• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • október 2011
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    3031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Fyrstu Svansmerktu íbúðirnar afhentar

Fyrr í haust voru fyrstu svansmerktu blokkaríbúðirnar teknar í notkun í Svíþjóð, en þetta eru jafnframt fyrstu íbúðir sinnar tegundar á Norðurlöndunum (og þar með í heiminum öllum). Hins vegar er nokkuð síðan fyrstu svansmerktu einbýlin litu dagsins ljós.

Þessar fyrstu svansmerktu blokkaríbúðir er að finna í Stokkhólmi og Gautaborg. Í Stokkhólmi eru 36 eignaríbúðir komnar í notkun, en bara ein leiguíbúð í Gautaborg. Þar eru hins vegar 98 slíkar í byggingu. Allt er þetta bara byrjunin, því að á næstu misserum er stefnt að því að byggja 3-4000 svansmerktrar íbúðir í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö.

Svansmerktar blokkaríbúðir eru engar venjulegar blokkaríbúðir, meðal annars vegna þess að öll byggingarefni eru valin með það fyrir augum að þau valdi sem minnstu álagi á umhverfið og heilsuna. Allt tréverk er upprunnið í sjálfbærri skógrækt, fúgan á milli flísanna á baðinu er eins umhverfisvæn og kostur er, og útgufun kemískra efna er lítil sem engin, svo dæmi séu tekin. Auk þess er orkunotkunin í lágmarki og inniloftið með því besta sem gerist. Þannig þarf svansmerkt íbúð um 25% minni orku en gerð er krafa um í reglugerðum, og öll íverurými þurfa að uppfylla strangar kröfur um aðgang að frísku lofti.

Sjálfsagt verður enn nokkur bið á því að fyrstu svansmerktu íbúðirnar rísi á Íslandi, enda nóg af ómerktum íbúðum til reiðu í andránni.

Þeir sem vilja fræðast meira um svansmerktar íbúðir geta t.d. byrjað fróðleiksleitina á heimasíðu Svansins í Danmörku þar sem birt var frétt um málið 30. september sl. Svo er líka hægt að lesa frétt á heimasíðu sænsku ríkisstjórnarinnar 30. ágúst sl., en þar segir frá því þegar húsnæðisráðherrann Stefan Attefall afhenti lykil að fyrstu svansmerktu blokkaríbúðinni. Svo væri náttúrulega hægt að rekja feril málsins með því að lesa „Orð dagsins“ á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi 22. desember 2009,  13. apríl 2007, 18. ágúst 2005, 14. júní 2005 og 22. apríl 2005, þ.e.a.s. ef umrædd orð væru ennþá aðgengileg á Netinu.