• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • nóvember 2010
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Með birtuna í hönd

Ég er einn af þeim sem bíða í ofvæni eftir úrslitum kosninganna til Stjórnlagaþings. Tja, reyndar er ofmælt að tala um ofvæni í þessu sambandi, því að ég er alveg rólegur yfir þessu. Ég fæ nefnilega engu um þetta breytt héðan af.

Eitthvað er fólk að ræða og blogga um lélega kosningaþátttöku. Vissulega hefði mér fundist gaman að fleiri tækju þátt, en samt finnst mér þessi kosningaþátttaka alls ekki léleg. Þvert á móti finnst mér hún góð! Þetta var góð kosningaþátttaka vegna þess að þeir sem vildu kjósa gerðu það – og þeir sem vildu það ekki gerðu það ekki. Þannig á það einmitt að vera. Reyndar vildu einhverjir kjósa en fengu það ekki. Það er verra, en sem betur fer bara undantekningartilvik.

Mér finnst alveg marklaust og órökrétt að bera þátttökuna í þessum kosningum saman við einhverjar aðrar kosningar á Íslandi, hvort sem það eru Alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar eða Ísbjargarkosningar. Kosningar eins og þær sem haldnar voru sl. laugardag hafa nefnilega aldrei verið haldnar áður, hvorki á Íslandi né annars staðar! Næst þegar svona kosningar verða haldnar getum við borið þær saman við þessar, en þangað til er allur samanburður næsta gangslaus.

Og eitthvað er fólk líka að ræða og blogga um það hvort kosningaþátttakan styrki eða veiki Stjórnlagaþingið. Þetta eru óþarfar vangaveltur. Þjóðin er búin að kjósa sér Stjórnlagaþing, sem hefur fullt umboð þjóðarinnar til að vinna það verk sem því er falið. Fullt umboð segi ég, vegna þess að þeir sem vildu kjósa gerðu það. Flóknara er það nú ekki.

Það verður fróðlegt að sjá hverjir muni sitja á umræddu þingi. Ég vil gjarnan vera þar á meðal, en hvernig sem allt veltist er ég glaður og bjartsýnn. Þetta verður þing þjóðarinnar. Og þetta þing getur tekið til óspilltra málanna í febrúar, með birtuna í hönd!

Amma, varst þú breytingin?

Framtíðin skiptir máli!

Á morgun verður kosið til Stjórnlagaþings sem fær það mikla verkefni að leggja drög að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Hvernig sem allt veltist verður þessa þings getið í sögubókum framtíðarinnar, í minnsta lagi vegna þess að það á sér enga hliðstæðu í sögunni, og vonandi einnig vegna þess að það hafi, eftir á að hyggja, markað upphaf nýrra tíma til farsældar fyrir íslensku þjóðina.

Hverju ætlum við að svara þegar barnabörnin okkar spyrja „Afi, kaust þú einhvern á Stjórnlagaþingið“, eða „Amma, varst þú breytingin“? Ætlum við þá að svara með stolti „Nei, ég var sko í fýlu heima“?

Ég tek undir orð Gandhis, sem sagði „Við verðum að vera breytingin sem við viljum sjá“! Í hverju atkvæði er fólgin þáttur kjósandans í að móta eigin framtíð. Ég skora á alla að taka þátt í að móta þessa framtíð, í stað þess að sitja hjá og láta öðrum það eftir. Mætum öll á kjörstað á morgun!!!

Inn á þingið

Kosningabaráttan tekur á sig ýmsar myndir, eins og hér má sjá: 🙂

Síðan um hrun er ég hrjáður af stjórnmálakveisu.
Ég hlusta á fréttir um vesen og endaleysu.
Titrandi sit ég og tárvotur stari í askinn
– og traustið á kerfinu alveg farið í vaskinn.

En þetta lagast – sama hvað þið syngið.
Ég segi það og skrifa: Kjósum okkur þinglið!
Ég ætla að hætta að væla og velja mér fólk

inn á þingið okkar ……

Ég vil sjálfbærni, jöfnuð og jákvæðni.
Ég vil jólastemmingu og áræðni.
Ég vil þjóðina alla á þing,
því ég elska hvern Íslending.

Ég vil kjósa bæði karlfausk og smápíu.
Ég vil kjósa, en mér duga ekki 30.
Ég vil fá miklu fleiri en svo.
Ég vil 2072

inn á þingið okkar ……

Það eina sem ég veit

Sauðárkrókur, Bíldudalur, Borgarnes og Hlaðir,
Berufjörður, Vestmannaeyjar, Sandgerði og Egilsstaðir,
Grafarvogur, Hólmavík og Hrísey:
Hér býr ekki nokkur maður sem að kýs ei
á Stjórnlagaþingið.
Svo man ég ekki meir.
Það eina sem ég veit – er 2072.
🙂

Við skrifum heimssöguna!

Á laugardaginn verður kosið til Stjórnlagaþings eins og flestir vita. Þetta þing verður ekki bara einstakt í sögu Íslands, heldur í heimssögunni! Aldrei áður hefur heil þjóð sameinast um að kjósa einstaklinga úr sínum hópi í lýðræðislegum kosningum til að skrifa nýja stjórnarskrá!

Ég efast um að við gerum okkur grein fyrir því hversu einstaka viðburði við erum að upplifa þessa dagana og eigum eftir að upplifa allra næstu mánuði. Kannski þurfa erlendir vinir okkar að segja okkur það, hverju um sig, til að við skiljum hvað er í gangi. Að utan hafa heyrst setningar á borð við: „Er þetta virkilega satt?“, „Geta virkilega allir boðið sig fram?“, „Færð þú virkilega að taka þátt í þessu?“, já eða „Dj…… öfunda ég þig maður“, „What an opportunity!!!“.

Við ráðum því alveg sjálf hvort við tökum þátt í því að skrifa heimssöguna. Eina leiðin til að gera það ekki er að sitja heima á laugardaginn!

Kveðið um 2072

Margt rekur á fjörur manns í kosningabaráttunni! 🙂

Hann á þolgæði í þykkum stöflum.
Hann er sterkur, en mannlega meir.
Hann er sérlega sjálfbær á köflum.
Hann er 2072.

Hann er yfirleitt geislandi glaður.
Hann er nærgætinn norðanþeyr.
Hann er týpískur maraþonmaður.
Hann er 2072.

Hann er grænn eins og lauf á lyngi.
Hann er seigur sem sef eða reyr.
Hann er Stefán á Stjórnlagaþingi.
Hann er 2072.

Nöldrað við eldhúsborðið

Hvar er fjarstýringin Þuríður?

Mannskepnan er skrýtin, alla vega þessi íslenska. Í hennar hópi er nefnilega fólk sem hefur setið mánuðum saman við eldhúsborðið sitt og fjargviðrast yfir því hvað allir séu vitlausir, sérstaklega þessir stjórnmálamenn, þingmennirnir og það pakk allt saman. Þetta hugsi ekki um neitt annað en að skara eld að eigin köku. Nú sé barasta komið að því að fólkið taki þetta í sínar hendur!

Svo gerist það einn góðan veðurdag að fólkinu er fært tækifæri upp í þessar sömu eigin hendur. Fólkið fær sem sagt að velja fulltrúa til að skrifa nýja stjórnarskrá, lýsingu á grunngildum þjóðarinnar, grunn að stjórnun ríkisins, ramma fyrir alla löggjöf. Hljóta þá ekki allir að gleðjast og þyrpast út til að taka þátt í uppbyggingunni? Loksins!

Jú, flestir taka fagnandi því einstaka tækifæri sem nú býðst. En samt eru þeir til sem halda áfram að fjargviðrast við eldhúsborðið sitt, finna stjórnlagaþinginu allt til foráttu, fyrirkomulagið sé fáranlegt og óskiljanlegt, þetta kosti allt of mikið, ekkert komi út úr því nema eitthvert rugl, enda verði örugglega engir kosnir á þingið nema vitleysingar sem hugsi ekki um neitt annað en að skara eld að eigin köku.

Ekkert er algott. En væri ekki samt ráð að grípa tækifærið sem nú gefst til að hafa áhrif, í stað þess að láta vitleysingunum það eftir!? Neikvæðni og nöldur hafa aldrei fært okkur nein lífsgæði! Það eina sem neikvæðnin og nöldrið skila er meiri vanlíðan þeim til handa sem þá iðju stunda. Hinir, þ.e.a.s. hinn glaði meirihluti þjóðarinnar, halda hins vegar hnarreistir áfram för sinni til móts við áskoranir framtíðarinnar, framtíðarinnar sem þeir einir fá að móta!

PS: Er það ekki einmitt þegar vitleysingunum tekur að fjölga í kringum mann sem tími er kominn til að líta í eigin barm?
🙂

Sjómenn án kosningaréttar

Í gær var sagt frá því á vef Bæjarins besta á Ísafirði, að nokkur fjöldi sjómanna geti ekki neytt kosningaréttar síns í kosningum til Stjórnlagaþings á laugardaginn, þar sem þeir voru lagðir af stað í veiðiferð þegar utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst og koma ekki í land aftur fyrr en eftir kosningar. Sjálfsagt er ekkert við þessu að gera héðan af, en þetta er samt alveg óásættanleg staða. Kosningarétturinn er jú hornsteinn lýðræðisins, ekki satt?

Einn frambjóðendanna til Stjórnlagaþings, Eyþór Jóvinsson arkitektúrnemi á Flateyri, er í hópi sjómannanna sem kerfið sviptir kosningarétti með þeim hætti sem hér er lýst. Hann fór á sjóinn 29. október sl., en utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst 10. nóv. Veiðiferðinni lýkur á sunnudaginn, degi eftir kosningar.

Í 48. og 49. grein laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis eru ákvæði um utankjörfundaratkvæðagreiðslur á skipum, en þessi lög gilda einnig um slíkar atkvæðagreiðslur vegna kosninga til Stjórnlagaþings eftir því sem við á. Í lögunum er gert ráð fyrir að skipstjóri fái afhent utankjörfundarkjörgögn áður en veiðiferð hefst, þ.e. í þeim tilvikum þar sem sýnt er að veiðiferðin standi framyfir kjördag. Í því tilviki sem hér um ræðir var þetta ekki hægt, þar sem kjörgögnin voru ekki tilbúin þegar veiðiferðin hófst. Hins vegar var ljóst hverjir yrðu í framboði og hvernig kosningu skyldi háttað.

Nú hljóta að vakna þrjár spurningar.

  1. Hófst utankjörfundaratkvæðagreiðslan of seint?
  2. Er kjördagur of snemma?
  3. Er kerfið of ósveigjanlegt?

Svarið við fyrstu spurningunni er nei, því að umrædd atkvæðagreiðsla hófst 17 dögum fyrir kjördag eins og lög gera ráð fyrir. Svarið við spurningu nr. 2 er líka nei, því að kjördagur er 17 dögum eftir að utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst eins og lög gera ráð fyrir. Svarið við þriðju spurningunni er já – og er skrifað á milli línanna í hinum svörunum.

Það getur barasta ekki verið að kerfið þurfi að vera svo ósveigjanlegt að ekki sé hægt að tryggja sjómönnum kosningarétt í tilviki sem þessu! Það er vissulega frekar mikið vesen að leita uppi með þyrlu öll þau skip sem um ræðir, afhenda þannig kjörgögn og sækja þau aftur. Auk þess myndi þetta hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið. Hins vegar hlýtur að vera hægt að byggja inn í kerfið sveigjanleika sem gerir rafræna atkvæðagreiðslu mögulega þar sem svona stendur á. Ég veit svo sem ekkert um tæknileg vandamál í þessu sambandi, en þau hlýtur að vera hægt að leysa. Það eru kerfislægu vandamálin sem eru erfiðari viðfangs. Og kerfið er jú ekki skapað af æðri máttarvöldum. Kerfið er mannanna verk, og þess vegna geta mennirnir líka breytt því. Eða er kerfið kannski einhvers konar Frankensteinskrímsli sem lifir svo sjálfstæðu lífi að menn fái ekki rönd við reist?

Lýðræðið þarf að vera fyrir alla, ekki bara okkur landkrabbana!

Stjórnarskráin og kirkjan

Kirkjan í Bæ á Rauðasandi

Fyrir nokkru fór Biskupsstofa þess á leit við frambjóðendur til Stjórnlagaþings að þeir gerðu í stuttu máli grein fyrir afstöðu sinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum“. Spurt var hvort frambjóðendur teldu þörf á að breyta þessari grein, og ef svo væri, hvernig. Þá var spurt um afstöðu frambjóðenda til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju.

Svör mín við þessum spurningum fara hér á eftir, en þau má einnig lesa á vef Þjóðkirkjunnar, ásamt með svörum annarra frambjóðenda.

Spurning:  Telur þú þörf á að breyta þessari grein (62. gr.)?
Svar:  Já

Spurning:  Ef svo er hvernig?
Svar:  Ég tel rétt að fella 62. greinina úr stjórnarskránni. Fyrir því eru einkum tvær ástæður: Annars vegar tel ég að ákveða eigi samband ríkis og kirkju í lögum, en ekki í stjórnarskrá. Í stjórnarskrá ætti hins vegar að tiltaka helstu gildi sem þjóðin hefur í heiðri og byggir tilveru sína á. Í öðru lagi er núverandi orðalag umræddrar greinar órökrétt, þar sem fram kemur að henni megi breyta með lögum. Ákvæði sem breyta má með lögum eiga ekki heima í stjórnarskrá.

Spurning:  Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Svar:  Samband ríkis og kirkju er margslungnara mál en svo að því verði gerð skil í stuttu svari, (sjá t.d. grein Arnfríðar Guðmundsdóttur á DV-vefnum (http://www.dv.is/stjornlagathing/arnfridur-gudmundsdottir/grein/663)). Auk heldur tel ég Stjórnlagaþing ekki þurfa að taka afstöðu í þessu, sbr. svar mitt við fyrri spurningu. Hins vegar voru skilaboð nýafstaðins Þjóðfundar skýr hvað þetta varðar, þ.e. að stuðlað skyldi að aðskilnaði ríkis og trúfélaga. Stjórnlagaþinginu ber að taka mið af niðurstöðum Þjóðfundar, en sem fyrr segir tel ég liggja beinast við að fella 62. grein niður og láta ríkisvaldinu og kirkjunni eftir að þróa samband sitt til farsældar fyrir báða aðila.

Umhverfi og sjálfbær þróun í stjórnarskrá

Helsta ástæða þess að ég gef kost á mér til Stjórnlagaþings er umhyggja mín fyrir íslenskri náttúru og komandi kynslóðum. Ég vil sem sagt að hagsmuna íslenskrar náttúru og komandi kynslóða verði verði vel gætt í nýrri stjórnarskrá í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þessi áhersla mín felur m.a. í sér, að í stjórnarskránni verði kveðið skýrt að orði um að náttúruauðlindir Íslands séu óframseljanleg sameign þjóðarinnar. Þar þarf einnig að koma fram að sjálfbær þróun sé leiðarljós í stjórnun landsins og ákvarðanatöku.

Staðan í dag
Í núverandi stjórnarskrá er ekki fjallað um íslenska náttúru eða sjálfbæra þróun, enda var grunnurinn að stjórnarskránni lagður fyrir margt löngu. Hins vegar er víða að finna slík ákvæði í stjórnarskrám annarra landa, bæði í Evrópu og í öðrum heimsálfum. Meginlínan í þeim ákvæðum er annars vegar að fólkið í viðkomandi landi eigi rétt á að lifa í heilbrigðu umhverfi og hins vegar að þessu sama fólki og stjórnvöldum beri að vernda náttúruna með hagsmuni komandi kynslóða í huga.

Franski umhverfissáttmálinn
Franska stjórnarskráin er líklega sú sem gengur lengst í áherslunni á umhverfismál og sjálfbæra þróun.  Árið 2004 var sérstökum umhverfisviðauka, svonefndum Umhverfissáttmála, bætt við stjórnarskrána, en þessi viðauki hefur sömu lagalegu stöðu og stjórnarskráin sjálf samkvæmt túlkun franska stjórnlagadómstólsins. Viðaukinn byggir á þeirri vitund þjóðarinnar að framtíð og tilvera mannkynsins sé tengd náttúrlegu umhverfi órofa böndum, að umhverfið sé sameiginleg arfleifð mannkynsins alls, og að ofnýting náttúruauðlinda, framleiðsla og neysla hafi áhrif á líffræðilega fjölbreytni, lífsgæði og þróun mannlegs samfélags. Til að tryggja sjálfbæra þróun megi ákvarðanir sem ætlað er að mæta þörfum núlifandi kynslóðar ekki stefna í voða möguleikum komandi kynslóða og annars fólks til að mæta þörfum sínum. Þarna er skilgreining Brundtlandnefndarinnar sem sagt fléttuð inn í stjórnarskrána. Í viðaukanum kemur einnig fram að sérhver einstaklingur eigi rétt á að lifa í heilnæmu umhverfi – og skyldu til að taka þátt í að vernda umhverfið og bæta. Sá sem veldur tjóni á umhverfinu skal sjálfur leggja sitt af mörkum til að bæta tjónið. Þarna er einnig að finna ákvæði um að tekið skuli fullt tillit til Varúðarreglunnar og að áhættumati skuli beitt til að lágmarka líkur á tjóni. Hvers kyns opinber stefnumótun skal stuðla að sjálfbærri þróun. Þá er tiltekið að sérhver einstaklingur skuli hafa aðgang að upplýsingum um umhverfismál og rétt til að taka þátt í opinberri ákvarðanatöku sem kann að hafa áhrif á umhverfið. Fræðsla og þjálfun um umhverfismál á að stuðla að því að réttindi og skyldur samkvæmt ákvæðum sáttmálans séu virt í framkvæmd. Sömuleiðis er tiltekið að rannsóknir og nýsköpun skuli stuðla að verndun og þróun umhverfisins.

Noregur
Ákvæði um umhverfismál og sjálfbæra þróun er að finna í stjórnarskrám margra annarra landa, þó að ítarleg ákvæði á borð við þau frönsku séu vandfundin. Af dæmum úr nágrannalöndunum má nefna, að samkvæmt norsku stjórnarskránni (grein 110 b) á sérhver einstaklingur rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði. Þá ber að varðveita framleiðni og fjölbreytni hins náttúrulega umhverfis. Stjórnun náttúruauðlinda á að byggjast á heildarstefnumótun til langs tíma, þannig að samsvarandi réttur komandi kynslóða sé jafnframt tryggður. Þarna er hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í raun fléttuð inn í textann, enda þótt sjálfbærnihugtakið sé ekki nefnt sem slíkt. Í norsku stjórnarskránni er einnig ákvæði um rétt almennings til umhverfisupplýsinga.

Finnland og Eistland
Í finnsku stjórnarskránni er að finna svipuð ákvæði og í þeirri norsku. Þar er m.a. tilgreint að allir landsmenn beri ábyrgð á náttúrunni og líffræðilegri fjölbreytni hennar, umhverfinu og þjóðararfleifðinni. Í stjórnarskrá Eistlands er sérstaklega getið um skyldu manna til að bæta fyrir hvert það tjón sem þeir kunna að valda umhverfinu.

Portúgal og Sviss
Stjórnarskrá Portúgals gengur um margt lengra en aðrar stjórnarskrár Evrópuríkja í að flétta saman vistfræðilega og félagslega þætti innan ramma sjálfbærrar þróunar. Þar er m.a. að finna ákvæði þar sem mikilvægi skipulagsáætlana í þessu sambandi er sérstaklega undirstrikað. Svipað má reyndar segja um stjórnarskrá Sviss.

Afríkuríki
Evrópuríki eru ekki ein um að leggja áherslu á umhverfismál og sjálfbæra þróun í stjórnarskrám sínum. Þannig hafa um 2/3 allra Afríkuríkja (32 ríki) samþykkt sérstök stjórnarskrárákvæði um réttinn til heilbrigðs umhverfis. Eitt gleggsta dæmið er að finna í stjórnarskrá Súdans, en þar ber ríkinu að stuðla að lýðheilsu, hvetja til íþróttaiðkunar og vernda náttúrulegt umhverfi, hreinleika þess og náttúrulegt jafnvægi, til að tryggja örugga og sjálfbæra þróun komandi kynslóðum til handa.

Orð og gjörðir
Ljóst má vera að ákvæði í stjórnarskrá er eitt, en framfylgdin annað. Hvað sem því líður er afar mikilvægt að þessir grundvallarþættir séu tilgreindir í stjórnarskrá, enda fráleitt að hugsa sér að þjóð hugsi ekki til komandi kynslóða þegar hún setur sér grunnreglur sem gilda eiga næstu áratugi. Þessi áhersla endurspeglast enda í niðurstöðum þjóðfundarins 7. nóvember sl., þar sem fram kemur m.a. að náttúru Íslands og auðlindir beri að vernda fyrir komandi kynslóðir.

Burt með gamla húsgangsháttinn!
Hér hefur verið stiklað á stóru, en eins og sjá má er af nógu að taka þegar svipast er um eftir fyrirmyndum að ákvæðum um umhverfismál og sjálfbæra þróun sem nýtast mættu við gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Viðfangsefnið er í sjálfu sér einfalt; stjórnarskráin þarf að vera í  takt við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í allri þessari vinnu þarf að hafa hugfast að „maðurinn fékk ekki jörðina í arf frá forfeðrum sínum, heldur hefur hann hana að láni frá börnunum sínum“. Íslendingar þurfa að hverfa frá þeim „gamla húsgangshætti“, sem Þorvaldur Thoroddsen nefndi svo á þarsíðustu öld, að „hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður sé stór skaði öldum og óbornum“.