steinolíulampann, má nefna að steinolíulampinn þarf svo sem 200 wött þegar díóðuljósinu dugar 1 watt – til þess að gefa frá sér 5 sinnum meiri birtu. Díóðuljósið nýtir orkuna sem sagt 1000 sinnum betur. Hversu erfitt er þá að velja – ef maður hefur val?

(Þessi bloggfærsla er eins og margar fleiri innblásin af skrifum Hans Nilsson ráðgjafa hjá Fourfact í Svíþjóð. Myndin með færsluna var hins vegar tekin að láni úr fyrrnefndri Luminaskýrslu).

Drekktu úr krananum

Um nýliðna helgi var mikið um að vera í bænum Farum í Danmörku, en á föstudag og laugardag stóðu Karen Ellemann umhverfisráðherra  og Ole Bondo Christensen bæjarstjóri í Furesø á aðaltorgi bæjarins og gáfu vegfarendum 2.300 karöflur undir kranavatn. Jørgen nokkur Lindemann átti hugmyndina að þessu uppátæki, en með því vildi hann vekja athygli á þeirri einföldu staðreynd að kranavatn er í flestum tilvikum hreinna, heilnæmara, ódýrara og umhverfisvænna en vatn sem keypt er á flöskum.
 
Á karöflurnar frá Jørgen Lindemann eru grafin kjörorð átaksins, nefnilega  „Skift vane – drik vand fra hane“, eða „Droppaðu vananum – drekktu úr krananum“ eins og kjörorðin hljóma í afar lauslegri íslenskri þýðingu. Jørgen hefur unnið að þessu verkefni í tvö ár – og m.a. tekist að afla fjár til að framleiða allar þessar flöskur. Kveikjan að þessu var að á sínum tíma fékk vatnið frá vatnsveitunni í Furesø viðurkenningu sem besta vatn Danmerkur. Það fékk Jørgen til að hugleiða hversu fráleitt það er kaupa venjulegt vatn á flöskum í stað þess að nýta það eins og það kemur fyrir úr krananum. Karöflurnar eiga að auðvelda fólki þessa ódýru og umhverfisvænu vatnsneyslu, því að þær henta einkar vel til geymslu á kranavatni í ísskápum.
 
Það er útbreiddur misskilningur að flöskuvatn sé betra eða öruggara en kranavatn. Rannsóknir benda hins vegar til að flöskuvatn geti innihaldið allt að 50 sinnum fleiri bakteríur en leyft er í kranavatni, auk þess sem flöskuvatnið er allt að því 1.500 sinnum orkufrekara þegar tekið hefur verið tillit til framleiðslu og flutnings umbúða. Loks má nefna, að á Íslandi er flöskuvatnið allt að því 5.000 sinnum dýrara en kranavatnið! 
 
(Þessi bloggfærsla er að hluta til byggð á frétt í Furesø avisen 8. sept. sl. (skv. ábendingu Auðar Þórsdóttur) og að hluta á þriggja ára gamalli frétt úr Aftonbladet, sem á sínum tíma var kveikjan að „Orðum dagsins“ sem birtust á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi 13. september 2007, (en eru nú horfin eins og annað á þeirri annars ágætu síðu)).

Glæra um kranavatn úr einum af fjölmörgum fyrirlestrum SG þar sem vatn hefur komið við sögu.

Þeim sem vilja velta ágæti kranavatns enn frekar fyrir sér er bent á heimildamyndina „The Story of Bottled Water“ á http://storyofstuff.com.

Ólögleg fosföt í saltfiski

Saltfiskur - mynd af heimasíðu RÚVÍ kvöld var sagt frá því í útvarps- og sjónvarpsfréttum RÚV að öllum starfsmönnum fiskverkunar Karls Sveinssonar á Borgarfirði eystri hefði verið sagt upp störfum í dag. Ástæðan kvað einkum vera sú að saltfiskur frá Karli væri ekki lengur samkeppnishæfur í útflutningi, þar sem hann hafi ekki viljað sprauta fiskinn með hvítunarefni, eins og aðrir íslenskir saltfiskverkendur hafi gert síðustu ár, þrátt fyrir að notkun efnisins sé bönnuð í saltfiskvinnslu. Mér þykir þetta mál einkar athyglisvert, hvernig sem á það er litið, og ætla að velta upp nokkrum hliðum þess í þessum pistli.

Hvaða efni er þetta?
Hvítunarefnið sem um ræðir er fjölfosfat (e: polyphosphate) sem selt er undir nafninu Carnal, (líklega Carnal 2110). Eftir því sem ég kemst næst er þar um að ræða natríumkalíumfjölfosfat, þ.e.a.s. efnasamband sem sett er saman úr natríum- og kalíumfosfötum með fleiri en þrjá fosfathópa í hverri sameind.

Til hvers er efnið notað?
Eins og fyrr segir er umræddu efni sprautað í fisk til að gera hann hvítari. Efnið hefur fyrst og fremst áhrif á yfirborð fisksins, en breytir sem slíkt ekki gæðum hans eða bragði. Það gerir yfirborð fisksins sleipara, sem getur auðveldað pökkun og aðra meðhöndlun. Auk þess dregur það úr útstreymi vatns. Sem slíkt þykir það eftirsóknarvert í fiskvinnslu, sérstaklega þegar unnið er úr lélegu hráefni. Lélegt hráefni heldur nefnilega ekki eins vel í sér vatni og ferskt og gott hráefni. Þetta þýðir m.a. að fiskafurðir úr lélegu hráefni verða enn ótútlegri en ella vegna vökvans sem lekur úr fiskinum og safnast í umbúðirnar. Fjölfosföt gera ekki lélegar fiskafurðir betri, en þau láta þær líta betur út.

Færri grömm af fiski í kílóinu!
Sem fyrr segir draga fjölfosföt úr útstreymi vatns úr fiski, sérstaklega lélegum fiski. Með því að nota þessi efni í fiskvinnslu fæst því eilítið þyngri afurð en ella. Í raun er þar verið að villa um fyrir kaupandanum hvort sem það er viljandi eða óviljandi, því að hvert meðhöndlað fiskstykki vegur þá þyngra en sambærilegt ómeðhöndlað stykki. Það eru bara færri grömm af fiski og fleiri grömm af vatni í hverju kílói!

Hver segir að þetta sé bannað?
Í 5. grein reglugerðar nr. 285/2002 um aukefni í matvælum er sett fram eftirfarandi meginregla: “Við tilbúning og framreiðslu matvæla er einungis heimilt að nota þau aukefni sem fram koma í viðauka II (aukefnalisti) og með þeim skilyrðum sem þar koma fram”. Aukefni er í þessu sambandi skilgreind sem “efni sem aukið er í matvæli til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla, […]. Í fullunninni vöru eru aukefni til staðar að öllu leyti eða að hluta, í breyttri eða óbreyttri mynd”. Fjölfosföt falla undir þessa skilgreiningu, enda virðist ljóst að í þeim tilvikum sem hér um ræðir sé þeim bætt í fiskinn til að hafa áhrif á lit hans (og e.t.v. rakaheldni). Við matvælaframleiðslu eru líka notuð svonefnd “tæknileg hjálparefni”, en það eru “efni sem notuð eru til að ná ákveðnum tæknilegum tilgangi í meðhöndlun eða vinnslu matvæla eða efnisþátta sem notaðir eru við framleiðslu þeirra, án þess að efnunum sé ætlað að koma fyrir eða hafa tæknileg áhrif í fullunninni vöru”. Munurinn á aukefnum annars vegar og tæknilegum hjálparefnum hins vegar skiptir máli í rökræðum um lögmæti efna, eins og síðar verður vikið að.

Og hvað með það?
Í umræddum viðauka II við reglugerð nr. 285/2002 kemur fram að nota megi fjölfosföt í ýmsar matvörur. Þegar 9. kafli viðaukans er skoðaður, en hann fjallar um leyfileg aukefni í fiski og fiskafurðum, kemur í ljós að tiltekin fosföt eru leyfð við tilbúning og framleiðslu á frosnum fiski, þ.m.t. aukefnið E452, (en ég geri ráð fyrir að Carnal falli í þann flokk). Hins vegar eru engin fosföt á skrá yfir leyfð aukefni í ferskum fiski og saltfiski. Það þýðir einfaldlega að í slíkri framleiðslu er notkun þessara efna bönnuð.

Hvers vegna er þetta bannað?
Reglugerð nr. 285/2002 um aukefni í matvælum er sett í samræmi við tilteknar Evróputilskipanir, sem ég ætla ekki að telja upp hér, en eru samviskusamlega tíundaðar í 18. grein reglugerðarinnar. Þar með er í raun búið að svara spurningunni um það hvers vegna þetta sé bannað. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) skyldar okkur einfaldlega til að hafa sambærilegar reglur um þetta og önnur ríki innan EES.

En eru þessi efni hættuleg?
Það getur vel verið að þessi efni séu hvorki skaðleg heilsu né umhverfi, en það skiptir í raun ekki máli í þessu sambandi. Ef menn telja sig geta sýnt fram á skaðleysi efnanna er sjálfsagt hægt að fá regluverki Evrópusambandsins breytt, en þangað til gilda þessar reglur, nema veitt sé sérstök undanþága frá þeim. Svo einfalt er það nú. Samkvæmt upplýsingum frá FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) er reyndar ólíklegt að pólyfosföt hafi skaðleg áhrif á heilsu neytenda, þó að reyndar sé ekki hægt að útiloka neitt í því sambandi. Þessi efni skolast að einhverju leyti burt og brotna að mestu niður í einföld fosföt þegar fiskurinn er afvatnaður, eldaður og borðaður. Hitt er svo annað hvort það sé skynsamlegt að nota fosfór til að láta mat líta betur út, sérstaklega þegar haft er í huga að nýtanlegar fosfórbirgðir heimsins munu ganga til þurrðar á næstu áratugum og öldum, með býsna víðtækum afleiðingum fyrir mannskepnuna. En það er svo sem annað mál og efni í aðrar bloggfærslur.

Þáttur Matvælastofnunar
Matvælastofnun (MAST) á að sjá til þess að framleiðendur fylgi reglum um notkun aukefna við framleiðslu matvæla. Karl Sveinsson hefur bent á að þarna hafi MAST brugðist hlutverki sínu. Ekki er annað hægt en taka sterklega undir það sjónarmið. Vanræksla stofnunarinnar er enn meira sláandi þegar haft er í huga að þann 15. júní 2009 birtist frétt á heimasíðu MAST þess efnis að stofnunin hefði “fengið athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er varðar notkun fjölfosfata (polyphosphates) í framleiðslu á saltfiski”. Þar sé sérstaklega “bent á viðauka II, en þar kemur fram hvaða aukefni má nota í fiskafurðir. Ekki er heimilt að nota fjölfosföt í ferskan eða saltaðan fisk, en heimilt er að nota fjölfosföt í frystan fisk og fiskafurðir. Undantekningalaust þá er skylt að merkja aukefni ef þau eru notuð”. Í fréttinni kemur líka fram að Matvælastofnun muni “frá og með 1. september 2009 ganga eftir því að þessi ákvæði séu uppfyllt”. Aðgerðaleysi Matvælastofnunar í þessu máli er því ekki yfirsjón heldur ásetningur gegn betri vitund. Svör starfsmanna við fyrirspurn fréttamanna RÚV í dag bæta ekki úr skák. Þar var viðurkennt að afstaða stofnunarinnar orkaði tvímælis, en “hefði Matvælastofnun gengið harðar fram en systurstofnanir á Norðurlöndunum hefði það geta skaðað íslenskan saltfiskiðnað. Yrði banninu framfylgt yrði íslenskur saltfiskur gulari en annar saltfiskur og ekki eins eftirsóttur”. Auðvitað á stofnunin að fylgja þeim reglum sem henni ber að vinna eftir, hvað sem systurstofnanir á Norðurlöndunum gera. Allt annað er bara fúsk!

SF með í ráðum?
Það vekur athygli að á heimasíðu Samtaka fiskvinnslustöðva (SF) kemur fram að samtökin bjóða upp á námskeið fyrir saltfiskverkendur í samvinnu við Rannsóknarþjónustuna Sýni ehf., þar sem m.a. er tekið fyrir: “Íblöndunarefni; salt og fosföt, eiginleikar og virkni”. Reyndar er ekkert við þetta að athuga, þar sem þarna er fjallað um eiginleika og virkni. Þeir sem starfa í greininni þurfa að sjálfsögðu að kunna skil á þessu. Væntanlega kemur líka fram á námskeiðinu að notkun fosfata sé óheimil í saltfiskvinnslu.

Neytendur plataðir
Eins og fram kom í fyrrnefndri frétt á heimasíðu MAST um aðfinnslur ESA er “skylt að merkja aukefni ef þau eru notuð”. Nú hef ég svo sem ekki kynnt mér hvort íslenskir saltfiskframleiðendur láti þess getið á umbúðum utan um fiskinn að hann innihaldi fosföt, (sem að vísu séu óleyfileg). En ég geri fastlega ráð fyrir að menn þegi yfir því. Sé það rétt til getið er brotið því tvíþætt. Annars vegar felst það í notkun efnanna og hins vegar í ófullnægjandi merkingum. Það getur svo sem vel verið að erlendar saltfiskætur vilji endilega kaupa svolítið af fosfötum og vatni með íslenska saltfiskinum, bara ef fiskurinn er vel hvítur. En það er þá alla vega lágmark að þeim sé sagt hvað þær eru að kaupa, enda “skylt að merkja aukefni”. Karl Sveinsson orðaði það svo í dag að hann hefði ekki viljað “fjárfesta í sprautusöltunarbúnaði fyrir 30 milljónir til þess að brjóta lög og plata saklaust fólk úti í heimi”. Það væri eitthvað sem Íslendingar hefðu víst gert nóg af. Í þessum orðum liggur reyndar að mínu mati enn einn mikilvægur punktur. Allt þetta á nefnilega að mínu mati rætur í því sama agaleysi og óheilindum sem sköpuðu forsendur fyrir hrun efnahagskerfisins.

Eru fosföt kannski bara tæknileg hjálparefni?
Matís ohf. og fleiri aðilar vinna nú að því með styrk frá AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi að “safna og leggja fram upplýsingar um hvort viðbætt fosfat finnst í útvötnuðum saltfiski sem boðinn er neytendum til sölu í markaðslöndum og eyða þar með óvissu um hvort nota megi fjölfosföt sem tæknileg hjálparefni við verkun á saltfiski”. Markmið verkefnisins er að “tryggja stöðu saltfisks á mörkuðum á Spáni”. Takist að sýna fram á að fosfötin komi ekki fyrir í fullunninni vöru eða hafi tæknileg áhrif í henni, þá er hægt að halda því fram fosfötin séu “tæknileg hjálparefni” en ekki aukefni. Þá væri í raun ekki lengur tilefni til að banna notkun þeirra í saltfiskverkun. En notkun efnanna er augljóslega bönnuð þar til annað kemur í ljós. Og ef efnin gera fiskinn hvítari, hlýtur líka að vera erfitt að halda því fram að þau hafi ekki tæknileg áhrif í fullunninni vöru!

Hvað eiga heiðarlegir framleiðendur að gera?
Fréttirnar frá Borgarfirði eystri í dag minna okkur á, að það er erfitt að vera heiðarlegur í heimi þar sem flestir hafa rangt við. Ein leið út úr þeim vanda er hugsanlega að sækjast eftir alþjóðlegri vottun MSC (Marine Stewardship Council) á veiðar og vinnslu hjá viðkomandi fyrirtæki. Þar með opnast aðgangur að vaxandi og öruggum markaði þar sem greidd eru hærri verð og fúsk er í algjöru lágmarki. Um leið komast menn hjá því að keppa við aðila sem hafa rangt við. Ég get hins vegar ekkert fullyrt um það á þessu stigi hvort þessi leið sé fær í tilviki Karls Sveinssonar. Ég slæ þessu bara fram til umhugsunar.

