• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • nóvember 2012
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  252627282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Fjallvegahlaupin 2013

Nú er fjallvegahlaupatíð ársins löngu liðin og tímabært að huga að næsta ári. Samtals eru 29 hlaup að baki og 21 eftir miðað við upphaflegu áætlunina um 50 hlaup á 10 árum. Þetta er allt nokkurn veginn á pari, vantar reyndar eitt hlaup upp á töluna 30, sem reiknast vera hæfilegur skammtur á þessum sex sumrum sem liðin eru frá fimmtugsafmælinu mínu.

Horft um öxl
Sumarið 2012 var endasleppt í lífi mínu sem hlaupara. Aulaðist til að togna seint í maí og er ekki orðinn jafngóður enn. Fjallvegahlaupin sluppu þó fyrir horn. Fyrst hljóp ég um Ólafsskarð ótognaður í góðu veðri með glæsilegum hópi fólks. Síðan var það Kerlingarskarð, nýtognaður í roki og rigningu, sem var bætt upp með góðum móttökum og súpu í Grundarfirði. Loks var það Snjáfjallahringurinn í lok júlí, með þremur fjallvegum, góðum veitingum í Grunnavík, óvæntu kakói í Dynjanda og óskaplegu grjóti á Dalsheiði, í góðu veðri og í góðum félagsskap. Um þetta allt er ég búinn að skrifa hverja langlokuna á fætur annarri.

Sumarið 2013
En snúum okkur þá að fjallvegahlaupaskránni 2013, sem er reyndar löngu tilbúin í stórum dráttum og komin inn á fjallvegahlaupasíðuna. Læt líka fljóta með einhver önnur hlaupaáform, þótt þau teljist ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu.

1. Selvogsgata, frá Hafnarfirði í Selvog, þriðjudag 21. maí
Þetta ferðalag verður ekki alls ósvipað ferðinni um Ólafsskarð á liðnu vori. Ég reikna með að leggja af stað frá Reykjanesbrautinni kl. 15:00 og vera kominn í Selvog um 4 klst. síðar. Held að þetta sé 31 km, en auðvelt er að stytta leiðina með því að keyra upp í Kaldársel og hlaupa þaðan.

2. Þrístrendingur, laugardag 22. júní
Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í fjórða sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég allar farið áður. En þetta er upplagt æfinga- og skemmtihlaup í góðum félagsskap. Ferðasöguna frá liðnu sumri er að finna á vísum stað á bloggsíðunni minni.

3. Hamingjuhlaupið, laugardag  29. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 5. sinn, en þar er ekki keppt við tímann heldur er keppst við að auka hamingju þátttakenda, svo og þeirra sem bíða eftir að þeir skeri fyrstu sneiðina af tertunum á hinu heimsfræga hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga á Hólmavík. Hlaupaleiðin verður sú sama og í fyrra, þ.e. frá Árnesi í Trékyllisvík til Hólmavíkur um Naustvíkurskörð og Trékyllisheiði, sem eru svo sem 53 km. Hingað til hefur verið farin ný leið á hverju ári, en þessi tiltekna leið var eiginlega aldrei kláruð síðasta sumar. Þá var nefnilega enginn í standi til að hlaupa hana alla. Hlaupið hefst að öllum líkindum við Handverkshúsið Kört í Trékyllisvík um hádegisbil og lýkur á hátíðarsvæðinu á Hólmavík 7-8 klst. síðar. Auðvelt er að skipta leiðinni í áfanga og slást í hópinn þar sem best hentar, þ.e.a.s. ef fólk vill stytta þetta eitthvað. Gefin verður út nákvæm tímatafla með góðum fyrirvara, rétt eins og þeir þekkja sem ferðast stundum með strætó. Þarna eru sem sagt allar tímasetningar ákveðnar fyrirfram, þannig að tertuskurðurinn hefjist á réttum tíma. Frásögn af Hamingjuhlaupinu á liðnu sumri er að finna í bloggi frá 7. júlí sl.

4. Laugavegurinn, laugardag 13. júlí
Laugavegurinn varð útundan hjá mér í sumar sem leið vegna fyrrnefndra meiðsla. Þetta finnst mér alveg nauðsynlegt að bæta upp á næsta ári til að fara sem næst því að hlaupa hann á 5 ára fresti. Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaáætluninni, ekki frekar en Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið. En ég tel hann nú samt með í þessum pósti, svona til minnis. Opnað verður fyrir skráningar á www.marathon.is í janúar.

5. Þórdalsheiði, mánudag 22. júlí
Þórdalsheiðin verður fyrsta fjallvegahlaupið í fjögurra hlaupa seríu fyrir austan. Dagsetningin er valin með hliðsjón af niðjamóti í tengdafjölskyldunni minni, sem haldið verður á Héraði dagana þarna á undan. Þetta er kannski helst til stuttu eftir Laugaveginn, en það er þó alla vega skárra að gera þetta eftir helgina en fyrir helgina. Og svo þarf ég ekkert að flýta mér. Þórdalsheiði er jeppafær vegur frá Jóku í Skriðdal að Stuðlum í Reyðarfirði, alls um 18 km.

6. Stuðlaheiði, mánudag 22. júlí
Stuðlaheiði liggur frá Stuðlum í Reyðarfirði að Dölum í Fáskrúðsfirði. Ég veit svo sem ekkert um þessa leið, nema að hún á að vera u.þ.b. 14 km. Ég ætla að taka hana sama daginn og Þórdalsheiðina, en væntanlega með góðri hvíld á milli.

7. Reindalsheiði, þriðjudag 23. júlí
Reindalsheiði er u.þ.b. 14 km leið frá Tungu í Fáskrúðsfirði að Gilsá í Breiðdal. Hún verður þriðji fjallvegurinn í þessari hlauparöð.

8. Stafsheiði, þriðjudag 23. júlí
Stafsheiði liggur frá Gilsá í Breiðdal að Jóku í Skriðdal. Þetta munu vera einir 28 km, og eins og sjá má endar leiðin þar sem Þórdalsheiðin byrjaði. Þar með verður búið að loka hringnum í þessu Austurlandsævintýri. Það væri auðvitað freistandi að gera þetta allt á einum degi, en mér sýnist að hringurinn allur sé 74 km. Er ekki allt best í hófi?

Eruði með einhverjar góðar ábendingar?
Þetta er nú allt og sumt í bili. Eins og ég nefndi í upphafi er ég búinn með 29 heiðar – og hér bætast 5 við. Mér finnst alveg nauðsynlegt að taka eina til viðbótar til að vera á pari í lok næsta árs. Þá verða liðin 7 sumur af verkefninu, þannig að þá ætti ég helst að vera  búinn með 7×5=35 heiðar. Kannski tek ég bara einhverja aukaheiði sem liggur vel við höggi, t.d. nálægt heimahögunum á Ströndum, svo sem Skálmardalsheiði eða Haukadalsskarð, eða kannski bæði Siglufjarðarskarð og Reykjaheiði fyrir norðan, já eða bara eitthvað allt annað. Þið megið alveg koma með tillögur, hvort sem þær eru á listanum mínum eður ei. Þigg líka allar aðrar athugasemdir, ábendingar og tillögur með þökkum.

Allir velkomnir á eigin ábyrgð
Vonast til að sjá sem flest ykkar á þessum hlaupum. Samkvæmt hárnákvæmri Excelskrá sem ég held yfir alla hlaupafélaga frá upphafi hafa samtals 40 manns fylgt mér til þessa í a.m.k. einu fjallvegahlaupi. Félagsskapurinn hefur alltaf verið einstaklega góður, enda er ég ekki í vafa um að svona hlaup kalla það besta fram í hverjum manni. Sumir hafa auðvitað komið oftar með en aðrir eins og sjá má á þeim örlitla bút Excelskjalsins sem birtist á fjallvegahlaupasíðunni.

Lokaorð
Mér finnst þetta skemmtilegt.

Sprett úr spori í grennd við Ólafsskarð. Geitafell framundan.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: