• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • október 2011
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  3031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Lausnin á fæðuvanda mannkyns er smá og staðbundin

Aðferðir hefðbundins landbúnaðar munu ekki duga til að fæða vaxandi fjölda jarðarbúa. Erfðabreytt ræktun mun heldur ekki gagnast neitt í þeim efnum. Vænlegasta leiðin er „agroecology“, eins og hugtakið er nefnt á enskri tungu, þ.e.a.s. landbúnaður sem líkir eftir náttúrulegum hringrásum vistkerfa. Með slíkum aðferðum verður uppskeran mest og jöfnust til lengri tíma litið, og bændur sjálfum sér nógir með aðföng. Þetta kemur fram í nýlegri samantekt á niðurstöðum 286 ræktunarverkefna í 57 löndum.

Agroecology
Með „agroecology“ er átt við landbúnað þar sem stuðlað er að náttúrulegu samspili jarðvegs, næringarefna, grastegunda, trjágróðurs og húsdýra, svo eitthvað sé nefnt, um leið og viðkomandi býli er gert minna háð aðföngum og ríkisstyrkjum. Ég hef ekki séð íslenska þýðingu á hugtakinu, en finnst sjálfum að nota mætti orð eins og „vistrækt“ eða „vistræktun“ í þessu sambandi. Einhverjir hafa reyndar notað þessi orð eins og þau væru samheiti við „vistmenningu“ (e. permaculture), sem gengur mun lengra. Þarna er hætta á hugtakaruglingi, og því mun ég nota enska heitið það sem eftir lifir af þessum pistli, eða þar til einhver nennir að rökræða við mig um viðeigandi íslenska þýðingu.

79% uppskeruaukning!
Olivier de Schutter, sérstakur sendiherra Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á sviði matvælaréttinda, gerði samantektina sem hér er vísað til. Hún byggði sem fyrr segir á reynslunni sem fengist hefur úr 286 ræktunarverkefnum í anda „agroecology“. Í þessum verkefnum tókst að auka uppskeru um 79% að meðaltali. Auk þess kom í ljós að þol gagnvart loftslagsbreytingum jókst um leið og stuðlað var að viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni.

Nærtækar og ódýrar lausnir
Helstu niðurstöður úr samantekt Oliviers voru teknar saman í vikulegu fréttabréfi Umhverfisdeildar Evrópusambandsins (DG Environment) 8. september sl. Þar eru nefnd góð dæmi frá Kenýa og Zambíu, þar sem árangurinn byggðist m.a. á því að verja plöntur fyrir plágum með því að sá fráhrindandi plöntum í nágrenninu. Með þessu móti tókst að tvöfalda maísuppskeru og auka jafnframt nyt í kúm, því að aukagróðurinn nýttist sem skepnufóður. Einnig hefur gefist vel að sá niturbindandi tegundum. Ekkert af þessu telst til nýjunga, enda eru lausnir á vandamálum oft nærtækari en menn vilja vera láta.

Innviðir og menntun
Lausnin á fæðuvanda heimsins felst sem sagt ekki í því að fjárfesta í nýrri tækni stórfyrirtækja, hvort sem hún heitir erfðatækni eða eitthvað annað. Þvert á móti felst lausnin í bættum innviðum og menntun bænda til sjálfbærni. Hið opinbera þarf að fjárfesta í innviðunum og auðvelda bændum að miðla af reynslu sinni og þekkingu til annarra bænda sem skemmra eru á veg komnir. Fjárfestingin mun skila sér í auknum skatttekjum og minnkandi þörf fyrir styrki af ýmsu tagi.

Einhver hlýtur samt að tapa á þessu!
Á sínum tíma var Íslendingum talin trú um að til væri kerfi þar sem allir græddu og enginn tapaði. Sú var þó ekki raunin, og sú er ekki heldur raunin í því máli sem hér um ræðir. Vissulega munu bændur komast mun betur af en nú er, og sama mun gilda um samfélögin, bæði á landsvísu og heimafyrir. Og sama mun gilda um mannkynið í heild. Þeir sem tapa eru stórfyrirtækin sem hafa hag af því að bændur séu háðir þeim með aðföng, hvort sem um er að ræða fræ (erfðabreytt eður ei), tilbúinn áburð, varnarefni eða eitthvað annað.

Niðurstaða
Lausnin á fæðuvanda mannkyns er sem sagt til. Hún liggur í hinu smáa og í staðbundinni þekkingu!

(Þessi pistill er að hluta til byggður á frétt Science for Environment Policy 8. sept. sl. og að hluta á skýrslu Olivier de Schutter frá 17. des. 2010).