Í dag fór fram fyrsta æfing Hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi. Flandri er aðeins þriggja nátta gamall, því að hann fæddist að kvöldi 3. september sl. En þetta er bráðþroska og bráðfrískur hópur, sem sést best á því að 14 manns mættu á fyrstu æfingu hópsins síðdegis í dag. Svo mikill fjöldi fólks hefur naumast áður sést hlaupa um götur Borgarness á friðartímum.
Flandri er afskaplega opinn hlaupahópur sem öllum áhugasömum hlaupurum er rúmlega frjálst að slást í för með, óháð getu. Meginreglan á æfingum hópsins er að allir hafi gleðina í farteskinu, leggi af stað saman og komi helst um svipað leyti til baka. (Hópur þar sem félagarnir hittast aldrei er nefnilega enginn hópur).
Félagar í Flandra ætla að flandra víða á næstu mánuðum og árum, bæði í Borgarfirði og í öðrum héruðum heimsins. Fastlega má t.d. gera ráð fyrir að hópnum berist fljótlega boð um að koma í opinbera hlaupaheimsókn til Flæmingjalands (e. Flanders). Nánari fréttir af því heimboði verða fluttar strax og þær berast.
Hlaupahópurinn Flandri gerir út frá Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og hefur þrjá fasta hlaupatíma í viku, óháð staðháttum, færð, veðri og ófærð:
- Mánudaga kl. 17:30
- Fimmtudaga kl. 17:30
- Laugardaga kl. 10:00
Fyrsta æfingin var í dag sem fyrr segir. Mæting á æfingar er vandlega skráð jafnóðum í þar til gert Excelskjal, og ötulustu hlaupararnir gætu jafnvel átt von á glaðningi þegar vorar. Hópnum gæti líka dottið í hug að standa fyrir ýmsum uppákomum, viðburðum, ferðalögum eða fræðslu, svo eitthvað sé nefnt. Slíkt verður kynnt þegar nær dregur á Fésbókarsíðu hópsins, sem jafnframt er heimavöllur hans í netheimum.
Færðu inn athugasemd