• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • október 2011
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  3031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hvers vegna umhverfisvottun?

Umhverfisvottun vöru tryggir að umrædd vara sé umhverfisvænni en flestar aðrar vörur til sömu nota. Hins vegar getur vel verið að einhver tiltekin óvottuð vara sé enn umhverfisvænni. Vandinn er bara sá að það er engin leið að vera viss um það, þegar yfirlýsingar framleiðandans eru eina sönnunargagnið.

Óskoðaður bíll
Setjum sem svo að ég ætli að kaupa notaðan bíl. Ég finn einn alveg ljómandi vel útlítandi og lítið ekinn á viðráðanlegu verði. Eini gallinn er sá að það stendur „10“ á skoðunarmiðanum, sem þýðir í reynd að bíllinn er óskoðaður, (því að núna er jú árið 2011). Þetta er nóg ástæða fyrir mig til að kaupa ekki bílinn, og það þrátt fyrir að seljandinn segi mér að bíllinn sé í alveg fullkomnu lagi, jafnvel betra lagi en hann þurfi að vera. Það sé bara orðið svo dýrt að fara með bíla í skoðun að hann hafi valið að sjá um þann þátt sjálfur. Og jafnvel þótt mér sýnist seljandinn vera vænsti maður og bíllinn fljótt á litið í toppstandi, þá kaupi ég hann samt ekki. Það getur vel verið að seljandinn sé að segja satt. En ég get ekki verið viss um það, af því að mig vantar staðfestingu þriðja aðila á sannsöglinni. Til þess er skoðunarmiðinn.

Svanurinn, umhverfismerki Norðurlandanna

Umhverfismerki
Umhverfismerki á vöru er að flestu leyti sambærilegt við skoðunarmiða á bíl. Það getur vel verið að ómerkt vara sé „rosalega umhverfisvæn“, en ég get ekki verið viss um það nema einhver annar en framleiðandinn staðfesti það, sem sagt einhver óháður þriðji aðili. Að vísu er samanburðurinn við skoðunarmiðann gallaður að því leyti, að bílaskoðun er lögbundin en umhverfismerking ekki.
 
Mjög umhverfisvæn!
Ég hef oft spurt um umhverfislegt ágæti tiltekinnar vöru sem ekki er umhverfisvottuð – og hef alltaf fengið það svar að varan sé mjög umhverfisvæn. Því hafa svo fylgt alls konar útskýringar og röksemdir. Stundum held ég áfram og spyr hvers vegna hún sé þá ekki vottuð. Svörin við því má í grófum dráttum flokka í þrennt: Stundum er sagt að varan sé í rauninni vottuð og að það sé hægt að senda mér upplýsingar um það í tölvupósti. Svo þegar tölvupósturinn kemur, þá snýst hann um eitthvað annað, oftast um einhvers konar vottun á gæða- eða umhverfisstjórnunarkerfi framleiðandans. Stundum er sagt að vottunin sé bara svo dýr að það borgi sig ekki að vera með hana, enda geri framleiðandinn hvort sem er miklu meiri kröfur en hin og þessi vottunarkerfi. Og stundum er mér ekki svarað.

Grænþvottur
Grænþvottur nefnist það þegar t.d framleiðandi vöru reynir að láta líta út fyrir að hún sé „grænni“ (þ.e. umhverfisvænni) en hún er. Á umbúðum vörunnar er þá oft að finna heimatilbúin græn merki eða óstaðfestar staðhæfingar um umhverfislegt ágæti vörunnar, sem er þá gjarnan sögð vera „umhverfisvæn“, „visthæf“, „all natural“ og þar fram eftir götunum. Stundum ganga menn meira að segja svo langt að nota í óleyfi hugtök sem hafa tiltekna lögvarða merkingu. Þetta á við þegar vara er sögð „lífræn“ án þess að sú fullyrðing sé studd með viðurkenndu merki sem vottar lífrænan uppruna. Í andránni man ég eftir þremur nýlegum dæmum um slíkt í íslenskum búðarhillum.

Lokaorð
Kannski skrifa ég eitthvað meira um grænþvott við tækifæri, tilgreini mismunandi tilbrigði eða aðferðir við grænþvott og nefni jafnvel raunveruleg dæmi. En svarið við spurningunni um mikilvægi umhverfisvottunar er í stuttu máli þetta: Umhverfisvottun er staðfesting þriðja aðila á gæðum og umhverfislegu ágæti tiltekinnar vöru eða þjónustu – og um leið staðfesting á því að upplýsingar um þetta ágæti séu réttar. Ef þessa staðfestingu vantar er erfitt að þekkja hið sanna í heimi þar sem „flestir ljúga“, svo vitnað sé í vísu Páls Ólafssonar sem greina má á myndinni fremst í þessum pistli.