Eitt af því sem einkennt hefur páskafríið mitt þetta árið eru 15 km morgunhlaup. Tók 4 slík síðustu 4 morgna. Það er reyndar ekki alveg eftir bókinni að hlaupa sömu vegalengdina dag eftir dag, en hvað sem öllum bókum líður hefur þessi aðferð reynst mér vel sem undirbúningur fyrir keppni sem ég er ekkert allt of vel tilbúinn í. Betra væri þó ef endurtekningarnar væru fleiri en fjórar. Ég gerði þetta fyrst þegar ég var að æfa fyrir Landsmótið á Akranesi 1975 og aftur síðsumars 2008 í viðleitni minni til að bæta eigið fimmtugsmet í 10 km hlaupi. Í báðum tilvikum náði ég því sem að var stefnt, þó að staðan væri ekki nógu góð nokkrum dögum fyrr. Núna snýst málið um Vormaraþon Félags maraþonhlaupara nk. laugardag. Þar ætla ég reyndar ekki að slá nein met, en þætti samt verra ef hlaupið tæki meira en þrjá og hálfan tíma, (miðað við að veðrið verði skikkanlegt).
Fimmtán km eru reyndar heldur stuttir til að passa inn í þetta sérhannaða undirbúningsferli. Ég hef nefnilega einhvern veginn á tilfinningunni að svona síendurtekin vegalengd þurfi að vera u.þ.b. 70% af keppnisvegalengdinni. Þetta hefðu samkvæmt því átt að vera 4×30 km. Held bara að það sé of stór skammtur þegar svona skammur tími er til stefnu. Málið snýst um að hræra aðeins upp í skrokknum án þess að þreytast um of.
Hlakka til laugardagsins.
Filed under: Hlaup |
Færðu inn athugasemd