Í upphafi síðasta árs setti ég mér fjögur markmið fyrir hlaupin á árinu 2010. Í fyrsta lagi ætlaði ég að hlaupa 10 km undir 40 mín, í öðru lagi að hlaupa hálft maraþon undir 1:30 klst, í þriðja lagi að hlaupa 5 km undir 19:30 mín og í fjórða lagi að hlaupa 7 fjallvegi. Skemmst er frá því að segja að ekkert þessara markmiða náðist. Besti tími ársins í 10 km var 41:53 mín, 1:32:38 klst. í hálfu maraþoni, 5 km hljóp ég aldrei í keppni og fjallvegirnir urðu bara 6.
Ég var í góðu formi í upphafi ársins, enda hafði ég þá um nokkurt skeið verið að vinna í því að auka hraðann á æfingum. En um miðjan janúar fór ég aðeins yfir strikið á sprettæfingu í köldu veðri og tognaði í læri. Eins og ágætur vinur minn benti mér á var þetta samt ekki vegna þess að ég hefði tekið of mikið á því á sprettinum, heldur vegna þess að ég hafði tekið of lítið af styrktar- og liðleikaæfingum. Lítið varð úr æfingum næstu 3-4 vikur, og eftir þetta lét lærið alltaf vita af sér þegar ég ætlaði að gera einhverjar rósir. Um vorið var ég búinn að gefa öll hraðamarkmið upp á bátinn. Önnur smávægileg meiðsli voru eitthvað að angra mig um sumarið og haustið, en ekkert sem orð var á gerandi. Helst var bakið til leiðinda, líklega í framhaldi af svolítilli erfiðisvinnu í garðinum í júní.
Æfingar gengu almennt mjög vel, ef þessi smávægilegu meiðsli eru frátalin. Reyndar missti ég líka aðeins úr vegna annríkis við undirbúning kosninga til Stjórnlagaþings í nóvember, en upp úr því náði ég líka þeim mun betri æfingatörn. Síðustu 6 vikur ársins voru þannig einhverjar þær bestu í sögunni hvað reglusemi við æfingar varðar. Þá hljóp ég alltaf þrisvar í viku og jók vegalengdirnar smátt og smátt. Var kominn í 52 km vikur í árslok, sem mér þykir allgott. Í heild var þetta næstlengsta ár sögunnar, en alls urðu kílómetrarnir 1.975 talsins. Aðeins árið á undan var lengra, 2.170 km. Apríl, október og desember urðu lengstu mánuðir sinnar tegundar hingað til. Háfslækjarhringurinn var sem fyrr helsta æfingabrautin, í heilu lagi eða að hluta. Reyndar fór ég ekki nema 20 ferðir heilan hring, sem var töluvert minna en árið áður. Allt er þetta náttúrulega skráð í ýtrustu smáatriðum, enda leikur að tölum ein helsta ástæða þess að ég held mér við efnið í hlaupunum.
Á árinu 2010 tók ég þátt í fleiri keppnishlaupum en nokkru sinni fyrr, eða samtals 8. Fyrra metið hvað þetta varðar voru 7 keppnishlaup árið 2004. Keppnishlaup eru ekkert aðalatriði í þessu áhugamáli mínu, enda er ég líklega tiltölulega sjaldséður gestur í slíkum hlaupum. En mér finnst nauðsynlegt að skreppa í þetta annað slagið til að prófa getuna og hitta fólk.
Keppnistímabilið byrjaði með vetrarhlaupi á Akureyri í lok mars, 10 km á 44:43 mín. Það var svo sem langt undir væntingum, en færið var heldur ekki sem best. Næst var það svo Flóahlaupið, eða pönnukökuhlaupið eins og það er oftar nefnt. Þar var tíminn enn lakari, eða 45:04 mín, enda sunnan hvassviðri í Gaulverjabænum þennan dag. En veitingarnar á eftir voru þær langbestu á árinu. Svo var það Vormaraþonið í lok apríl. Þar fór ég hálft maraþon á 1:34:51 klst, sem var persónulegt met þrátt fyrir kulda og talsverðan blástur, en auðvitað langt frá markmiðinu. Fjórða hlaupið var svo 7 km Icelandairhlaupið snemma í maí. Þar voru aðstæður loks eins og best verður á kosið, og ég gerði virkilega mitt besta. Tíminn var 29:00 mín, sem var í raun endanleg staðfesting á því að 40 mínútna markið í 10 km væri ekki í boði þetta árið. En þetta var skemmtilegt hlaup. Þá var röðin komin að Fjölnishlaupinu 20. maí. Þar fór ég 10 km á 42:03 mín, sem var besti tíminn minn eftir fertugt, bráðskemmtilegt hlaup en brautin svolítið erfið undir lokin.
Næst var það hálft maraþon á Akranesi í júní. Það gekk vonum framar þrátt fyrir frekar hryssinglegt veður og vind. Ég fann mig vel og bætti persónulega metið í 1:32:38 klst. Í Ármannshlaupinu í júlí tókst mér svo að klípa 10 sek. af fertugsmetinu mínu í 10 km með því að hlaupa á 41:53 mín. Fékk einhvern krampa í tognaða lærið í lokin og kom örþreyttur í mark með sögulega grettu á andlitinu, eins og sést á mynd Gunnlaugs Júlíussonar hér til hliðar. Var nokkuð lengi að jafna mig almennilega á þessu, og ætlaði t.d. ekkert í Reykjavíkurmaraþonið, nema þá í mesta lagi í hálft. Náði heldur ekki að æfa vel þessar vikur, alltaf með einhver ónot í baki og fótum. En eftir að hafa hlaupið 40 km hring í kringum Skorradalsvatn í byrjun ágúst sá ég að þetta væri náttúrulega ekkert stórmál. Lét því slag standa með maraþonið. Var alls ekki vel undirbúinn, en fyrstu 35 kílómetrana leit þó út fyrir að ég myndi bæta tímann minn frá því í fyrra, sem var þó betri en mig hafði dreymt um að ná í lífinu. En svo fékk ég krampa undir lokin, eins og ég gat svo sem búist við. Lauk hlaupinu á 3:18:47 klst, eða 100 sek lengri tíma en í fyrra. Var í 7. himni með þetta, og ekki spillti fyrir að Þorkell sonur minn skellti sér með, fylgdi mér lengst af og var ekki nema 52 sek á eftir mér í markið, þrátt fyrir að vera fyrst og fremst 400 m hlaupari. Ég held að þessi árangur hafi dugað mér í 43. sæti á afrekaskrá ársins, og líklega í 5. sæti meðal karla á sextugsaldri. Þegar litið er á Íslandssöguna alla rétt hangi ég inni á topp-200, var líklega í 192. sæti í árslok og hafði þá lækkað um 24 sæti á árinu. Maður þarf nefnilega að vera í stöðugri framför til að halda stöðu sinni á þessum hála lista. Alls hafa u.þ.b. 1.650 Íslendingar hlaupið maraþonhlaup það sem af er, og fer ört fjölgandi. Maraþon er ekki lengur sérverkefni fyrir sérstaka sérvitringa, heldur raunhæft markmið og viðfangsefni fyrir venjulegt fólk.
Með Reykjavíkurmaraþoninu lauk keppnistímabili ársins. Markmiðin náðust sem sagt ekki, en auðvitað er ég samt hæstánægður með þetta allt saman. Annað væri bara vanþakklæti! Það eru hreinlega forréttindi að geta leikið sér í svona áhugamáli þegar maður er kominn vel yfir fimmtugt.
Fjallvegahlaup
Fjallvegahlaupin gengu eins og í sögu á árinu. Þetta var fjórða sumarið í því verkefni, en ætlun mín er að hlaupa yfir 50 fjallvegi á 10 árum, þ.e. fyrir sextugsafmælið. Vertíðin byrjaði með hlaupum yfir Steinadalsheiði og Bitruháls, en þessi hlaup voru hluti af bráðskemmtilegum Þríhyrningi í júní. Seinna í sama mánuði tók ég Víknaslóðir fyrir og hljóp þar fjóra fjallvegi á einni helgi í góðum félagsskap og blíðskaparveðri, nánar tiltekið Gagnheiði, Víknaheiði/Húsavíkurheiði, Nesháls og Hjálmárdalsheiði. Þetta er með öðrum orðum leiðin frá Borgarfirði eystri til Seyðisfjarðar. Þar með eru fjallvegahlaupin orðin 21 frá upphafi. Verkefnið er sem sagt alveg á áætlun og einum fjallvegi betur. Um þetta er hægt að lesa MIKLU meira á http://www.fjallvegahlaup.is/.
Fjallvegahlaupadagskrá ársins er í smíðum og verður eflaust birt á blogginu mínu og á http://www.fjallvegahlaup.is/ fljótlega. Að þessu sinni er sjónum helst beint að Norðausturlandi og fjallvegum norðan Ísafjarðardjúps. Trékyllisheiði hefur einnig verið nefnd í þessu sambandi, og sömuleiðis einhverjir handhægir fjallvegir í grennd við Borgarnes. En þetta skýrist sem sagt von bráðar.
Sérverkefni
Að vanda stóð ég fyrir eða tók þátt í nokkrum sérverkefnum á hlaupum á árinu. Fyrst má þar nefna sérstakan Háfslækjarhring á uppstigningardag með hlaupurum úr Borgarnesi og víðar að, með matarveislu og heitum potti á eftir. Svo var það Þrístrendingur sem minnst var á hér að framan, fjalla- og skemmtihlaup um þrjá firði, þrjár strendur og þrjá fjallvegi (þ.á.m. Krossárdal sem ekki var nefndur í fjallvegahlaupaupptalningunni hér að framan, því að þar var um endurtekningu að ræða). Frumkvæði að þessu átti Dofri Hermannsson, hlaupari í Grafarvogi. Hann og nokkrir hlaupafélagar hans voru um helmingur af harðsnúnu liði hlaupara sem skemmti sér saman þennan dag. Í byrjun júlí var svo röðin komin að Hamingjuhlaupinu á Hólmavík, sem er líklega um það bil að verða að hefð. Að þessu sinni hlupum við fjórir saman vestan úr Geiradal í góðum mótvindi, um Gautsdal, Þröskulda og Arnkötludal til Hólmavíkur. Og fleiri slógust í hópinn á leiðinni.
Markmiðin 2011
Og nú er komið nýtt ár með nýjum markmiðum. Þau eru nokkuð annars eðlis en í fyrra, alla vega að því leyti að nú er ætlunin að leggja minna upp úr hraða og meira upp úr vegalengdum. Sennilega er sú áhersla í einhverjum takti við aldur þess sem markmiðin setur, því að þó að ég sé í aldeilis prýðilegu standi, þá er ég orðinn örlítið hægari en ég var á tvítugsaldrinum. Markmiðin fyrir árið 2011 eru þessi:
- A.m.k. 5 fjallvegir
- A.m.k. 2 maraþonhlaup, (helst 3)
- Þátttaka í 7-tinda hlaupinu og Svalvogahringnum
- Bæting í maraþoni og hálfmaraþoni
- Heildarvegalengd a.m.k. 2.400 km
- Gleðin með í för í öllum hlaupum
Lokaorð og þakkir
Það er við hæfi að ljúka þessum pistli með þökkum til allra þeirra sem hafa gert mér það mögulegt og skemmtilegt að sinna áhugamálinu mínu. Þar er þolinmóð og þrautseig fjölskylda efst á blaði og síðan Ingimundur Grétarsson og allir aðrir sem hafa hlaupið með mér, hjálpað mér og hvatt. Oftast hleyp ég einn, en það er nú samt bara þannig, að “maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur”.
(PS: Með þessum pistli áttu að birtast fleiri myndir, en bloggkerfið hindraði mig í að setja þær inn á sómasamlegan hátt).
Filed under: Hlaup |
Skemmtilegt 🙂
Sæll
Var að kíkja á bloggið þitt. Eru kortin af fjallvegahlaupunum þínum á vefnum þínum?
Veist þú um síðu með kortum af hlaupakortum? Fyrir utan hlaup.is
ingolfur@trackwell.com
Sæll Ingólfur og takk fyrir innleggið.
Nei, ég hef enn ekki útbúið nein kort af fjallvegunum mínum, en hef stundum hugleitt hversu skemmtilegt og gagnlegt það væri. Þetta er náttúrulega m.a. spurning um form og tækni. Ég á flestar leiðirnar sem GPS-slóðir úr Garminum mínum, en hef ekki lagst yfir hvernig ég geti best nýtt þær.
Ég veit því miður heldur ekki um neina síðu með hlaupakortum.
Bestu kv,
S
[…] Fyrir ári síðan setti ég mér sex hlaupamarkmið fyrir árið 2011, eins og lesa má í þar til gerðum ársgömlum bloggpistli. Ég ætlaði sem sagt að 1) hlaupa a.m.k. 5 fjallvegi, 2) hlaupa a.m.k. 2 maraþonhlaup, (helst […]