• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • febrúar 2012
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    26272829  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Þurfa Kópavogsbúar meirihluta?

Bæjarstjórnarfólk í Kópavogi leggur mikið á sig þessa dagana við að koma saman nýjum meirihluta eftir að meirihluti bæjarstjórnar „sprakk“ fyrir nokkru síðan. En er allt þetta erfiði nauðsynlegt? Ég held ekki. Kópavogsbúar geta að mínu mati vel lifað án þess að formlegur meirihluti sé starfandi í bæjarstjórn. Og tíma bæjarstjórnarfólks væri betur varið í margt annað en meirihlutaviðræður. Sjálfsagt bíða mörg mál afgreiðslu – og ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða þau bara strax.

Stórlega ofmetið fyrirbæri
Ég er almennt þeirrar skoðunar að formlegur meirihluti í sveitarstjórnum sé stórlega ofmetið fyrirbæri. Í sveitarstjórnarlögum er hvergi minnst á þetta fyrirbæri, þannig að ekki kemur krafan um meirihlutaviðræður þaðan. Mér er næst að halda að sú trú að nauðsynlegt sé að mynda meirihluta eigi annað hvort rætur í einhvers konar minnimáttarkennd sem fær menn til að reyna að líkja eftir stóra bróður, þ.e.a.s. Alþingi, eða þá í tiltölulega ómeðvitaðri viðleitni til að taka umræðu um það sem máli skiptir út úr sviðsljósinu. Þá er hægt að ná niðurstöðu í helstu mál á „sellufundum“ bak við luktar dyr, en gera sveitarstjórnarfundina að málfundum þar sem menn geta sýnt almenningi mælsku sína.

Lýðræðishalli
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum gildir einfaldur meirihluti við afgreiðslu velflestra mála á sveitarstjórnarfundum. Þar stendur hins vegar hvergi að menn þurfi að vera búnir að afgreiða mál áður en fundirnir hefjast með því að ákveða fyrirfram og jafnvel til langs tíma hvernig atkvæði skuli falla. Auðvitað er ekkert í lögunum heldur sem bannar formlegt meirihlutasamstarf. Mér finnst bara ástæða til að gjalda varhug við þeim lýðræðishalla og skorti á gagnsæi sem getur falist í ákvörðunum meirihluta utan sveitarstjórnarfunda.

Hvernig rekur maður þá bæjarstjóra?
Nú, en hvernig eiga menn þá að koma sér saman um hvort eða hvernig eigi að ráða eða reka bæjarstjóra, en það skilst mér að hafi sett þessa meirihlutahringekju af stað í Kópavogi? Svarið við þessu er ekkert flókið, enda stendur það nokkuð skýrum stöfum í sveitarstjórnarlögunum. Sveitarstjórn ræður einfaldlega framkvæmdastjóra – og rekur hann þá væntanlega líka ef ástæða þykir til. (Það stendur hvergi að meirihlutinn eigi að gera það, hvað þá einstakir sveitarstjórnarmenn)! Þetta þýðir að ef einhvern í bæjarstjórninni langar til að bæjarstjórinn verði rekinn, þá ber sá hinn sami bara upp tillögu um það. Tillagan er rædd á fundi og síðan tekið fyrir í atkvæðagreiðslu þar sem meirihluti atkvæða ræður. Ef tillagan er felld, þá situr bæjarstjórinn áfram og einhverjir bæjarstjórnarmenn verða að játa sig sigraða, rétt eins og gerist eftir flestar atkvæðagreiðslur. Sé tillagan hins vegar samþykkt eru tillögur um það hvernig skuli staðið að ráðningu nýs bæjarstjóra og síðan um það hver skuli ráðinn afgreiddar á sama hátt.

Við hvað eru menn hræddir?
Ég hef aldrei skilið hvers vegna fólk þarf að vera svona hrætt við að ræða og afgreiða mál fyrir opnum tjöldum án þess að vita niðurstöðuna fyrirfram. Þetta minnir á orð sem ónefndur oddviti austur á landi á að hafa látið falla þegar honum fundust menn vera orðnir heldur langorðir á hreppsnefndarfundi: „Eigum við ekki að fara að koma okkur að því að samþykkja það sem búið var að samþykkja að samþykkja hér í kvöld“?

(Sjá einnig bloggpistil frá 21. júní 2010).

2 svör

  1. Takk fyrir þetta innlegg. Við Kópavogsbúar (já ég er Kópavogsbúi núna) erum orðnir langþreyttir á þessu kjaftæði.

    Annars var ég að spá í að bjóða mig fram sem bæjarstjóra, fengi ég stuðning úr Borgarnesi?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: