• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • mars 2011
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Nokkur orð um díoxín og vítissóda

Á skömmum tíma hafa tvö alvarleg mengunarmál verið á hvers manns vörum hérlendis, annars vegar díoxínmengun frá sorpbrennslu Funa á Ísafirði og hins vegar óhóflegur styrkur vítissóda í frárennsli aflþynnuverksmiðju Becromal á Krossanesi við Eyjafjörð. Á þessum málum eru margar hliðar, og í þessum pistli verður velt vöngum yfir nokkrum þeirra.

Ólík efni
Efnin vítissódi og díoxín eiga fátt sameiginlegt nema það að vera mjög eitruð. Hins vegar koma eituráhrifin fram með afar ólíkum hætti.

Vítissódi er mjög ætandi við snertingu. Lífvera sem kemst í snertingu við sterka vítissódalausn sleppur í besta falli með sár, en deyr mjög fljótt ef lausnin dreifist á stóran hluta lífverunnar eða kemst í mikilvæg líffæri, t.d. tálkn fiska. Ef lífveran sleppur lifandi og sárin gróa er líklegt að hún beri lítinn varanlegan skaða af. Áhrif díoxíns koma hins vegar fram á löngum tíma. Díoxín í hættulegu magni getur leynst í umhverfinu án nokkurra sýnilegra ummerkja, og örlítið magn getur valdið verulegum skaða, sem kemur oftast fram löngu eftir að díoxín berst í viðkomandi lífveru, jafnvel áratugum síðar. Vítissódi leysist mjög auðveldlega í vatni, og lausnin þynnist samstundis og hreinu vatni er bætt við hana. Díoxín er hins vegar fituleysanlegt, en leysist ekki upp í vatni. Berist díoxín í lífverur safnast það upp í feitustu vefjum þeirra, svo sem í lifur, og helst þar árum eða áratugum saman, enda brotnar efnið seint eða ekki niður og skolast ekki út. Díoxín er með öðrum orðum þrávirkt efni.

Af þessum einfalda samanburði er augljóst að díoxín er mun erfiðara í meðförum en vítissódi, þar sem nær útilokað er að losna við efnið þar sem það hefur á annað borð safnast fyrir. Brennsla við hátt hitastig er nær eina trygga leiðin, en slíkum aðferðum er augljóslega ekki hægt að beita þegar lifandi verur eiga í hlut. Vítissódi skolast hins vegar auðveldlega burt með vatni, auk þess sem skaðleg áhrif verða að engu ef sýru er bætt við lausnina. Í raun virkar saltsýra best af öllum sýrum í þessu tilliti, því að sé saltsýrulausn blandað við vítissódalausn í nákvæmlega réttum hlutföllum verður ekkert eftir nema vatn og matarsalt. Hins vegar er saltsýran engu mildari en vítissódinn ein og sér.

Mælingar og eftirlit með díoxínmengun er mun erfiðara, flóknara og dýrara heldur en mælingar og eftirlit með vítissódamengun. Þegar um díoxín er að ræða þarf flóknar mæliaðferðir og tækjabúnað, enda snýst málið þá jafnvel um að greina billjónustuhluta úr grammi. Hins vegar er hægt að fá sæmilega vísbendingu um vítissódamengun á augabragði með því að dýfa ódýrum strimli í viðkomandi lausn. Reyndar er þá ekki verið að mæla vítissódann sem slíkan, heldur sýrustigið eða pH-gildið. Sterk vítissódalausn er mjög basísk, eða hefur með öðrum orðum hátt pH-gildi. Á þeim skala er 14 fræðilegt hámark. Vatnslausn með pH=14 er með öðrum orðum það basískasta sem til er. Lausn með pH=7 er hlutlaus (t.d. hreint vatn), en lausn með lægra pH-gildi er súr. Talan 0 er lægsta gildið sem er fræðilega mögulegt.

Í fréttum af vítissódamenguninni frá verksmiðju Becromal hefur komið fram að hæsta pH-gildið sem mælst hefur í frárennslinu hafi verið um 12. Slík lausn er afar basísk og þar með mjög ætandi. pH-skalinn er lógaritmískur. Það þýðir t.d. að tiltekin vatnslausn með pH=12 er tífalt basískari en lausn með pH=11. Þetta mætti líka orða svo að ef 500 lítra lausn með pH=12 er þynnt með 5.000 lítrum af vatni ætti pH-gildið að vera komið niður í u.þ.b. 11. Í stuttu máli: pH-gildið lækkar um einn í hvert sinn sem vatnsmagnið er tífaldað, þ.e. þar til maður nálgast pH=7. Þessi einfaldi útreikningur gefur lauslega hugmynd um hversu mikinn sjó þarf til að lækka pH-gildi tiltekinnar basískrar lausnar í fráveitu niður í eitthvert æskilegt gildi.

Eins og ráða má af framangreindu getur pH-gildi í sjó fljótt verið komið niður undir einhver tiltekin eðlileg mörk, þó að mjög basískur vökvi renni úr tilteknu frárennsli, þ.e.a.s. ef straumar og aðrar aðstæður eru þannig að vökvinn blandist sjónum hratt og ef magn vökvans er ekki þeim mun meira. Því má geta sér þess til að lífverur sem staddar eru nálægt frárennsli þegar slíkum vökva er sleppt út verði fyrir mjög miklum skaða eða drepist á augabragði, en að nokkrum sekúndum síðar eða nokkrum metrum utar gæti pH-gildið hins vegar verið komið niður fyrir hættumörk. Í tilfelli Becromal má því telja frekar líklegt að mælingar sem gerðar voru í sjó um síðustu helgina hafi ekki sýnt nein veruleg frávik frá náttúrulegu pH-gildi sjávar (sem er nálægt 8). Að vísu er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að margar sjávarlífverur eru afar viðkvæmar fyrir breytingum á sýrustigi. Frávik sem varir í skamman tíma getur því reynst mjög skaðlegt, þó að ekkert mælist á sama svæði skömmu síðar.

Það eina sem þarf að gera til að koma í veg fyrir vítissódamengun frá tiltekinni starfsemi þar sem sódi er notaður, er að hlutleysa fráveituvatnið með hæfilegu magni af sýru áður en því er sleppt út. Sem fyrr segir hentar saltsýra best til þessara nota. Þessi mengunarvarnaraðferð er í raun eins tæknilega auðveld og hægt er að hugsa sér, en auðvitað kallar hún á einhvers konar sjálfvirka skömmtun til að sýrumagnið sé ávallt hæfilegt miðað við magn og styrk sódalausnarinnar. Þó að þetta sé tæknilega einfalt er það því ekki alveg ókeypis. Tryggasta aðferðin er líklega að láta fráveituvatnið standa um stund í jöfnunartönkum þar sem sýru er bætt út í. Sírennsli er mun erfiðara að höndla hvað þetta varðar.

Þáttur stjórnvalda
Í grófum dráttum má segja að hlutverk stjórnvalda í mengunarmálum sé tvíþætt; annars vegar að ákveða leikreglurnar og hins vegar að sjá til þess að þeim sé fylgt. Leikreglurnar eru tilgreindar í lögum, reglugerðum sem byggja á lögunum og starfsleyfum sem gefin eru út á grundvelli laga og reglugerða. Alþingi setur lögin, í reynd oftast til að uppfylla kröfur sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Umhverfisráðuneytið gegnir lykilhlutverki í undirbúningi lagasetningar, og umhverfisráðherra gefur síðan út viðeigandi reglugerðir. Það kemur hins vegar í hlut Umhverfisstofnunar að gefa út starfsleyfi fyrir starfsemi sem getur haft mengun í för með sér, þ.e.a.s. þegar um stærri fyrirtæki er að ræða. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga gefur hins vegar út sambærileg starfsemi vegna umfangsminni rekstrar. Í raun og veru ætti kannski frekar að tala um mengunarleyfi en starfsleyfi, því að starfsleyfið felur í sér leyfi til handa viðkomandi fyrirtæki til að sleppa mengandi efnum út í umhverfið, en þó aðeins upp að þeim mörkum sem tilgreind eru í starfsleyfinu og byggjast yfirleitt, eða ættu að byggjast, á evrópskri fyrirmynd. Sá sem gefur út starfsleyfið sér líka um eftirlitið. Gerð er krafa um ákveðnar mengunarmælingar í samræmi við eðli og umfang starfseminnar, niðurstöðum um þetta þarf að skila til eftirlitsaðilans og hann á að grípa til aðgerða ef kröfum starfsleyfis um mælingar er ekki fylgt eða ef niðurstöður mælingar lenda utan leyfilegra marka.

Þegar frammistaða stjórnvalda er skoðuð, annars vegar í díoxínmálinu og hins vegar í vítissódamálinu, kemur nokkuð ólík niðurstaða í ljós. Í díoxínmálinu má segja að regluverkið hafi brugðist öðru fremur. Þar höfðu Íslendingar af einhverjum ástæðum herjað út tímabundna undanþágu frá Evrópuregluverkinu, sem leiddi m.a. til þess að í starfsleyfi fyrir sorpbrennsluna Funa á Ísafirði (sem þetta mál snerist upphaflega um), voru engin losunarmörk fyrir díoxín. Þar stóð bara að mæla skyldi styrk díoxíns einu sinni fyrir tiltekinn tíma. Þetta var gert, en engum bar svo sem skylda til að gera neitt með niðurstöðuna hver sem hún yrði. Í vítissódamálinu virðist regluverkið hins vegar vera í lagi, en þar vantaði eftirlit og eftirfylgni. Að vísu skilst mér að einhverjar athugasemdir hafi verið gerðar við forsvarsmenn Becromal, en fljótt á litið var fyrirtækinu sýndur allt of mikill sveigjanleiki þegar haft er í huga hversu einfalt hlýtur að hafa verið að bæta úr. Málið var sem fyrr segir alls ekki neitt flókið tæknilega, þó að auðvitað kosti allt einhverja peninga.

Þáttur rekstraraðila (framleiðanda)
Þegar frammistaða rekstraraðila er skoðuð, annars vegar frammistaða Ísafjarðarbæjar í díoxínmálinu og hins vegar frammistaða Becromal í vítissódamálinu, kemur líka býsna ólík niðurstaða í ljós. Ísafjarðarbæ bar sem sagt ekki að gera eitt né neitt í framhaldi af þessari einu díoxínmælingu sem gerð var á sínum tíma. Auk heldur má telja ólíklegt að þar hafi verið til staðar þekking sem þurfti til að túlka tölur um styrk díoxíns í útblásturslofti, þar sem þær hafa í þokkabót líklega verið birtar í einhverri skýrslu innan um haug af öðrum tölum um óskyld mál, án þess að vakin væri athygli á þeim sérstaklega. Því má telja líklegt að forsvarsmenn sveitarfélagsins hafi ekki haft neinar forsendur til að átta sig á að grípa þyrfti til aðgerða. Reyndar er vitað að Ísafjarðarbær gerði lítið með aðfinnslur Umhverfisstofnunar vegna reksturs stöðvarinnar, en þær aðfinnslur snerust ekki um díoxín og eru því ekki til umræðu hér. Becromal fær lægri einkunn hvað þetta varðar. Þar hlýtur öll nauðsynleg þekking að hafa verið til staðar, enda verksmiðjan væntanlega rekin af fólki sem þekkir þessa tilteknu starfsemi frá öllum hliðum. Auk heldur var stöðugt fylgst með pH-gildi í frárennsli – og menn vissu vel að það var stundum langt fyrir ofan viðmiðunarmörk. Samt var ekkert gert í málinu, væntanlega vegna þess að ekki var rekið eftir því af eftirlitsaðilanum, sem er þó í besta falli fremur léleg afsökun í tilviki sem þessu. Í þokkabót var látið í það skína að unnið hefði verið að lausn málsins um langa hríð, enda erfitt í nýjum rekstri að hitta á réttu blönduna. En um leið og málið var komið í hámæli var svo að skilja að hægt væri að kippa því í lag á tveimur dögum sem áður var búið að kljást við í marga mánuði. Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja verður þannig varla annað séð en að forsvarsmenn Becromal hafi dregið lappirnar í úrbótunum gegn betri vitund.

Þáttur kaupenda
Kaupendur vöru og þjónustu eru í reynd þeir sem hafa eða geta haft mest áhrif á það hvernig staðið er að framleiðslu vörunnar eða þjónustunnar. Í þeim tilvikum sem hér um ræðir er þáttur kaupendanna þó að öllum líkindum léttvægur.

Þáttur fjölmiðla
Fjölmiðlar geta haft mikil áhrif á það hvernig rekstraraðilar haga umhverfismálum í starfsemi sinni. En til þess þurfa fjölmiðlar að vera vakandi og hafa fjárhagslega og faglega burði til að fara dýpra í mál en svo að endurbirta fréttatilkynningar án nokkurrar gagnrýnnar skoðunar. Fjölmiðlarnir þurfa líka að vera nógu óháðir til að birting óþægilegra staðreynda sé ekki líkleg til að valda þeim verulegu tjóni eða ógna starfsöryggi eða öðru öryggi þeirra sem þar vinna. Þau mál sem hér um ræðir benda til að íslenskir fjölmiðlar séu að styrkjast. Fréttablaðið sýndi t.d. díoxínmálinu mikinn áhuga, aflaði mikilvægra gagna og átti stóran þátt í að koma af stað gagnrýnni umræðu. Fleiri fjölmiðlar komu þar einnig við sögu. Í vítissódamálinu átti Kastljós RÚV beinlínis upptökin að umræðunni. Þessir fjölmiðlar eiga hrós skilið fyrir aðkomu sína!

Þáttur almennings og frjálsra félagasamtaka
Fólkið í landinu ræður nokkurn veginn því sem það vill ráða, einfaldlega vegna þess að fólkið í landinu er jafnframt kjósendur og neytendur. Umræðan um díoxínmálið á Ísafirði og vítissódamálið í Eyjafirði hefði ekki komist á skrið nema vegna þess að fólkinu í landinu er ekki sama hvernig gengið er um umhverfi þess. Umræðan ber þess vitni að umhverfisvitund almennings fer vaxandi. Fólk lætur sig þessi mál miklu varða, og að sjálfsögðu ræður áhugi almennings miklu um það hvernig fjölmiðlar nálgast mál sem þessi. Aðkoma almennings mun enn styrkjast þegar ákvæði Árósasamningsins verða að fullu komin inn í íslenskt regluverk. Þar er m.a. kveðið á um rétt almennings til umhverfisupplýsinga og um rétt til að teljast formlegur aðili að umhverfismálum, sem felur m.a. í sér auknar kæruheimildir.

Niðurstöður og ályktanir
Að öllum líkindum eru díoxínmálið á Ísafirði og vítissódamálið í Eyjafirði ekkert öðruvísi en ýmis önnur mál sem komið hafa upp á liðnum árum. Það eru miklu frekar viðbrögðin sem eru öðruvísi. Fólki eru ekki lengur sama. Aukin umhverfisvitund almennings skapar þrýsting á stjórnvöld að efla eftirlit með starfsemi fyrirtækja. Og áhugi almennings á umhverfismálum gerir það að verkum að fjölmiðlar sinna þessum málaflokki mun betur en áður.

Almenningur og fjölmiðlar eru komin skrefi á undan stjórnvöldum, eins og sést í báðum þessum málum. Díoxínmengunin á Ísafirði komst í hámæli vegna þess að Mjólkursamsalan, sem átti engan hlut að máli, lét gera mælingar á díoxíni í mjólk til að bregðast við áhyggjum almennings. Og vítissódinn í Eyjafirði var á allra vörum eftir að Kastljós RÚV skoðaði málið að eigin frumkvæði, væntanlega eftir að hafa fengið ábendingar frá fólki sem vissi hvað var þarna á seyði. Í báðum tilvikum voru stjórnvöld heldur sein að grípa inn í, því að í báðum tilvikum mátti þeim vera ljóst að aðgerða væri þörf. En stjórnvöldum var viss vorkunn, því að annars vegar voru gloppur í regluverkinu og hins vegar hefur stofnanamenning á Íslandi einkennst af mikilli lagahyggju, þar sem ekki tíðkast að bregðast við neinu sem er ekki beinlínis í blóra við regluverkið, jafnvel þótt aðgerðarleysið gangi gegn tilgangi þess eða markmiðum.

Rekstraraðilarnir koma ekki vel út úr þessum málum, sérstaklega ekki Becromal. En rekstraraðilar eru í eðli sínu svolítið eins og börn, sem fara yfirleitt jafn langt og þau komast upp með. Ef aga og aðhald skortir getur margt farið úrskeiðis. Hitt er svo annað, að ólíkt börnum þurfa rekstraraðilar að huga að ímynd sinni. Það getur tekið langan tíma og kostað talsverða fjármuni að lagfæra laskaða ímynd. Góður orðstír er ekki eini orðstírinn sem lifir lengi.

Á sama hátt og óheppileg uppátæki óþekkra barna verða foreldrum oft hvatning til að skoða betur en áður hvað börnin hafast að á öðrum sviðum, hlýtur sú hugsun að læðast að manni að e.t.v. hafi Becromal sýnt af sér kæruleysi í umgengni sinni við fleira en vítissóda.  Hjá fyrirtækinu er t.d. geymt og meðhöndlað mikið magn (tugir tonna) af efnum á borð við saltsýru, fosfórsýru, ammoníumhýdróxíð og bórsýru, auk nokkurs magns af kvikasilfri. Væntanlega hefur verið gert ítarlegt áhættumat og viðbragðsáætlun vegna þessara efna, en atburðir síðustu vikna gefa þó tilefni til að fara vandlega yfir þessi mál.

Síðustu daga hefur verið töluvert um það rætt hvort rétt sé að tilkynna rekstraraðilum fyrirfram um heimsóknir eftirlitsaðila, eða hvort slíkar heimsóknir ættu að vera óundirbúnar. Að mínu mati er hvort tveggja bráðnauðsynlegt. Það gefur auga leið að eftirlitsaðilinn þarf að hitta lykilfólk á staðnum reglulega til að fara yfir stöðu mála, skiptast á upplýsingum, fara yfir það sem gert hefur verið frá síðustu heimsókn o.s.frv. Þess vegna eru undirbúnar heimsóknir nauðsynlegar. Óundirbúnar heimsóknir geta ekki komið í staðinn, en þær eru nauðsynleg viðbót, sem líklega hefur verið vanrækt. Hugsanlega stafar sú vanræksla, ef nota má það orð, m.a. af fjárskorti, því að auðvitað kostar gott eftirlit töluverða peninga. Eftirlitið er fjármagnað með eftirlitsgjöldum, og eðlilega vilja rekstraraðilar halda slíkum kostnaði í lágmarki. Há eftirlitsgjöld kalla á umræðu um svokallaðan „eftirlitsiðnað“, sem hljómar nánast sem blótsyrði í munni sumra rekstraraðila. Ef til vill hefur þessi „eftirlitsiðnaður“ haldið of þétt að sér höndum til að losna við neikvæða umræðu. En væri þá ekki möguleiki að innleiða nýjan gjaldstofn til að standa undir kostnaði við aukið óundirbúið eftirlit, í stað þess að hækka eftirlitsgjöldin? Þessi gjaldstofn gæti t.d. heitið „dagsektir“, sem beitt væri af einurð og festu í þeim tilvikum þar sem óundirbúna eftirlitið leiðir í ljós veruleg frávik af hálfu rekstraraðila.

Lokaorð
Ætli agi og aðhald séu ekki einmitt lykilorðin í þessum málum? Bæði þessi mál eru birtingarform þess agaleysis sem einkenndi íslenskt þjóðfélag á árunum fyrir hrun – og er fjarri því úr sögunni enn. Það er gott að fá þessi mál upp á yfirborðið núna, vegna þess að þau hjálpa okkur til að velja leiðina fram á veginn. Stjórnvöld sváfu vissulega á verðinum, en nú hafa þau brugðist vel við. Það endurspeglast m.a. í skjótum og markvissum viðbrögðum Umhverfisstofnunar eftir að umrædd mál komust í hámæli, og einnig í vinnu umhverfisráðuneytisins við endurbætur á regluverkinu, sem reyndar var komin á góðan skrið áður en þessi mál komu upp. Innleiðing Árósasamningsins er gott dæmi um þessa vinnu. Vissulega hefði þetta átt að vera búið fyrir löngu, en fortíðin er liðin og henni verður ekki breytt.

Við höfum fengið mörg tækifæri til að læra af reynslunni. Sá lærdómur hefur gengið hægt, en nú sjást merki um breytingar þar á. Því ber að fagna!

(Hægt er að fræðast meira um aflþynnuverksmiðju Becromal á Krossanesi í úrskurðum Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 18. mars 2008  og 13. maí 2009).

Eitt svar

  1. Takk fyrir svo fallegar upplýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: