• Heimsóknir

  • 119.040 hits
 • nóvember 2010
  S M F V F F S
   123456
  78910111213
  14151617181920
  21222324252627
  282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Ágætis byrjun á góðum kjörseðli

Í dag setti Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið upplýsingar um frambjóðendur til Stjórnlagaþings inn á vefinn kosning.is. Undir hnappnum „Kynning á frambjóðendum“ er hver frambjóðandi kynntur á sérsíðu með mynd og þar eru birtar tengingar á aðrar rafrænar kynningarsíður, hafi þess verið óskað. Þá kemur fram fjögurra tölustafa auðkennistalan sem úthlutað var af landskjörstjórn (t.d. talan 2072).

Á vefnum er einnig að finna hjálparkjörseðil þar sem kjósendur geta raðað þeim frambjóðendum sem þeir hafa áhuga á að kjósa, prentað seðilinn út og tekið með sér á kjörstað. Bein slóð á þetta allt saman er: http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur. Og til að auðvelda verkið er ég búinn að setja mynd af ágætri byrjun á góðum kjörseðli hér fyrir neðan.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er nú unniðað frágangi prentaðs kynningarefnis með sömu upplýsingum um frambjóðendur og fram koma á vefnum, auk almennra upplýsinga um kosningarnar og framkvæmd þeirra. Prentvinnslan er rétt um það bil að hefjast þegar þetta er ritað, og verður blaðinu dreift inn á hvert heimili í landinu þriðjudaginn 16. nóvember nk. ásamt kynningarkjörseðlum, merktum hverjum kjósanda á nafn.

Ég hvet alla til að kynna sér kosningavefinn gaumgæfilega, æfa sig í að fylla út kjörseðilinn, taka sérstaklega vel eftir frambjóðanda nr. 2072 og líta við á Facebook síðu viðkomandi. 🙂

Orkusparnaður eflir hagkerfið

Ég hef stundum heyrt því haldið fram að orkusparnaður á heimilum og í fyrirtækjum sé neikvæður fyrir hagkerfið, vegna þess að umsvifin minnki sjálfkrafa þegar minna er keypt af orku. Rannsóknir benda hins vegar einmitt til hins gagnstæða, þ.e. að orkusparnaður sé atvinnuskapandi og til þess fallinn að auka umsvif í hagkerfinu!

Niðurstöður rannsóknanna sem ég vísa hér til voru birtar í árslok 2007 og voru hluti af mun stærri rannsóknarpakka Evrópusambandsins, þar sem skoðuð eru tengsl umhverfis og hagkerfis. Þar kemur m.a. fram að bætt orkunýting, t.d. 10% orkusparnaður framleiðslufyrirtækja, myndi auka veltu og skapa fjöldann allan af störfum, einfaldlega vegna þess að orkugeirinn er langt frá því að vera mannaflsfrekur. Það skapast sem sagt mun fleiri störf í framleiðslugeiranum heldur en þau sem tapast í orkugeiranum.

Vildi bara segja ykkur frá þessu til að minna á að á hverju máli eru jafnan a.m.k. tvær hliðar. Samdrætti í einum hluta hagkerfisins fylgja jafnan tækifæri í öðrum hlutum þess. Lífið er nefnilega ekki stærðfræðijafna með einni óþekktri stærð, heldur jöfnuhneppi þar sem hver breyting hefur áhrif á margar aðrar stærðir, eða með öðrum orðum raunveruleiki þar sem samhengið milli orsakar og afleiðingar liggur alls ekki í augum uppi, eins og ýmsir „miðaldra hvítir karlmenn“ freistast þó gjarnan til að halda fram.

(Sjá: GHK Consulting et.al (2007): Links between the environment, economy and jobs. DG Environment, ESB).