Uppstigningardagur er hátíðisdagur, því að þá hópast að mér skemmilegt fólk til að hlaupa með mér Háfslækjarhringinn. Þessi hefð komst á vorið 2010 og hefur staðið óslitið allar götur síðan. Á dögunum var hringurinn því hlaupinn í 4. sinn – með viðhöfn.
Hver er þessi hringur?
Háfslækjarhringurinn er 17,9 km göngu-, hlaupa- og reiðleið í nágrenni Borgarness. Reyndar hef ég hann svolítið lengri, því að með því að fara heiman að frá mér og heim aftur er hringurinn 21,3 km miðað við að farin sé stysta leið. Það er sú leið sem jafnan er hlaupin á uppstigningardag.
Veðrið klukkan níu
Það er óhætt að segja að þessi uppstigningardagur hafi runnið upp (eða stigið upp) bjartur og fagur. Sólin tók daginn snemma og byrjaði að skína fyrir allar aldir og þegar fólk kom á stjá var hitinn kominn vel yfir 5 stig og héla næturinnar á undanhaldi. Vindur var svo lítill að jaðraði við logn. Og þegar leið á daginn átti hitastigið eftir að ná tveggja stafa tölu. Þetta var með öðrum orðum einhver besti dagur ársins það sem af var.
Fallegt fólk
Um 9-leytið um morguninn hafði hópur af fallegu fólki safnast saman fyrir utan dyrnar hjá okkur hjónunum. Reyndar fréttist af enn fleira fallegu fólki sem hafði lagt í hann klukkutíma fyrr til að geta tekið hringinn á sínum hraða. Það er skynsamlegt að sníða sér stakk eftir vexti. Samtals voru það 9 manns og einn hundur sem stilltu sér upp til myndatöku í morgunsólinni – og svo var lagt af stað sem leið liggur í átt til Akureyrar.

Fallegt fólk að morgni dags. F.v. SG, Hrafnhildur, Haukur, Bragi, Bjarni, Sigurjón, Kristinn, Einar og Þuríður, að ógleymdum hundinum Gretti frá Rauðanesi. (Björk tók myndina).
Leiðarlýsing
Háfslækjarhringurinn nær ekki til Akureyrar. Þangað liggur annar hringvegur. Hins vegar liggur leiðin um fólkvanginn Einkunnir fyrir ofan Borgarnes, í gegnum fólkvanginn eftir vegarslóða sem núorðið er einkum ætlaður fyrir útreiðartúra, vestur undir Langá, niður með ánni austanverðri og loks meðfram aðalveginum frá Langá aftur til Borgarness.
Létt spor
Fólk var almennt létt í lund og létt í spori þennan morgun. Við héldum hópinn framanaf, en smám saman dreifist úr. Sumir höfðu það að meginmarkmiði að komast alla leið, aðrir vildu ljúka hlaupinu á örlítið styttri tíma en síðast og enn aðrir lögðu aðaláherslu á að njóta félagsskaparins og góða veðursins. Hópurinn grisjaðist þannig eitthvað þegar á leið hlaupið.

8 km að baki og gleðin tekin að ágerast. Hér er hlaupið norðureftir austurbakka Háfslækjar, sem er aðallækurinn í þessari sögu.
Eldhúsrútan
Ólíkt því sem verið hefur síðustu vor var ekkert vélknúið ökutæki með í för í þetta sinn, en slík ökutæki hafa gjarnan verið notuð til að flytja nesti og örþreytta hlaupara. Þetta kom þó ekki að sök því að Þuríður hafði pláss fyrir nokkrar vatnsflöskur og því um líkt á bögglaberanum á hjólinu sínu, og enginn hlaupari varð svo þreyttur að hann þyrfti aðstoð við að komast til byggða.
Met falla
Eins og við mátti búast voru slegin met í hlaupinu. Við Kristinn nágranni náðum að hrista hlaupafélagana af okkur á síðustu kílómetrunum og vorum mættir í hlað á Þórðargötunni 1 klst 58 mín og 21 sek eftir að við lögðum í hann. Þetta var um mínútu betri tími en fyrstu menn náðu í fyrra. Reyndar er þetta árlega Háfslækjarhringshlaup engin keppni, nema þá í því að sigrast á nýjum markmiðum og auka gleði sína sem mest. Veit ekki annað en allir hafi náð tilætluðum árangri hvað þetta varðar.

Hópurinn einkar vel á sig kominn að hlaupi loknu. F.v. Kristinn, Þuríður, Sigurjón, Haukur, SG, Kristín, Bragi, Hrafnhildur, Berta, Sigga Júlla, Veronika og Auður. Á myndina vantar Bjarna og Einar. (Ljósm. Guffa).
Sigurvegararnir
Ég lít svo á að í svona hlaupi séu allir sigurvegarar. Aðalsigurvegararnir eru þó þeir sem leggja hringinn að baki í fyrsta sinn. Því takmarki náðu fimm hlauparar á uppstigningardag.
Hápunkturinn
Mikilvægur hluti af hinni áralöngu hefð að hlaupa Háfslækjarhringinn á hverjum uppstigningardegi, er kjötsúpan sem Björk eldar jafnan á meðan á hlaupinu stendur, úr lambakjöti frá búgarði bróður míns á Ströndum. Á þessu varð engin breyting að þessu sinni – og kjötsúpan með albesta móti og er þá mikið sagt.
Lokaorð
Hér lýkur að segja frá hinum árlega Háfslækjarhring 2013. Að vísu má bæta því við að eftir súpuna fóru sumir til síns heima en aðrir funduðu í heita pottinum og þar í kring og gerðu upp atburði dagsins.
PS1
Já, ég gleymdi að geta þess, að þetta árið hlupu 10 manns allan hringinn. Þetta mun vera um 11% fjölgun frá fyrra ári, sem verður að teljast afar góð ávöxtun, þó að stærðfræðileg reikningsdæmi frá því á síðasta ári hafi ekki gengið alveg upp. Flest bendir til áframhaldandi fjölgunar.
PS2
Hér fyrir neðan má finna tengla á frásagnir af þremur síðustu árlegu Háfslækjarhringjum. Þetta er gert til að auðvelda sagnfræðingum vinnuna.
Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2010
Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2011
Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2012
Filed under: Hlaup |
Ég verð að hafa þetta í huga ef ég á leið þarna um einhverntíma á uppstigningardegi 🙂
Ójá Fríða! Vertu velkomin! 🙂
[…] skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Síðasta vor var þetta hlaup þreytt í 4. sinn þann […]