• Heimsóknir

  • 118.086 hits
 • desember 2010
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Svínakjöt beint frá býli

Í framhaldi af síðustu færslu um uppruna hamborgarhryggja hef ég fengið nokkrar gagnlegar ábendingar um það hvar hægt sé að nálgast svínakjöt sem er upprunnið frá fjölskyldubúi í íslenskri sveit. Einfaldasta leiðin er að nýta sér heimasíðu Beint frá býli, félagi heimavinnsluaðila. Þar leynist nefnilega svolítill gagnagrunnur þar sem hægt er að sjá hverjir bjóða hvaða vöru.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðunni bjóða tveir bæir svínakjöt beint frá býli, þ.e.a.s. bæirnir Laxárdalur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Miðsker í Nesjum. Reyndar þykist ég vita um þann þriðja, sem er Ormsstaðir í Grímsnesi. Bærinn er skráður á heimasíðunni, en þar eru engar upplýsingar um hvaða vörur séu þar til sölu. Hins vegar er Ormsstaðabúið með eigin heimasíðu þar sem hægt er að fræðast meira um málið.

Loks má nefna að Frú Lauga á Laugalæk í Reykjavík selur vel valdar vörur frá vel völdum heimavinnsluaðilum. Þar fæst t.d. svínakjöt frá Laxárdal.

Svo er líka hægt að gera eins og ég, að hringja einfaldlega í svínabónda sem maður þekkir. Sá sem ég hringdi í er reyndar ekki aðili að Beint frá býli, en hann tók nú samt vel í að útvega mér svínahamborgarhrygg frá búinu sínu.

Það er gaman að vera neytandi, vegna þess að sem neytandi getur maður haft áhrif! En þá þarf að hafa hugfast að maður þarf að banka á dyrnar. „Og það veit hvert mannsbarn að dyrnar opnast einungis þá“, eins og segir í kvæðinu.