• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • apríl 2011
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Að loknu kökuhlaupi

Í gær tók ég þátt í árlegu kökuhlaupi í Flóanum annað árið í röð, en um leið var þetta upphafið af keppnistímabili ársins hvað mig varðar. Reyndar má velta því fyrir sér hversu rétt sé að tala um keppni í þessu sambandi, því að ég er fyrir nokkru vaxinn upp úr því að hlaupa til að vinna. Nú er það Olympíuhugsunin sem gildir, en þó aðallega gleðin.

Kökuhlaupið í Flóanum heitir reyndar réttu nafni Flóahlaup Ungmennafélagsins Samhygðar. Hins vegar er hlaupið gjarnan nefnt kökuhlaup, því að hlaupi loknu er þátttakendnum jafnan boðið í glæsilega kökuveislu að íslenskum sveitasið í félagsheimilinu Félagslundi í Gaulverjabæ. Þetta hefur skapað hlaupinu sérstöðu og vinsældir, enda viðmót allt og viðurgerningur slíkur að unun er að njóta.

Flóahlaupið er eitt af elstu almenningshlaupum landsins, en í gær var það einmitt þreytt í 33. sinn. Fyrir hlaupafólk eins og mig, sem ekki nennir að taka mikinn þátt í almenningshlaupum að vetri til, er Flóahlaupið tilvalið og hátíðlegt upphaf á hlaupavertíð sumarsins. Ég er hins vegar nýbúinn að uppgötva þetta ágæta hlaup. Í gær var ég sem sagt bara með í annað sinn.

Flóahlaupið í gær var að mörgu leyti eins og endurtekning á Flóahlaupinu í fyrra. Heildarfjöldi þátttakenda var svipaður, svona hátt í 100 manns, og svo var veðrið líka hér um bil alveg eins, hvöss suðlæg átt og kannski pínulítil súld með köflum. Aðalvegalengdin í hlaupinu er 10 km, þar sem hlaupinn er dálítill hringur um sveitina í grennd við Félagslund. Í hvassri sunnanátt eru fyrstu 2 kílómetrarnir eða rúmlega það hlaupnir í sterkum meðvindi, en eftir það tekur við hliðarvindur og síðan stífur mótvindur, sérstaklega á kílómetrum nr. 6-8. Síðustu tveir kílómetrarnir eru svo hlaupnir í vindi aftan á vinstri öxlina.

Fyrir mér snúast hlaup ekki bara um holla hreyfingu og útivist, heldur líka um leik að tölum. Tölur hafa reyndar verið mín uppáhaldsleikföng allt frá æsku, þ.á.m. tölur um metra, mínútur og meðalhraða. Hvað tölurnar varðar var hlaupið í gær líka endurtekning frá hlaupinu í fyrra, sérstaklega fyrstu 8 kílómetrana. Reyndar var meðalhraðinn heldur jafnari þetta árið og baslið á móti vindinum ánægjulegra. En fyrstu 8 kílómetrarnir voru nokkurn veginn jafntímafrekir; tóku 36:13 mín í fyrra en 36:09 mín í gær. Síðasti spölurinn var hins vegar miklu léttari þetta árið. Lokatíminn varð þannig 35 sek. betri en í fyrra, þ.e.a.s. 44:29 mín í stað 45:04 mín. Og það sem var enn betra: Mér leið miklu betur að hlaupi loknu í gær en í fyrra, var eiginlega alveg óþreyttur og naut dýrðlegra veitinga Flóamanna í mun ríkari mæli.

Þar sem ég hef jú bæði gaman að hlaupum og tölum, gefur hver atburður á þessu sviði mér gullið tækifæri til naflaskoðunar. Hvers vegna var t.d. árangurinn og líðanin betri í gær en í fyrra, þrátt fyrir að aðstæður væru allar mjög svipaðar – og ég jafnvel ári eldri? Skýringuna er e.t.v. að einhverju leyti að finna í örlítið mismunandi æfingum vikurnar á undan, en önnur skýring er þó mun augljósari og líklegri. Í fyrra var ég nefnilega að berjast við óraunhæft markmið og fannst þess vegna hver kílómetri taka of langan tíma, fæturnir vera of þungir, mótvindurinn of erfiður og leiðin í mark of löng. Núna var lagt af stað með það eina markmið að njóta hlaupsins og hafa gleðina með í för alla leið. Það tókst algjörlega, og meira að segja mótvindurinn varð að skemmtilegu viðfangsefni. Hver kílómetrinn af öðrum leið hjá, og síðasti spölurinn var stuttur.

Í hlaupum gildir nefnilega sama regla og í lífinu; “Det er ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det”, eins og gömul norsk kona sagði einhvern tímann. Þessa reglu er ágætt að rifja upp annað slagið. Þannig verður lífið skemmtilegra.

Eitt svar

 1. […] Tertuhlaupið í Flóanum (öðru nafni Flóahlaup Samhygðar) 9. apríl var fyrsta keppnishlaup ársins. Það gekk bara ágætlega. Alla vega leið mér miklu betur en árið áður og var um hálfri mínútu fljótari (10 km á 44:29 mín) þó að hvassviðrið væri engu minna. Terturnar brögðust líka betur en áður, (sem helgaðist einkum af góðu andlegu og líkamlegu ástandi mínu. Terturnar eru alltaf góðar)! […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: