• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • nóvember 2010
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Svör til 4×4 um almannarétt

Í dag barst frambjóðendum til Stjórnlagaþings bréf frá Ferðafrelsisnefnd, sem er vinnuhópur á vegum Ferðaklúbbsins 4×4, Skotvís, Skotreyn, Slóðavina, Jeppavina og fleiri aðila sem tengjast ferðalögum og útiveru. Í bréfinu er vísað til ákvæða náttúruverndarlaga nr. 44/1999 um almannarétt, „þ.e. rétt almennings til ferðalaga og nýtingar“, eins og það er orðað í bréfinu. Spurt er hvort frambjóðendur telji rétt að slík ákvæði séu bundin í stjórnarskrá og hvort þeir muni beita sér fyrir slíku. Svar mitt til Ferðafrelsisnefndar fer hér á eftir:

******************************************
Gott kvöld!

Hér að neðan er að finna svör mín við spurningum ykkar um almannaréttinn. Áður en lengra er haldið er þó rétt að fram komi, að ákvæði III. kafla laga um náttúruvernd nr. 44/1999 fjalla ekki um „rétt almennings til ferðalaga og nýtingar“ eins og það er orðað í bréfi ykkar, heldur snýst almannarétturinn skv. III. kafla fyrst og fremst um rétt almennings til að fara um landið og dvelja þar í lögmætum tilgangi. Á þessu tvennu er merkingarmunur. Sérstaklega er ástæða til að undirstrika að almannaréttur í skilningi laganna felur ekki í sér rétt til nýtingar eins og gefið er til kynna í bréfi ykkar, þ.e.a.s. umfram það sem getið er um í greinum 24-27 og lýtur að tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, fjörugróðurs o.fl.

Í samræmi við þetta eru svör mín eftirfarandi:

1.    Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?  
Mér finnst rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt, þ.e. rétt almennings til að fara um landið og dvelja þar í lögmætum tilgangi. Slíkt ákvæði felur ekki í sér rétt til nýtingar.

2.     Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?  
Ég mun beita mér fyrir því að ákvæði um almannarétt, þ.e. rétt almennings til að fara um landið og dvelja þar í lögmætum tilgangi, verði sett í stjórnarskrá. Slíkt ákvæði felur ekki í sér rétt til nýtingar.

Rétt er að undirstrika, að almannaréttur skv. framanskráðu er háður ýmsum takmörkunum, sbr. ákvæði III. kafla laga um náttúruvernd nr. 44/1999 . Almannarétturinn felur þannig ekki sjálfkrafa í sér heimild til umferðar vélknúinna ökutækja.

Með bestu kveðjum,

Stefán Gíslason,
frambjóðandi nr.
2072
******************************************