• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • mars 2011
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Þúsundmílnaskór

Einu sinni þegar ég var að velja mér hlaupaskó var sagt við mig að ég væri “eins og versta kona”. Ég hef enga hugmynd um merkingu þessa orðatiltækis, en hitt veit ég að ég á 10 pör af hlaupaskóm. Alla þessa skó hef ég eignast á síðustu 5 árum, þ.e.a.s. á þeim tíma sem liðinn er síðan ég komst á sæmilegan hlaupaaldur. Og á dögunum náði eitt þessara skópara þúsund mílna markinu, sem er langmesta þrautseigja sem nokkurt skópar í minni eigu hefur sýnt.

Almennt þykir ekki ráðlegt að hlaupa meira en 800-1.000 km á sömu hlaupaskónum, eða kannski 1.000-1.200 km ef um er að ræða mjög vandaða (og dýra) skó. Þegar þar er komið sögu kvað dempunin í skónum vera farin að gefa sig, og eins hættir sólanum til að slitna eftir því sem kílómetrunum fjölgar. En mér var kennt í æsku að nýtni væri dyggð, og því skirrtist ég við að leggja þessum ágætu skóm þótt kílómetrar þeirra væru taldir. En nú, þegar 1.609 km eru að baki hyggst ég láta staðar numið.

Umræddir skór er af gerðinni Asics Kayano 15, sem sagt vandaðir (og dýrir) skór. (Hér er rétt að skjóta því inn að ég er ekki á prósentum hjá framleiðandanum. Hins vegar finnst mér full ástæða til að framleiðandinn hugi að breytingum á því fyrirkomulagi í framhaldi af þessari ágætu auglýsingu). Kayano-skórnir eru einkum gerðir fyrir þunga hlaupara sem þurfa innanfótarstuðning. Ég er alls ekki þungur og þarf svo sem engan stuðning. Ég byrjaði bara að nota svona skó fyrir margt löngu, og hef ekki séð ástæðu til að breyta því, fyrr en þá kannski núna þegar framundan er naumhyggjutímabil í hlaupaskótísku.

Hlauparar eins og ég, sem hlaupa u.þ.b. 2.000 km á ári, slíta u.þ.b. tveimur skópörum við þá iðju árlega. Þess vegna er e.t.v. ekkert skrýtið að ég hafi komið mér upp 10 skópörum á 5 árum. Nokkur þessara para hafa svo sem lokið hlutverki sínu, en ég er samt að hugsa um að henda engu þeirra, ekki bara vegna þess hve illa mér er við úrgang, heldur líka vegna þess að þegar ég hætti að hlaupa eftir 45 ár ætla ég að opna hlaupaskósafn með öllum 100 pörunum sem hef þá náð að nurla saman. Og með hverju pari verður ofboðslega löng frásögn af svaðilförum viðkomandi skótaus. Það verður sem sagt nóg að gera hjá mér þegar hlaupaferlinum lýkur árið 2056. Bjart framundan!

Þúsund mílna skónum mun þó ekki fylgja ofboðslega löng frásögn á skósafninu, því að þeir hafa svo sem ekki tekið þátt í neinu sérstöku, t.d. hafa þeir hvorki hlaupið fjallvegi né keppnishlaup, ef frá er talið tertuhlaupið í Flóanum í fyrra. Hlutverk þeirra hefur fyrst og fremst falist í tilbreytingalitlum æfingahlaupum. En þessar þúsund mílur voru samt ágætar.

Þúsundmílnaskórnir

2 svör

  1. Ofboðslega líst mér vel á þessa hugmynd um skósafnið! Ég sé svoleiðis fyrir mér meterlanga dálka, fulla af allskyns tölum og tilheyrandi útskýringum 🙂

  2. Þetta er nú með betri hugmyndum sem ég hef heyrt/lesið um lengi 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: