• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • ágúst 2012
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Yfirdráttardagurinn er í dag

Í dag er yfirdráttardaginn 2012. Í kvöld verður mannkynið nefnilega búið að eyða öllu því sem náttúran getur framleitt á þessu ári. Frá og með morgundeginum verðum við að lifa á yfirdrætti til áramóta.

Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða, og út frá sömu forsendum tímasetja samtökin „yfirdráttardaginn“ (e. Earth Overshoot Day). þ.e.a.s. daginn þegar afrakstur ársins er genginn til þurrðar. Á síðasta ári var þessi dagur 27. september, sem var reyndar óvenjuseint miðað við nokkur síðustu ár, en það stafar fyrst og fremst af því að reikniaðferðin er í stöðugri þróun. Vitanlega er ekki til nein ein rétt aðferð og þar af leiðandi enginn einn réttur yfirdráttardagur, en smátt og smátt verður aðferðafræðin betri og niðurstaðan nær því að gefa rétta mynd af ástandinu. Yfirleitt hefur þessi dagsetning færst fram um nokkra daga á ári.

Dagurinn í dag er 235. dagur ársins (af 366). Það þýðir með öðrum orðum að á þessu ári notar mannkynið 366/235 = 1,56 jarðir til að framfleyta sér, samkvæmt útreikningum Global Footprint Network. Svona getur þetta augljóslega ekki gengið til lengdar.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvar fáum við þessar 0,56 jarðir sem vantar upp á? Svarið er einfalt: Þetta tökum við af höfuðstólnum, svo sem úr olíu og öðrum jarðefnum sem við höfum nurlað saman á milljónum ára, ef svo má að orði komast. Og við tökum þetta líka úr andrúmslofti og vatni, sem hafa kannski tekið við 56% meiri úrgangi en þau ráða við á einu ári, og úr jarðvegi og regnskógum, sem hafa kannski verið skert um 56% umfram það sem þau þola á einu ári.

Það er alveg hægt að ganga á innstæður eða lifa á yfirdrætti, en bara í tiltekinn tíma. Hér gildir það sama í bankanum. Að endingu kemur að skuldadögum.

40 ára hlaupaafmæli

Í dag eru liðin 40 ár síðan ég keppti í hlaupum í fyrsta sinn. Frumraunin var þreytt á héraðsmóti HSS í Sævangi við Steingrímsfjörð laugardaginn 19. ágúst 1972. Í minningunni snerist þátttaka mín í mótinu nánast eingöngu um keppni í 800 m hlaupi, en reyndar var ég búinn að taka þátt í 100 m hlaupi, langstökki og þrístökki áður en röðin kom að 800 metrunum.

Það var svo sem ekkert nýtt fyrir mér að hlaupa 800 metra, því að það hafði ég oft gert heima í sveitinni. Einhvern tímann höfðum við bræðurnir smíðað forláta mælistiku úr þremur prikum og notað hana til að stika út hæfilegar hlaupavegalengdir á gamla bílveginum sem liggur milli túnanna heima. Þar náði 800 m brautin frá Grafargili og út að Folaldslaut. Hallinn á brautinni er hagstæður ef hlaupið er í þessa átt, en ein brött brekka á leiðinni vinnur það sjálfsagt upp að mestu. Þessa braut hafði ég hlaupið á 2:37,5 mín fyrr um sumarið, nánar tiltekið 3. júlí. Eftir á að hyggja hef ég reyndar vissar efasemdir um þessa hálfu sekúndu, því að í stað skeiðklukku notaðist ég við Pierpont fermingarúrið mitt, sem vissulega var með sekúnduvísi, en engu umfram það.

Hlaupabrautin á Sævangi var eins og títt var til sveita, málaður hringur á sæmilega sléttu túni sem var slegið einum eða tveimur dögum fyrir mót. Endarnir á vellinum voru eitthvað leiðinlegir, þannig að brautin var bara um 350 m að lengd en ekki 400 m. Það skipti svo sem engu máli í 800 metrunum. Annað einkenni var kríuvarpið við norðurhorn vallarins. Kríunum var lítið gefið um knattspyrnuleiki og langhlaup og reyndu eftir megni að afstýra slíkum uppákomum. Líklega hefur nærvera þeirra hvatt hlaupara til dáða ef eitthvað var. Það sama gilti ekki um kalblettina sem höfðu lækkað lélegustu hluta brautarinnar um óþægilega marga sentimetra í tímanna rás. Það kom þó meira að sök í 100 metrunum, enda sérstaklega slæmur kalblettur nálægt miðri beinu brautinni.

Þar sem þetta var fyrsta frjálsíþróttamótið sem ég tók þátt í – og lítið um íþróttafataverslanir á Ströndum, bjó ég heldur illa að hlaupafötum og skótaui sem hæfðu viðfangsefninu. En ég var þó búinn að vera á Reykjaskóla einn vetur og hafði þar eignast forláta körfuboltabúning. Buxurnar voru ekki eins síðar og nú tíðkast í NBA, en þeim mun víðari. Þegar ég var kominn í þær minntu þær fljótt á litið meira á stutt pils en stuttbuxur, jafnvel þótt ég væri þá þegar orðinn álíka stór og sver og ég er núna. Mér fundust þær því ekki viðeigandi keppnisbúningur. Hins vegar var bolurinn fínn, gulur hlírabolur með rauðri bryddingu á köntum, stöfunum RSK framan á og tölunni 10 aftaná. Sniðið á bolnum var auk heldur svo nútímalegt að það líktist í einu og öllu því sem enn tíðkast, enda e.t.v. ekki mikið svigrúm til tilrauna við hönnun á hlírabolum. En buxnavandamálið þurfti að leysa með einhverjum hætti. Ég mætti því til leiks í ágætum tweedbuxum sem mamma hefur sjálfsagt verið nýbúinn að kaupa á mig sem betribuxur. Skótauinu er ég búinn að gleyma, en ég hafði ekki heyrt um ASICS þegar þetta var og gaddaskór komu ekki við sögu fyrr en ári síðar. Hins vegar átti ég örugglega ágæta strigaskó, því að svoleiðis skóbúnaður var ómissandi í sveitinni þegar unnið var í þurrheyi í góðu veðri eða hlaupið sér til skemmtunar á eftir heyvagninum.

Ég man svo sem ekki smáatriðin í hlaupinu sjálfu, nema hvað ég held að við höfum verið þrír sem lögðum af stað. Ég tók strax forystuna og sá aldrei til mannaferða eftir það. Eitthvað heyrði ég pískrað í áhorfendaskaranum um að þetta væri allt of hratt og að ég myndi springa. En mér var alveg sama um það. Hlaupinu lauk ég á 2:37,4 mín, sem mér fannst svo sem ekkert merkilegt, og hinir hlaupararnir voru um 100 metrum á eftir mér ef mig misminnir ekki.

Þetta var góður dagur í Sævangi og auðvitað var ég stoltur af verðlaunaskjölunum fjórum sem ég kom með heim um kvöldið. Skjalið fyrir 800 metrana skipti mig eðlilega langmestu máli. Það var hvítt á litinn eins og vera bar með skjöl sigurvegara. Hin voru bara blá, því að þar var ég í öðru sæti. En hvernig sem svona skjöl eru á litinn, þá eru þau töluvert persónulegri en allir þátttökupeningarnir sem hrúgast hafa upp á áratugunum sem liðnir eru síðan.

Ég velti því örugglega ekkert fyrir mér í ágúst 1972 hvort ég yrði enn að keppa í hlaupum 40 árum síðar. Líklega hefði mér þótt það fremur fjarstæðukennt ef einhver hefði spurt. Á þessum árum tíðkaðist heldur ekki að „gamalt fólk“ væri að spreyta sig í almenningshlaupum. Sjálfur var ég þó vanur því í sveitinni að fólk hlypi eins og fætur toguðu á meðan heilsan leyfði. Alla vega hélt pabbi heitinn áfram að hlaupa framundir andlátið, enda er sá ferðamáti fljótlegri en ganga. En hvað sem öðru líður er ég afskaplega þakklátur, bæði fyrir þessar gömlu minningar, fyrir að hafa lifað allar þær breytingar sem hafa átt sér stað síðan og fyrir að geta enn sinnt þessu áhugamáli mínu og haft gaman af!

Og verðlaunaskjalið fyrir 800 metrana geymi ég að sjálfsögðu!

Tíunda maraþonið að baki

Í gær (laugardag) hljóp ég maraþonhlaup í 10. sinn. Svo skemmtilega vildi til að sama dag voru liðin nákvæmlega 16 ár frá fyrsta maraþoninu mínu. Í þessu maraþonbloggi verður sagt nánar frá atburðum dagsins.

Undirbúningur – eða ekki
Maraþonið í gær var óvenjulegt að mörgu leyti. Ég hef til dæmis aldrei áður lagt upp í maraþonhlaup eins illa undirbúinn. Æfingar sumarsins fóru að talsverðu leyti í vaskinn vegna meiðsla sem enn sér ekki fyrir endann á – og svo þurfti ég endilega að ná mér í einhverja hálsbólgu á síðustu stundu. Ákvað samt að hlaupa, það var þá alltaf hægt að hætta ef heilsan brygðist. Mér finnst nefnilega pínulítið tvíbent að gefast upp án þess að reyna. Ef maður byrjar einu sinni á svoleiðis löguðu, þá er auðvelt að láta líka undan næst. Þetta tengist reyndar einni af grundvallarreglum mínum í hlaupunum: Ef ég ætla að gera eitthvað, þá geri ég það. Og ef eitthvað kemur í veg fyrir að ég geti það sem ég ætla, þá reyni ég að taka því með jafnaðargeði – en ekki fyrr en það er fullreynt.

Áætlun dagsins
Besti tíminn minn í maraþoni er 3:17:07 mín. frá því í Reykjavíkurmaraþoninu 2009. Þann tíma ætla ég að bæta við tækifæri, en ég vissi vel að það tækifæri byðist ekki núna. Reynslan sagði mér að miðað við æfingar sumarsins myndi ég hlaupa á 3:24-3:38 klst. Með hliðsjón af því ætlaði ég að byrja hlaupið á hraða sem dugar til að klára hvern kílómetra á 4:50 mín, sem er svona rétt rúmlega 12 km/klst. Það skilar lokatíma upp á 3:24 klst. En af því að ástandið á mér var eins og það var, gat þetta svo sem farið alla vega.

Fyrstu kílómetrarnir
Mér leið vel við rásmarkið, enda engin pressa á mér að ná neinum tilteknum árangri. Líðanin var áfram góð fyrsta spölinn, og þegar ég gáði á klukkuna sá ég að hraðinn var nokkurn veginn eins og að var stefnt. Millitíminn eftir 10 km var t.d. 48:02 mín, sem jafngildir 4:48 mín/km. Þetta var reyndar á svipuðu róli og í fyrsta maraþoninu fyrir 16 árum, nánað tiltekið 14 sekúndum hægara.

Málin rædd á leiðinni
Eitt af því góða við Reykjavíkurmaraþon er að þar hittir maður ævinlega fjöldann allan af skemmtilegu fólki, bæði fyrir hlaupið, í hlaupinu sjálfu og eftir það. Þeir sem ekki þekkja til telja kannski að maður geti ekkert spjallað í svona hlaupum. En það er misskilningur. Það virkar nefnilega ekki að vera sprengmóður í maraþonhlaupi. Þá þrýtur mann kraft fyrr en síðar. Í svona hlaupi er sem sagt gott næði og nógur tími til að spjalla. Á þessum fyrsta spotta hitti ég m.a. Halldór Arinbjarnarson á Akureyri, Gunnlaug ofurhlaupara Júlíusson – og ýmsa fleiri. Hins vegar fann ég hvergi Ingimund Grétarsson, stórvin minn og hlaupafélaga. Gerði ráð fyrir að hann væri spölkorn á undan mér, enda betur undirbúinn.

Fréttir af Ingimundi
Næstu kílómetra hélt ég nokkurn veginn sama hraða, eða bætti kannski heldur í. Meiðslin gerðu lítið vart við sig og hálsbólgan var horfin og gleymd. Við 18 km markið á Kirkjusandi var ég þó aðeins farinn að finna fyrir þreytu. Þá streymdu líka hlauparar fram úr mér, en líklega voru það aðallega þátttakendur í hálfu maraþoni, byrjaðir á endaspretti. Rétt eftir 18 km markið skiljast leiðir, hálfmaraþonhlauparar taka strikið eftir Sæbrautinni niður í bæ, en maraþonhlauparar beygja upp Kringlumýrarbrautina. Einmitt þar í beygjunni hitti ég Sigurð Pétur, fyrrv. Íslandsmeistara í maraþoni. Hann sagði mér að Ingimundur væri kominn vel á undan, sem mér fundust reyndar góðar fréttir. Það er alltaf gott til þess að vita að félagarnir séu í góðum gír.

Betri en fyrir 27 árum?
Eftir 20 km var millitíminn 1:36:08 klst. Ég hafði sem sagt verið 48:06 mín með 10 km kafla nr. 2, hafði með öðrum orðum haldið mjög jöfnum hraða. Og eftir hálft maraþon sýndi klukkan 1:41:23 klst. Einhvern tímann hef ég verið næstum 7 mínútum fljótari með fyrri helming maraþonhlaups, en allt er þetta afstætt. Í fyrsta sinn sem ég hljóp hálft maraþon tók það t.d. 1:43:43 klst. Það var fyrir 27 árum. Bendir þetta ekki til framfara?

Akureyrarhlaupið rifjað upp
Stuttu eftir að hlaupið var hálfnað kom ég auga á Ingibjörgu Kjartansdóttur spölkorn á undan mér. Við höfum einu sinni áður fylgst að drjúgan hluta úr maraþonhlaupi. Það var á Akureyri sumarið 2009. Reyndar vill svo skemmtilega til að því hlaupi lauk ég á nákvæmlega sama tíma og þessu hlaupi, alveg upp á sekúndu. Meira um það síðar. En núna vann Ingibjörg alla vega til silfurverðlauna í kvennaflokki og var vel að þeim komin!

Þegar 30 km eru búnir er mikið búið
Þriðji 10 km skammturinn var afgreiddur á 48:47 mín. Tíminn eftir 30 km var sem sagt 2:24:55 mín. Hef oft verið fljótari, en stundum lengur. Þegar 30 km eru búnir er mikið búið. Þá er hægt að fara að spá í líklegan lokatíma. Hmmmm, rúmir 12 km eftir og líklegt að eitthvað eigi eftir að hægjast á manni. Ég reiknaði út að ef hraðinn minnkaði ekki mikið gæti ég kannski klárað þessa 12 km á 65 mínútum. Þá myndi lokatíminn verða um 3:3o klst. Það þótti mér bara vel ásættanlegt og setti mér nýtt markmið um að verða undir 3:30.

Ingimundur eltur uppi
Eftir 31 km kom ég auga á kunnuglegan baksvip framundan. Ég var sem sagt farinn að draga á Ingimund. Bilið var líklega ekki nema 200 metrar, en það tók mig samt 6 km að vinna það upp. Náði honum yst úti á Seltjarnarnesi þegar u.þ.b. 37 km voru að baki. Þrjátíuogsjö kílómetra markið finnst mér alltaf mikilvægur áfangi. Þá eru bara rúmir 5 km eftir, sem ætti að vera hægt að ljúka á 25-30 mín. Að þessu sinni ákvað ég að miða við 27-32 mín. Þarna var tíminn næstum því nákvæmlega 3:00 klst. Þar með þóttist ég viss um að geta lokið hlaupinu á 3:27-3:32 klst. Ákvað að halda fast við fyrra markmið um að vera undir 3:30.

Leikur að tölum
Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er nokkuð um tölur í þessum pistli. Ég hef reyndar sérstakt yndi af að leika mér að tölum á meðan ég hleyp; reikna meðalhraða, gera áætlanir um lokatíma o.s.frv. Hins vegar hef ég oft tekið eftir því að á síðustu kílómetrum maraþonhlaups dregur mjög úr reiknifærninni. Þetta gerðist þó ekki í þessu hlaupi, sem var auðvitað vísbending um að ég hefði hlaupið skynsamlega og hvorki ofgert líkama né sál. Ég fór meira að segja létt með að reikna að ef maður hleypur 37 km á 3 klst, þá hefur hver kílómetri tekið rétt um 4:52 mín að meðaltali. Þarna var með öðrum orðum farið að hægjast dálítið á mér, enda sá ég það á hlaupaúrinu. Hver kílómetri var farinn að taka um 5 mínútur í stað 4:45-4:50 í fyrri hluta hlaupsins. En mér var alveg sama um þetta. Mér leið vel og það var allt sem ég óskaði mér.

Gæsahúð
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að hlaupa síðustu kílómetrana í maraþoni, já eða næstum alltaf. Ef líðanin er góð fyllist hugurinn af gleði yfir því að þetta sé að verða búið, yfir því að maður geti yfirleitt hlaupið, yfir veðrinu eða bara yfir hverju sem er. Að þessu sinni var líðanin góð og veðrið dásamlegt; hægur vindur, sólarglæta en ekki steikjandi sólskin, og hitinn um 15 stig. Gleðin var enda svo mikil að jaðraði við gæsahúð.

Endaspretturinn
Útreikningarnir héldu áfram. Eftir 40 km á 3:15:19 klst. var ég viss um að lokatíminn yrði á bilinu 3:27-3:29 klst. Þá fann ég líka að ég átti nóg eftir. Í svona hlaupum er alltaf skemmtilegt að eiga eftir orku til að taka sig sæmilega út á endasprettinum í Lækjargötunni. Ég jók því hraðann jafnt og þétt án nokkurra vandkvæða, hvattur áfram af mannfjöldanum á marksvæðinu, sem mér fannst náttúrulega að væri allur þarna saman kominn til að fagna mér. Síðustu 200 metrana hljóp ég á 48 sek., sem dugar skammt til afreka á Ólympíuleikum, en lítur út fyrir að vera góður hraði í Lækjargötunni. Þegar ég skeiðaði í markið klökkur af gleði var klukkan ekki enn smollin í 3:26 klst. Endanlegur tími var 3:25:56, nákvæmlega sami tími og á Akureyri 2009.

Heilsufarsmæling í markinu
Þegar ég kom í mark sagði þulurinn í hátalarakerfið að þarna kæmi Stefán Gíslason. Hann liti út fyrir að vera læknir, af því að hann væri svo (stutt umhugsun) … læknalegur. Ég var ekki alveg viss um hvort þetta væri jákvætt eða neikvætt, en áttaði mig svo á því að það er auðvitað miklu betra að líta út sem læknir í markinu, en sjúklingur. Mér fannst ég líka vera alheilbrigður. Ég nota gjarnan tímatökuflöguna á hlaupaskónum mínum sem mælikvarða á heilsuna eftir maraþonhlaup. Ef ég get beygt mig nógu mikið til að ná henni af hjálparlaust, þá er heilsan í góðu lagi. Í gær fór ég létt með þetta, þannig að ástandið var greinilega gott!

Mesta ríkidæmið
Eftir hlaupið sat ég lengi og spjallaði við fólk, enda er félagslega hliðin mikilvægur hluti af þessu öllu saman. Reykjavíkurmaraþonið er eins konar árshátíð. Þar hittist fólk og miðlar hvert öðru af reynslu sinni og gleði. Eftir spjallið var svo kominn tími á að finna fjölskylduna mína sem var mætt á marksvæðið. Það er ómetanlegt að eiga fjölskyldu sem styður mann í sérviskunni og tekur á móti manni eftir svona skemmtanir. Björk, konan mín, hefur verið í því hlutverki í áratugi.

Fyrir 16 árum
Eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils eru liðin nákvæmlega 16 ár frá fyrsta maraþonhlaupinu mínu. Tíminn í því hlaupi var 3:35:56 klst., þ.e. nákvæmlega 10 mínútum lengri en í gær. Það hlaup var líka miklu erfiðara. Þá hafði ég reyndar æft miklu meira, en mig vantaði samt kílómetra í lappirnar og reynslu í kollinn. Reynslan skiptir miklu máli í þessu, enda ræðst árangurinn ekki síst af hugarfarinu. Fyrir 16 árum tíðkaðist heldur ekki að taka með sér nesti, eða það gerði ég að minnsta kosti ekki þá. Þegar aðgengilegar orkubirgðir líkamans voru uppurnar helltist yfir mig óendanlega mikil þreyta. Ég hljóp á vegg, eins og það er kallað, eftir 34 km. Núorðið leysi ég þetta mál með orkugeli sem ég gleypi í mig á u.þ.b. 7 km fresti. Og vegginn hef ég ekki hitt lengi.

Tja, svona í meðallagi – og talan 56 enn á ferð
Ég nefndi það líka að tíminn í gær hefði verið nákvæmlega sá sami og á Akureyri 2009. Þessi árangur verður að teljast í meðallagi, því að í þessum 10 hlaupum hef ég fjórum sinnum hlaupið hraðar og fjórum sinnum hægar. Og svona rétt til gamans má geta þess að í 4 skipti af 10 hefur lokatíminn endað á „:56“. Tölur eru skemmtilegar.

Eintóm gleði!
Þegar ég hugsa til hlaupsins í gær, stendur gleðin upp úr. Það eru forréttindi að geta átt svona áhugamál og stundað það ár eftir ár þótt árin færist yfir. Þessi gleði á eftir að nýtast mér vel í verkefnum næstu daga, bæði í leik og í starfi.

Kominn í mark, búinn að finna fjölskylduna í mannhafinu og byrjaður að fagna öðrum hlaupurum. Jóhanna Stefáns tók þessa mynd af okkur hjónunum.

Snjáfjallahringurinn að baki

Síðastliðinn laugardag (28. júlí 2012) hljóp ég Snjáfjallahringinn með 5 góðum hlaupafélögum. Þetta voru rétt um 60 km og við vorum rúma 13 tíma í ferðinni. Allt gekk þetta eins vel og hægt er að hugsa sér. Þetta verður góður dagur í minningunni, lengi!

Aðdragandinn
Á Snjáfjallahringnum eru þrír fjallvegir, sem ég ákvað að hafa með í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Reyndar vissi ég ekkert um þessa fjallvegi fyrir 5 árum þegar ég byrjaði að skipuleggja fjallvegahlaupin. Kveikjan að því að ég setti einmitt þessar leiðir á listann var lestur bókarinnar Harmur englanna eftir Jón Kalman Stefánsson, sem kom út fyrir jólin 2009. Þar er sagt frá ferð stráksins með Jens pósti norður yfir Ísafjarðardjúp, yfir Snæfjallaheiði til Grunnavíkur og áfram inn Staðarheiði. Reyndar varð póstferðin lengri og endaði eiginlega á Hesteyri, en það er önnur saga. Að vísu heita heiðarnar eitthvað annað í sögu Jóns Kalmans, en eftir að hafa lesið þessa bók og hinar bækurnar tvær í sama þríleik, fannst mér ég þekkja þessar heiðar, hvað sem þær heita, og hafa jafnvel verið þar á göngu með hest í þrálátu norðanáhlaupi á löngu liðnu vori. Þess vegna vissi ég, strax að lestri loknum, að þessar heiðar þyrfti ég að hlaupa.

Undirbúningurinn
Eins og fyrr segir er Snjáfjallahringurinn rétt um 60 km og liggur um þrjá fjallvegi. Maður stendur ekkert upp úr sófanum og hleypur svoleiðis hring án sæmilegs undirbúnings. Ég var enda staðráðinn í að undirbúa mig vel líkamlega með miklum hlaupum, þó að auðvitað væri ég svo sem búinn að byggja upp ágætan grunn á þeim allmörgu mánuðum og árum sem ég hef kynnst hlaupaskónum mínum meira en sófanum.

En sumt fer öðruvísi en ætlað er. Tognun í maí kom að mestu í veg fyrir hlaupaæfingar sumarsins, þannig að í stað þess að Snjáfjallahringurinn yrði uppskeruhátíð eftir vel heppnaðar æfingar, varð hann prófsteinn á hvort heilsan væri komin í þokkalegt lag. Svoleiðis prófsteinar mega sem best vera minni en þessi, en ég var samt nokkuð viss um að ég hefði þrek í verkefnið. Ekki vill maður heltast úr lestinni á miðri leið og vera upp á aðra kominn með að komast til byggða.

Líkamlegur undirbúningur dugar skammt einn og sér. Til þess að hlaupa Snjáfjallahringinn þarf líka að huga að andlegum og sagnfræðilegum undirbúningi. Andlegi undirbúningurinn er eitthvað sem síast inn með árunum, því að reynslan kennir að maður getur flest það sem maður ætlar sér. Svo þarf að hugsa dálítið um vegalengdina. Ég hafði t.d. aldrei áður farið lengra en 55 km á einum degi, og það á mun auðveldara undirlagi, nefnilega á Laugaveginum. Því þurfti hugurinn að glíma við vitneskjuna um að framundan væri eitthvað stærra en það sem ég hafði gert áður. Á öxlum flestra búa hræðslupúkar sem hvísla því í eyru að allt sé ömögulegt sem ekki hefur verið gert áður. Þeir hafa rangt fyrir sér, en til þess að vita það þarf vissan þroska.

Sagnfræðilegi undirbúningurinn þarf ekki að vera óskaplega sagnfræðilegur, en það er samt skemmtilegra að vera búinn að kynna sér leiðina sem maður ætlar að hlaupa, leggja nokkur örnefni á minnið og setja sig örlítið inn í söguna sem býr í tóftarbrotum og snarbröttum hlíðum. Sagan skiptir máli, og það auðgar líf manns að reyna að skilja viðfangsefni genginna kynslóða og finna hvernig gleði þeirra og sorgir hafa mótað mann sjálfan. Allt þetta bætir samúð, aðdáun og þakklæti við allar hinar tilfinningarnar sem maður upplifir á leiðinni.

Ferðin vestur
Daginn fyrir hlaupið ókum við hjónin vestur á Snæfjallaströnd með hjólhýsið sem löngum hefur fylgt okkur á hlaupaferðum síðustu 5 sumur. Á leiðinni höfðum við viðkomu á Hólmavík, þar sem ræturnar liggja. Um kvöldið var svo hjólhýsinu lagt á tjaldstæðinu við Dalbæ, og þangað komu líka hjónin Sævar og Bryndís, að ógleymdri Fríðu, sem hefur verið öðrum ötulli við að veita mér félagsskap í fjallvegahlaupum. Kvöldið var kyrrlátt ef frá er talinn brekkusöngur þeirra sem tóku þátt í fjölskylduhátíð í Dalbæ þessa sömu helgi.

Föstudagskvöld á tjaldstæðinu við Dalbæ. Lengst í vestri má eygja Traðarhyrnu ofan við Bolungarvík.

Lagt af stað
Laugardagsmorgunninn rann upp bjartur og fagur. Veðurguðirnir gengu í lið með okkur og buðu upp á suðvestan golu, bjartviðri og 10-15 stiga hita. Betra gat það ekki verið. Við vorum komin á stjá upp úr kl. 7 um morguninn og nokkru síðar birtust síðustu hlaupararnir, Strandamennirnir Birkir og Rósmundur. Þá var okkur ekkert að vanbúnaði. Klukkan 9 var sest upp í tiltæka bíla og ekinn tæplega kílómetra langur spölur frá Dalbæ út að vegamótunum við Dalsá. Þaðan var hlaupið af stað kl. 9:09.

Hópurinn ferðbúinn við Dalsá. F.v.: Birkir Þór Stefánsson, Rósmundur Númason, Stefán Gíslason, Bryndís Óladóttir, Sævar Skaptason og Arnfríður Kjartansdóttir. (Ljósmynd: Björk Jóhannsdóttir, hjálparhella nr. 1).

Fyrsti spölurinn niður að kirkjunni í Unaðsdal.

Snæfjallaströndin
Snæfjallaströndin var sannarlega falleg þennan dag. Okkur sóttist ágætlega ferðin út fyrir Tirðilmýri og að Hávarðsstöðum þar sem Hávarður Ísfirðingur bjó til forna og átti svo margt fé að þegar það rann í sporaslóð upp hlíðina ofan við bæinn bar fyrstu kind við himinn þegar sú síðasta var við túngarðinn. Reyndar sáum við aldrei Hávarðsstaði, heldur bara tún Engilberts og Öddu, sem bjuggu á Tirðilmýri fram til ársins 1987.

Bílfær vegarslóði liggur út fyrir Tirðilmýri, en þegar honum sleppir liggur leiðin niður í fjöruna og við tekur misgóð gata sem hefur mótast í áranna og aldanna rás undan fótum kinda, hesta og manna. Nú er ströndin öll löngu komin í eyði og fáir á ferli nema fáeinir göngumenn og hestaferðalangar. Enga slíka hittum við þó þennan dag.

Eftirminnilegasta kennileitið á ströndinni er Möngufoss í Innraskarðsá. Hann fellur niður af hömrum ofan við eyðibýlið Hlíðarhús og er sagður býsna líkur Öxarárfossi, nema miklu hærri og tilkomumeiri. Þetta get ég staðfest eftir ferðalag laugardagsins.

Ég hafði frétt að Innraskarðsá væri bæði vatnsmikil og straumþung. Það var rétt. Hins vegar hafði ég ekki frétt að á henni væri þessi fyrirtaks göngubrú. Það var kærkomin uppgötvun, því að þó maður sé sjaldnast alveg þurr á fótunum í fjallvegahlaupum, þá eru straumþungar ár ekki ofarlega á óskalistanum.

Hópmynd á göngubrúnni yfir Innraskarðsá. Möngufoss í baksýn.

Örnefnið Innraskarð gefur vísbendingu um að líka sé til eitthvað sem heitir Ytraskarð. Sú er líka raunin, og þar er sömuleiðis búið að koma fyrir göngubrú. Utan við Ytraskarðsá stóð bærinn Skarð, sem fór í eyði 1938 og tók síðan af í snjóflóði 1944 eða þar um bil. Þarna voru líka fleiri bæir fram yfir aldamótin 1900.

Við komum að Ytraskarðsá kl. 10:53 og vorum þá búin að vera nákvæmlega 1 klukkustund og 44 mínútur að skokka þennan spotta frá Unaðsdal. Spottinn reyndist vera 10,82 km, sem þýddi að meðalhraðinn okkar hafði verið 6,24 km/klst. Það var talsvert hægara en ég hafði reiknað með, enda leiðin seinfarnari en ætla mátti. Eins höfðum við gefið okkur góðan tíma til að skoða okkur um, rifja upp sögur og narta í nesti. Ég hafði ætlað 11 tíma í ferðalagið allt, en þóttist nú sjá að tímarnir yrðu varla færri en 12. En það skipti svo sem engu máli. Við vorum ekki í keppni við tímann, heldur var markmiðið að njóta dagsins og koma heil heim.

Hópmynd á göngubrúnni yfir Ytraskarðsá.

Rétt utan við Ytraskarð gengur dálítill vogur inn í ströndina, sem Skarðsbót nefnist. Þar sáum við leifar af báti, sem greinilega hafði lent þarna í úreldingu fyrir allmörgum áratugum. Mér datt strax í hug að þetta væri báturinn sem strákurinn og Jens fengu lánaðan og réru á yfir djúpið. Reyndar held ég að þeir hljóti að hafa tekið land utar – og svo var báturinn þeirra örugglega ekki svona stór. Og þó? Gæti þetta ekki alveg verið? Ég veit alla vega ekki til að þeir hafi skilað bátnum. Hvar liggja annars mörkin á milli sagnar og veruleika?

Minjar í Skarðsbót undir Skarðshyrnu.

Segir nú fátt af ferðum okkar fyrr en við komum að Sandeyri. Gatan þangað var víða ógreinileg, og ýmist fórum við um mýrar eða sjávarkamb. En þarna er engin villuhætta, því að á þessu landi er ekkert nema misbreið strönd undir bröttum grænum brekkum. Á Sandeyri var löngum stórbýli, enda útræði og jafnvel vísir að spænskri hvalveiðistöð fyrr á öldum. Nú er þar fátt að sjá nema reisulegt tveggja hæða íbúðarhús úr steini, sem byggt var árið 1908 og er nú nýtt sem slysavarnarskýli. Innandyra bar margt athyglisvert fyrir augu, bæði gamla muni og Alþingistíðindi frá 1933. En þeir sem nýta húsið mættu ganga betur um.

Þegar horft er á þessa mynd er auðvelt að ímynda sér Sævar og Bryndísi sem húsráðendur á Sandeyri. En óreiðan innan dyra sýnir svo ekki verður um villst að svo er ekki.

Við yfirgáfum Sandeyri kl. 11.53. Þarna voru 15,44 km og 2:44 klst. að baki og búið að leggja allar tímaáætlanir til hliðar. Um það bil kílómetra utar er Berjadalsá þar sem Sumarliði póstur bjó dag þann í desember 1920 sem hann lagði upp í síðustu ferð sína yfir Snæfjallaheiði. Á bökkum árinnar stóðu líka nokkur fleiri tómthúsbýli og þaðan stunduðu vermenn útróðra, m.a. vermenn úr Strandasýslu. Nú er lítið sýnilegt af mannvirkjum, ef frá er talið gönguleiðaskilti sem minnir á að hér byrjar Snæfjallaheiðin.

Stefán og Rósmundur við gönguleiðaskiltið við Berjadalsá.

Berjadalsá er brúuð, en þar er þó greinilega minna lagt í brúargerðina en innar á ströndinni.

Snæfjallaheiðin
Snæfjallaheiðin var fyrsti fjallvegur dagsins. Reyndar skilgreini ég ströndina og heiðina sem eitt og sama viðfangsefnið í fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að maður kemst ekki auðveldlega á tveimur jafnfljótum yfir heiðina án þess að skokka ströndina fyrst.

Áður en ég byrjaði að fikra mig upp bratta götuna upp á heiðina, tók ég upp símann og hringdi í Grunnavík. Þar hafði ég pantað mat fyrir hópinn og fannst rétt að tilkynna um þá seinkun sem orðin var á ferðalaginu. Einhvern veginn hefði mér fundist rétt að grípa þarna til Kristjaníusímans úr æsku minni og hringja svo sem tvær stuttar og tvær langar, eða hver sem hringingin í Sútarabúðum í Grunnavík annars var. En sumt breytist þó að tíminn standi svolítið eins og kyrr. Þarna var til dæmis rífandi GSM-samband, enda Ísafjarðarkaupstaður næstum í seilingarfjarlægð handan við Djúpið.

Horft af Snæfjallaheiði yfir Ísafjarðarkaupstað.

Leiðin upp á Snæfjallaheiði er auðrötuð í svona góðu sumarveðri, enda gatan greinileg og vel vörðuð. Þegar mestu brekkurnar eru að baki liggur leiðin alllangan spöl eftir Reiðhjalla, sem sýnist fljótt á litið tiltölulega flatur. Samt er þetta allt á fótinn. Sums staðar voru dý og annars staðar skaflar. Burknar uxu í hlíðum.

Uppi á hjallanum fundum við þetta ágæta byrgi, hæfilega stórt fyrir Birki.

Við gættum þess auðvitað að fara ekki of nærri brúnum Súrnadals, sem gengur þarna inn í heiðina vestantil. Þar niður er sagt að 19 manns hafi hrapað til bana, og að þau álög hvíli á að þeir skuli verða 20. Kannski fyllti Sumarliði póstur kvótann, en líklegra er að hann teljist ekki með, því að hann hrapaði fram af Vébjarnarnúpi langt fyrir vestan Súrnadal.

Ofan við Súrnadal var nokkur gróður, en eftir það tók grjótauðnin við. Toppurinn á heiðinni er nefnilega í hrjóstrugra lagi. Kannski fórum við líka aðeins of innarlega yfir hæstu bunguna. Líklega er ytri leiðin síður stórskorin, en báðar eru varðaðar. Leiðin sem við völdum hafði þó það sér til ágætis að þar voru víða þunnar hellur sem ómuðu eins og besti sílófónn þegar gengið var um þær.

Hlaupaleiðin á Snæfjallaheiðinni er sums staðar í grófari kantinum. Hér er farið að sjást norðuraf.

Birkir og Rósmundur bregða á leik í götunni niður af Snæfjallaheiðinni. Grunnavík blasir við og Maríuhornið ber hæst. Fjær sést norður yfir Jökulfirði.

Allt í einu sáum við norður af heiðinni og Grunnavík blasti við til norðausturs, okkur til óblandinnar ánægju. Um þetta leyti höfðum við verið á ferðinni í tæpa 5 tíma og hugsunin um kjötsúpuna í Grunnavík var farin að gerast áleitin. Líklega hittum við ekki alveg rétt á niðurgönguna, en það skipti svo sem engu máli. Fljótlega vorum við komin á hlaðna grjótgötu og fyrr en varði vorum við sest að gnægtaborði staðarhaldaranna í Sútarabúðum, Friðriks og Sigurrósar. Ferðalagið frá Unaðsdal hafði tekið 5 tíma og 38 mínútur og mælirinn sýndi 29,31 km.

Kjötsúpunni í Grunnavík voru gerð góð skil. Fátt jafnast á við góða hressingu eftir svona ferðalag.

Fríða í slökun á sólpallinum við Sútarabúðir í Grunnavík.

Sigurrós og Friðrik í Grunnavík eru höfðingjar heim að sækja!

Á hlaðinu í Grunnavík, öll sæl og glöð eftir kjötsúpu og hvíld og tilbúin í næsta áfanga.

Staðarheiðin
Eftir rúmlega klukkustundar viðdvöl í Grunnavík og góðan skammt af kjötsúpu, kaffi, súkkulaði og hlýlegum móttökum var lagt upp í næsta áfanga, nánar tiltekið inn Staðarheiði og Sveit að Dynjanda í Leirufirði. Þessi leið er auðveld yfirferðar, lítil hækkun og gamall innansveitarvegur næstum alla leið, þokkalega fær á góðum dráttarvélum og breyttum jeppum. Við mættum þó engum slíkum farartækjum, enda ekki margt um manninn í Grunnavíkurhreppi hinum forna síðan 6 síðustu fjölskyldurnar pökkuðu saman og yfirgáfu sveitina sína fyrir fullt og allt haustið 1962.

Á fullri ferð á ný. Staður í Grunnavík framundan – og svo liggur leiðin beint inn á Staðarheiði.

Leiðin frá Grunnavík liggur um hlaðið á prestsetrinu að Stað þar sem séra Jónmundur var lengi að ganga frá bréfum, og áfram inn dalinn upp á Staðarheiðina. Hún er fjær himinblámanum og þar fara menn „ekki eins nálægt nóttinni“ og á Snæfjallaheiðinni, svo gripið sé niður í texta Jóns Kalmans. Austur af heiðinni liggur leiðin niður Tíðagötur niður á Höfðaströnd, niður í sveitina sem jafnan var kölluð Sveitin. Þar voru 4 bæir, en sá fyrsti er ekki í þessari alfaraleið. Næstur er Höfðaströnd, þá Höfði og loks Dynjandi, sem síðar er nefndur. Á öllum þessum bæjum hafa eigendurnir byggt upp bæjarhúsin, og fljótt á litið er þeim öllum vel við haldið.

Á Staðarheiði. Hún er ekki sérlega nálægt nóttinni.

Við bæinn Höfðaströnd hittum við tvo hunda, sem var ekki sérlega um okkur gefið. Ekki sást til mannaferða. Kannski var þarna kominn draugurinn Mópeys í hundsgervi, en sem betur fer áttaði ég mig ekki á þessari tengingu fyrr en seinna. Innar á ströndinni óðum við Deildará, sem var mesta óbrúaða vatnsfalli á leiðinni.

Við bæinn Höfðaströnd á Höfðaströnd. Mópeys hvergi sjáanlegur – eða hvað?

Sokkar undnir innan við Deildará.

Bryndís komin í hlað á Höfða, nákvæmlega 42,2 km frá þeim stað þar sem lagt var upp að morgni.

Rósmundur við hringsjána á höfðanum. Í baksýn er Drangajökull fyrir botni Leirufjarðar.

Það var orðið áliðið dags þegar við komum að Flæðareyri, þar sem Ungmennafélagið Glaður reisti glæsilegt samkomuhús á 4. áratug 20. aldar. Þarna voru síðan haldnir dansleikir og kom fólk gangandi norður yfir Dalsheiði til að taka þátt í þeim skemmtunum. Eftir á að hyggja er auðvelt að hugsa sér slíka gönguferð á dansleik á Flæðareyri, en erfitt að hugsa sér gönguferðina til baka að dansleik loknum.

Samkomuhúsið Glaður á Flæðareyri.

Allt þetta einstaka svæði sem við fórum um þennan dag var nýtt fyrir okkur, með þeirri undantekningu að Rósmundur hafði brugðið sér á ball á Flæðareyri á sínum yngri árum. Þar er reyndar enn hægt að taka sporið, því að húsið er í toppstandi og þar er haldin samkoma á hverju sumri.

Frá Flæðareyri er stutt að eyðibýlinu Dynjanda í Leirufirði, þar sem öðrum áfanga þessa ferðalags lauk kl. 18:33 þennan fallega laugardag. Að baki voru 45,5 kílómetrar og sjálfsagt einir 15 eftir að upphafsreit í Unaðsdal.

Þó að Dynjandi hafi verið í eyði síðan 1952, er síður en svo eyðilegt að koma þangað. Þarna hefur gamla húsið verið endurbyggt af miklum myndarskap og snyrtimennsku, og ekki spilltu móttökurnar fyrir. Á hlaðinu hittum við nefnilega hjónin Kristján og Lydíu og dætur þeirra tvær, og fyrr en varði stóðum við í skjóli á veröndinni og drukkum heitt kakó. Þetta var óvænt og ákaflega ánægjuleg viðbót við viðburði dagsins.

Dynjandi við Leirufjörð. Þar var gott að koma – og móttökur Kristjáns, Lydíu og dætra engu síður glæsilegar en húsið.

Heiðurshjónin Kristján og Lydía á Dynjanda.

Himinlifandi og allsendis óþreyttir hlauparar á hlaðinu á Dynjanda, búin að hlaupa 45,5 km og drekka kakó. (Ljósmynd: Lydía Ósk).

Dalsheiðin
Eftir hálftíma viðdvöl í þessu góða yfirlæti á Dynjanda var lagt upp í síðasta áfangann. Hann reyndist drjúgur eins og títt er um slíka. Yfir Dalsheiði liggur hvorki innansveitarvegur né fjárgata, og fátt sem bendir til að menn hafi yfirleitt átt erindi þarna yfir. Þó tala gamlir símastaurar sínu máli og hjálpa ókunnugum við að rata. Reyndar er ekki ráðlegt að fylgja staurunum nákvæmlega, og líklega gildir það sama um vörður sem þarna er víða að finna nokkru austan við símastaurana. Við hölluðum okkur frekar að vörðunum, en seinna um kvöldið sagði sveitarhöfðinginn Engilbert á Tirðilmýri mér að betra væri að fara vestan við staurana. Þar hefði línan upphaflega átt að vera, enda væri undirlagið þar miklu skárra. Einhverjum snillingi hefði svo dottið í hug að færa staurana austar þar sem undirlag er miklu grýttara. Þurftu menn að leggja á sig mikið erfiði og hættu til að færa staurana yfir á þessa nýju leið.

Horft inn Dynjandisdal. Dynjandisskarð fyrir miðri mynd. Seinfarin hlaupaleið.

Bratt er upp á Dalsheiðina að norðanverðu, enda fer leiðin í um 500 m hæð á fyrstu 5 kílómetrunum. Inn á milli eru miklu brattari brekkur, en sem betur fer lágu skaflar í þeim flestum. Skaflar eru mýkri undir fæti en grjót og því ágæt tilbreyting í svona landslagi.

Áður en lagt var af stað hafði ég skráð GPS-punkt af gönguleiðakorti inn í hlaupaúrið mitt. Punktinn fann ég, en í nágrenni hans var fátt sem minnti á gönguleiðir, aðeins stórgrýtisurð í allar áttir, svo stórgrýtt reyndar að ég hef varla nokkurs staðar átt leið um í verra göngufæri. Þarna þurfti virkilega að kunna fótum sínum forráð, en í lautum lágu víða skaflar sem léttu okkur sporin.

Hlaupaleiðin á Dalsheiði.

Skaflar henta betur til hlaupa en stórgrýtisurðir. Hér var líka farið að halla undan fæti og ástæða til að fagna því.

Bryndís og Sævar voru líklega allsátt við að sjá fyrir endann á Dalsheiðinni, enda kílómetratala dagsins farin að nálgast 60.

Ég viðurkenni að það var talsverður léttir þegar halla tók suðuraf heiðinni og félagsheimilið Dalbær kom í ljós niðri á ströndinni í fjarska. Þegar þarna var komið sögu höfðum við Birkir sagt skilið við ferðafélagana í bili, enda báðir léttir á fæti niður í móti. Gættum þess þó að alltaf sæist á milli hópa, því að engan vill maður skilja eftir á svona heiði. Líklega vorum við enn of austarlega á niðurleiðinni. Alla vega þurftum við að vaða eina helkalda á, líklega Þverá sem rennur í Dalsá. Fljótt á litið ætti gönguleiðin að liggja vestan við upptök hennar. Sævar og Bryndís komu næst á eftir okkur og völdu að fara yfir ána á snjóbrú í stað þess að vaða. Það þorði ég ekki.

Ekki tókst mér að fylgja Birki bónda eftir á hraðferðinni niður hlíðina, en klukkan 22:23 um kvöldið stóðum við báðir á vegamótunum við Dalsá, þaðan sem við höfðum lagt af stað kl. 9:09 um morguninn. Að baki voru samtals 59,8 km og 13 klukkustundir og 14 mínútur að öllum hvíldartímum meðtöldum. Hlaup dagsins endaði með léttu skokki að tjaldsvæðinu við Dalbæ og þar með var ferðalag dagsins orðið nákvæmlega 60,7 km, lengsta dagleið sem nokkurt okkar hafði farið, að Fríðu undanskilinni. Hún hafði unnið sér rétt til félagsaðildar í hundraðkílómetrafélaginu eftir ofurhlaup í Ölpunum árið 2011.

Ferðalok
Innan skamms var hópurinn sameinaður á tjaldsvæðinu við Dalbæ. Þar beið Björk mín eins og svo oft áður með ómótstæðilegar veitingar. Að þessu sinni hafði hún útbúið gúllassúpu að ungverskri fyrirmynd fyrir allan hópinn. Þessi hressing var vel þegin, enda munaður að fá svo góðan viðurgjörning eftir langa dagleið. Segir nú ekki meira af ferðum okkar, nema hvað Birkir og Rósmundur óku til síns heima seinna um kvöldið og við hin gengum til náða í fyllingu tímans og yfirgáfu svo Snæfjallaströnd að morgni.

Fríða og Rósmundur gæða sér á gúllassúpu Bjarkar að hlaupi loknu. Einkar vel þegin hressing!

Björk – og kvöldhiminn á Snæfjallaströnd um miðnætti á laugardagskvöldi.

Þakkir
Ég get ekki annað en lokið þessum pistli með þökkum til allra þeirra sem gerðu þetta ævintýri mögulegt og miklu skemmtilegra en það hefði annars orðið. Í þeim hópi eru auðvitað þessir 5 frábæru hlaupafélagar, Þórður á Laugalandi sem lánaði mér gervihnattasíma öryggisins vegna, Friðrik og Sigurrós í Grunnavík sem sáu okkur fyrir frábærum miðdegisverði, Lydía og Kristján á Dynjanda sem hresstu okkur virkilega vel við fyrir síðasta og erfiðasta spölinn, hinir og þessir sem gaukuðu að mér góðum ráðum og fróðleik um leiðina, og síðast en ekki síst Björk sem hefur stutt mig og hvatt í sérvisku minni árum og áratugum saman, auk þess að sinna okkur öllum þennan dag með þeim ágætum sem raun bar vitni. Svo er heldur ekki hægt annað en þakka forsjóninni, hver sem hún annars er, fyrir að þetta skyldi allt saman ganga áfallalaust fyrir sig. Það er hvorki sjálfsagt að hafa heilsu til að stunda svona áhugamál, né að komast heill frá því.

Sunnudagsmorgunn á Snæfjallaströnd. Snæfjallahringurinn að baki og allt tilbúið til brottfarar. F.v.: Fríða, Sævar, Bryndís og Björk.