Nú er nýtt fjallvegahlaupatímabil að hefjast, enda vel farið að vora. Því er orðið tímabært að segja frá fyrstu verkefnunum:
1. Ólafsskarð, þriðjudaginn 22. maí kl. 15:00
Ég ákvað á dögunum að bæta Ólafsskarði við verkefnaskrá ársins. Ólafsskarð verður þannig fyrsti fjallvegurinn 2012 – og sá 25. frá upphafi. Þetta var áður fyrr fjölfarin leið austur fyrir fjall, nánar tiltekið frá Litlu kaffistofunni áleiðis til Þorlákshafnar. Ég fékk ábendingu um þessa leið fyrir nokkrum misserum frá Magnúsi Karel á Eyrarbakka og hef verið að velta henni fyrir mér síðan. Sýnist hún liggja einkar vel við höggi, en veit annars frekar lítið um undirlag og aðrar aðstæður. Leiðin liggur þó um hraun og er sjálfsagt frekar gróf á köflum. Ætlunin er að leggja af stað frá Litlu kaffistofunni kl. 15:00 umræddan þriðjudag. Fyrstu 5 kílómetrana eða svo liggur leiðin eftir vegarslóða inn í Jósepsdal, en þá er beygt til vinstri upp í skarðið. Brekkan upp er frekar brött, en hækkunin ekki sérlega mikil. Eftir því sem ég kemst næst er Litla kaffistofan í um 230 m hæð yfir sjó, en hæst skilst mér að leiðin fari í 400 m. Eftir að komið er austur úr skarðinu liggur leiðin til suðurs „bak við“ Bláfjöllin þar til komið er að Fjallinu eina. Þar er beygt eilítið til vinstri, til suðausturs, og þeirri stefnu haldið og farið norðaustan við Geitafell. Áfram er svo haldið niður í Ölfus mitt á milli bæjanna Litlalands og Hlíðarenda, þvert yfir Suðurstrandarveginn og beint inn á gamla Þorlákshafnarveginn. Þá eru eftir um 5 km að sundlauginni í Þorlákshöfn, þar sem ætlunin er að ljúka hlaupinu. Öll er leiðin um 27 km og mér þykir líklegt að ferðalagið taki hátt í 4 klst., þannig að klukkan verði orðin 19:00 þegar komið er á leiðarenda. Í sundlauginni er upplagt að skola af sér og hafa fataskipti, (sérstaklega ef vel tekst til með að skipuleggja flutning á fatnaði þangað). Ég hef svo í hyggju að snæða kvöldverð á hentugum stað í Þorlákshöfn eða næsta nágrenni og halda síðan heim á leið. Allar ábendingar um veitingastaði eru vel þegnar! Vonast til að njóta félagsskapar sem flestra á þessari leið, svo og í kvöldverðinum. Gott væri að vita sem mest um þátttökuna fyrirfram, m.a. til að geta áttað sig betur á þörfinni fyrir flutninga og möguleikunum á að mæta þeirri þörf. Eins væri snjallt að panta borð með fyrivara ef hópurinn verður stór.
2. Kerlingarskarð, laugardaginn 26. maí kl. 10:30
Kerlingarskarðið er á dagskrá fyrri part laugardags á Hvítasunnuhelginni. Lagt verður af stað frá söluskálanum á Vegamótum kl. 10:30 og gamla bílveginum fylgt norður yfir skarðið. Þetta eru líklega um 17 km á aflögðum bílvegi, sem fer mest í 311 m hæð. Mér finnst líklegt að þetta taki hátt í tvo og hálfan tíma, þannig að klukkan verði farin að nálgast 13:00 þegar hlaupið endar á aðalveginum norðanvert á nesinu, um það bil 6 km vestan við vegamótin ofan við Stykkishólm. Hér væri líka gaman að vita sem mest um þátttöku fyrirfram til að auðvelda samstarf um fólksflutninga og hugsanlega skipulagningu óvæntra viðburða að hlaupi loknu.
3. Allt hitt
Fyrst ég er sestur við skriftir á annað borð sakar ekki að rifja upp hin fjallvegahlaupa- og sérverkefnin sem eru á dagskránni minni í sumar.
- Þrístrendingur verður á sínum stað laugardaginn 23. júní. Nánari upplýsingar eru á Fésbókarsíðu hlaupsins (https://www.facebook.com/#!/events/145720345549862/) og í bloggi sem ég skrifaði í mars (https://stefangisla.com/2012/03/11/thristrendingur-23-juni-2012/).
- Hamingjuhlaupið verður líka á sínum stað 30. júní, 53 km frá Trékyllisvík til Hólmavíkur. Ég er að fínslípa tímaáætlunina og vonast til að geta birt hana á næstu dögum. Reikna með að síðustu 16 km verði rólegir til að gera sem flestum kleift að fylgja með og upplifa hamingjuna. Upplýsingar um hlaupið eru m.a. á http://strandabyggd.is/hamingjuhlaupid/.
- Snjáfjallahringurinn verður svo hlaupinn 28. júlí, nefnilega Snæfjallaheiði, Staðarheiði og Dalsheiði. Þessar heiðar verða númer 27., 28 og 29 í röðinni að óbreyttu. Upplýsingar um tvær fyrrnefndu heiðarnar eru komnar inn á www.fjallvegahlaup.is. Þar eru líka aðrar upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið í heild.
Vonast til sjá sem flesta á þessum hlaupum, en minni jafnframt á að þátttakan er á ábyrgð hvers og eins.
Filed under: Hlaup | Tagged: Ólafsskarð, fjallvegahlaup, Kerlingarskarð |
Sæll við erum 4 úr Bíddu aðeins hópnum sem langar að slást með í för þriðjudaginn 22. maí Ólafsskarð. Bestu kveðjur Sigga, Arna, Guðmunda og Bryndís.
Gaman að heyra! Hlakka til að hlaupa með ykkur. Við erum þá orðin a.m.k. 7 samtals. Verðum í sambandi þegar nær dregur.
ein í viðbót í Ólafsskarð 22. mai-
m kv
kristjana bergsdóttir – Bíddu aðeins hópurinn
Takk, enn betra, þetta verður gaman! 🙂
Hæ. Einn í viðbót úr Bíddu aðeins hópnum : Ásgeir Elíasson.
Frábært – og enn meira gaman. Héld þetta sé að nálgast 15 manns. 🙂