• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • september 2010
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    2627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Varasamir varalitir

Mér skilst að varalitir séu nauðsynjavara. En konum er vandi á höndum þegar þær velja sér varalit, því að flestir varalitir á markaðnum innihalda varasöm efni. Þetta kom fram í könnun  sem Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) og danska neytendablaðið TÆNK stóðu fyrir nýlega.

Í könnuninni sem um ræðir voru skoðaðar 24 tegundir af varalitum. Allir þessir varalitir innihéldu efni sem geta skaðað umhverfi eða heilsu, eða stóðust ekki kröfur um innihaldslýsingar. Ilmefni fundust í 15 tegundum, en þessi efni geta verið ofnæmisvaldandi. Fimm tegundir innihéldu svonefnda „UV-filtera“, þ.e.a.s. vörn gegn útfjólubláum geislum. Þar var í öllum tilvikum um að ræða efni sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans, auk þess að vera skaðleg umhverfinu. Fleira mætti nefna, sem ekki verður tínt til hér.

Það er sem sagt ekki auðvelt að velja sér varalit! En það fyrsta sem konur hljóta að gera þegar þær kaupa þessa vöru, er að spyrja um hugsanlega skaðsemi innihaldsefnanna. Kannski verða svörin ekki beysin til að byrja með, en ef enginn spyr hlýtur öllum að vera sama. Eftirspurn eftir heilsusamlegum vörum er nefnilega ekki til nema hún nái athygli þeirra sem sjá um framboðið!

Hægt er að lesa meira um könnun IMS og TÆNK í frétt á heimasíðu IMS 10. sept. sl. og í samantekt á niðurstöðunum 9. sept. sl.

Um tímann og heilsuna

Um daginn skrifaði ég svolítið um vanmetin tækifæri til líkamsræktar. Nú ætla ég að halda áfram á sömu braut og nefna tvö lítil dæmi þar sem menn hafa keypt sig undan snúningum fyrir talsvert fé, gjarnan í nafni tímasparnaðar, án þess að huga að því hvort nokkur tími sparist í raun þegar upp er staðið og án þess að velta því fyrir sér hvort meintur tímasparnaður hafi kannski neikvæð áhrif á heilsuna.

Stórvirkar sláttuvélar
Ég bý í raðhúsi með u.þ.b. 100 fermetra grasflöt. Á svoleiðis grasflöt er óþarfi að beita stórvirkum vinnuvélum við slátt. Samt veit ég til þess að fólk með álíka stórar grasflatir hafi keypt sér þungar bensínknúnar garðsláttuvélar í heyskapinn fyrir tugi þúsunda. Sjálfur sníkti ég lítið notaða handsláttuvél fyrir 10 árum, sem hefur dugað mér ágætlega síðan, eingöngu knúin vöðvaafli. Með þessu móti hef ég sparað mér töluverð fjárútlát í tækjum, varahlutum og eldsneyti. Hins vegar hef ég líklega ekki fengið neitt meiri líkamsrækt út úr slættinum en bensínsvélafólkið, því að vélarnar þeirra eru jú þyngri og umsýslan öll snúningasamari.

Bændur á torfæruhjólum
Fjórhjól og sexhjól eru til margra hluta nytsamleg í sveitinni. En mig rekur alveg í rogastans þegar ég sé unga og ófatlaða bændur mjakast um á þessum hjólum í þeim tilgangi einum að spara sér sporin stuttar leiðir. Ég veit jafnvel dæmi þess að farið sé á svona hjólum milli húss og bæjar til gegninga, þó að vegalengdin sé ekki meiri en svo sem 100 eða 200 metrar! Og ég hef líka séð kúasmala á svona hjólum í hægagangi á eftir kúnum, sem eru þó yfirleitt ekkert að flýta sér á röltinu.

Lokaorð

  1. Ef maður á tvo valkosti, þar sem annar er betri fyrir fjárhaginn, heilsuna og umhverfið en hinn, hvorn velur maður þá?
  2. “Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun”.