Lokaorð
Það er erfitt að sætta sig við að þeim sem fylgja reglum sé refsað á meðan aðrir græða á að brjóta reglur og selja vörur með fölsuðu innihaldi – og það undir verndarvæng opinberra stofnana.

Helstu heimildir og frekara lesefni:

Plúshús í Åkarp

Fyrsta „plúshúsið“ í Svíþjóð á ársafmæli um þessar mundir. Reynslan af húsinu hefur verið vonum framar, því að á þessu fyrsta ári var heildarorkunotkunin -1.600 kWst. Húsið framleiddi með öðrum orðum 1.600 kílówattstundum meiri orku en það notaði, þrátt fyrir að síðasti vetur hafi verið óvenju kaldur á þessum slóðum.

Margir kannast sjálfsagt við svonefnd „passívhús“, en þar er yfirleitt um að ræða hús þar sem heildarorkunotkun er að hámarki 120 kWst á fermetra á ári að öllu orkutapi meðtöldu. Svo hafa líka verið byggð „núllhús“ þar sem ekki á að vera þörf fyrir neina aðkeypta orku. En til að standa undir nafni sem „plúshús“ þarf heildarorkunotkunin sem sagt að vera minni en orkan sem framleidd er í húsinu. Plúshús er með öðrum orðum framleiðandi en ekki neytandi.

Þetta fyrsta plúshús í Svíþjóð stendur í bænum Åkarp á Skáni, (sem upphaflega hét Ákaþorp og er einn af þremur viðkomustöðum Strákalestarinnar (Pågatåg) milli Malmö og Lundar). Húsið er 150 fermetrar að flatarmáli, og þar býr Karin Adalberth, doktor í byggingaeðlisfræði, með fjölskyldu sinni. Karin er jafnframt höfundur hússins. Tilgangur hennar með því að byggja þetta hús var ekki síst að ganga úr skugga um hvort hægt væri að nota þá tækni sem þegar er til staðar til að byggja einbýlishús sem framleiðir meiri orku en það notar, en uppfyllir jafnframt allar þær væntingar um útlit, þægindi o.fl. sem almennt eru gerðar til góðra íbúðarhúsa.

Miðpunkturinn í orkubúskap hússins er varmaskiptir sem nýtir varma úr frárennslisvatni og loftræstingu. Sólarrafhlöður og sólfangarar sjá húsinu fyrir meiri hita og raforku, og öll raftæki á heimilinu eru eins sparneytin og kostur er. Innanhúss er líka að finna gifsplötur með vaxkornum sem safna í sig hita á hlýjum dögum og gefa hann frá sér aftur þegar kalt er í veðri. Með þessum búnaði tekst að halda hitastigi inni í húsinu í 20-22°C að jafnaði.

Karin Adalberth gerir sér vonir um að fleiri fylgi í kjölfarið, nú þegar sýnt hefur verið fram á að þetta sé hægt. Enn er líka, að hennar sögn, hægt að þróa tækni og byggingaraðferðir og ná þannig enn betri árangri.

(Þessi færsla er aðallega byggð á grein í Teknik360 í gær. Hægt er að fræðast meira um hús Karinar Adalberth í fréttaþætti á sjónvarpsstöðinni TV4 í Svíþjóð, (umfjöllunin byrjar á u.þ.b. 2:18 mín). Þaðan er myndin hér að neðan einnig fengin að láni).

Plúshúsið í Åkarp, (mynd af TV4)

Svansmerktar fartölvur

Í gær tvöfaldaðist fjöldi svansmerktra fartölvutegunda á sænskum markaði þegar Lenovo fékk Svaninn á 13 tegundir af fartölvum sínum. Þar með geta sænskir neytendur valið á milli 25 mismunandi gerða af svansmerktum fartölvum, þar af 24 frá Lenovo og 1 frá Fujitsu-Siemens.

Til að fá Svaninn þurfa fartölvur m.a. að uppfylla strangar kröfur um:

  • litla orkunotkun,
  • bann við hættulegustu eldvarnarefnunum,
  • lítinn hávaða og
  • að auvelt sé að uppfæra tölvuna til að auka endingu hennar.

