• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • júní 2011
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  2627282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Gleðilegar díoxínfréttir

Í gær birti Landlæknisembættið niðurstöður mælinga á díoxínmagni í blóði fólks sem búið hefur og unnið í nágrenni sorpbrennslustöðvanna þriggja sem um langa hríð hafa sleppt út díoxíni umfram það sem leyfilegt er samkvæmt regluverki Evrópusambandsins. Niðurstöðurnar hljóta að vera flestum fagnaðarefni, því að enda þótt nokkur hækkun hafi mælst í einhverjum tilvikum, var styrkur díoxíns í öllum tilvikum lægri en svo að hann sé talinn geta skaðað heilsu fólks.

Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Landlæknis var díoxínmagn í blóði 10 heilbrigðra einstaklinga frá Ísafirði og 10 frá Reyjavík mælt og notað til viðmiðunar. Notuð er mælieiningin píkógrömm díoxíns í  grammi af fitu (pg/g fitu), en 1 píkógramm er einn billjónasti úr grammi (0,000000000001 g). Viðmiðunargildið frá Reykjavík reyndist vera 9,7 pg/g fitu, en 10,2 pg á Ísafirði. Þetta er í góðu samræmi við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Díoxínmagn í blóði starfsmanna við brennsluofnana og íbúa í næsta nágrenni mældist hins vegar á bilinu 2,7–16,2 pg/g fitu.

Þetta þykja mér gleðitíðindi! Mér sýnast þessar tölur gefa nokkuð góða tryggingu fyrir því að fólkið sem dvalið hefur næst þessum díoxínuppsprettum þurfi ekki að óttast að heilsa þess bíði tjón vegna mengunarinnar sem það hefur búið við, hvorki nú né síðar á ævinni. Í frétt á visir.is í dag kemur fram að Bandaríkjamenn miði við 25-30 pg/g fitu sem heilsuverndarmörk, og í allstórri japanskri rannsókn  sem ég rakst á í gær reyndust meðalgildin vera nálægt 20 pg.

Ég held að hámarksgildi upp á 16 pg gefi ekki tilefni til að draga neinar ályktanir, þó að það sé 60% hærra en í „meðal-Jóninum“ á Ísafirði og í Reykjavík og annars staðar á Norðurlöndunum. Það er ekki einu sinni hægt að fullyrða að þessi munur sé marktækur, nema með því að greina frumgögnin. Og alla vega er þetta allt minna en í meðal-Japananum og vel fyrir neðan heilsuverndarmörk Bandaríkjamanna. 

Mér finnst þetta sem sagt vera mikill léttir. Ég óttaðist að ástandið gæti verið verra, en bjóst þó frekar við að það væri innan hættumarka (hver sem þau annars eru nákvæmlega). Það að díoxín í útblæstri, jarðvegi eða fæðu fari yfir viðmiðunarmörk þarf alls ekki að þýða að fólk verði fyrir skaða. Þarna reyna menn jú að hafa vaðið fyrir neðan sig með því að hafa umhverfismörkin mjög lág. Þá fá menn jú viðvörun í tæka tíð og geta ráðist strax beint að mengunarvaldinum (þ.e.a.s. ef þessir sömu menn sofa ekki á verðinum) áður en það er orðið of seint. Þar með á að vera hægt að koma í veg fyrir að heilsu fólks stafi hætta af.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt, má alls ekki túlka þessar niðurstöður svo að nú sé óhætt að slaka á. Við verðum að hafa í huga að díoxín safnast upp í fituvefjum líkamans og yfirgefur þá ekki svo glatt, svo lengi sem við lifum. Svolítil árleg viðbót er nóg til þess að styrkurinn í fitunni verði kominn á hættulegt stig seint á ævinni. Þess vegna tel ég alls enga ástæðu til að slaka neitt á gagnvart hlutaðeigandi brennslustöðvum (á Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum). Við verðum að hafa vaðið fyrir neðan okkur hér eftir sem hingað til – og gæta fyllstu varúðar. Umhverfismörkin eru sett til að vernda okkur og börnin okkar. Við skulum gleðjast yfir því að þetta hafi sloppið fyrir horn í þetta sinn – og gera allt sem við getum til að svona uppákomur endurtaki sig ekki. Ef það kallar á lokun einhverra sorpbrennslustöðva, þá á bara að loka þeim.

Sorpbrennslustöðin í Sisimiut á Grænlandi. Myndin var tekin í júlí 2001 og tengist ekki efni þessa pistils með beinum hætti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: