• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • október 2011
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  3031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Verða Vaðlaheiðargöngin sjálfbær?

Sjálfbær göng???

Í viðtali í hádegisfréttum RÚV fyrir stundu sagðist Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, vilja vera sannfærð um að Vaðlaheiðargöng verði sjálfbær, áður en ráðist er í framkvæmdina. Þetta gleður mig í sjálfu sér, en hins vegar fæ ég ekki betur séð en að þessi yfirlýsing sé eitt dæmi af mörgum um misnotkun á orðinu „sjálfbær“. Það gleður mig ekki.

Það að eitthvert fyrirbæri sé sjálfbært þýðir að það styðji meira við sjálfbæra þróun en önnur sambærileg fyrirbæri. Og sjálfbær þróun er „þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum“, svo vitnað sé í skilgreiningu Brundtlandnefndarinnar frá 1987. Sjálfbær þróun byggir á samþættingu umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra þátta, og á jafnrétti milli kynslóða og milli heimshluta. Það er því í raun afbökun á hugtakinu að halda því fram að eitthvert fyrirbæri sé „sjálfbært“ nema að umhverfislegar, efnahagslegar og félagslegar hliðar þess hafi allar verið skoðaðar í samhengi, og að fyrirbærið sé að þeirri skoðun lokinni talið ásættanlegt með tilliti til allra þessara þriggja þátta.

Mér skildist á viðtalinu við Guðfríði Lilju að umrædd „sjálfbærni“ Vaðlaheiðarganga snerist eingöngu um efnahagslega þáttinn. Þarna hefði því farið betur á því að tala um að göngin þyrftu að „standa undir sér fjárhagslega“, vera „þjóðhagslega hagkvæm“, eða eitthvað í þá veru. Það getur svo sem vel verið að þessi göng séu mjög í anda sjálfbærrar þróunar og hafi jákvæð áhrif til langs tíma, jafnt á vistkerfi, hagkerfi og samfélag. Séu menn sannfærðir um það er rökrétt að tala um sjálfbærni ganganna, en annars ekki.

Eins og ég nefndi í upphafi er hér á ferð eitt dæmi af mörgum um misnotkun sjálfbærnihugtaksins. En hér heggur eiginlega sá sem hlífa skyldi. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þarf flestum öðrum fremur að temja sér sómasamlega umgengni við hugtök á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar.