• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • október 2012
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Svarthvítir Íslendingar

Mér leiðist umræðuhefð Íslendinga. Held ég viti hvað þurfi til að breyta henni, en þær aðgerðir taka mörg ár. Ég býst sem sagt ekki við að geta breytt hefðinni með þessu eina bloggi. Skrifa það nú samt!

Það sem mér finnst einkenna umræðuhefðina er það almenna viðhorf að á hverju máli séu aðeins tvær hliðar. Komi upp hugmynd, hljóti hún annað hvort að vera góð eða slæm. Sama gildi um einstaklinga, fyrirtæki, stjórnmálaflokka – og bara hvað sem er. Kannski er þetta ekki séríslenskt fyrirbæri. Mig minnir t.d. að Georg Tvöfaltvaff Bush hafi einhvern tímann sagt að þeir sem ekki væru vinir hans, væru óvinir hans. Það er nokkurn veginn sama viðhorf og ég er að reyna að lýsa.

Í stuttu máli finnst mér umræðan yfirleitt fela í sér rifrildi um það hvort umræðuefnið sé hvítt eða svart. Slík umræða er bæði leiðinleg og gagnslaus. Þegar málin eru rædd er maður fljótlega krafinn svara um það hvort maður sé t.d. með eða á móti

  • ríkisstjórninni,
  • virkjunum,
  • lúpínu,
  • sauðkindum,
  • lausagöngu búfjár,
  • Huang Nubo,
  • LÍÚ,
  • o.s.frv.

En tilfellið er að öll þessi málefni hafa fleiri en tvær hliðar. Ekkert þeirra er svarthvítt. Kannski eru Íslendingar bara sjálfir svarthvítir.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að umræðuhefð samtímans ætti rætur í umræðuhefð Sturlungaaldar, þegar menn voru klofnir í herðar niður ef þeir höfðu rangar skoðanir. Sturlungar nenntu engu kjaftæði. Og enn í dag eru eðlilegar rökræður kallaðar kjaftæði af þeim sem sjá heiminn í svarthvítu. Það er bara komið úr tísku að höggva menn út af því. Í staðinn eru þeir kallaðir hálfvitar í Fésbókarfærslum og í athugasemdakerfum fréttamiðla.

Já, mér leiðist sem sagt þessi svarthvíta umræðuhefð Íslendinga. Reyndar skiptir minnstu máli þótt mér leiðist hún. Verra er að hún stendur okkur fyrir þrifum og stendur í vegi fyrir eðlilegri og nauðsynlegri lýðræðisþróun. Eina leiðin til að breyta umræðuhefðinni til betri vegar, er að kenna börnum að sjá hlutina frá mismunandi hliðum og gefa þeim tækifæri til að tjá sig um þessi ólíku sjónarhorn. Þetta höfum við vanrækt, ekki bara skólakerfið heldur líka við sem erum feður og mæður og afar og ömmur.

Við þurfum að taka okkur á!