• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • mars 2011
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Ofvirk á nammibarnum

Sú var tíðin að börn fengu að kaupa sér nammi yfir búðarborð fyrir smápeninga, svona rétt neðan í litla græna plastpoka. Á þeim tíma sem liðinn er síðan börnin mín voru lítil hafa hins vegar öll viðmið í þessum efnum brostið. Nú halda foreldrar börnum sínum til beitar í risastórum nammibörum í verslunum, þar sem miklu er hægt að moka á stuttum tíma fyrir lítið verð. Líklega eru nammibarirnir m.a. notaðir sem verðlaun, t.d. ef börnin hafa vælt óvenjulítið í búðarferðinni eða kannski beðið alla vikuna eftir að nammidagurinn rynni upp bjartur og fagur. Mig grunar sem sagt að foreldrar telji sig gera börnunum sínum greiða með því að veita þeim aðgang að þessum litskrúðugu kræsingum. En um leið er hugsanlega verið að stuðla að ofvirkni eða annarri hegðunarröskun, sem fáum þykir hátíðlegt að fást við, nema kannski þeim sem selja ritalín til að bregðast við vandanum. Rannsóknir benda nefnilega til að tiltekin litarefni í matvælum geti stuðlað að ofvirkni í börnum, og þessi litarefni eru að öllum líkindum til staðar í ríkum mæli í margnefndum nammibörum.

Varúðarmerkingar í nágrannalöndunum
Hugsanleg tengsl litarefna við ofvirkni í börnum eru ekki nýjar fréttir. Ég veit ekki hvenær fyrstu vísbendingarnar um þessi tengsl komu fram, en elstu niðurstöður sem ég man eftir að hafa séð eru frá árinu 2000. Síðar hafa fleiri rannsóknir bent í sömu átt, þó að skaðsemi litarefnanna hvað þetta varðar hafi ekki beinlínis verið sönnuð. Líkurnar þykja þó það miklar að Evrópusambandið hefur talið sig knúið til aðgerða. Með Evrópureglugerð nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum var þannig lögfest sú skylda að öll matvæli (önnur en áfengir drykkir) sem innihalda umrædd litarefni skuli merkt með áletruninni “Getur haft óæskileg áhrif á hegðun og einbeitingu barna” (e: “May have an adverse effect on activity and attention in children”). Merkingarskyldan tók gildi í löndum Evrópusambandsins 20. júlí 2010, en ekki er enn búið að fella þessi ákvæði inn í íslenskt regluverk.

Hvaða efni eru þetta?
Litarefnin sem um ræðir tilheyra öll nema eitt flokki svonefndra azo-litarefna. Efnin eru oftast auðkennd með E-númerum, en framleiðendur mega þó tiltaka heiti þeirra í staðinn. Þar með flækist málið fyrir neytendur sem vilja forðast þessi efni, því að heitin á bak við E-númerin eru margvísleg. Eftirfarandi upptalning gefur nokkurn veginn tæmandi yfirlit yfir umrædd efni og mismunandi heiti þeirra:

  • E102  Tatrasín (Cl Food Yellow 4, FD&C Yellow #5)
  • E104  Kínólíngult (Cl Food Yellow 13, FD&C Yellow #10) (ekki azo-litarefni)
  • E110  Sunset Yellow (Cl Food Yellow 3, FD&C Yellow #6, Orange, Orange Yellow, Para-orange, Yellow S)
  • E122  Asórúbín (Karmósín, Cl Food red 3)
  • E124  Panceau (Cl Food red 7, Kochenillerautt A, New coccine, Nykockin)
  • E129  Allúra rautt (Cl Food red 17)

Frostpinnar og fleira gott
Nammibarirnir eru ekki einu staðirnir þar sem þessi efni er að finna. Reyndar get ég ekkert fullyrt um málið hvað nammibarina varðar, því að enn hef ég hvergi séð nammibar með innihaldslýsingu, sem seljendum er þó skylt að setja upp!!! Það gefur manni reyndar tilefni til að óttast að þeir gleymi líka að hengja upp varúðarmerkin þegar reglugerðin tekur gildi hérlendis. Nei, efnin eru sem sagt víðar í notkun, svo sem í einhverjum drykkjum og í ýmsu sælgæti, jafnt innfluttu sem íslensku. Þessi litarefni eru meira að segja í flestum gerðum frostpinna frá a.m.k. öðrum af stærstu ísframleiðendunum hérlendis.

Þetta VAR bannað
Reyndar voru azo-litarefni bönnuð hérlendis þegar börnin mín fengu nammi í litlum grænum pokum. Bannið var hins vegar afnumið árið 1997 til samræmis við regluverk Evrópska efnahagssvæðisins. Neytendasamtök hérlendis og erlendis (m.a. í Danmörku) hafa um árabil ýmist barist fyrir því að þessi efni verði bönnuð eða hvatt framleiðendur til að hætta notkun þeirra, enda nóg til af öðrum efnum til sömu nota. Reglan um varúðarmerkingu er skref í þessa átt, en enn þykir mönnum skaðsemin ekki nægjanleg sönnuð til að hún réttlæti algjört bann. (Þarna er Varúðarreglunni að vísu snúið á haus).

Skilaboð til foreldra
Skilaboðin til foreldra eru einföld: Varist þessi efni. Börnin ykkar og þið sjálf eigið betra skilið!

(Þessi pistill er m.a. byggður á fréttum á heimasíðu Neytendasamtakanna 1. febrúar og 25. janúar 2011, frétt á heimasíðu dönsku neytendasamtakanna (Forbrugerrådet) 13.júlí 2010 og grein í 3. tbl. Neytendablaðsins 2007. Upplýsingar um nafngiftir litarefnanna eru fengnar úr lista á heimasíðu Matvælastofnunar).

7 svör

  1. Frábær grein og mikilvæg skilaboð Stefán. Má ég fá að benda á þetta á heimasiðu Græns apríls? Við erum einmitt að leita að svona bannlistum!!!
    Bestu kveðjur, Gunna

  2. Takk Gunna! 🙂
    Já, að sjálfsögðu máttu benda á þetta og nota að vild.

  3. Sæll Stefán.

    Ég lasþessa grein í Finnur í dag. Má ég setja hana inná heimasíðu okkar á Lifðu Lífinu og auðvitað set ég tilvitnun í þig? Lifðu Lífinu er heimasíða fyrir þá sem vilja vinna með ADHD án lyfja.
    kv Sigríður , ef þú getur sent mér á meili svarið

    • Sæl Sigríður og takk fyrir þetta.
      Fékkstu svar frá mér í tölvupósti? Póstþjónninn minn hefur verið eitthvað mistækur síðustu daga, þannig að ég fór að hafa áhyggjur af því hvort svarið hefði komist til skila…

  4. […] ummæli Sigríður Jónsdóttir on Ofvirk á nammibarnumSigríður Júlía Brynl… on ÞúsundmílnaskórFríða on ÞúsundmílnaskórEyrún Elva […]

  5. […] ummæli stefangisla on Ofvirk á nammibarnumLeiðrétting á nammib… on Ofvirk á nammibarnumSigríður Jónsdóttir on Ofvirk […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: