• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • september 2010
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  2627282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Fjallvegahlaupavertíð ársins lokið

Nú er ljóst að fjallvegahlaupavertíð ársins er lokið. Ætlunin var að leggja Skarðsheiðarveg og Síldarmannagötur að baki fyrir haustið, og jafnvel Trékyllisheiði líka, en tíminn fór einfaldlega í annað.

Afrakstur sumarsins var engu að síður yfir meðallagi, 6 fjallvegir hlaupnir, þ.e.a.s. Steinadalsheiði, Bitruháls, Gagnheiði, Víknaheiði/Húsavíkurheiði, Nesháls og Hjálmárdalsheiði. Um þetta allt er hægt að lesa á fjallvegahlaupasíðunni minni, www.fjallvegahlaup.is.

Ég er að sjálfsögðu byrjaður að hugleiða fjallvegahlaup sumarsins 2011. Það eina sem er nokkurn veginn ákveðið í því sambandi er að hlaupa Skarðsheiðarveginn í norðurátt einhvern tímann um miðjan júní. Býst við að taka einhvern seinnipart í það á virkum degi, t.d. miðvikudaginn 15. júní, enda helgar eflaust ásetnar af spennandi almenningshlaupum. Svo kemur sterklega til álita að endurtaka Þrístrending í svipuðu formi og í sumar, t.d. laugardaginn 18. júní. Býst annars við að ákveða eitthvað um þetta allt saman upp úr áramótum þegar hlaupadagskráin á hlaup.is er orðin nokkuð fullsköpuð.

Næstu vikur og mánuði ætla ég að föndra annað slagið eitthvað við fjallvegahlaupasíðuna. Annars vegar held ég áfram að fínpússa sögur af þeim hlaupum sem búin eru, og hins vegar skrifa ég væntanlega smátt og smátt lýsingar á fleiri óhlaupnum leiðum. Kannski set ég líka eitthvað fleira inn. Um daginn bjó ég t.d. til svolítinn lista yfir lengstu, hæstu og hröðustu leiðirnar, svona rétt til gamans. Svo þyrfti ég náttúrulega að fara að sýna þessar leiðir á korti. Helstu breytingar á síðunni verða eflaust tíundaðar jafnóðum hérna á blogginu.

Þessum línum fylgja bestu þakkir til þeirra sem slógust í för með mér á fjallvegahlaupunum í sumar eða hjálpuðu til með einum eða öðrum hætti. Minni líka á fjallvegahlaupapóstlistann, sem annað slagið fær nýjustu fréttir af fjallvegahlaupaverkefninu sendar í tölvupósti. Þeir sem vilja bætast á þann lista ættu endilega að hafa samband. Og svo þigg ég líka með þökkum allar ábendingar um áhugaverða fjallvegi og hvaðeina annað sem tengist þessu hugðarefni mínu.

Hlaupaleiðirnar eru missléttar og misþurrar. Hér er Pjetur St. Arason á hlaupum yfir Hjálmárdalsheiði 27. júní sl.