Í morgun hljóp ég Háfslækjarhringinn í góðum félagsskap eins og jafnan á uppstigningardag. Hef gert það þennan dag á hverju ári, alveg síðan í fyrra. Stundum hleyp ég þennan hring líka aðra daga. Þannig var hringurinn í morgun sá sjötugastiogfimmti í röðinni hvað mig varðar. Byrjaði á þessu fyrir þremur árum og tveimur dögum, og hef engan veginn náð að venja mig af því.
Uppstigningardags-Háfslækjarhringir eru öðruvísi en aðrir Háfslækjarhringir að því leyti að þá hleypur jafnan slatti af fólki með mér. Annars er ég oftast einn á ferð. Vissulega er einveran góður félagsskapur, en þessi er þó enn betri. Í fyrra hlupum við 5 saman, en núna vorum við 6. Það er hvorki meira né minna en 20% aukning milli ára. Það þykir góð ávöxtun nú til dags.
Háfslækjarhringurinn í morgun var sem sagt enginn venjulegur Háfslækjarhringur. Sem fyrr segir var ég að hlaupa hringinn í 75. sinn, en helmingurinn af hópnum var að hlaupa hann í fyrsta sinn, sem er mun merkilegri áfangi. Í fyrra voru líka tímamót. Þá var ég að hlaupa hringinn í 50. sinn og flestir meðhlauparanna voru byrjendur á hringnum, rétt eins og núna.
Ferðasaga dagsins var í stuttu máli þannig að við lögðum upp heiman að frá mér u.þ.b. kl. 9:01 og hlupum hringinn sem leið liggur rangsælis. Veðrið var alveg eins og í fyrra; vestan gola, skýjað að mestu og 8 stiga hiti. Fátt bar til tíðinda þar til við nálguðumst fólkvanginn í Einkunnum, en þar beið Kristín nágranni eftir okkur með drykkjarbílinn, sem kom sér einkar vel og átti eftir að koma meira við sögu í hlaupinu. Svo héldum við bara áfram sem leið liggur vestur að Langá, niður með Langá og heim frá Langá eftir þjóðvegi nr. 54. Klukkan var eitthvað um 11:08 þegar hlaupinu lauk þar sem það hófst. GPS-tækið sýndi 21,44 km og 2:06:49 klst. Og allir voru stálslegnir eins og ekkert hefði í skorist.

Á Sólbakkanum í Borgarnesi, nýbyrjaðir, 2 km að baki. F.v. Kristinn nágranni, Torfi Jó, Hilmar Arason, Bjarni Trausta og Sigurjón á Rauðanesi.
Ég held að á engan sé hallað þótt því sé haldið fram að kjötsúpan hennar Bjarkar sé jafnan hápunkturinn á þessum árlegu Háfslækjarhringum. Þetta skipti var hreint engin undantekning hvað það varðar – og heitur pottur á eftir. Getur þetta verið mikið betra.
Þeir sem hafa áhuga á fornum sögnum geta lesið um Háfslækjarhringshlaupið á uppstigningardag í fyrra á þar til gerðri vefsíðu.
Takk fyrir samfylgdina Bjarni, Hilmar, Kristinn, Sigurjón og Torfi. Og takk fyrir hjálpina Kristín og súpuna Björk!
PS: Hér áttu að vera miklu fleiri myndir en WordPress-ritillinn spillti þeim áformum algjörlega fyrir mér. 😦
Filed under: Hlaup |
[…] sérverkefnið var hinn árlegi Háfslækjarhringur, en sú hefð hefur skapast að ég hlaupi hann með nokkrum frískum Borgfirðingum á […]
[…] Þetta er gert til að auðvelda sagnfræðingum vinnuna. Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2010 Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2011 Hinn árlegi Háfslækjarhringur […]