• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2014
    S M F V F F S
    1234567
    891011121314
    15161718192021
    22232425262728
    2930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Fyrsti maraþonsigurinn

Sigur 160Ég bætti nýrri lífsreynslu í safnið mitt á laugardaginn þegar ég vann Mývatnsmaraþonið. Tíminn var reyndar sá lakasti í rúm 6 ár, en sigur er alltaf sigur. Og þó að tíminn væri lakari en ég hafði reiknað með, var hann í góðu samræmi við undirbúning og aðstæður.

Undirbúningur aðeins til heimilisnota
Það sem af er árinu hefur flest gengið mér í hag í hlaupunum. Fyrir Mývatnsmaraþonið var ég t.d. búinn að taka þátt í 6 keppnishlaupum á árinu og setja ný „götuhlaupa-PB“ í 5 km, 7 km, 10 km og hálfmaraþoni. Einhverjum gæti því hafa dottið í hug að „maraþon-PBið“ lægi í loftinu. En svoleiðis virkar það ekki, því að þar þarf allt öðruvísi undirbúning. Ég hef svo sem æft sæmilega frá því um áramót, en lengsta vikan var samt ekki nema um 70 km og meðaltal síðustu 6 vikna um 55 km. Þetta dugar alveg til heimilisnota en ekki sem undirbúningur fyrir maraþon. Reyndar er vegalengdin ekki allt, en æfingafjöldinn stóðst heldur ekki mál. Um miðjan maí var mér orðið ljóst að ég hefði svo sem ekkert í maraþon að gera fyrr en síðar á árinu, en félagslegar ástæður réðu mestu um það að ég stefndi eftir sem áður ótrauður á Mývatnsmaraþonið.

Að vera hluti af hópi
Nú er eðlilegt að spurt sé hvaða félagslegu ástæður geti fengið mann til að hlaupa maraþon. Svarið við því er einfalt: Ég er hluti af frábærum hlaupahópi, Flandra í Borgarfirði, og þar hafði verið tekin ákvörðun um það fyrir margt löngu að fjölmenna í þetta hlaup. Ég ætlaði ekkert að missa af því og fannst ekki alveg nógu stórmannlegt að stytta vegalengdina frá því sem ég hafði áður gefið upp. Svo fannst mér líka ágætt að „hlaupa úr mér hrollinn“ fyrir betra maraþon síðar á árinu. Ég vissi að fyrri helmingurinn yrði auðveldur og að þetta myndi allt snúast um að þrauka í gegnum þann síðari án þess að bíða tjón á sálu eða líkama. Þetta gat sem best þýtt lokatíma upp á 3:22 klst. eða þar um bil. Maður hebbði nú verið meira en sáttur við það fyrir nokkrum árum.

Við Gunnar Viðar tilbúnir að hlaupa í kringum Mývatn. Nóg af geli í beltunum og flugnanetin með í för. (Ljósm. Kristín Ól.).

Við Gunnar Viðar tilbúnir að hlaupa í kringum Mývatn. Nóg af geli í beltunum og flugnanetin með í för. (Ljósm. Kristín Ól.).

Veðurspáin
Kvöldið fyrir hlaup voru u.þ.b. 20 Flandrafélagar mættir norður á Skútustaði þar sem flestir úr hópnum gistu nóttina fyrir og eftir hlaup. Veðurútlitið var tvísýnt, en þó engar líkur á slyddu eins og þegar ég hljóp í kringum Mývatn í fyrsta sinn vorið 2007. Þvert á móti var útlit fyrir hægan vind, sólskin og hátt í 20 stiga hita. Góðviðri er gott, en samt er allt best í hófi, alla vega þegar hlauparar eiga í hlut. Í þokkabót var búist við miklu flugnageri. Hópurinn var vel birgur af flugnanetum, en það var samt ekki besta tilhugsun í heimi að hlaupa með svoleiðis á hausnum í kringum Mývatn í sólskini og 20 stiga hita. En áhyggjur hafa aldrei leyst neinn vanda. Því var tilgangslaust að kvíða morgundeginum.

Lagt af stað á 4:40
Maraþonhlaupið var ræst fyrir neðan jarðböðin kl. 12 á hádegi á laugardaginn. Veðrið var svipað og spáð var, nema örlítið meiri gola. Það var góðs viti, því að ef golan héldist myndu flugunar síður verða til trafala. Keppendahópurinn var í þynnra lagi, ekki nema 8 manns, nánar tiltekið ég sjálfur, Gunnar félagi minn úr Flandra, Þórir Sigurhansson úr Súðavík, þrír erlendir karlar og tvær íslenskar konur. Áætlun okkar Gunnars var einföld, nefnilega að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:40 mín stykkið og sjá svo til. Sá hraði samsvarar lokatíma upp á 3:17 klst. Ég þóttist viss um að geta auðveldlega haldið þessum hraða fyrri helming hlaupsins, en hjá Gunnari var óvissan meiri. Hann er sterkari en ég í styttri vegalengdum en ekki með eins marga uppsafnaða kílómetra í löppunum. Þetta var þriðja maraþonið hans en fjórtanda mitt.

Lagt af stað. (Myndin er tekin að láni af 641.is).

Lagt af stað. (Myndin er tekin að láni af 641.is).

Endurtekið efni
Fyrstu kílómetrarnir voru nánast endurtekning á Mývatnsmaraþoninu í fyrra, þar sem við Gunnar vorum líka báðir á meðal keppenda. Við fylgdumst að en Frakkinn Laurent Conseil náði fljótlega nokkur hundruð metra forskoti, rétt eins og Sigurjón Sigurbjörnsson gerði í fyrra. Millitíminn eftir 5 km var 23:45 mín. Enn bólaði ekkert á flugum, enda frekar von á þeim vestan við vatnið. Golan gerði líka sitt gagn, án þess þó að tefja fyrir, 2 m/sek í fangið.

5-15 km
Í fyrra skildu leiðir okkar Gunnars á sjöunda kílómetranum, en nú var allt annað upp á teningnum. Við bættum heldur í ef eitthvað var og fórum í gegnum 10 km á 46:58 mín sem samsvarar 4:42 mín/km. Við 12 km markið tókum við eftir því að Laurent vinur okkar var farinn að hægja á sér. Þá datt mér í hug að ég myndi kannski bara vinna hlaupið, en svoleiðis hugsanir eru alltaf ótímabærar við svona aðstæður. Margt getur gerst í löngu hlaupi, ekki síst þegar undirbúningur og aðstæður eru ekki alveg eftir bókinni.

Millitíminn á 15 km var 1:10:25 klst., sem var 15 sek. hægara en í fyrra. Þá voru aðstæður allar aðrar, vissulega mótvindur, en hæfilega svalt og engar flugur. Reyndar höfðum við lítið orðið varir við þær þegar þarna var komið sögu, en framundan voru Skútustaðir þar sem vænta mátti að flugurnar færu að sækja í sig veðrið. Við gerðum flugnanetin klár og létum sem ekkert væri.

Einn  á ferð
Eftir rúmlega 17 km tók ég eftir því að Gunnar var ekki lengur við hliðina á mér heldur nokkrum skrefum á eftir. Fyrst hélt ég að þetta væri tímabundin breyting á stöðu mála, en næst þegar ég gáði hafði bilið breikkað og Gunnar varla lengur í kallfæri. Flugnanetið var í viðbragðsstöðu í hendinni og Laurent rúmum 100 metrum á undan mér. Ég náði honum við drykkjarstöðina við 20 km markið og var allt í einu orðinn aleinn í þessu hlaupi. Millitíminn á 20 km var 1:33:56 klst, þannig að annar kílómetratugurinn hafði tekið nákvæmlega jafnlangan tíma og sá fyrsti.

Fyrr en varði var hlaupið hálfnað. Þar sýndi klukkan 1:39:14 klst., sem var 45 sek meira en í hlaupinu í fyrra. Ég var aðeins farinn að finna til þreytu, eins og ég hafði reyndar búist við. Þarna mat ég stöðuna þannig að lokatími upp á 3:24 klst. væri raunhæft markmið. Flest benti til að framundan væri langur og frekar einmanalegur kafli.

Frá jarðböðunum eru u.þ.b. 22,4 km að vegamótunum við Laxá. Þar er beygt þvert úr leið til norðausturs og þar vænti ég þess að vindurinn hætti að standa í fangið á mér. Að vísu var þetta bara smágola, en mér var samt farin að finnast hún aðeins til trafala. Það merkilega gerðist hins vegar að vindurinn virtist breyta um stefnu um svipað leyti og ég. Hann hélt áfram að reyna að standa undir nafni sem mótvindur og gott ef hann hafði ekki heldur bætt sig í því ef eitthvað var. Seinna sá ég á veðurkortum að einmitt þetta hafði gerst. Vindáttin var orðin meira norðlæg en vestlæg og vindstyrkurinn kominn í 4 m/sek. Hitinn var áfram svipaður, eitthvað um 18°C skv. mælum Veðurstofunnar.

Á Laxárbrúnni leit ég um öxl og svipaðist um eftir mannaferðum. Gunnar var þarna, líklega um 500 m á eftir mér og lengra í fjarska grillti í Frakkann. Engir aðrir virtust þarna á ferli, ef frá eru taldar nokkrar flugur sem sýndu mér þó sem betur fer engan sérstakan áhuga.

Erfiður seinni hluti framundan
Mývatn kortMér fundust næstu kílómetrar frekar erfiðir. Þarna er leiðin örlítið á fótinn, sérstaklega ef maður er tekinn að lýjast, og svo fann ég vel fyrir vindinum. Flugnanetið var aftur komið á sinn stað í drykkjarbeltinu og engin sérstök verkefni framundan nema að bíða eftir næstu drykkjarstöð. Þær voru á 5 km fresti. Ég ákvað að hætta að hugsa um lokatímann, enda vissi ég löngu fyrir hlaup að hann yrði ekki sambærilegur við það sem ég hefði best gert. Í staðinn hugsaði ég sem svo að ég væri að hlaupa þetta hlaup til sigurs, fyllilega meðvitaður um að ég ætti ekkert slíkt víst þótt forskotið væri orðið töluvert. Reyndar mat ég stöðuna svo að ég myndi vinna hlaupið þó að ég hlypi kílómetrana sem eftir væru ekki nema á 5 mín stykkið, sem er bara svipaður hraði og á venjulegri Flandraæfingu í Borgarnesi. Það átti ekki að vera neitt sérstaklega erfitt. Hins vegar hafði ég byrjað að finna fyrir krampa í vinstri kálfanum við 18 km markið eða þar um bil. Þetta angraði mig svo sem ekkert, enda var ég minnugur þess hvernig mér tókst að hlaupa með krampa í fótunum síðustu 30 kílómetrana af Laugaveginum 2007. Krampar voru líka eitthvað sem ég bjóst alltaf við að þurfa að glíma við í þessu hlaupi, einfaldlega vegna þess að ég hafði hlaupið allt of lítið síðustu mánuði. Svo hlaut hitinn líka að hafa sitt að segja. Ég hafði ekki tekið neina drykki með mér, heldur bara orkugel. Treysti að vanda á vatnið á drykkjarstöðvunum til að skola gelinu niður með og til að halda vökvajafnvæginu í lagi. Ég tók alls staðar tvö vatnsglös, en þau voru frekar smávaxin, tóku varla meira en 150 ml. af nýtanlegu vatni samanlagt þegar búið var að draga frá það sem hlaut að sullast niður. Sá skammtur á að duga mér á 5 km fresti við venjulegar aðstæður, en þarna var hugsanlega þörf á meiru, auk þess sem líklegt mátti telja að óþarflega mikið af söltum myndi tapast út með svita í hitanum. Sem sagt: Ávísun á krampa.

Millitíminn eftir 25 km var 1:58:07 klst. Þarna var ég kominn í einnar og hálfrar mínútu mínus miðað við hlaupið í fyrra, enda höfðu síðustu 5 km tekið 24:11 mín. Hraðinn var sem sagt á hraðri niðurleið, en mér var alveg sama um það. Það versta var að mér leiddist svolítið. Mér fundust þessir 17 km sem eftir voru ekki ýkja löng leið, en vissi að ég þyrfti að bíta aðeins fastar á jaxlinn en í betur undirbúnum maraþonhlaupum í örlítið minni sumarhita.

Vaxandi þreyta
Áfram pjakkaði ég eftir veginum norðvestan við vatnið og framhjá Vagnbrekku þar sem við Flandrarar höfðum setið veislu árið áður. Mætti bílum af og til, sumir ferðalangarnir veifuðu, aðrir klöppuðu og allt kom það að gagni. Þreytan ágerðist þó smátt og smátt og ég nennti þessu satt best að segja ekki alveg þegar þarna var komið sögu. Stytti mér stundir við að spila einhverja uppörvandi tónlist í huganum, því að þar á ég minn eiginn „play-lista“, margreyndan við aðstæður sem þessar. Svo ákvað ég líka að hlakka til að vera búinn með Grímsstaðabrekkuna. Þá hlyti allt að verða léttara og mótvindurinn breytast í meðvind.

Millitíminn eftir 30 km var 2:22:55 klst. Síðustu 5 km höfðu tekið 24:48 mín og síðustu 10 km 48:59 mín. Þar með var ég orðinn næstum 3 mínútum hægari en í fyrra. Þessar tölur var ég þó ekkert með á hreinu á þessum stað og þessari stundu, enda löngu hættur að hugsa mikið um slíkt. Leit bara á klukkuna annað slagið og sá að hver kílómetri var farinn að taka u.þ.b. 5 mín, rétt eins og ég hafði svo sem búist við. Og enn voru nokkrir kílómetrar í Grímsstaðabrekkuna. Þar kom þó að hún blasti við og ekkert annað að gera en að skokka upp hana. Þetta er nú svo sem ekkert fjall, hæðarmunurinn eitthvað um 30 m á tæplega 1 km kafla. Og ég veit það af reynslu að það er ekkert endilega erfiðara að hlaupa upp brekkur en á jafnsléttu. Það er bara seinlegra.

Efst í Grímsstaðabrekkunni
Það var gott að fá sér vatnssopa á drykkjarstöðinni efst í Grímsstaðabrekkunni. Framundan var kafli sem ég hafði lengi beðið eftir, enda lækkar vegurinn þarna aftur um 25 m á 700 m kafla. Mér fannst ég aftur léttur á fæti. Neðst í brekkunni kom ég að 35 km markinu og þar sýndi klukkan 2:49:30 klst. Ég var búinn að tapa um 5 mín miðað við hlaupið í fyrra. Þar sem útsýni var gott svipaðist ég um eftir mannaferðum norðan við vatnið en sá enga hreyfingu. Ekkert benti til þess að mér væri veitt eftirför svo orð væri á gerandi.

Nú voru ekki nema rúmir 7 km eftir að hlaupinu. Það þykir ekki löng æfing eftir venjulegan vinnudag. Varla yrði ég svo lemstraður að ég kæmist ekki kílómetrann á 6 mín og þar með þennan spöl sem eftir var á 42 mín. Það gæfi lokatíma upp á 3:31 klst. Ég ákvað að miða við þá tölu og allt umfram það væri bara fínt, sérstaklega ef það slyppi undir 3:30 klst.

Hugsað um sigur
Rétt fyrir norðan þorpið í Reykjahlíð stóðu tveir puttaferðalangar í kantinum. Ég ákvað að bjóða þeim ekki far enda voru þau greinilega að fara í hina áttina. Mig varðaði auðvitað ekkert um þetta fólk og það ekki um mig, en mér þótti engu að síður gott að sjá lífsmark. Auðvitað voru það forréttindi að geta hlaupið í allri þessari náttúrufegurð og þessu fallega veðri, en öll tilbreyting var samt vel þegin. Ég var eiginlega búinn að fá alveg nóg af þessu hlaupi, en tilhugsunin um líklegan sigur gladdi vissulega. Þarna voru ekki nema 4 km eftir. Það er stutt! En þessi síðasti áfangi átti eftir að reynast mér drjúgur.

Ég held að ég hafi ekki einu sinni gáð að millitímanum eftir 40 km, en eftir á að hyggja var hann 3:16:15 mín og síðustu 5 km því á 26:45 mín. Það samsvarar 5:21 mín/km, sem er afskaplega hægt miðað við það sem ég á að venjast. En hverju skipti það, ég var farinn að sjá fyrir endann á þessu. Þarna gátu varla verið meira en 12 mín eftir hvernig sem allt veltist, nema náttúrulega ef ég myndi fá alvöru krampa til viðbótar við þennan sem hafði fylgt mér síðustu 22 km. Hann hafði ég getað trampað úr mér jafnóðum með því að stíga fastar niður í hælinn í einu, tveimur eða þremur næstu skrefum. Það tafði vissulega og var til leiðinda, en þetta var bara hæfileg refsing fyrir ónógan undirbúning og ekkert nema gott um það að segja.

Hingað og ekki lengra – í bili
Við 41 km markið gerðist það sem ég hafði svo sem allt eins búist við. Fæturnir afþökkuðu frekari hlaup. Ég fékk með öðrum orðum svo heiftarlegan krampa í hægra lærið að ég gat hvorki hlaupið, gengið né staðið uppréttur. Þá var bara að vera þolinmóður og njóta útsýnisins um stund. Ég notaði tímann m.a. til að athuga hvort nokkrir hlauparar væru í sjónmáli. Svo reyndist ekki vera ef frá er talinn síðasti keppandinn í hálfmaraþoni sem var í þann mund að leggja í brekkuna upp að jarðböðunum spölkorn fyrir framan mig.

Glaður og þreyttur á síðustu metrunum. (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Glaður og þreyttur á síðustu metrunum. (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Fyrsti sigurinn í höfn
Krampar linast yfirleitt ef maður slakar á svolitla stund, reynir að teygja ofur varlega og ganga spölkorn afturábak. Þetta virkaði vel og eftir að hafa hökt næstu 300 m á gönguhraða gat ég farið að skokka aftur. Nú var bara að komast upp síðustu brekkuna og skila sér í markið. Brekkan var ekki verri en vænta mátti og ég fylltist mikilli og fyrirsjáanlegri gleði þegar upp var komið og markið blasti við. Þangað skilaði ég mér þokkalega léttur á fæti að sögn sjónarvotta, en örþreyttur, á lakasta tímanum mínum í 6 ár, 3:29:47 klst. Þar með var líka fyrsti sigurinn minn í almenningshlaupi í höfn, sem sagt 81. hlaupið, 14. maraþonið og fyrsti sigurinn. Næstu menn komu ekki fyrr en tólf og hálfri mínútu síðar, Gunnar var fjórði á sínum besta tíma, 3:47:33 klst. og Frakkinn frái langt á eftir honum.

Ómissandi samloka Bjarkar
Móttökurnar í markinu voru ekki af verri endanum. Þar var Björk auðvitað fremst í flokki, en hún hafði útbúið kynstrin öll af nesti til að tryggja skikkanlega fæðuinntöku að hlaupi loknu. Ég drakk einhver ósköp af vatni og ávaxtasafa og borðaði óvenju matarmikla langloku með kjúklingi. Reynslan segir mér að það skipti sköpum að borða vel strax eftir maraþonhlaup, helst strax á fyrstu mínútunum og helst bæði kolvetni og prótein. Í þau skipti sem ég hef sleppt þessu eða gleymt hef ég verið miklu lengur að jafna mig en í hin skiptin. Í þessu sambandi minnist ég sérstaklega Parísarmaraþonsins í fyrra, þar sem ég sat undir Sigurboganum eftir hlaupið og naut lífsins án þess að borða nokkuð af viti. Stigarnir í Louvre-safninu voru nánast ófærir daginn eftir.

Sitthvað fleira
Hér gæti ég skrifað langt mál um allt það sem gerðist þennan dag eftir að hlaupið var á enda, þ.á.m. um fagnaðarstund í jarðböðunum með hinum Flöndrururum, gestrisni Mývetninga og vel útlátinn grillmat sem mér gekk frekar illa að borða, verðlaunaafhendingu og tilfinninguna að taka bæði við bikar og blómvendi, Flandragleðina á Skútustöðum um kvöldið og sitthvað fleira. En einhvers verður maður að setja punkt. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á fjallgöngu á Vindbelgjarfjall daginn eftir, þar sem eftirköst hlaupsins öngruðu mig ekki meira en svo að ég gat hlaupið niður af fjallinu eins og ekkert væri. Þar held ég að kjúklingasamloka Bjarkar hafi skipt sköpum. Ég get heldur ekki látið hjá líða að skrifa svolitla samantekt um lærdóminn sem ég get dregið af þessu hlaupi.

Lærdómurinn
Þetta var vafalítið eitt af þremur erfiðustu maraþonhlaupunum mínum frá upphafi. Aðeins fyrsta maraþonið 1996 og Mývatnsmaraþonið 2007 voru hugsanlega erfiðari. Fyrsta maraþonið var erfitt vegna þess að það var fyrsta maraþonið, sem var í þokkabót hlaupið fyrir daga orkugels og markvissra langhlaupaæfinga. Og Mývatnsmaraþonið 2007 var erfitt vegna reynsluleysis og norðanhretsins sem blés á móti mér síðustu kílómetrana. Það átti líka bara að vera æfingahlaup.

Ástæður þess að þetta var svona erfitt núna voru að mínu mati einkum þrjár. Tvær þeirra vissi ég fyrir, en sú þriðja bættist við á staðnum.

Fyrsta ástæðan var skortur á æfingum, en eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils voru æfingarnar mínar frá áramótum og fram í maí miðaðar við 10 km hlaup og hálfmaraþon en ekki maraþon. Auk heldur voru æfingarnar í maí allt of fáar vegna annríkis í vinnu. Í fyrra var þessu allt öðruvísi varið. Þá æfði ég mjög markvisst fyrir Parísarmaraþonið og var í besta maraþonstandi lífs míns í lok marsmánaðar. Því formi var auðvelt að viðhalda fram í byrjun júní.

Ástæða númer tvö, sem ég veit þó ekki hvort skipti verulegu máli, var sú að ég gaf blóð 11 dögum fyrir hlaupið. Blóðgjöf svo skömmu fyrir maraþonhlaup er ekki „alveg eftir bókinni“, en kannski skipti það samt engu máli. Mig brestur þekkingu til að hafa mjög ákveðna skoðun á því. Alla vega valdi ég þetta sjálfur, enda taldi ég að blóðgjöfin væri mikilvægari í eilífðinni en nokkrar sekúndur til eða frá í þessu tiltekna hlaupi.

Þriðja ástæðan var hitinn og kannski vindurinn, sem hafði óvenjugott lag á því að blása alltaf í fangið á mér. Hitinn var á bilinu 18-20 stig, sem eru svo sem engin ósköp. Samt las ég einhvers staðar að geta manna í löngum hlaupum fari nokkuð hratt minnkandi eftir að hitinn fer upp fyrir 14°C. Sjálfum finnst mér frekar þægilegt að hlaupa í hlýju veðri, en æfing er eitt og keppni í maraþonhlaupi annað, jafnvel þótt ekki sé keppt í hæsta gæðaflokki eins og á Ólympíuleikum. Ég svitnaði óvenju mikið í fyrri hluta hlaupsins, en eftir á að hyggja var ég nánast hættur að svitna þegar hlaupið var hálfnað eða þar um bil. Mér er nær að halda að vökvainntakan á leiðinni hafi alls ekki verið nægjanleg, þrátt fyrir að ég sullaði í mig tveimur vatnsglösum á öllum drykkjarstöðvum. Glösin voru auk heldur í minna lagi. Niðurstaðan er sú, þangað til annað verður ákveðið, að það borgi sig að taka með sér vatn í hlaup í svona „miklum hita“. Þannig ætti að vera auðveldara að halda vökvajafnvæginu í lagi. Reyndar duga vatn og steinefnalaus orkugel líklega ekki við þessar aðstæður, því að með svitanum tapast sölt, því meiri sem maður svitnar meira. Ef steinefnabúskapurinn fer úr böndunum er eins líklegt að líkaminn nái ekki að taka upp það vatn sem í hann er hellt. Afleiðingin eru krampar, sem gera auk heldur því fyrr og því meira vart við sig sem undirbúningurinn er fátæklegri.

Lokaorð
Mývatnsmaraþonið 2014 er að baki og það sama gildir senn um þennan pistil. Eftir stendur gleðin yfir því að geta sinnt þessu áhugamáli og þakklæti til allra þeirra sem gera mér það mögulegt. Þar á Björk langstærstan hlut að máli. Flandri á líka skilinn stóran skerf af þakkarorðunum, svo og þeir sem standa að Mývatnsmaraþoninu og leggja á sig alla þá vinnu og sinna öllum þeim smáatriðum sem þarf til að gera þennan árlega viðburð af veruleika.

Sáttur með sigurlaunin. Gitta tók myndina, nýbúin að hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon.

Sáttur með sigurlaunin. Gitta tók myndina, nýbúin að hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon.

2 svör

  1. […] á árunum fyrir 1980. Þolþjálfun hefur þó svo sem ekki setið alveg á hakanum. Þar var Mývatnsmaraþonið 7. júní sl. t.d. mikilvægt innlegg og á þessum reikningi má sömuleiðis finna eitt og hálft […]

  2. […] Mývatnsmaraþonið var 7. keppnishlaupið þetta árið. Það gekk bara vel framan af, en ég vissi svo sem að mig vantaði kílómetra í lappirnar til að geta verið nálægt mínu besta. Ætlaði það heldur ekki neitt. Bjóst bara við svipuðu og árið áður, þ.e. lokatíma í kringum 3:20 klst. Allt gekk skv. áætlun fyrri hluta hlaupsins, Gunnar Viðar fylgdi mér fyrstu 17 km og eftir 20 km fór ég fram úr frönskum hlaupara sem hafði leitt hlaupið fram að því. Sá aldrei til mannaferða eftir þetta, hitinn var kominn í 18°C og mýflugurnar með hressasta móti, án þess að þær öngruðu mig svo sem neitt að ráði. Ég hljóp síðustu kílómetrana á viljanum einum og kom dauðþreyttur í mark á lakasta tímanum í 6 ár, 3:29:47 klst. Það var hins vegar mikil huggun harmi gegn að ég vann hlaupið næsta örugglega þrátt fyrir allt. Næstu menn skiluðu sér tólf og hálfri mínútu síðar. Þar með var minn fyrsti sigur í almenningshlaupi í höfn. […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: