Heimildamyndin „Story of Stuff“ eða „Saga af dóti“ hefur vakið töluverða athygli í netheimum síðustu vikur og mánuði. Í myndinni er vakin athygli á því hversu mikil neikvæð áhrif ýmsar vörur sem við kaupum og notum geta haft á umhverfi og samfélag, án þess að við leiðum hugann að því. Mestur hluti þessara áhrifa kemur nefnilega fram áður en vörurnar rata alla leið til okkar.
Margt af því sem fram kemur í „Story of Stuff“ hljómar kunnuglega. Sumt af þessu hafa margir reynt að segja okkur áður, en við ekki skilið. Umhverfismál eru nefnilega stundum flókin, og þegar sérfræðingar reyna að útskýra þau, geta þau jafnvel orðið enn flóknara. Konan á bak við myndina „Story of Stuff“, Annie Leonard, er sjálf sérfræðingur í umhverfismálum og hefur unnið í þeim geira mikinn hluta ævinnar. Forsögu myndarinnar „Story of Stuff“ má rekja til þess þegar Annie reyndi sjálf án árangurs að útskýra eitthvað á þessu sviði á fundi eða ráðstefnu fyrir nokkrum árum. Þá varð henni ljóst að aðferðin var ekki rétt. Upp úr þessu fór hún að velta fyrir sér þeim möguleikum sem liggja í einföldum skýringarmyndum. Þetta þróaðist svo í átt að „Story of Stuff“, sem flytur sem sagt ekki nýjar fréttir, en gerir það á svo einfaldan og augljósan hátt að allir skilja!
„Story of Stuff“ er teiknimynd, sem minnir sem slík meira á Hugleik Dagsson en Walt Disney. Og í forgrunni myndarinnar stendur Annie Leonard í hlutverki sögumannsins, skýrmælt, spaugsöm og laus við málalengingar.
Ég hvet fólk eindregið til að fara inn á www.storyofstuff.org og horfa á myndina. Þar eru reyndar líka fleiri myndir sem Anna hefur gert, þ.e.a.s. „Story of Cosmetics“ („Saga af snyrtivörum“), „Story of Bottled Water“ („Saga af flöskuvatni“) og „Story of Cap and Trade“ („Saga af verslun með losunarheimildir“). Og þessa dagana er hún að vinna að næstu mynd, „Story of Electronics“ („Saga af raftækjum“).
Bendi líka á bloggfærslu sem ég skrifaði um „Story of Cosmetics“ 19. ágúst sl og á Fésbókarsíðu „Story of Stuff“.
Filed under: Umhverfismál | Leave a comment »