• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • október 2011
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  3031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Af hálfu haustmaraþoni

Í gærmorgun hljóp ég hálft haustmaraþon Félags maraþonhlaupara (FM). Ætlaði reyndar upphaflega í heilt, en mikið annríki í september kom í veg fyrir að ég gæti lagt inn nógu marga kílómetra til að eiga innistæðu fyrir skikkanlegu maraþonhlaupi. Lét því hálft nægja. Reyndar var innistæðan fyrir því ekkert alltof mikil heldur í kílómetrum talið, því að á þeim 8 vikum sem liðnar voru frá Reykjavíkurmaraþoni hafði ég ekki hlaupið nema 35 km á viku að meðaltali, sem dugar að mínu mati ekki til að viðhalda hlaupaforminu, hvað þá styrkja það. En magnið segir ekki allt. Æfingar síðustu þriggja vikna voru vel ígrundaðar – og það hefur líka sitt að segja.

Ágætis byrjun
Ég var frekar vel upplagður í gærmorgun, en gerði mér þó engar grillur um stórfenglegan árangur. Vissi samt að ég yrði spældur ef ég næði ekki að klára undir 1:35 klst. Veðrið var frekar hagstætt, reyndar dálítið drjúg austan gola, en þurrt að mestu og ekki svo mjög kalt, líklega 6°C. Var samt í síðum buxum og langermastakk. Var ákveðinn í að fara ekki of hratt af stað. Stefndi að því að vera á 4:20 mín/km til að byrja með og halda aftur af mér ef mig langaði til að bæta í. Gekk allvel að fylgja þessu, svona eftir á að hyggja. Leist reyndar ekki á blikuna þegar klukkan sýndi rúmar 9 mín við 2 km merkið, en svo áttaði ég mig á því að þetta merki hlaut að vera á vitlausum stað, líklega um 2,1 km frá rásmarkinu. Tók öllum millitímum með fyrirvara eftir það. Endurreiknaði svo allt hlaupið eftir að heim var komið.

Stífir kálfar
Í raun réttri var millitíminn nákvæmlega 8:40 eftir 2 km, sem sagt alveg á áætlun. Á þriðja kílómetranum byrjaði ég að stífna í kálfunum, mér til lítillar skemmtunar. Þessi stirðleiki hefur verið að angra mig í síðustu keppnishlaupum. Á sjálfsagt upptök í slöppum vöðvum í baki og mjöðmum. Því verður kippt í lag á næstu vikum. En þetta angraði mig alla vega næstu kílómetrana. Bjóst við að ástandið myndi skána áður en langt um liði, því að þannig er reynslan. Það gekk eftir og þegar komið var vestur í Nauthólsvík var líðanin orðin prýðileg. Þá voru 7 km að baki og leiðréttur millitími 30:32 mín, eða 4:22 mín/km, sem var alveg í góðu lagi.

Margra kílómetra vellíðan
Næstu kílómetra leið mér vel, reyndar marga næstu kílómetra, meira að segja alla kílómetrana sem eftir voru. Hafði séð Sigurbjörgu Eðvarðsdóttur á undan mér næstum frá upphafi. Framan af var millibilið svo sem 50 m, en jókst svo smám saman á meðan kálfarnir voru að angra mig og var komið í 150 m eða svo þegar mest var. Eftir Nauthólsvík fór bilið smám saman að minnka aftur.

10 km að baki
Eftir 10 km var leiðréttur millitími 43:31 mín, eða 4:21 mín/km. Var vel sáttur við það. Og um það leyti var ég líka farinn að mæta fyrstu hlaupurunum sem voru búnir að snúa við og komnir áleiðis til baka. Ingvar frændi minn var með þeim fyrstu í þeim hópi, greinilega á mjög góðri siglingu.

Leikur að markmiðum
Millitíminn á snúningspunktinum var 46:16 mín; helmingur hlaupsins að baki og helmingur eftir. Með því að halda sama hraða á seinni helmingnum þýddi þetta 1:32:32 klst, þ.e.a.s. 6 sek. bætingu á persónumetinu frá því á Akranesi í fyrra. En ég vissi svo sem að það væri ekki raunhæft, annars vegar vegna þess að vindurinn myndi verða heldur í fangið á bakaleiðinni – og hins vegar vegna þess að til þess hefði ég einfaldlega þurft að vera í betri æfingu. Ef ekkert færi úrskeiðis átti ég hins vegar að ráða vel við markmiðið um 1:35 klst. Svo var líka hægt að bæta við því markmiði að vera undir 1:34:51 og ná þannig næstbesta tímanum mínum frá upphafi. Betra væri samt að vera undir 1:34:38, sem var millitíminn í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar, þegar hugurinn bar mig hálfa leið en ekki mikið lengra.

Ágætis framhald
Ég var svolítið þungur á mér fyrst eftir snúninginn. Bæði fann ég vel fyrir vindinum í fangið, og eins sækir oft á mig einhver þreyta í upphafi seinni hálfleiks. Það er náttúrulega bara andlegt. En ég náði fljótt taktinum á nýjan leik, seig fram úr fleiri og fleiri hlaupurum smátt og smátt og sá Sigurbjörgu enn á undan mér, varla þó meira en 50 m.

Andlegt ástand allgott
Tíminn leið frekar hratt á bakaleiðinni og kílómetrakeilurnar birtust hver af annarri. Svoleiðis á það að vera, en auðvitað er þetta líka bara andlegt. Hraðinn á bakaleiðinni var eftir á að hyggja nokkru minni en á vesturleiðinni, enda vindurinn lúmskur á köflum. Leiðréttur millitími eftir 15 km var 1:05:54 klst., sem þýddi að síðustu 5 km voru um 40 sek hægari en tveir þeir fyrstu (22:23 mín í stað 21:45).

Þáttur Sigurbjargar og Halldórs
Ég fór fram úr Sigurbjörgu í Nauthólsvíkinni þegar u.þ.b. 14 km voru að baki og neðan við Fossvogskirkjugarðinn náði ég líka Halldóri S. Halldórssyni, hlaupafélaga mínum úr Þrístrendingi sl. sumar. Um svipað leyti var Sigurbjörg aftur mætt, og eftir þetta vorum við þrjú ýmist rétt á undan eða rétt á eftir hvert öðru. Svoleiðis samvera hjálpar manni töluvert á hlaupum, sérstaklega þegar maður er tekinn að lýjast. Ætli það minnki ekki sjálfsvorkunnina að vita af fólki í kringum sig sem er að fást við það nákvæmlega sama.

Ágætis endir
Fossvogurinn var frekar hægur í mótvindinum, en annars leið mér bara prýðilega og fann lítið fyrir þreytu. Var orðinn nokkuð viss um að markmiðið um 1:35 klst. væri í höfn og setti mér því nýtt markmið um að komast undir 1:34 klst. Leiðréttur millitími eftir 20 km var 1:28:49 klst. Eftir það átti nú ekki að vera mikill vandi að ljúka verkinu á 5 mín. Það gekk eftir og vel það, enda átti ég nóg eftir í góðan endasprett frá undirgöngunum undir Reykjanesbrautina og í markið. Tilsýndar sýndist mér markklukkan vera að smella í 1:34 þegar ég kom auga á hana, en sá svo að það voru bara 1:33. Ég var því býsna kátur þegar ég kom í markið á 1:33:16, sem er næstbesti tíminn minn í hálfu maraþoni til þessa.

Þetta á að vera gaman – og það var það
Í þessu hlaupi gekk í rauninni allt upp. Ég setti mér markmið um tíma, sem gekk vel að ná, seinni helmingur hlaupsins var ekki lakari en sá fyrri (að vísu 44 sek hægari, en ég held að vindurinn hafi tekið meira í en það) – og svo leið mér vel hér um bil allt hlaupið. Þetta á að vera gaman – og það var það. Og ekki spillti fyrir að hitta allt þetta bráðskemmtilega fólk sem ýmist tók þátt í hlaupinu eða hvatti hlauparana til dáða.

Margt breytt frá haustinu 1974
Svona til að hafa tölfræðina á hreinu, þá var þetta 10. hálfmaraþonhlaupið mitt á þessum rúmlega 26 árum sem liðin eru síðan ég ferill minn sem hálfmaraþonhlaupara hófst með þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu 1985. Þá hljóp ég á 1:43:43 klst. Eðlilega hefur mér farið talsvert fram síðan, enda orðinn næstum helmingi eldri. Já, og árangurinn í gær dugði mér í 30. sætið af 160 hlaupurum og í 2. sætið meðal 12 karla á sextugsaldri. Mikið er nú annars gaman að sjá allan þann fjölda sem tekur þátt í almenningshlaupum nú til dags. Það hefur margt breyst síðan haustið 1974 þegar menn settu sér það markmið að 10 Íslendingar skyldu hlaupa 10 km það árið. Minnir reyndar að þeir hafi orðið samtals 11.

Næstu verkefni
Nú er keppnistímabili ársins lokið, ef frá eru talin vetrarhlaup sem mér getur dottið í hug að bregða mér í ef ég á leið framhjá. Ætli næsta stóra hlaup verði ekki bara vormaraþon FM í lok apríl á vori komanda. Æfingaáætlunin þangað til er í grófum drátttum þannig, að ég reikna með að hlaupa frekar lítið til áramóta, kannski svona 35-40 km á viku. Hins vegar verður einhver tími notaður í styrktaræfingar og sprettæfingar á þægilegum hraða. Eftir áramót býst ég svo við að auka skammtinn smám saman, þannig að ég verði komin upp í 70 km á viku í byrjun apríl. Nú á ekki að toppa of snemma, eins og gerði líklega síðasta vor. Að öðru leyti læt ég umfjöllun um markmið næsta árs bíða betri tíma. Þar verður sitthvað spennandi á dagskrá, allt þó innanlands.