Nú líður senn að 5. sumrinu í stóru fjallvegahlaupaáætluninni, sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf fyrir nokkru síðan. Á þeim fjórum sumrum sem liðin eru hef lagt að baki 21 fjallveg, sem er einum yfir pari ef svo má segja. Á sumri komanda bætast a.m.k. 6 fjallvegir við. Þessi pistill fjallar um þau fjallvegahlaupaáform.
1. Skarðsheiðarvegurinn 21. júní
Fjallvegahlaup sumarsins byrja síðdegis þriðjudaginn 21. júní með hlaupi um Skarðsheiðarveginn sunnan úr Leirársveit og að Hreppslaug í Andakíl, þar sem endað verður á góðu baði. Þessi leið er u.þ.b. 20 km.
2. Þrístrendingur 25. júní
Þrístrendingur verður hlaupinn í annað sinn laugardaginn 25. júní, en í fyrra var þar um frumhlaup að ræða. Lagt verður af stað frá Kleifum í Gilsfirði kl. 11 þennan laugardag og hlaupið sem leið liggur um Steinadalsheiði norður í Kollafjörð á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf – og loks suður Krossárdal að Kleifum. Þessi hringur er rétt rúmlega 40 km. Þetta verður ekkert keppnishlaup, heldur fyrst og fremst þokkalega langt skemmtiskokk í góðum félagsskap – með drykkjarstöð í hverjum læk. Reyndar er þetta hlaup ekki beinlínis hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að ég er svo sem búinn að hlaupa þessa þrjá fjallvegi áður, suma oftar en einu sinni. Samt má ég til með að tíunda þetta hér, til að öll helstu hlaupaáformin mín séu nú örugglega skráð á einum stað.
3. Síldarmannagötur 28. júní
Síðdegis þriðjudaginn 28. júní ætla ég að hlaupa Síldarmannagötur úr botni Hvalfjarðar yfir Botnsheiði að Vatnshorni í Skorradal, samtals tæpa 13 km. Þetta verður svolítil endurtekning á Skarðsheiðarþriðjudeginum, nema hvað vegalengdin er styttri og óvíst með sundlaugarferðina.
4. Hamingjuhlaup 2. júlí
Þetta hlaup tengist bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Lagt verður upp frá æskuheimili mínu í Gröf í Bitrufirði, hlaupið norður yfir Bitruháls (sömu leið og í Þrístrendingi viku fyrr, en í öfuga átt), fyrir botn Kollafjarðar, upp í Deildarskarð utan við Litla-Fjarðarhorn, yfir Hvalsárdal og eina smáhæð norðan við hann þar til komið er að bænum Heydalsá í Steingrímsfirði. Þaðan eru um 15 km til Hólmavíkur eftir veginum, en öll er leiðin líklega u.þ.b. 32 km. Þetta verður þriðja árið í röð sem ég stend fyrir svona formlegu hamingjuhlaupi á Hamingjudögum. Árið 2009 lá leiðin frá Drangsnesi til Hólmavíkur og 2010 var hlaupið sunnan úr Geiradal, norður yfir Þröskulda og Arnkötludal til Hólmavíkur. Í bæði skiptin lauk hlaupinu á hátíðarsvæðinu um 2-leytið á laugardegi, þ.e. um það leyti sem setningarathöfnin hófst. Nú er hins vegar stefnt að því að taka seinnipartinn í þetta og koma til Hólmavíkur um kvöldið í þann mund sem hið heimsfræga tertuhlaðborð Hamingjudaganna verður opnað. Þetta hlaup gefur gott tilefni til fjölskylduferðar á Strandir. Þeir fjölskyldumeðlimir sem ekki hlaupa, geta þá dvalið á Hólmavík og notið fjölbreyttrar dagskrár yfir daginn. Hamingjuhlaupið er, rétt eins og Þrístrendingur, hálfgert hliðarspor í fjallvegahlaupaverkefninu, því að Bitruháls er eini almennilegi fjallvegurinn á þessari leið – og hann hef ég jú hlaupið áður.
5. Trékyllisheiði 18. júlí
Mánudaginn 18. júlí liggur leiðin norður Trékyllisheiði. Lagt verður upp frá eyðibýlinu Bólstað neðst í Selárdal innst í Steingrímsfirði og ekki linnt látum fyrr en í Trékyllisvík. Áður fyrr var leiðinni oftar heitið í kaupstað í Kúvíkum, eða þá til Djúpuvíkur, en mér líst betur á Trékyllisvík sem áfangastað. Hugsa mér gott til glóðarinnar að gera úr þessu dágóða skemmtiferð, með sundlaugarheimsókn í Krossnes og gistingu í Norðurfirði að hlaupi loknu. Nákvæm vegalengd liggur ekki fyrir, en ég býst við að þetta séu svo sem 36 km.
6. Jökulsárhlaupið 6. ágúst
Laugardaginn 6. ágúst er röðin komin að Jökulsárhlaupinu frá Dettifossi niður í Ásbyrgi, tæplega 33 km leið. Þetta er reyndar keppnishlaup – og ekkert á mínum vegum sem slíkt. Ég ákvað bara einhvern tímann að þetta væri fjallvegur sem ætti að teljast sem hluti af fjallvegahlaupaverkefninu. Reyndar hef ég farið þetta einu sinni áður, nánar tiltekið sumarið 2004 þegar hlaupið var þreytt í fyrsta skipti. En það var fyrir daga fjallvegahlaupaverkefnisins og telst því ekki með. Nú bíð ég spenntur eftir að opnað verði fyrir skráningar í Jökulsárhlaupið, því að þar komast hugsanlega færri að en vilja. Hlaupið er orðið geysivinsælt, enda leiðin stórfengleg.
7. Tunguheiði 8. ágúst
Mér finnst upplagt að hlaupa meira á norðausturlandinu fyrst ég verð kominn þangað á annað borð. Ég treysti sem sagt á það að Jökulsárhlaupið verði horfið úr fótunum á mér þegar mánudagurinn 8. ágúst rennur upp bjartur og fagur. Hlaupið yfir Tunguheiði hefst við bæinn Syðri-Tungu rétt norðan við Húsavík og endar við bæinn Fjöll í Kelduhverfi. Þetta var fjölfarin leið á fyrri tíð, póstleið og hvaðeina, samtals líklega tæpir 15 km.
8. Helkunduheiði 9. ágúst
Helkunduheiði hentar vel í þennan norðausturpakka, og því ætla ég að skokka yfir hana daginn eftir Tunguheiðina. Helkunduheiði liggur milli Þistilfjarðar og Finnafjarðar og er að ég held bara um 12 km. löng.
Vefsíðan www.fjallvegahlaup.is geymir annars öll áform mín og aðrar upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið, þ.m.t. ferðasögur úr þeim fjallvegahlaupum sem þegar eru að baki, auk lýsinga á óhlaupnum heiðum. Reyndar eru margar slíkar lýsingar enn óskrifaðar, en það vinnst smátt og smátt.
Eins og fram kemur á fjallvegahlaupasíðunni þigg ég með þökkum allar ábendingar um hlaupalega fjallvegi. Ég vil líka endilega fá góða fylgd á sem flestum leiðum, en tek þó fram að þeir sem slást í för með mér gera það á eigin ábyrgð.
Þetta verður gaman!!!

Þrístrendingshlauparar við bæjargilið í Gröf 19. júní 2010. Steinadalsheiði og Bitruháls að baki, sem sagt 30 km búnir og 10 eftir. (Myndin efst á síðunni var hins vegar tekin á Ólafsfirði á Jónsmessunni 2008 þegar skóþvengir voru reimaðir áður en lagt var á Rauðskörð til Héðinsfjarðar),
Filed under: Hlaup |
Færðu inn athugasemd