• Heimsóknir

  • 119.009 hits
 • febrúar 2011
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  2728  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hanastélsáhrifin vanmetin

Við umgöngumst daglega fjöldann allan af tilbúnum efnum á heimilum okkar og vinnustöðum. Sum þessara efna eru skaðleg umhverfi og heilsu, en sem betur fer hittum við þau sjaldan fyrir í nógu miklum styrk til að hin skaðlegu áhrif komi fram. Til að vernda okkur enn frekar hafa opinberir aðilar gefið út leiðbeiningar um hámarksstyrk margra þessara efna í tilteknum neytendavörum og/eða heilsufarsmörk sem segja til um hámarksstyrk efnanna í umhverfi okkar. Helsti veikleikinn í þessu ágæta kerfi er sá, að heilsufarsmörkin gilda alla jafna um hvert efni fyrir sig, en taka ekki tillit til þeirra samanlögðu áhrifa sem við verðum hugsanlega fyrir þegar við umgöngumst fleiri efni á sama tíma. Þetta er það sem gjarnan er kallað „cocktail effect“ á erlendum málum eða „hanastélsáhrif“ í hrárri þýðingu.

Á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu (IMS) eru hanastélsáhrif skilgreind sem „samanlögð áhrif sem fólk verður fyrir þegar það umgengst fleiri en eitt varasamt efni samtímis, þar sem hvert efni um sig er ekki til staðar í nægum styrk til að hafa áhrif

Lítið hefur verið fjallað um hanastélsáhrif hérlendis. Þó var þetta fyrirbæri nefnt lauslega í „Orðum dagsins” á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi á sínum tíma, t.d. þann 21. febrúar 2008. Þar var vísað í fréttatilkynningu frá Tækniháskóla Danmerkur DTU, þar sem fram hafði komið að „hormónatruflandi efni, sem hvert um sig er óskaðlegt í litlum skömmtum, geta í sameiningu valdið hættulegum „hanastélsáhrifum“ (e: Cocktail effects) sem m.a. geta endurspeglast í vansköpuðum kynfærum nýfæddra karldýra“. Því væri „nauðsynlegt að taka meira tillit til „hanastélsáhrifa“ við áhættumat á efnavörum“. Þá hefur Neytendablaðið fjallað um þessi mál, m.a. í 1. tbl. 2010, bls. 14-15.

Það er hollt að rifja þetta upp núna þegar hugsanleg áhrif díoxíns á heilsu fólks eru til umræðu. Kannski er styrkur þess alls staðar innan heilsufarsmarka, en dæmið gæti litið öðru vísi út ef líka væri hægt að skoða í hve miklum mæli fólk umgengst önnur efni samtímis. Af nógu er að taka – og þarf ekki díoxín til. Þar má nefna parabena, BPA, þalöt, brómeruð eldvarnarefni, PFOA, PFOS, azo-liti, resorcinol eða jafnvel PCB, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta hljómar sjálfsagt allt sem hálfgerð „latína, sem hjálpar venjulegu fólki ekki neitt“. Öll erum við frekar venjulegt fólk, og flest eigum við það sameiginlegt að nota helling af efnum dags daglega, m.a. í snyrtivörum, án þess að velta fyrir okkur hugsanlegum neikvæðum samlegðaráhrifum efnanna á heilsu okkar. Framleiðendur keppast við að nota ólíklegustu efni í vörurnar sínar til að gefa þeim rétta virkni, lykt eða áferð. Og allt á þetta að gera okkur fallegri, hraustari og hamingjusamari. Skuggahliðarnar eru sjaldnar nefndar.

Og hvað er þá til ráða? Hvernig á að hegða sér í þessum flókna efnaheimi, þar sem sjaldnast er til neitt eitt rétt svar, og því síður að einhver geti eða vilji segja manni hvert það er. Hér sem víðar er varúðin aðalatriði. Besta leiðin er að draga úr notkun tilbúinna efna í daglegu lífi, og næstbest að velja alltaf umhverfismerkt eða lífræn vottuð efni, ef efni eru keypt á annað borð.

2 svör

 1. Góður pistill. Svo er talið hugsanlegt að þegar mismunandi mengunarefni koma saman sé ekki víst að þar gildi að 2+2=4.
  Samverkandi eiginleikar efnanna geta orðið til þess að 2+2=6. Eða jafnvel hærri tala.

  • Takk fyrir þessa ábendingu Þorsteinn. Það eru einmitt þessi „auknu samlegðaráhrif“ sem gera þetta enn varasamara („lúmskara“) en ella.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: