Skömmu eftir að Jón sigraði landsmótið urðu vatnaskil í sögu hans sem golfleikara þegar hann varð fyrir fólskulegri árás tapsárra keppinauta, sem hentu í hann grjótum. Jón slasaðist svo illa í árásinni að hann tekur varla þátt í fleiri mótum þetta árið.
Í setningunni hér að framan, (sem gæti verið úr dæmigerðum staglstíl) er að finna fjórar málfarslegar ambögur sem allar fara óskaplega í taugarnar á mér. A.m.k. þrjár þeirra hafa heyrst í útvarpi allra landsmanna á síðustu 10 dögum, eða sést á vef þess sama útvarps. Sú fjórða heyrist þar líka annað slagið. Lítum nánar á málið:
- Það er ekki hægt að sigra mót, nema þá ef mótið tapar fyrir manni. Sama gildir um söngvakeppni. Hins vegar er hægt að sigra í móti og svo er líka hægt að vinna mót.
- Vatnaskil verða ekki, þau eru bara. Þáttaskil verða.
- Orðið grjót er ekki til í fleirtölu. Það er bara til í eintölu og er þá gjarnan notað um marga steina.
- Maður slasast ekki í árás. Maður getur hins vegar meiðst eða særst, sem er auðvitað álíka slæmt. Maður slasast í slysum.
Þetta var málfarsnöldur. Mér finnst að útvarp allra landsmanna eigi að vera mér og öðrum góð fyrirmynd í meðferð móðurmálsins.
Filed under: Málfar |
Færðu inn athugasemd