Stundum fallast manni hendur þegar talið berst að vandamálum þróunarríkjanna. En sum þessara vandamála er í sjálfu sér auðvelt að leysa. Til þess þarf kannski bara að breyta því kerfi sem fyrir er, ekki í þróunarlöndunum, heldur einmitt hérna vesturfrá.
Lýsing í híbýlum fólks er ágætt dæmi um þetta. Eins og staðan er í dag þarf um 1,7 milljarður manna, þ.e. um fjórðungar jarðarbúa, að brenna jarðefnaeldsneyti inni á heimilum sínum til að lýsa þau upp. Þar er þá oftast um að ræða steinolíulampa, ekki ósvipaða þeim sem mín kynslóð og þaðan af eldra fólk kynntist töluvert á uppvaxtarárum sínum. Af þessum sökum losna árlega um 190 milljónir tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið, eða sem svarar til útblásturs frá 30 milljón bílum! Samanlagður árlegur kostnaður vegna þessarar lýsingar er u.þ.b. 4.600 milljarðar íslenskra króna, sem er um 20% af öllum kostnaði við lýsingu í heiminum. Samt er þetta bara um 0,1% af lýsingunni! Þetta er sem sagt gríðarlega óhagkvæm lýsing – og í þokkabót verulega heilsuspillandi. Í bloggfærslu sem ég skrifaði 2. febrúar sl. kom t.d. fram að varanleg nálægð við steinolíulampa í þröngum húsakynnum væri talin álíka heilsuspillandi og það að reykja tvo sígarettupakka á dag. Þessir lampar valda líka ótrúlegum fjölda dauðsfalla á ári hverju.
Ef hægt væri að skipta öllum þessum steinolíulömpum út fyrir ljósdíóður (LED-ljós) sem fengju straum úr sólarrafhlöðum, myndi ávinningurinn verða gríðarlegur, hvort sem hann væri mældur í rekstrarkostnaði (sem vel að merkja fellur á viðkomandi heimili, sem eru alveg nógu fátæk fyrir), losun gróðurhúsalofttegunda eða bættri heilsu. Hægt væri að ýta undir þessa þróun með því að rýmka reglur loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna um svokölluð CDM-verkefni (e: Clean Development Mechanism), en þau gera iðnríkjum kleift að telja samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna verkefna sem þau fjármagna í þróunarlöndum sér til tekna í losunarbókhaldi skv. Kyotobókuninni. Hingað til hefur aðeins verið hægt að reikna stór verkefni inn í CDM-pakkann, m.a. vegna þess hversu flókið er að hafa eftirlit með raunverulegum árangri. Í 5. tækniskýrslu Luminaverkefnisins, sem unnin var fyrir CDM-smáverkefnanefnd Loftslagssáttmálans er bent á leiðir til að rýmka CDM-reglurnar á þann hátt að þær geti náð til fjölmargra smáverkefna á borð við endurnýjun lýsingar á heimilum í þróunarlöndunum. Verði þessu hrint í framkvæmd verður ávinningurinn margfaldur, því að auk þess sem áður hefur verið nefnt, myndi þetta flýta fyrir þróun díóðuljósa og rafhlaðna. Og betri lýsing og rýmri fjárhagur heimila í þróunarlöndunum myndi líka hafa jákvæðar aukaverkanir, m.a. með því að ýta undir menntun.
Þarna er sem sagt allt að vinna. Vandamálið liggur ekki í skorti á hráefnum, fjármagni eða þekkingu, heldur bara í innviðum kerfisins. Sama gildir um býsna mörg önnur vandamál! Og bara svona til að undirstrika tæknilega yfirburði díóðuljóssins fram yfir steinolíulampann, má nefna að steinolíulampinn þarf svo sem 200 wött þegar díóðuljósinu dugar 1 watt – til þess að gefa frá sér 5 sinnum meiri birtu. Díóðuljósið nýtir orkuna sem sagt 1000 sinnum betur. Hversu erfitt er þá að velja – ef maður hefur val?
(Þessi bloggfærsla er eins og margar fleiri innblásin af skrifum Hans Nilsson ráðgjafa hjá Fourfact í Svíþjóð. Myndin með færsluna var hins vegar tekin að láni úr fyrrnefndri Luminaskýrslu).
Filed under: Sjálfbær þróun, Umhverfismál | Leave a comment »