Ég geri ráð fyrir að eitthvað af þessum svansmerktu fartölvum fáist hérlendis, án þess að ég hafi þó kynnt mér málið nýlega. Reyndar er ekki sjálfgefið að tiltekin tölva sé svansmerkt hér, þó að hún sé svansmerkt í Svíþjóð. Best er að spyrja um þetta í búðinni til að taka af allan vafa. Og ef viðkomandi vél er sögð vera svansmerkt, þá er rétt að líta eftir merkinu á tölvunni eða umbúðunum. Sjáist Svanurinn ekki þar var afgreiðslumaðurinn að skrökva.

Hægt er að sjá lista yfir allar svansmerktar tölvutegundir í gagnagrunni Svansins í Svíþjóð.

(Byggt á frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð í gær).

Morgunmaturinn er málið!

Í dag rakst ég á athyglisverða grein á vefnum Active.com, en þar er oft að finna punkta sem gagnast hlaupurum. Að þessu sinni snerist málið um mikilvægi þess að snæða góðan morgunverð, ekki bara fyrir hlaupara, heldur líka fyrir alla hina.

Hér á eftir ætla ég að tína til nokkra gagnlega punkta úr greininni, en hvet áhugafólk um næringu og líkamsrækt til að lesa hana alla.

Punktur 1:  Morgunverður er sú máltíð sem skapar meistarann.
Punktur 2:  Afsakanir á borð við að maður hafi ekki tíma fyrir morgunmat eru ekki bara afsakanir, heldur koma þær í veg fyrir að maður nái árangri.
Punktur 3:  Ef þú vilt léttast, skaltu skera niður kvöldmatinn en ekki morgunmatinn.
Punktur 4:  Hæfilegur morgunverður er 500-700 hitaeiningar. Þannig fæst lágmarksfóður fyrir hreyfingu dagsins um leið og dregið er úr löngun í sætindi síðari hluta dags.
Punktur 5:  Þeir sem léttast, léttast á nóttunni og eru tilbúnir í vel úti látinn morgunverð þegar þeir vakna.
Punktur 6:  Þeir sem fara út að hlaupa á morgnana ættu fyrst að fá sér hálfan morgunverð eða svo (a.m.k. 100-300 hitaeiningar) til að tryggja að þeir hlaupi á eldsneyti en ekki bara reyk (í frjálslegri þýðingu). Rannsókn á þessu sviði sýndi að þeir sem höfðu borðað morgunmat gátu tekið 137 mínútna æfingu, en aðeins 109 mín. á fastandi maga.

(Byggt á: Nancy Clark (2002): Breakfast: The Most Important Meal of An Athlete’s Day. http://www.active.com/nutrition/Articles/Breakfast__the_most_important_meal_of_an_athlete_s_day.htm. (Sótt 13. sept. 2010)).

Varasamir varalitir

Mér skilst að varalitir séu nauðsynjavara. En konum er vandi á höndum þegar þær velja sér varalit, því að flestir varalitir á markaðnum innihalda varasöm efni. Þetta kom fram í könnun  sem Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) og danska neytendablaðið TÆNK stóðu fyrir nýlega.

Í könnuninni sem um ræðir voru skoðaðar 24 tegundir af varalitum. Allir þessir varalitir innihéldu efni sem geta skaðað umhverfi eða heilsu, eða stóðust ekki kröfur um innihaldslýsingar. Ilmefni fundust í 15 tegundum, en þessi efni geta verið ofnæmisvaldandi. Fimm tegundir innihéldu svonefnda „UV-filtera“, þ.e.a.s. vörn gegn útfjólubláum geislum. Þar var í öllum tilvikum um að ræða efni sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans, auk þess að vera skaðleg umhverfinu. Fleira mætti nefna, sem ekki verður tínt til hér.

Það er sem sagt ekki auðvelt að velja sér varalit! En það fyrsta sem konur hljóta að gera þegar þær kaupa þessa vöru, er að spyrja um hugsanlega skaðsemi innihaldsefnanna. Kannski verða svörin ekki beysin til að byrja með, en ef enginn spyr hlýtur öllum að vera sama. Eftirspurn eftir heilsusamlegum vörum er nefnilega ekki til nema hún nái athygli þeirra sem sjá um framboðið!

Hægt er að lesa meira um könnun IMS og TÆNK í frétt á heimasíðu IMS 10. sept. sl. og í samantekt á niðurstöðunum 9. sept. sl.

Um tímann og heilsuna

Um daginn skrifaði ég svolítið um vanmetin tækifæri til líkamsræktar. Nú ætla ég að halda áfram á sömu braut og nefna tvö lítil dæmi þar sem menn hafa keypt sig undan snúningum fyrir talsvert fé, gjarnan í nafni tímasparnaðar, án þess að huga að því hvort nokkur tími sparist í raun þegar upp er staðið og án þess að velta því fyrir sér hvort meintur tímasparnaður hafi kannski neikvæð áhrif á heilsuna.

Stórvirkar sláttuvélar
Ég bý í raðhúsi með u.þ.b. 100 fermetra grasflöt. Á svoleiðis grasflöt er óþarfi að beita stórvirkum vinnuvélum við slátt. Samt veit ég til þess að fólk með álíka stórar grasflatir hafi keypt sér þungar bensínknúnar garðsláttuvélar í heyskapinn fyrir tugi þúsunda. Sjálfur sníkti ég lítið notaða handsláttuvél fyrir 10 árum, sem hefur dugað mér ágætlega síðan, eingöngu knúin vöðvaafli. Með þessu móti hef ég sparað mér töluverð fjárútlát í tækjum, varahlutum og eldsneyti. Hins vegar hef ég líklega ekki fengið neitt meiri líkamsrækt út úr slættinum en bensínsvélafólkið, því að vélarnar þeirra eru jú þyngri og umsýslan öll snúningasamari.

Bændur á torfæruhjólum
Fjórhjól og sexhjól eru til margra hluta nytsamleg í sveitinni. En mig rekur alveg í rogastans þegar ég sé unga og ófatlaða bændur mjakast um á þessum hjólum í þeim tilgangi einum að spara sér sporin stuttar leiðir. Ég veit jafnvel dæmi þess að farið sé á svona hjólum milli húss og bæjar til gegninga, þó að vegalengdin sé ekki meiri en svo sem 100 eða 200 metrar! Og ég hef líka séð kúasmala á svona hjólum í hægagangi á eftir kúnum, sem eru þó yfirleitt ekkert að flýta sér á röltinu.

Lokaorð

  1. Ef maður á tvo valkosti, þar sem annar er betri fyrir fjárhaginn, heilsuna og umhverfið en hinn, hvorn velur maður þá?
  2. “Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun”.

Fjallvegahlaupavertíð ársins lokið

Nú er ljóst að fjallvegahlaupavertíð ársins er lokið. Ætlunin var að leggja Skarðsheiðarveg og Síldarmannagötur að baki fyrir haustið, og jafnvel Trékyllisheiði líka, en tíminn fór einfaldlega í annað.

Afrakstur sumarsins var engu að síður yfir meðallagi, 6 fjallvegir hlaupnir, þ.e.a.s. Steinadalsheiði, Bitruháls, Gagnheiði, Víknaheiði/Húsavíkurheiði, Nesháls og Hjálmárdalsheiði. Um þetta allt er hægt að lesa á fjallvegahlaupasíðunni minni, www.fjallvegahlaup.is.

Ég er að sjálfsögðu byrjaður að hugleiða fjallvegahlaup sumarsins 2011. Það eina sem er nokkurn veginn ákveðið í því sambandi er að hlaupa Skarðsheiðarveginn í norðurátt einhvern tímann um miðjan júní. Býst við að taka einhvern seinnipart í það á virkum degi, t.d. miðvikudaginn 15. júní, enda helgar eflaust ásetnar af spennandi almenningshlaupum. Svo kemur sterklega til álita að endurtaka Þrístrending í svipuðu formi og í sumar, t.d. laugardaginn 18. júní. Býst annars við að ákveða eitthvað um þetta allt saman upp úr áramótum þegar hlaupadagskráin á hlaup.is er orðin nokkuð fullsköpuð.

Næstu vikur og mánuði ætla ég að föndra annað slagið eitthvað við fjallvegahlaupasíðuna. Annars vegar held ég áfram að fínpússa sögur af þeim hlaupum sem búin eru, og hins vegar skrifa ég væntanlega smátt og smátt lýsingar á fleiri óhlaupnum leiðum. Kannski set ég líka eitthvað fleira inn. Um daginn bjó ég t.d. til svolítinn lista yfir lengstu, hæstu og hröðustu leiðirnar, svona rétt til gamans. Svo þyrfti ég náttúrulega að fara að sýna þessar leiðir á korti. Helstu breytingar á síðunni verða eflaust tíundaðar jafnóðum hérna á blogginu.

Þessum línum fylgja bestu þakkir til þeirra sem slógust í för með mér á fjallvegahlaupunum í sumar eða hjálpuðu til með einum eða öðrum hætti. Minni líka á fjallvegahlaupapóstlistann, sem annað slagið fær nýjustu fréttir af fjallvegahlaupaverkefninu sendar í tölvupósti. Þeir sem vilja bætast á þann lista ættu endilega að hafa samband. Og svo þigg ég líka með þökkum allar ábendingar um áhugaverða fjallvegi og hvaðeina annað sem tengist þessu hugðarefni mínu.

Hlaupaleiðirnar eru missléttar og misþurrar. Hér er Pjetur St. Arason á hlaupum yfir Hjálmárdalsheiði 27. júní sl.

Tveir fyrir einn – er það góð hugmynd?

Stundum auglýsa verslanir sérstök tilboð undir yfirskriftinni „2 fyrir 1“ eða kannski „3 fyrir 2“. Þarna er manni sem sagt boðið að kaupa tvo hluti en greiða bara fyrir einn (eða þrjá og greiða fyrir tvo). Fljótt á litið er þarna um augljósan sparnað að ræða, en samt má velta því fyrir sér hvort þetta sé yfirleitt góð hugmynd, t.d. frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar (eða frá sjónarhóli komandi kynslóða ef við viljum frekar orða það þannig).

Svarið við spurningunni hér að framan er ekki einhlítt fremur en neitt annað. En í sumum tilvikum ýta tilboð um 2 fyrir 1 undir óþarfa eyðslu, sem hvorki er góð hugmynd fyrir eigin fjárhag né fyrir hagsmuni komandi kynslóða. Matvörur eru líklega augljósasta dæmið um þetta. Þar ýta tilboð af þessu tagi undir að maður kaupi fleiri einingar en maður þarf á að halda. Ef maður kaupir t.d. tvær einingar af einhverri matvöru á verði einnar, neytir annarrar strax og hendir hinni eftir nokkra daga þegar hún er komin fram yfir síðasta söludag, þá var hugmyndin ekki góð. Sparnaðurinn mistókst sem sagt – og í þokkabót hefur maður látið hafa sig út í að ýta undir óþarfa sóun.

Fyrir tveimur árum ákváðu forsvarsmenn dönsku verslunarkeðjunnar REMA að hætta með öll tilboð af þessu tagi. Með þessu vildu þeir leggja sitt af mörkum til að draga úr sóuninni. Á vefsíðu REMA er ákvörðunin skýrð í stuttu máli svona: „Þú veist hvernig þetta er. Þú ert úti í búð og ætlar eiginlega bara að kaupa einn pakka af kjöti. En með því að kaupa þrjá færðu allan þennan afslátt. Svo þú kaupir þrjá pakka. Og eftir nokkra daga ertu búinn að nota einn, sá næsti er enn í ísskápnum og þú verður að setja þann þriðja í frystikistuna. En þar er ekkert pláss, því að kistan er full af öllum ‘þriðju pökkunum’ sem þú varst áður búinn að kaupa. Og svo endar kjötið í ruslinu„.

Tilboð undir yfirskriftinni „2 fyrir 1“ eða kannski „3 fyrir 2“ geta sem sagt haft verulegar neikvæðar aukaverkanir.

(Þessi pistill er að miklu leyti byggður á upplýsingum á heimasíðu REMA 1000. Þaðan er myndin líka ættuð).