• Heimsóknir

  • 118.086 hits
 • desember 2010
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Að kosningum loknum

Í gær kom í ljós að ég sest ekki á Stjórnlagaþing á útmánuðum. Var reyndar frekar nálægt því að ná kjöri, þar sem ég var sleginn út í 508. lotu af 509, ef svo má að orði komast. Varð sem sagt í 27. sæti í kosningunni, en það komust jú bara 25 inn.

Þegar menn tapa í kosningum gildir almennt sú regla að þeir hinir sömu snúa tapinu upp í sigur í útskýringum sínum eftir kosningar, í það minnsta varnarsigur. Ég var náttúrulega ekkert í vörn, heldur þvert á móti í sókn allan tímann, þannig að ég get engan veginn talað um varnarsigur í þessu sambandi. Hins vegar var ég svo heppinn að komast yfir 850 bls. pdf-skjal Landskjörstjórnar, og þar fann ég einmitt það sem mig vantaði til að geta lýst yfir sigri: Ég fékk 689 atkvæði í fyrsta sæti og varð nr. 14 af öllum frambjóðendunum hvað það varðar.

Þegar menn ná svipaðri útkomu í kosningum og hér hefur verið lýst, gildir almennt sú regla að þeir hinir sömu benda á alvarlega ágalla á kosningakerfinu. Kerfið hafi beinlínis, með ósanngjörnum hætti, komið í veg fyrir að þeir næðu kjöri. Ég ætla hins vegar að brjóta þessa reglu. Því meira sem ég velti þessu kerfi fyrir mér, þeim mun ánægðari verð ég nefnilega með það! Um þetta gæti ég haft mörg orð, en læt nægja að benda á að í þessu kerfi getur maður óhikað valið lítt þekktan frambjóðanda, þótt mann gruni að viðkomandi eigi litla möguleika á að ná kjöri. Reynist grunurinn réttur fer atkvæðið ekki til spillis, heldur gengur óskipt til næsta manns á listanum.

Nú er einu tímabili lífs mín lokið – og annað tekur við. Viðfangsefnin eru næg, og reynslan úr þessum kosningaundirbúningi mun nýtast vel í framhaldinu þegar búið er að hræra henni saman við alla hina reynsluna sem hefur safnast í áranna rás. En upp úr þessu öllu stendur þó þakklæti fyrir allan þann stuðning og velvilja sem ég fann fyrir í kosningaundirbúningnum. Ég vissi alveg að ég ætti góða að, en síðustu vikur hefur það virkilega rifjast upp fyrir mér hvers virði öll sú vinátta og kunningsskapur er! Sú vitund á eftir að reynast mér drjúg í næstu verkum!

Annars var ég að átta mig á því að ég er svona álíka góður í að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings og að hlaupa maraþon. Í gær var ég sem sagt í 27. sæti af 522 keppendum, en í 14. sæti ef aðeins er litið á efstu línur kjörseðlanna. Í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar var ég í 36. sæti af 565 keppendum, en í 16. sæti ef aðeins er litið á Íslendingana.

Lífið er langhlaup. Mér finnst gaman að hlaupa.
🙂