• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • mars 2012
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Ný tækni í landbúnaði

Ég hafði það á orði í einhverju útvarpsviðtali fyrr í vetur að fæðuvandi heimsins yrði hvorki leystur með erfðatækni né nýjum og fullkomnari landbúnaðartækjum, heldur væri lausna miklu frekar að leita í tækni á borð við reiðhjól og farsíma. Ég hef verið spurður hvað ég hafi átt við með þessu, og nú finnst mér kominn tími til að svara þeirri spurningu.

Nóg til af mat, það er bara kerfið sem virkar ekki
Fyrir það fyrsta er svo sem til nógur matur fyrir alla í heiminum. Það er bara skiptingin á þessum mat sem er í ólagi. Á Vesturlöndum hendir fólk heilum helling af mat og þjáist af offitu, en í þróunarlöndum er matarskortur og fólk deyr úr hungri, svo maður einfaldi þetta nú aðeins. Vesturlandabúar geta alveg notað peninginn sinn til að búa til erfðabreytt matvæli og stærri landbúnaðarvélar sem komast á styttri tíma yfir stærri og einsleitari akra en áður. En það er ólíklegt að þetta lagi stöðuna mikið hjá þeim sem mest þurfa á úrbótum að halda. Staða þeirra getur jafnvel versnað, og hefur í mörgum tilvikum þegar gert það, þegar landbúnaðartækni Vesturlandanna ryður aldagömlum ræktunarhefðum og enn eldri afbrigðum matjurta úr vegi í nafni hagræðingar og aukinna afkasta.

Tvö orð!
Ef einhver tvö orð eru til sem fela öðrum orðum fremur í sér lausn á fæðuvanda heimsins, þ.e.a.s. þeim hluta vandans sem snýr að vannærðum íbúum þróunarlanda, þá eru þau tvö orð: „Menntun kvenna“. Þessi tvö orð færa okkur nær umfjöllunarefni þessa pistils, þ.e.a.s. reiðhjólum og farsímum.

Reiðhjól???
Nú er von að spurt sé: „Hvernig geta reiðhjól stuðlað að aukinni fæðuframleiðslu í þróunarlöndunum eða að bættum lífskjörum þar yfirleitt“? Eitt dæmi um svar liggur í sögu Mawoubé, sem var þegar sagan gerist 14 ára stúlka í bænum Sokodé í Togo. Hún var ein þeirra fyrstu sem fengu reiðhjól sem úthlutað var á vegum fyrirtækisins Alaffia, en alls fengu 3.000 stúlkur á svæðinu slík hjól. Hjólið gerði Mawoubé mögulegt að komast í skólann af eigin rammleik og kom jafnvel í veg fyrir ótímabæra þungun. Það hefur nefnilega verið algengt að stúlkur á þessu svæði borgi með kynlífi fyrir skutl í skólann. Ótímabærar þunganir eru mjög algengar á svæðinu og þar með endar líklega skólaganga viðkomandi stúlkna. Stúlkurnar 3.000 sem fengu reiðhjólin hafa skorið sig úr hvað þetta varðar. Í þeim hópi eru ótímabærar þunganir nær eða alveg óþekktar. Þannig hafa reiðhjólin stuðlað að menntun stúlknanna, en menntunin er lykill að möguleikum þeirra til sjálfshjálpar, bæði hvað varðar fæðuframleiðslu og annað.

Farsímar???
Nú er líka von að spurt sé: „Hvaða máli skipta þá farsímar í þessu sambandi“? Tilfellið er að líklega hefur engin ein uppfinning skipt meira máli til að bæta stöðu kvenna í þróunarlöndunum, bæði hvað varðar fæðuframleiðslu og aðra þætti. Símarnir eru farvegir upplýsinga, sem annars eru af skornum skammti, þeir rjúfa einangrun kvennanna, auðvelda þeim að bindast samtökum, m.a. um markaðssetningu afurða, auðvelda öflun aðfanga, veita aðgang að upplýsingum um verð á mörkuðum, auðvelda fjármálaleg samskipti, þ.á.m. millifærslur og smálán til búrekstrar og heimilishalds – og nýtast líka sem neyðartæki, t.d. þegar ná þarf sambandi við dýralækni eða leita eftir annarri aðstoð.

Reiðhjól OG farsímar
Því má svo bæta við, svona rétt til uppfyllingar, að reiðhjól geta líka hjálpað til við að nýta kosti farsímans. Því fer nefnilega fjarri að allir farsímanotendur hafi aðgang að rafmagni heima hjá sér. Þá kemur sér vel að geta skroppið á hjólinu til nærliggjandi staðar þar sem hægt er að hlaða símana.

Eftirmáli og helstu heimildir
Þessum pistli er ekki ætlað að vera nein heildarúttekt á stöðu mála eða listi yfir öll tækifæri til úrbóta. Tilgangurinn með pistlinum er einungis að vekja athygli á að lausnirnar geta verið smærri, ódýrari og miklu skilvirkari heldur en okkur órar fyrir. Stundum hættir okkur til að sækja vatnið yfir lækinn. Pistillinn er að mestu byggður á: Dianne Forte, Royce Gloria Androa og Marie-Ange Binagwaho: Harnessing the Knowledge and Skills of Women Farmers, í State of the World 2011, Worldwatch Institute, USA, 2011, (bls. 121-129). Auk þess var innblástur sóttur í: Robert Engelman: MORE. Population, Nature and What Women Want. Island Press, USA, 2008 – og í bloggfærslur og skrif Danielle Nierenberg og fleira fólks á http://blogs.worldwatch.org/nourishingtheplanet, https://www.facebook.com/#!/WorldwatchInst og https://www.facebook.com/#!/worldwatchag. Svo má líka minna á að í gær var Alþjóðlegur baráttudagur kvenna, sbr. myndina hér að neðan, sem tekin var af Fésbókarsíðu Claudette Pace.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: