• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • febrúar 2012
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    26272829  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Fjallvegahlaup 2012

Nú er löngu kominn tími til að kunngjöra fjallvegahlaupaáætlun ársins 2012. Reyndar sendi ég hana út á fjallvegahlaupapóstlistann minn fyrir allnokkru síðan, en hér birtist hún almenningi í fyrsta sinn. Ég geri fastlega ráð fyrir að þjóðin hafi beðið í ofvæni eftir þessu!
 
1. Kerlingaskarð í maí (Fjallvegahlaup nr. 25)
Kerlingaskarð á Snæfellsnesi verður fyrsta fjallvegahlaup sumarsins. Ég er enn ekki búinn að ákveða dagsetninguna endanlega, en líklega verður þetta seint í mánuðinum. Miðvikudagurinn 23. maí og laugardagurinn 26. maí hafa verið nefndir í þessu sambandi, en enn er allt galopið hvað þetta varðar – og allar ábendingar vel þegnar. Yfirleitt set ég fjallvegahlaupin á helgar, en vegna staðsetningar sinnar og hóflegrar vegalengdar er svo sem vel hægt að hlaupa Kerlingaskarð síðdegis á virkum degi. Þetta eru líklega um 17 km á aflögðum bílvegi, sem fer mest í 311 m hæð. Ég á eftir að ákveða hvort hlaupið verður til norðurs eða suðurs. Kannski er upplagt að hlaupa til norðurs og enda daginn á málsverði í Stykkishólmi. Þigg allar tillögur um þetta með þökkum.

2. Þrístrendingur, laugard. 23. júní
Nú verður Þrístrendingur hlaupinn í þriðja sinn – og sem fyrr lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði. Þeir sem telja sig hægfara leggja væntanlega af stað kl. 10:30 árdegis, en þeir sem telja sig hraðskreiðari fara kl. 11:00. Frá Kleifum verður hlaupið norður Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni við botn Kollafjarðar á Ströndum. Þangað eru um 19 km frá Kleifum. Við Stóra-Fjarðarhorn verður hópurinn sameinaður á ný og síðan hlaupið yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég allar farið áður. En þetta er upplagt æfinga- og skemmtihlaup í góðum félagsskap. Í fyrra fóru 16 manns alla leið og 7 til viðbótar einn eða tvo leggi af þremur. Hægt er að fræðast meira um þetta tiltæki og lesa ferðasöguna frá því í fyrra og í hitteðfyrra í samtímaheimildum. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag hlaupsins á sumri komanda verða birtar fljótlega.

3. Hamingjuhlaupið, laugard. 30. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 4. sinn, en þar er ekki keppt við tímann heldur er keppst við að auka hamingju þátttakenda, svo og þeirra sem bíða eftir því að þeir skeri fyrstu sneiðina af tertunum á hinu heimsfræga hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga á Hólmavík. Reyndar er ekki búið að ákveða fyrirkomulagið á tertuskurðinum, en hlaupaleiðin er löngu ákveðin, eins og sjá má á heimasíðu Hamingjudaganna. Hamingjuhlaupið hefst að þessu sinni við Árnes í Trékyllisvík að morgni dags. Hlaupið verður um Naustvíkurskörð til Reykjarfjarðar, áfram eftir veginum til Djúpuvíkur, þaðan um Trékyllisheiði að Bólstað við botn Steingrímsfjarðar og loks eftir veginum síðasta spölinn til Hólmavíkur. Alls eru þetta á að giska 53 km, og líklega verða teknar í þetta 7-8 klst. Drög að tímaáætlun eru komin inn á fyrrnefnda Hamingjudagasíðu. Hægt er að rifja upp hamingjuhlaup fyrri ára með lestri viðeigandi bloggpistla frá 2011, 2010 og 2009. Hamingjuhlaupið er orðið árvisst, en það er svo sem ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu. Nánari upplýsingar um hlaupið verða birtar þegar nær dregur.

4. Laugavegurinn, laugard. 14. júlí
Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, en ég nefni hann samt hér til þess að ég muni örugglega eftir að hlaupa hann.

5. Snjáfjallahringur, laugard. 28. júlí (Fjallvegir nr. 26, 27 og 28)
Þennan laugardag ætla ég að hlaupa þrjá fjallvegi norðan Ísafjarðardjúps, nánar tiltekið í fyrsta lagi frá Unaðsdal, út Snæfjallaströnd og yfir Snæfjallaheiði til Grunnavíkur (um 29 km), í öðru lagi frá Grunnavík um Staðarheiði inn í Leirufjörð (um 18 km) og í þriðja lagi yfir Dalsheiði úr Leirufirði að Unaðsdal (um 15 km). Samtals er þetta því ágætis dagleið, eða samtals á að giska 62 km. Upplagt er að skella sér í góða útilegu við Dalbæ (rétt hjá Unaðsdal) í tengslum við þetta, en þar er tjaldsvæði og ýmiss önnur þjónusta – og margt að skoða í nágrenninu fyrir fylgdarfólk sem ekki hugnast svona dagleiðir. Snæfjallaheiðin og Staðarheiðin koma mjög við sögu í „Harmi englanna“ eftir Jón Kalman Stefánsson, að vísu undir öðrum nöfnum. Því er mælt með lestri þessarar bókar (og hinna tveggja í þríleik Jóns) áður en hlaupið er af stað.

Lengra er ég ekki kominn í skipulagningunni. Samt inniheldur þessi upptalning bara fjóra nýja fjallvegi. Þyrfti helst að ná tveimur í viðbót til að komast upp í 30 samtals. Allar tillögur eru vel þegnar! Á svo sem slatta af hugmyndum á fjallvegahlaupasíðunni minni. Þetta er bara spurning um val (af þeim lista eða öðrum) og hentugar tímasetningar.

Öllum er velkomið að taka þátt í þessu tómstundagamni með mér. Í fjallvegahlaupunum er engin keppni, engin tímataka (umfram það sem hver og einn ákveður fyrir sjálfan sig), engin þátttökugjöld, engar drykkjarstöðvar nema í ám og lækjum, engin öryggisgæsla – og bara yfirleitt ekkert nema góður félagsskapur og íslensk náttúra. Og þeir sem slást í hópinn gera það alfarið á eigin ábyrgð.

Heimasíða fjallvegahlaupaverkefnisins er www.fjallvegahlaup.is.

Þarna lauk fjallvegahlaupum síðasta árs, í Finnafirði, að loknu hlaupi nr. 24.

Eitt svar

  1. Gott framtak Stefán

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: