Í morgun lagði ég upp í 35. fjallvegahlaupið. Ferðinni var heitið yfir Leggjabrjót, um 23 km leið frá Botnsskála að Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Ég hef stundum lent í leiðindaveðri í hinum 34 fjallvegahlaupunum, en nú þurfti ég í fyrsta sinn að játa mig sigraðan. Sneri sem sagt við eftir 8 km barning á móti suðaustan hvassviðri, rigningu og þoku. Það var í sjálfu sér ekki erfið ákvörðun. Það erfiðasta var að vita ekki með vissu hvernig samferðafólkinu myndi reiða af. Þetta fór allt vel og fól í sér holla áminningu um það hversu lítið má út af bera á svona ferðalögum.
Veðurspáin
Veðurspáin fyrir daginn var svona í meðallagi, útlit fyrir suðaustan stinningskalda og svolitla rigningu annað slagið, í það minnsta fram eftir morgni. Reyndin varð önnur, því að vindurinn var miklu hvassari en ætla mátti af spánni og úrkoman meiri allan tímann. Hitastigið var hins vegar það sama og vænta mátti, um 11°C á láglendi og sjálfsagt um 6°C uppi á Leggjabrjót. Sú tala ber engan vott um mikinn kulda, nema í roki og rigningu.
Botnsskáli árdegis
Um 10-leytið í morgun hafði allstór hópur hlaupara safnast saman við Botnsskála innst í Hvalfirði. Fáum leist vel á veðrið, því að strax þarna á hlaðinu var ljóst að vindur og úrkoma yrðu til trafala. Samt var lagt af stað í góðri trú, enda glitti í sólina í gegnum skýin annað slagið.
Efasemdir á fyrstu metrunum
Eftir um 2,5 km var komið að bílastæðinu við Stóra-Botn. Þessi spölur er svo sem auðveldur yfirferðar, en það fór ekki fram hjá mér að framhaldið gæti orðið erfitt á móti vindinum. Svo var ég frekar sparlega klæddur og auðvitað orðinn gegnblautur fyrr en varði. Strax á þessum fyrstu metrum var ég mjög tekinn að efast um að það væri góð hugmynd að stefna öllu þessu fólki til fjalla, enda hópurinn óvenju fjölskrúðugur með tilliti til hraða og reynslu. Þessi breytileiki endurspeglaðist í því að á skammri stundu teygðist mikið úr hópnum. Það þýddi um leið að erfitt kynni að reynast að smala liðinu saman ef á þyrfti að halda.
… 26, 27, 28
Ég vandaði mig við að telja fólk í gegnum hliðið við Stóra-Botn, rétt eins og kindurnar voru taldar inn og út úr fjárhúsunum heima í gamla daga. Við svona aðstæður er nauðsynlegt að hafa örugga tölu á liðinu, því að hvergi var til nein nothæf skrá yfir þátttakendur. Í hópnum reyndust vera 28 manns, eða nánast tvöfalt fleiri en í nokkru fjallvegahlaupi til þessa.
Hálf samloka og heil ákvörðun
Neðst í túninu í Stóra-Botni mætti ég ofurhlauparanum Sigurði Kiernan. Hann var að koma ofan af Leggjabrjóti ásamt þremur öðrum úr landsliði ofurhlaupara. Þau höfðu upphaflega ætlað að gera úr þessu „samloku“, þ.e.a.s. að hlaupa fyrst frá Þingvöllum í Hvalfjörð og slást svo í för með okkur á bakaleiðinni. Sigurður sagði mér að veðrið uppi á Leggjabrjóti væri afleitt, mikið hvassviðri og úrkoma og svartaþoka á köflum. Þau hefðu engan veginn getað ratað þarna yfir nema með aðstoð GPS-tækja. Eftir að ég kvaddi Sigurð var ég ákveðinn í að snúa hópnum við. Vandinn var bara sá að ég var orðinn síðastur og því varla um annað að ræða en að reyna að hlaupa hina uppi. Eflaust voru margir með síma, en ólíklegt að hringingar heyrðust í veðurhamnum.
Sammála ofurhlauparar
Skömmu síðar mætti ég hinum ofurhlaupurunum, fyrst Guðmundi Smára og síðan Elísabetu og Hlyn. Þau tóku öll í sama streng, þetta væri nógu slæmt undan veðrinu og alls ekki fyrir aðra en þaulvant fjallafólk.
Skynsamt fólk undir vörðu og skipulegt undanhald
Mér gekk misvel að elta liðið uppi, en það hafðist smátt og smátt. Lagði mikla áherslu á að vera alltaf með talninguna á hreinu. Eftir 7 km hlaup náði ég 6 manna hópi sem hafði komið sér í var undir stórri vörðu í u.þ.b. 400 m hæð. Þar var ákveðið að snúa við og smala öllum til baka, en ég hélt áfram enn um sinn til að reyna að hafa upp á þeim sem enn vantaði í töluna. Það voru þeir sex alhörðustu. Eftir áttunda kílómetrann og 100 m hækkun til viðbótar sá ég enn ekkert til mannaferða og reyndar varla til neins annars heldur. Sjálfur var ég orðinn verulega kaldur og stirður enda engan veginn búinn út í þetta veður. Miðaði auk heldur lítið áfram á móti vindinum. Ákvað því að snúa við og treysta því að allt færi vel hjá hinum. Bakaleiðin var léttari og fljótfarnari undan brekkunni, en kuldinn sótti að.
Þeir alhraustustu
Svona breytingar á ferðaskipulagi geta skapað alls konar vandamál í fólksflutningum, sem voru þó svo sem búnir að vera nógu mikið púsluspil. En allt gekk þetta einhvern veginn og innan stundar voru flestir eða allir lagðir af stað akandi í misblautum fötum og misblautum bílum í ýmsar áttir, allt eftir því hvaða verkefni þurfti að leysa til að loka málinu. Sjálfur ók ég sem leið lá til Þingvalla með afar þéttsetinn bíl. Þar beið mín bílaleigubíll sem ætlunin hafði verið að nota til að flytja hluta af hópnum til baka. Vonin var auðvitað sú að þegar þangað kæmi myndum við fá einhverjar fréttir af sexmenningunum hraustu. Það gekk eftir, því að þeir skeiðuðu í hlað við þjónustumiðstöðina hver af öðrum rétt eftir að við renndum í hlað, búnir að vera rétt um 3 klst. á leiðinni, sem var bara svipaður tími og ég hafði reiknað með að ferðin tæki í þokkalegu veðri.
Vel þegin fataskiptaskemma
Nú kom sér vel að Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, hafði góðfúslega leyft mér að hafa afnot af stórri skemmu sem þjóðgarðurinn notar undir tól sín og tæki. Þarna var einkar hentugt að hafa fataskipti. Við sem komum akandi vorum flest enn í blautum fötum því að þau þurru biðu okkar í bílaleigubílnum. Og sexmenningarnir voru auðvitað með þónokkur kíló af vatni í farteskinu.
Sexmenningasaga
Það var eðlilega töluverður léttir að hitta sexmenningana. Þeim hafði sóst ferðin þokkalega þrátt fyrir mikinn mótvind og vætu. Þrír höfðu ratað rétta leið allan tímann, enda tilbúnir með GPS-punkta í einu hlaupaúrinu. Hinir þrír villtust hins vegar af leið, en áttuðu sig á að ekki var allt með felldu þegar hvassviðrið var allt í einu farið að standa í bakið á þeim. Þar var GPS-tæki sem betur fer líka með í för, og þegar kveikt var á því kom í ljós að þeir voru langt komnir með að hlaupa hring í kringum Sandvatn. Þessi krókur bætti um 3 km við hlaupaæfingu dagsins hjá þeim.
Frá A til B með A sem Plan B
Segir nú ekki frekar af þessu ferðalagi, enda bíður hin eiginlega fjallvegahlaupasaga þess tíma þegar leikurinn verður endurtekinn með fullnaðarárangri. Eftir standa 4 heilræði:
- Gerið alltaf ráð fyrir að veður sé enn verra á fjöllum en í byggð.
- Hikið ekki við að snúa við, þó að það sé víst oftast erfiðasta ákvörðunin á svona ferðalögum.
- Geymið föt og vistir við báða enda fyrirhugaðra hlaupaleiða, því að það er vont að grípa í tómt ef maður neyðist til að snúa við. (Með öðrum orðum: Þegar þið hlaupið frá A til B skulið þið alltaf vera með Plan B um að enda á A).
- Gefið ykkur tíma til að setja GPS-punkta inn í hlaupaúrin ykkar áður en lagt er á fjallvegi.
Filed under: Hlaup | Tagged: íslenskt veður, fjallvegahlaup, Leggjabrjótur |
Sæll frændi.
Ég hef nú áður sent þér ábendingar um þessi fjallvegahlaup, eins og ég hafi hlaupið þetta allt og hafi vit á þessu. Láttu hlaupa í hina áttina það er mun léttara þar sem hæðarhækkun er jafnari. Þú hefur samband ef þú vilt leiðbeiningar fyrir hlaup. Þessa fínu leið hef ég ekið í rúm 30 ár !
[…] Hopað af Leggjabrjóti […]
[…] 7. júní sl. t.d. mikilvægt innlegg og á þessum reikningi má sömuleiðis finna eitt og hálft fjallvegahlaup yfir Leggjabrjót, 41 km Þrístrending og 37 km Hamingjuhlaup. Ég er þeirrar skoðunar að einstakir […]
[…] í hvössum mótvindi, rigningu og þoku ásamt 27 öðrum misvönum og misvelbúnum hlaupurum og sneri við ásamt stærstum hluta hópsins eftir 8 km barning. Ég legg alltaf mikla áherslu á það í […]
[…] við vegna veðurs. Hægt er að lesa um það ævintýri á bloggsíðu Stefáns Gíslason (sjá hér). Að þessu sinni var verkefnið leið sem kallast Flatnavegur, sem liggur þvert yfir […]