• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • júní 2012
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Forsetinn og umhverfismálin

Mér finnst skipta miklu máli að forseti Íslands sé umhverfissinni. Forsetinn á að vera málsvari sjálfbærrar þróunar og hann á vera þjóðinni gott fordæmi í daglegum athöfnum. Hins vegar á forsetinn ekki að taka afstöðu í umhverfismálum sem eru til umfjöllunar á Alþingi eða í vinnslu hjá ráðuneytum og stofnunum þeirra. Vissulega er freistandi að láta sig dreyma um að á Bessastöðum sitji forseti sem hefur vit fyrir stjórnvöldum á sviði umhverfismála þegar þau eru í þann veginn að taka óheppilegar ákvarðanir, en slíkt gengur gegn stjórnskipan landsins. Forsetinn á ekki að fara út fyrir valdsvið sitt, hvert sem málefnið er.

Málsvari sjálfbærrar þróunar
Forseti Íslands fær mörg tækifæri til að vera málsvari sjálfbærrar þróunar, jafnt innanlands sem utan. Þessi tækifæri á hann að nýta. Forsetinn á stöðugt að minna á mikilvægi þess að hagsmunir komandi kynslóða séu hafðir að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku, að þjóðir heims hafi grunnreglur Ríósáttmálans í heiðri, svo sem mengunarbótaregluna og varúðarregluna, og að Íslendingar og aðrar þjóðir geri allt sem í þeirra valdi stendur til að ná Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og til að sammælast um metnaðarfull sjálfbærnimarkmið á allsherjarþinginu haustið 2013, eins og samkomulag varð um á ráðstefnunni Ríó+20 á dögunum. Sömuleiðis ætti forsetinn að vera ötull talsmaður þess að leiðtogar heimsins komi sér saman um markvissar aðgerðir í loftslagsmálum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Samræmi orða og gjörða
Sem talsmaður umhverfisins og komandi kynslóða þarf forsetinn ætíð að gæta þess að samræmi sé milli orða hans og gjörða. Sem dæmi um hið gagnstæða má nefna þátttöku núverandi forseta Íslands og eiginkonu hans í ferð til Suðurskautslandið um mánaðarmótin janúar/febrúar 2012, sem farin var í þeim tilgangi að „kanna hina hröðu bráðnun íss og ræða hvernig unnt er að fá þjóðir heims til að sameinast í raunhæfum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum“, eins og það var orðað í fréttatilkynningu forsetaembættisins. Vandséð er hvernig gagnsemin af þátttöku ráðamanna í slíkri ferð, með öllu því sem slíkri þátttöku fylgir, geti nokkurn tímann vegið upp á móti þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem ferðin veldur. Vel sögð orð forseta um mikilvægi aðgerða gegn loftslagsbreytingum eru fljót að breytast í öfugmæli ef þeim er fylgt eftir með þessum hætti.

Forsetinn sem fyrirmynd
Rannsóknir á sviði umhverfissálarfræði og félagslegrar markaðsfærslu benda til að fátt eða ekkert sé líklegra til að hafa áhrif á hegðun fólks en hegðun fyrirmyndanna. Gott dæmi um þetta er reynslusaga úr sturtunum í háskólanum í Santa Cruz í Kaliforníu, sem ég hef iðulega vitnað til í ræðu og riti, m.a. í bloggpistli 29. október 2010. Í þessu liggur líklega stærsta tækifærið sem forseta Íslands gefst til að koma góðu til leiðar í umhverfismálum. Með því að sýna gott fordæmi í daglegum athöfnum getur fjölskyldan á Bessastöðum haft meiri áhrif á lífsstíl fólksins í landinu en flest okkar órar fyrir. En til þess að svo megi verða þarf að sýna þetta góða fordæmi allan daginn og alla daga, en ekki eingöngu á hátíðis- og tyllidögum þegar kastljós fjölmiðla beinist að Bessastöðum. Það er nefnilega grundvallaratriði að sá sem sendir út skilaboðin sé sjálfum sér samkvæmur.

Gott dæmi
Gott dæmi um það hvernig forsetinn getur haft áhrif til góðs með hegðun sinni er val núverandi forseta Íslands á embættisbifreið. Þegar komið var að endurnýjun sumarið 2007 ákvað forsetinn að taka tvinnbíl af Lexus-gerð fram yfir algengari en mun eyðslufrekari bíla. Bílar eru auðvitað ekki umhverfisvænir sem slíkir, en forseti Íslands verður óhjákvæmilega að hafa sómasamlega embættisbifreið til umráða. Ákvörðun um val á slíkri bifreið ræður miklu um áhrif embættisins á umhverfið næstu ár þar á eftir, því að í bílakaupum er sjaldnast tjaldað til einnar nætur.

Innkaupin mikilvægust
Val á bifreiðum er að sjálfsögðu aðeins eitt atriði af mörgum þar sem forseti Íslands getur gengið á undan með góðu fordæmi. Í raun eru öll smáu og daglegu atriðin mikilvægari, m.a. vegna þess að þau standa venjulegum fjölskyldum nær og því eru meiri líkur á að fjöldinn fylgi í fótsporin. Innkaup skipta líklega einna mestu máli í þessu sambandi. Með því að gæta hófs í innkaupum, kaupa umhverfismerktar eða lífrænt vottaðar vörur, taka siðgæðisvottaðar vörur (e. fairtrade) fram yfir aðrar þegar kostur er – og þar fram eftir götunum, getur forsetinn gefið fordæmi sem skiptir miklu máli þegar á heildina er litið. Sama áhersla þyrfti þá jafnframt að endurspeglast m.a. í viðhaldi bygginga á Bessastöðum, umhirðu opinna svæða og kaupum á þjónustu. Stjórnun úrgangsmála er líka gríðarlega mikilvæg, ekki síst vegna þess að í hugum margra eru úrgangsmálin kjarninn í umhverfisstarfi heimilanna. Forseti Íslands getur komið miklu til leiðar með því að ganga á undan með góðu fordæmi  varðandi endurnotkun, flokkun úrgangs til endurvinnslu og jarðgerð á lífrænum úrgangi, svo eitthvað sé nefnt. En í öllu þessu skiptir meginmáli að gjörðir fylgi orðum. Það er gagnslítið að tala um þessi mál í nýársávarpi ef talinu er ekki fylgt eftir í hinu daglega amstri.

Það sem forsetinn má ekki
Hér hefur verið stiklað á stóru yfir sitthvað sem forseti Íslands getur gert til að koma góðu til leiðar í umhverfismálum. Það sem hann getur ekki gert, eða ætti ekki að gera, er hins vegar að taka afstöðu í umhverfismálum sem eru til umfjöllunar á Alþingi eða í vinnslu hjá ráðuneytum og stofnunum þeirra. Þannig á forseti Íslands ekki að gefa út yfirlýsingar eða beita áhrifum sínum með beinum hætti til að hafa áhrif á ákvarðanir um einstakar virkjanir eða álver, um afgreiðslu rammaáætlunar eða önnur slík viðfangsefni. Þar verður hann að þekkja takmörk sín. Hann á ekki að taka til baka það vald sem hann hefur falið Alþingi og ráðuneytum að framkvæma, hvorki að hluta né í heild, hver sem málaflokkurinn er.

Grænir Bessastaðir?
Orð Þóru Arnórsdóttur, forsetaframbjóðanda, um að hún vilji gera Bessastaði græna, vekja vonir um að framundan geti verið áhugaverðir tímar þar sem forsetaembættinu verði beitt í þágu umhverfisins og komandi kynslóða með þeim hætti að það hafi áhrif á daglegt líf og hegðun á öðrum íslenskum heimilum.

Þrístrendingur í einmunablíðu

Gleðihlaupið Þrístrendingur var háð í þriðja sinn í gær. Þetta hlaup var sérstakt að tvennu leyti frá mínum bæjardyrum séð. Annars vegar var veðurblíðan í gær sú mesta sem elstu menn rámar í og hins vegar var þetta í fyrsta sinn sem ég varð að láta mér nægja að fylgjast með Þrístrendingi af hliðarlínunni.

Þrístrendingur heitir Þrístrendingur af því að hlaupaleiðin liggur um þrjár strandir, þrjá firði, þrjár sýslur og þrjá fjallvegi. Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði þar sem móðir mín heitin ólst upp snemma á síðustu öld. Þaðan er hlaupið norður Steinadalsheiði um sýslumörk Dalasýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu þar til komið er í Kollafjörð. Næst er hlaupið yfir Bitruháls að æskuslóðum mínum að Gröf í Bitru og loks suður Krossárdal að Kleifum. Dofri Hermannsson frá Kleifum átti upphaflega hugmyndina að þessu hlaupi, en síðan höfum við frændurnir þróað hugmyndina í sameiningu og gert hana að veruleika. Þarna er engin keppni og lítið um tímatöku, en langmest lagt upp úr gleði og samveru.

Ég fékk far vestur að Kleifum í gærmorgun með Ingimundi Grétarssyni, stórhlaupara úr Borgarnesi. Ingimundur er einn af þessu aðdáunarverða fólki, sem engum hefði dottið í hug fyrir 10 árum að nokkurn tímann myndi geta hlaupið, en rúllar nú upp hverju maraþonhlaupinu á fætur öðru. Allt er mögulegt!

Við vorum frekar seinir fyrir, en það skipti svo sem engu máli. Ég var hvort sem er ekki í standi til að hlaupa vegna lítilsháttar meiðsla í framanverðri mjöðm og Ingimundi var alveg sama þótt hann legði af stað á eftir hinum. Reyndar var ætlunin að hafa ráshópana tvo, þannig að þeir sem teldu sig hægfara legðu í ‘ann kl. 10:30, en hinir kl. 11:00. Það gekk ekki eftir, því að sjálfsagt töldu allir sig hægfara. Slík var hógværðin að mér fjarverandi. Flestir lögðu víst af stað um svipað leyti, líklega um kl. 10:50. Þegar við nálguðumst Kleifa sáum við nokkra hlaupara í grennd við Brekkuána, alla í litklæðum eins og tíðkaðist þegar hetjur riðu um héruð til forna, nema hvað þá voru menn ekki í „dry-fit“.

Á Kleifum tókum við svolítið af trússi og ókum síðan af stað í humátt á eftir hinum. Við vegamót Steinadalsheiðar við brúna yfir Brekkuá yfirgaf Ingimundur bifreiðina og lagði af stað hlaupandi. Ég sat einn eftir undir stýri, í nýju hlutverki sem trússari. Það var ekki óskastaða, en ágætis áminning um það hvers virði hlaupin eru mér og hversu lítið sjálfsagt það er að geta yfirleitt hlaupið tugi kílómetra eins og ekkert sé.

Ingimundur tilbúinn að leggja á Steinadalsheiðina, lundin létt en svipurinn ekki í neinu samræmi við veðrið.

Bílferðin norður Steinadalsheiði hófst í rykmekki. Landið var óskaplega þurrt og engin regnský sjáanleg, né heldur ský yfirleitt. Og hitastigið var örugglega komið vel yfir 15 gráður. Fljótlega hitti ég þrjú úr hópnum, þau Önnu Siggu,  Gísla og Sigurjón. Þau höfðu neyðst til að nema staðar í brekkunum upp heiðina til að gera við slitna keðju. Ég leit á kílómetramælinn og sá að Ingimundur þyrfti að vinna upp 3ja km forskot ef hann ætlaði ekki að vera einn á ferð yfir heiðina.

Gert við slitna keðju á Steinadalsheiði.

Áfram hélt ég norður yfir með stuttri viðkomu til að spjalla við hlauparana sem voru komnir mislangt upp brekkurnar. Fremstar voru þær Björg Árna og Þuríður sem voru komnar upp að Heiðarvatni á hjólum.

Á leið upp Steinadalsheiðina að sunnanverðu.

Dofri frændi og Valdi bróðir, öðru nafni Rögnvaldur bóndi í Gröf, á fullri ferð upp heiðina.

Segir nú fátt af ferðum mínum þar til komið var að vaðinu á Norðdalsá, spölkorn innan við bæinn í Steinadal. Þar lagði ég bílnum, settist út í sumarblíðuna, tók upp nesti og beið eftir hinum. Reyndar náðu Björg og Þuríður mér eftir smástund og hitt hjólreiðafólkið birtist nokkru síðar. Keðjuviðgerðin hafði reynst vel.

Ingimundur, Sigga Bryndís og Sigrún Erlends birtust fyrst af hlaupurunum. Ingimund hafði greinilega ekkert munað um að vinna upp forskotið. Síðan komu hlaupararnir einn af öðrum, hver öðrum sáttari í blíðunni. Þarna var ég kominn með fjölda þátttakenda á hreint, enda finnst mér alltaf betra að hafa tölfræðina í lagi.  Samtals höfðu 10 hlauparar og 5 hjólreiðamenn lagt af stað frá Kleifum, og enginn hafði helst úr lestinni.

Dofri og Vala komin að vaðinu á Norðdalsá. Sól skín í heiði.

Dofri, Jóhanna, Arndís og Valdi við Norðdalsá.

Við Stóra-Fjarðarhorn hitti ég eiginmann Þuríðar, Sigurð Kristófersson úr Borgarnesi. Hann var að festa hjólið hennar Þuríðar á bílinn. Dekkin á hjólinu höfðu reynst illa og hún hafði ákveðið að leggja gangandi á Bitruhálsinn. Anna Sigga, Gísli og Sigurjón voru líka lögð af stað, enda seinlegt að koma hjólum þarna upp. Björg hafði hins vegar sagt skilið við hópinn og hjólað áleiðis til Hólmavíkur. Hún var að glíma við meiðsli og ekki árennilegt að leggja í miklar torfærur.

Hjól Þuríðar bundið á bíl. Dekkin, sem áttu að vera bæði götudekk og fjalladekk, reyndust vera hvorugt.

Ingimundur kom fyrstur hlauparanna að Stóra-Fjarðarhorni, en þar er jafnan áð í Þrístrendingshlaupum. Hin skiluðu sér fyrr en varði og ég deildi út drykkjum og þess háttar úr kæliboxi sem ég hafði gripið með mér um morguninn til að reyna að verða ómissandi í hlaupinu þó að ég hlypi ekki sjálfur. Þetta virkaði vel, enda vissu fæstir að margfalt betri veitingar biðu þeirra í Gröf. Þetta er allt spurning um að spila út trompunum í réttri tímaröð.

Ingimundur kominn léttklæddur að Stóra-Fjarðarhorni, fyrstur hlauparanna.

Dofri, Sigga Bryndís, Sigrún Erlends og Vala renna í hlað.

Arndís og Jóhanna við Stóra-Fjarðarhorn í Kollafirði, sáttar.

Hópmynd af öllum hlaupurunum við Stóra-Fjarðarhorn. Standandi f.v.: Rögnvaldur, Jóhanna, Arndís, Hólmfríður Vala, Ingimundur. Krjúpandi f.v.: Guðlaug Rakel, Sigrún Barkar, Sigríður Bryndís, Sigrún Erlends. Liggjandi: Dofri Hermannsson. Hjólreiðafólkið var lagt af stað upp Bitruháls, nema Björg sem var á leið til Hólmavíkur. Engin mynd náðist af henni.

Ég sá fram á að Golfinn hans Ingimundar myndi ekki drífa upp móana fyrir ofan Stóra-Fjarðarhorn. Næsti áfangi hjá mér var því bílferð út á Ennisháls og inn Bitrufjörð til Arnheiðar mágkonu minnar í Gröf. Þar gerði ég stuttan stans og rölti síðan áleiðis frá bænum upp á Bitruháls til að taka á móti hlaupurunum og fá minn skammt af útiveru. Þetta var dásamleg gönguferð, enda veðrið líklega það besta sem ég hef upplifað í gönguferðum um þetta svæði, og eru þær þó orðnar nokkur hundruð síðustu 50 ár.

Við Móhosaflóalæk lét ég staðar numið, en þangað eru líklega um 2,5 km frá bænum í Gröf. Klukkan var u.þ.b. 14:30 og von á fyrstu hlaupurunum á hverri stundu. Ég þurfti heldur ekki lengi að bíða. Ingimundur og Sigrún Barkardóttir birtust að vörmu spori og síðan hver af öðrum. Þarna var áð um stund, fætur kældir í læknum og veðrið dásamað.

Ingimundur og Sigrún Barkar komu fyrst allra í Móhosaflóann. Þarna var einu sinni brú úr notuðum vírakeflum, en nú eru bara undirstöðurnar eftir.

Sigga Bryndís og Sigrún Erlends á „brúnni“.

Langþráð kæling.

… og örlítil slökun. Lífið er dásamlegt, sérstaklega í svona veðri!

Ég stóðst ekki mátið að skokka smávegis á leiðinni niður af hálsinum. Mjöðmin var til friðs og tilfinningin góð.

Í Gröf var Arnheiður búin að útbúa þvílíkt kaffihlaðborð að kæliboxið mitt gleymdist á augabragði. Einhver í hópnum hafði það á orði að þetta væri eina fjallahlaupið á Íslandi þar sem boðið væri upp á pönnukökur á miðri leið. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að allir þátttakendurnir í hlaupinu hafi verið glaðir allan daginn, en aldrei þó glaðari en yfir veitingunum í Gröf.

Glatt á hjalla við veisluborðið í Gröf: Vala, Sigrún, Sigurjón og Sigrún.

Jóhanna, Sigrún B. og Anna Sigga við borðið í Gröf.

Arnheiður Guðlaugsdóttir húsfreyja í Gröf var mikill gleðigjafi í þessari ferð. Veitingar gerast ekki betri í fjallahlaupum hérlendis!

Þuríður og Anna Sigga á hlaðinu í Gröf. Líður að brottför.

Við brottför frá Gröf. Efri röð: Sigrún E., Vala, Sigga Bryndís, Gísli, Sigrún B., Sigurjón, Jóhanna, Ingimundur og Valdi. Neðri röð: Þuríður, Dofri og Anna Sigga.

Eftir dágóða áningu í Gröf var lagt af stað í síðasta áfangann. Ég fór á bílnum fram á Móholtið neðan við Einfætingsgil til að taka myndir og upplifa aðeins meira. Síðan lá leiðin til baka um Ennisháls, Kollafjörð og Steinadalsheiði aftur að Kleifum. Þar renndi ég í hlaðið um kl. 17:00.

Hlauparnir tínast upp á Móholtið, Dofri og Ingimundur fremstir. Í baksýn er veiðihúsið við Krossá, Gröf fjær og Vatnsnesið lengst í fjarska, handan Húnaflóans.

Við endamarkið á Kleifum bólaði ekki á hlaupurum. Það fannst mér ágætt, því að þá gafst mér tími til að rölta áleiðis á móti þeim. Mætti Ingimundi efst í Hafursgötunni, og upp á brúninni hitti ég Völu, Siggu Bryndísi og Sigrúnu Barkar. Dofri kom skömmu síðar og tók að sér að vísa þeim sem síðar kæmu á Hafursgötuna, en hún er eina færa leiðin þarna niður brattann.

Kleifar síðdegis. Leitun að fallegra bæjarstæði. Gullfoss í Kleifaá í baksýn.

Ingimundur kominn af stað niður Hafursgötuna. Þar borgar sig að kunna fótum sínum forráð.

Vala „on the edge“.

Sigrún Barkar, Sigríður Bryndís og Hólmfríður Vala á brúninni við Hafursklett.

Ég rölti nú niður Hafursgötuna og náði svolitlu skokki heim túnið á Kleifum. Ingimundur var hvergi sjáanlegur, enda hafði hann haldið áfram spottann sem hann átti eftir frá því um morguninn, þ.e. frá Kleifum að vegamótunum við Brekkuá.

Þá var ekkert eftir nema að kveðja og þakka fyrir góðan dag, því að þessi dagur var mjög góður, líka fyrir mig þó að ég gæti ekki hlaupið. Þetta var bara ný og öðruvísi reynsla, sem ég þurfti greinilega á að halda.

Þessum línum fylgja bestu þakkir til allra þeirra sem áttu þátt í því að gera þennan dag jafn ánægjulegan og raun bar vitni. Næsta ár verður Þrístrendingur hlaupinn í 4. sinn. Ég kem með.

Eftirtaldir hlauparar og hjólreiðagarpar tóku þátt í Þrístrendingi 2012:

 • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
  Anna Sigríður Arnardóttir (á hjóli)
  Arndís Steinþórsdóttir
  Dofri Hermannsson
  Gísli Reynisson (á hjóli)
  Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
  Ingimundur Grétarsson
  Jóhanna Eggertsdóttir

  Rögnvaldur Gíslason
  Sigríður Bryndís Stefánsdóttir
  Sigrún Barkardóttir
  Sigrún Erlendsdóttir
  Sigurjón Þorkelsson (á hjóli)
 • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Bitruháls):
  Þuríður Helgadóttir (á hjóli og gangandi)
 • Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
  Björg Árnadóttir (á hjóli)
  Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir

Þrístrendingur og Hamingjuhlaup á næsta leiti

Nú styttist mjög í hið árlega Þrístrendingshlaup, og svo kemur Hamingjuhlaupið strax í kjölfarið. Bæði þessi hlaup flokkast undir sérverkefni í hlaupadagskránni minni, enda eiga þau það sameiginlegt að vera skemmti- og gleðihlaup, þar sem félagsskapurinn og útiveran er aðalatriðið, en minna lagt upp úr keppni og tímatökum.

Þrístrendingur verður hlaupinn í þriðja sinn nk. laugardag, þann 23. júní. Þarna er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, þar sem leiðin liggur tvisvar sinnum þvert yfir Ísland sama daginn, að vísu þar sem landið er mjóst. Lagt verður af stað frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10:30 og 11:00 að morgni (allt eftir þörfum þátttakenda), hlaupin Steinadalsheiði norður í Kollafjörð, Bitruháls yfir í Bitru og Krossárdalur aftur til Gilsfjarðar. Hægt er að lesa hér um bil allt um þetta hlaup í einkar greinargóðu bloggi eftir sjálfan mig frá því í vetur sem leið. Þeir sem ætla að vera með eru beðnir að láta mig eða Dofra frænda minn vita, eða gefa þátttöku sína skýrt til kynna á þar til gerðri fésbókarsíðu. Það eru nefnilega pönnukökur í spilinu og nauðsynlegt að vera búinn að kaupa nógu mikið af eggjum áður en baksturinn hefst.

Svo er það Hamingjuhlaupið viku síðar, laugardaginn 30. júní. Þá verður lagt af stað frá handverkshúsinu Kört í Trékyllisvík kl. 12:50 og ekki linnt látum fyrr en komið er til Hólmavíkur 53,5 km síðar, kl. 20:20 um kvöldið, rétt áður en hið heimsfræga hnallþóruhlaðborð Hamingjudaganna á Hólmavík verður opnað gestum og gangandi. Hamningjuhlaupið er nú haldið í 4. sinn með formlegum hætti. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Hamingjudaganna. Svo er hlaupið líka með sérstaka Fésbókarsíðu.

Nú er bara að bregða undir sig betri fætinum og hleypa gleðinni inn. 🙂

Ríó+20: Kjósum um eigin framtíð

Nú getur almenningur um heim allan kosið um það hver séu brýnustu málefnin sem taka þurfi til umræðu á ráðstefnunni Ríó+20 sem hefst í næstu viku. Þessi beini aðgangur fólks að ráðstefnunni er afrakstur verkefnis sem Ríkisstjórn Brasilíu og Sameinuðu þjóðirnar sameinuðust um í aðdraganda ráðstefnunnar. Safnað var hugmyndum um brýn umræðuefni frá 10.000 manns víða um heim. Síðan var unnið úr hugmyndunum, vinsað úr, flokkað og sameinað þar til eftir stóðu 10 efnisflokkar með 10 atriðum í hverjum. Nú getur hver sem er farið inn á þar til gerða vefsíðu, merkt við öll brýnustu málin á þessum 100 atriða lista, og sent atkvæðin sín til Ríó með einum smelli. Atriðin sem fá flest atkvæði verða tekin til sérstakrar umræðu á ráðstefnunni, og að lokum verða 30 tillögur af listanum afhentar þjóðarleiðtogum til afgreiðslu.

Ástæða er til að hvetja alla sem láta sig framtíðina varða til að taka þátt í þessari nútímalegu netkosningu. Hvert atkvæði vegur kannski ekki þungt, en ef maður grípur ekki þau tækifæri sem gefast til að hafa áhrif á framtíðina, þá munu aðrir sjá um að skapa hana!!!

Atkvæðagreiðslunni lýkur á miðnætti í kvöld að New York tíma, þ.e. klukkan 4 næstu nótt að íslenskum tíma. Smellið hér til að taka þátt.

Leiðtogastéttin og almúginn

Fyrir nokkrum árum heyrði ég orðið „stjórnmálastétt“ í fyrsta sinn. Þá vissi ég að okkur hafði borið af leið, því að um leið og stjórnmálamenn eru farnir að tilheyra annarri stétt en almenningur, þá er lýðræðið í hættu.

Forseti Íslands er ekki stjórnmálamaður, eða á alla vega ekki að vera það, í það minnsta ekki á meðan hann sinnir forsetaembættinu. Forseti Íslands er leiðtogi. En þar er sama hætta uppi og í stjórnmálunum, að um leið og til verður eitthvað sem hægt er að kalla „leiðtogastétt“, þá er lýðræðið í hættu.

Ég vil að Þóra Arnórsdóttir verði næsti forseti Íslands. Fyrir því eru margar ástæður, en ein sú mikilvægasta er að Þóra tilheyrir hvorki „stjórnmálastéttinni“ né „leiðtogastéttinni“. Hún er bara venjuleg móðir á venjulegu heimili í venjulegri lífsbaráttu. Sem slík hefur hún alla burði til að skilja aðstæður venjulegs fólks, njóta trausts þess og geta talað máli þess.

Kjósum Þóru Arnórsdóttur sem forseta okkar allra 30. júní nk.

 

Út að hlaupa – eftir 12 daga hlé

Ég hljóp 5 km í gærkvöldi. Það telst ekki til stórtíðinda, en var samt svolítill áfangi fyrir sjálfan mig. Ég tognaði nefnilega fyrir tveimur vikum og hef tekið því rólega síðan. En hvers vegna tognar maður og hvernig kemur maður í veg fyrir svoleiðis?

Algengasta og næstum eina leiðin fyrir langhlaupara til að meiðast er að gera of mikið of fljótt. Það var einmitt það sem ég gerði. Orðin „mikið“ og „fljótt“ eru auðvitað afstæð. Merking þeirra er meira að segja breytileg frá degi til dags. Það er t.d. ekkert „of mikið“ fyrir mig að hlaupa 25-50 km í einum áfanga. Og það er heldur ekkert of mikið að endurtaka það daginn eftir. En það skiptir meginmáli hvernig það er gert og við hvaða aðstæður.

Mér er meinilla við að viðurkenna hvernig þessi umrædda tognun mín átti sér stað, en ég ætla samt að gera það, sjálfum mér og öðrum til viðvörunar – eða alla vega sjálfum mér, því að ég veit að fæstir læra mikið af reynslu annarra. En hvað um það, ég hljóp sem sagt yfir Ólafsskarð frá Litlu kaffistofunni til Þorlákshafnar 22. maí sl., 31 km leið í góðu veðri og enn betri félagsskap hátt í 20 hlaupara. Það var ekkert nema skemmtilegt, eins og ég mun greina frá síðar í löngu máli. En það var samt alveg sæmilega erfitt, undirlagið ójafnt og svona, langt frá því þó að vera eitt af mínum erfiðustu hlaupum, (þarf endilega að gera Excel-skrá yfir þau við tækifæri), en sæmilega erfitt samt. Daginn eftir var ég svolítið stirður í fótunum og datt ekki í hug að hlaupa neitt. Á öðrum degi var stirðleikinn svo sem horfinn, bara svolítil þreyta í skrokknum, alls staðar og hvergi. Á svoleiðis degi er ekkert „of fljótt“ að hlaupa, en það er ekki sama hvernig það er gert! Mig langaði til að hrista af mér slenið og í stað þess að njóta þess að skokka t.d. 12 km í rólegheitum, brá ég mér niður á íþróttavöll og tók nokkra hressandi 200 m spretti. Það á maður sem sagt ekki að gera ef maður er a) 55 ára, b) þreyttur í skrokknum eftir 30 km fjallahlaup tveimur dögum fyrr og c) búinn að hlaupa sér til ánægju í meira en 40 ár og á að vita betur. Þarna var ég búinn að koma mér upp kjöraðstæðum til tognunar – og þess vegna gerðist það.

Tveimur dögum eftir þessa tognun hljóp ég yfir Kerlingarskarð á Snæfellsnesi. Það var auðvitað bæði of mikið og of fljótt, en ég vissi það svo sem allan tímann. Ég ákvað bara að gera það samt, vitandi að það gæti varla skemmt neitt, heldur í versla falli seinkað batanum um einhverja daga. Það var rétt mat og þetta var ágætisferð, en hún skiptir ekki miklu máli í þessari sögu. Skrifa langt mál um hana síðar.

Tíminn læknar kannski ekki alveg öll sár, en hann er engu að síður eina góða lækningin við tognunum – og virkar vel sem slík. Það eina sem þarf að hafa í huga er að gera ekki of mikið of fljótt. Hins vegar er það afar slæm hugmynd að leggjast fyrir og bíða eftir að þetta lagist. Slíkt atferli nefnist KÖR101. Líkaminn þarf á hreyfingu að halda, því að til þess var hann frá upphafi ætlaður, og þannig helst blóðið á hreyfingu og batakerfið sem virkast. Þess vegna hef ég notað tímann til að ganga meira en venjulega, því að gangan reyndi ekki mikið á tognaða vöðvann. Eins gerði ég eitthvað af styrktaræfingum fyrir efri hluta líkamans. Það þarf nefnilega líka að hugsa um heildarmyndina í þessum efnum, alveg eins og í umhverfismálunum!

Það er gott að gera svona mistök, því að hverjum mistökum fylgir tækifæri til að læra eitthvað nýtt. Ég hef reyndar gert svipuð mistök áður, síðast fyrir rúmum tveimur árum. Það dugði greinilega ekki til að læra nógu mikið. Sjáum til hvernig það gengur í þetta sinn.

Fyrir áhugafólk um líffærafræði get ég upplýst að vöðvinn sem varð fyrir barðinu á þessum mistökum, sem voru vel að merkja byrjendamistök þrátt fyrir rúmlega 40 ára hlaupaferil, tilheyrir hópi vöðva sem í daglegu tali eru kallaðir „hip flexors“ og liggja framan á mjöðminni og niður á lærið.

Útskriftarræða 2011

Fyrir tæpu ári hélt ég ræðu við útskrift stúdenta í Menntaskóla Borgarfjarðar. Einhverjar hugmyndir voru uppi um að birta ræðuna kannski einhvers staðar, en það fórst fyrir. En í tilefni af því að þessa dagana er einmitt verið að útskrifa stúdenta út um allt land, datt mér í hug að birta þessa ársgömlu ræðu bara núna. Hún fer hér á eftir:

Ágætu útskriftarnemar/nýstúdentar, skólameistari, kennarar og gestir,

Núna fyrir nokkrum dögum gleymdi ég að halda upp á að þá voru liðin 35 ár síðan ég ústkrifaðist sjálfur sem stúdent. Og nú gæti ég sem best notað næstu mínútur til að segja ykkur frá því hvernig lífið var á þeim árum, ég gæti sagt ykkur frá því hvaða tækifæri biðu nýútskrifaðra stúdenta vorið 1976, ég gæti hvort heldur sem er haldið því fram að allt hefði verið betra í gamla daga, eða talað um hvað ég hafi nú verið óheppinn að útskrifast fyrir daga æpoda, æpada, æfóna og æcláda, sem sagt hvað ég hafi verið óheppinn að útskrifast allt of snemma til að geta notið allra tækifæranna sem bíða ykkar eftir daginn í dag, (án þess að ég ætli nú að halda því fram að þau tækifæri byggist öll á þessum tilteknu græjum sem ég var að enda við að nefna).

En ég ætla ekkert að tala um hvernig allt var fyrir 35 árum og hvernig allt er núna. „Gert er gert og étið það sem étið er“, eins og segir í heimsbókmenntunum. Á degi eins og í dag þurfum við ekki að gleyma okkur í samanburði við fortíðina. Við þurfum bara að njóta stundarinnar sem ER og hugsa svo um viðfangsefnin sem bíða okkar í framtíðinni. Og þá segi ég okkar en ekki ykkar, vegna þess að það skiptir engu máli hver útskrifaðist 35 árum á undan einhverjum öðrum. Það sem skiptir máli er að á morgun byrjar framtíð okkar allra – og hana þurfum við að móta í sameiningu?

Nú er von að spurt sé: Af hverju þurfum við að móta framtíðina? Kemur hún ekki bara hvort sem er? Og ráðum við einhverjum um það hvernig hún verður? Svörin við þessu eru einföld: Við þurfum að móta framtíðina, af því að við viljum að hún verði góð, bæði fyrir okkur sjálf og þá sem á eftir okkur koma. Og, jú, vissulega kemur framtíðin hvort sem er, það er að segja hvort sem við tökum þátt í að móta hana eða ekki. En tilfellið er að við ráðum miklu um það hvernig þessi framtíð verður. Og þess vegna eigum við að taka virkan þátt í að móta hana, í staðinn fyrir að láta öðrum það eftir á meðan við sýslum við eitthvað annað!

Og þá er von að spurt sé aftur: Hverju ráðum við svo sem um þessa framtíð? Hvert okkar um sig er jú bara einn einstaklingur af þessum 7.000 milljón einstaklingum sem búa á þessari jörð. Hvert okkar um sig er bara dropi í stóru hafi. En gleymum því ekki að án dropanna væri ekkert haf.

Ef okkur líkar ekki hvernig heimurinn er, þá eigum við að breyta honum. Það er einmitt verkefnið sem bíður okkar á morgun, og alla dagana, vikurnar, mánuðina og árin sem í hönd fara. Ef ég hefði fylgt útskriftarræðuformúlunni, þá hefði ég náttúrulega sagt að þið ættuð að breyta heiminum, af því að þið eigið að erfa landið. Útskriftarræðuformúlan er nefnilega skrifuð fyrir miðaldra hvíta karlmenn eins og mig, sem vilja vera stikkfrí, þykjast vera orðnir gamlir hundar sem er erfitt að kenna að sitja og þykjast mega liggja á meltunni á meðan unga fólkið reynir að bæta fyrir það sem þessir sömu miðaldra hvítu karlmenn hafa klúðrað. En, nei, ég er sem sagt ekki stikkfrí þó að ég sé búinn að halda upp á 35 ára stúdentsafmælið mitt, eða hafi öllu heldur gleymt að halda upp á það. Ef okkur líkar ekki hvernig heimurinn er, þá er það sameiginlegt verkefni okkar allra að breyta honum. Og það er mér mikið gleðiefni að fá tækifæri til að bjóða ykkur velkomin í hópinn. Þið verðið góðir liðsmenn – og verkefnin eru næg.

Og þá er von að enn sé spurt: Hverju getum við svo sem breytt, svona fá og smá í svona stórum heimi? Svarið við þessari spurningu er fólgið í kínverskum málshætti sem ég rakst einhvers staðar á: „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“.

Ég þekki þrjá bræður sem heita Einhver, Sérhver og Hversemer. Þegar eitthvað þarf að gera eða einhverju þarf að breyta, þá fáum við þá gjarnan í verkið. En reynslan hefur sýnt að það er ekkert á þessa þrjá bræður að treysta. Einhver, Sérhver og Hversemer gera nefnilega sjaldnast nokkuð af því sem við viljum að þeir geri. Þá er það fjórði bróðirinn sem gengur í verkið – án þess að hika – og án þess að kvarta. Þessi fjórði bróðir heitir Enginn.

Sagan af bræðrunum fjórum minnir okkur á það, að ef við viljum að eitthvað breytist, þá verðum við sjálf að gera eitthvað í því. Þannig höfum við áhrif. Ef við viljum að eitthvað breytist þýðir ekkert að liggja í fýlu heima og bíða eftir að Einhver, Sérhver eða Hversemer gangi í verkið. Ef við viljum að eitthvað breytist, þá verðum við sjálf að vera breytingin, eins og Mahatma Gandhi orðaði það á sínum tíma.

Við getum breytt, vegna þess að við ráðum, vegna þess að við erum kjósendur. Við kjósum ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Í hverri svona ákvörðun felast skilaboð okkar um það hvernig heimi við viljum búa í. Með hverri svona ákvörðun tökum við þátt í að móta framtíðina!

Við getum líka breytt vegna þess að við erum fyrirmyndir, því að öll erum við fyrirmyndir einhverra, þó að við vitum það ekkert endilega sjálf. Til að útskýra þetta aðeins langar mig að segja ykkur sögu úr Háskólanum í Santa Cruz í Kaliforníu. Þar ákváðu skólayfirvöld að ráðast í orkusparnaðarátak til að minnka rekstrarútgjöldin. Liður í þessu átaki var að fá alla stúdenta til að skrúfa fyrir vatnið í sturtunni á meðan þeir bæru á sig sápu. Í Santa Cruz er nefnilega enginn Deildartunguhver með ódýru hitaveituvatni. Þar þarf að hita vatnið upp með tilheyrandi kostnaði. En alla vega. Það voru sem sagt sett upp skilti í sturtuklefanum sem á stóð „Orkusparnaðarátak! Vinsamlega skrúfið fyrir vatnið á meðan þið sápið ykkur“. En árangurinn olli vonbrigðum. Aðeins 6% stúdentanna fóru nefnilega að þessum tilmælum. Og hvað var þá til ráða? Jú, skólayfirvöld ákváðu að semja við heitasta gaurinn í skólanum um að hann myndi alltaf skrúfa fyrir á meðan hann bæri á sig sápuna. Engu öðru var breytt, ekkert var sagt, og skiltið hélt áfram að hanga þar sem það hafði hangið. Og viti menn, við það eitt að heitasti gaurinn sýndi gott fordæmi, steinþegjandi og hljóðalaust, hækkaði hlutfall þeirra sem skrúfuðu fyrir úr 6% í 49%. Og þegar líka var búið að semja við næstheitasta gaurinn, þá hækkaði hlutfallið í 66%! Þessi litla saga minnir okkur á mikilvægi fyrirmyndanna. Og eins og ég sagði áðan, þá erum við öll fyrirmyndir einhverra! Við höldum kannski að við séum ein um að pæla í hlutunum, en tilfellið er að þarna úti er fullt af fólki sem er að hugsa nákvæmlega það sama. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stoppa.

En af hverju er ég aftur að tala um þetta? Jú, ég er að tala um þetta vegna þess að á morgun byrjar nýtt tímabil í lífi ykkar – og líka í mínu lífi, vegna þess að á morgun byrjar framtíðin. Mikilvægustu skilaboðin sem þið getið farið með út úr þessu húsi eru þau að þið getið haft raunveruleg áhrif á þessa framtíð. Allt sem þið gerið eða gerið ekki skiptir máli. „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“. Og þá er ekki endilega verið að tala um annað lítið fólk. „Við verðum að vera breytingin“!

Mig langar að enda þetta á orðum Edmunds Burke sem sagði: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.

Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að spjalla við ykkur á þessum fallega degi. Til hamingju með daginn og gangi okkur sem allra allra best að skapa góða framtíð, sem er gerð til að endast.