• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • júlí 2014
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupasæla á Vestfjörðum

???????????????????????????????

Með Gunnari og Klemens eftir hlaupið. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Síðastliðinn sunnudag hljóp ég lengri útgáfuna af Vesturgötunni, sem er 45 km leið frá Þingeyri, yfir Álftamýrarheiði, niður í Fossdal í Arnarfirði, út að Stapadal og áfram eftir Kjaransbraut og Svalvogavegi inn að Sveinseyri við Dýrafjörð. Vesturgötuhlaupið er árviss viðburður og var nú háð í 9. sinn. Flestir láta sér reyndar nægja að hlaupa 24 km frá Stapadal að Sveinseyri, en lengri leiðin hefur einnig verið hlaupin á hverju ári frá 2011. Þetta var því í fjórða sinn sem sá valkostur stóð hlaupurum til boða. Ég hljóp 24 km leiðina sumarið 2009 og fannst nú kominn tími til að spreyta mig á lengri útgáfunni. Það gekk allt eftir áætlun og rúmlega það. Alla vega lauk ég hlaupinu á svolítið skemmri tíma en ég hafði reiknað með og kom í mark fyrstur þátttakenda. Auk þess hentaði veðrið eins vel til hlaupa og best gerist og öll framkvæmd hlaupsins var framúrskarandi. Vesturgatan hefur síðustu ár verið hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum og þar hefur fólki tekist, þrátt fyrir fámenni, að búa til einstakan viðburð og skapa svo vinsamlegt andrúmsloft að maður getur ekki annað en farið sáttur heim að leik loknum.

Undirbúningurinn
Ég undirbjó Vesturgötuna svo sem ekkert sérstaklega. Það sem af er árinu hef ég æft mjög hóflega og líklega minna en það sem margir myndu telja nauðsynlegt fyrir keppni í löngum hlaupum. Meðalvikan síðustu tvo mánuði hefur þannig innihaldið þrjár hlaupaæfingar og um það bil 55 km. Þetta getur hvorki talist mikið magn né mikil tíðni, en hins vegar hafa gæðin verið þokkaleg. Ég hef með öðrum orðum lagt tiltölulega mikla áherslu á styrk og hraða en tiltölulega litla á þolþjálfun. Áherslan á styrkinn og hraðann hefur gefið góða raun það sem af er sumri, því að á þeim tíma hef ég sett nokkur persónuleg met í götuhlaupum frá 5 km og upp í hálft maraþon, auk þess sem tímar á sprettæfingum hafa iðulega verið þeir bestu síðan á árunum fyrir 1980. Þolþjálfun hefur þó svo sem ekki setið alveg á hakanum. Þar var Mývatnsmaraþonið 7. júní sl. t.d. mikilvægt innlegg og á þessum reikningi má sömuleiðis finna eitt og hálft fjallvegahlaup yfir Leggjabrjót, 41 km Þrístrending og 37 km Hamingjuhlaup. Ég er þeirrar skoðunar að einstakir hlaupaviðburðir af þessu tagi skili miklu. Ég upplifi það þannig að líkaminn læri að sætta sig við álagið og að undirmeðvitundin fái þau skilaboð að þetta sé allt mögulegt.

Fimmtudaginn fyrir Vesturgötuna  hljóp ég yfir Skálavíkurheiði frá Bolungarvík til Skálavíkur ásamt 8 öðrum hlaupurum víða að. Þetta var skemmtilegt og þægilegt ferðalag í góðu veðri og án nokkurra átaka. Sama gilti aðeins að hluta um Óshlíðarhlaupið degi síðar, en á föstudagskvöldinu tók ég þátt í 10 km keppnishlaupi úr Óshlíð til Ísafjarðar, sem líka var hluti af Hlaupahátíðinni. Það var líka skemmtilegt ferðalag, en aðeins í meðallagi þægilegt og alls ekki án átaka. Ég lagði mig með öðrum orðum allan fram í því hlaupi og var aðeins 17 sekúndum frá mínum besta tíma í 10 km (40:27 mín.), sem ég náði í Reykjavík rúmri viku fyrr. Óshlíðarhlaupið var mikilvægur hluti af undirbúningnum fyrir Vesturgötuna, annað hvort á jákvæðan hátt sem liður í að venja líkamann og hugann við álag, eða með neikvæðum formerkjum sem þreytuvaldur. Í öllu falli er Óshlíðarhlaupið mikilvægur hluti af góðum minningum mínum um Hlaupahátíð á Vestfjörðum 2014. Hvort afraksturinn var nokkrar sekúndur í plús eða nokkrar sekúndur í mínus í Vesturgötunni skiptir engu máli!

Væntingarnar
Í utanvegahlaupum er allt afstæðara en í hefðbundnum götuhlaupum. Hvert utanvegahlaup er einstakt og hafi maður ekki farið leiðina áður er lítið hægt að bollaleggja um hæfilegan meðalhraða, æskilega millitíma og því um líkt. Veður og færð geta líka sett miklu feitari strik í reikninginn en í götuhlaupum. Væntingarnar hljóta því aðallega að snúast um að njóta hlaupsins, náttúrunnar og samvista við hlaupafélagana, hverjir sem þeir kunna að verða. Þrátt fyrir þetta legg ég þó aldrei svo upp í  hlaup að ég hafi ekki gert einhverja áætlun um gang mála.

Helsta viðmiðið sem ég gat stuðst við í áætlunargerð fyrir Vesturgötuna var reynslan úr 24 km Vesturgötunni 2009. Henni lauk ég á 1:57:55 klst. Þá var ég í býsna góðu formi og lagði óþreyttur af stað, en núna lá fyrir að hlaupa fyrst 21 km kafla frá Þingeyri og yfir Álftamýrarheiði áður en leikurinn frá 2009 yrði endurtekinn. Mér fannst því líklegt að síðustu 24 kílómetrarnir myndu taka 2:00-2:10 klst. að þessu sinni. Fyrri hluti hlaupsins var hins vegar alveg óskrifað blað. Til að fá einhverja hugmynd um eðlilega frammistöðu á þeim hluta rýndi ég í úrslit hlaupsins frá síðasta ári og ákvað að miða við lokatíma Elísabetar Margeirsdóttur, sem þá lauk hlaupinu á 4:22 klst. Það taldi ég nokkuð raunhæfa viðmiðun. Að vísu er Elísabet ívið sterkari í svona hlaupum en ég, en hlaupið í fyrra var viku á eftir Laugavegshlaupinu sem hún lauk líka á mjög góðum tíma. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér var ég sannfærður um að ég gæti alla vega lokið hlaupinu á 4:30 klst. ef ekkert óvænt kæmi upp á. Fyrrihlutinn þyrfti þá að vera á 2:20 klst. og sá seinni á 2:10. Til að fá betri mynd af þessu skipti ég fyrri hlutanum í þrjá áfanga. Fyrsti áfanginn yrði þá frá Þingeyri að Kirkjubóli í Kirkjubólsdal. Ég áætlaði að sá spölur gæti verið um 6 km og líklega nokkuð fljótfarinn á góðum vegi. Mér fannst raunhæft að hlaupa hvern km á 5 mín og vera þannig 30 mín á leiðinni. Annar áfangi myndi svo vera frá Kirkjubóli, inn dalinn, yfir heiðina og niður á veg neðst í Fossdal í Arnarfirði. Þennan spöl var langerfiðast að spá fyrir um og því ágætt að láta hann mæta afgangi í áætlunargerðinni. Þriðji áfanginn átti svo að vera spölurinn frá Fossdal og út í Stapadal, þ.e. að startinu í 24 km hlaupinu þar sem komið yrði inn á kunnuglegri slóðir. Þessi áfangi leit út fyrir að vera um 1 km og ef hægt væri að hlaupa hann á 5 mín. væru 1:45 klst. eftir fyrir áfanga nr. 2. Dæmið leit þá þannig út: 0:30+1:45+0:05+2:10 = 4:30 klst. En allt var þetta bara leikur að tölum og útkoman ekkert nema lauslegt viðmið.

Vesturgatan eins og hún leggur sig (45 km). (Ef smellt er á myndina birtist eilítið stærri mynd).

Langa Vesturgatan eins og hún leggur sig (45 km).

Sunnudagsmorgunn
Hlaupið átti að hefjast kl. 8 að morgni, sem þýddi að ég vaknaði stundvíslega kl. 5 til að borða morgunmat. Ég fylgi núorðið alltaf þessari þriggja tíma reglu fyrir löng hlaup, því að mesta annríkið í meltingunni þarf helst að vera búið þegar lagt er í hann. Þessa nótt gisti ég í húsi ættmenna í Bolungarvík ásamt fleirum úr fjölskyldunni og hlaupafélögum úr Borgarnesi. Frá Bolungarvík er um 50 mín. akstur að rásmarki hlaupsins á Þingeyri, þannig að við sem í hlut áttum gátum sem best lagt okkur aðeins aftur eftir matinn. Um kl. 7:30 vorum við svo komin til Þingeyrar þrjú saman, þ.e.a.s. ég sjálfur, Gunnar Viðar sem var líka skráður í stóru Vesturgötuna og Birgitta dóttir mín sem átti að leggja af stað í 24 km hlaupið kl. 11:00.

Fyrstu metrarnir
Við vorum ekki nema fimm sem röðuðum okkur upp við rásmarkið framan við Þingeyrarkirkju þennan morgun, þ.e.a.s. ég, fyrrnefndur Gunnar, Klemens Sæmundsson úr Keflavík, Álfheiður Hrönn Hafsteinsdóttir og Helga Þóra Jónasdóttir. Veðrið lék við okkur, hægur vindur, þurrt, þokuslæðingur í hlíðum og hitinn líklega 12°C. Betra gat það varla verið, nema hvað ekki sást vel til allra fjalla. Og fyrr en varði vorum við lögð af stað. Framundan voru nokkrar klukkustundir af útivist og hreyfingu í stærsta líkams- og sálarræktarsal í heimi.

Á Þingeyri árla morguns: Nýlögð af stað. F.v. Klemens, Helga Þóra, SG, Gunnar Viðar, Álfheiður. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á Þingeyri árla morguns: Nýlögð af stað. F.v. Klemens, Helga Þóra, SG, Gunnar Viðar, Álfheiður. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Í upphafi svona ferðalags er hugurinn fullur af óvissu. Maður veit að framundan er tiltekinn fjöldi kílómetra og kannski veit maður líka eitthvað um leiðina, hvar eru brekkur, hversu margar drykkjarstöðvarnar eru o.s.frv. En maður veit næstum ekkert um allt hitt sem bíður manns, hvernig veðrið muni breytast, hvernig líkaminn muni bregðast við álaginu eða hvernig samspilinu með hlaupafélögunum verði háttað. Maður þarf af þreifa fyrir sér, skynja dagsformið, hlusta á líkamann og spara kraftana hæfilega mikið til að þeir endist alla leið en skili manni samt í mark á þokkalegum tíma.

Við fórum öll frekar hægt af stað, en samt býsna nálægt því sem ég hafði reiknað með fyrirfram. Mér fannst við einmitt hafa hitt á réttu hraðastillinguna miðað við vegalengdina og óvissuna framundan. Við strákarnir héldum hópinn og stelpurnar komu í humátt á eftir. Fyrstu kílómetrarnir voru hlaupnir á malbiki, sem hentar utanvegaskóm ekki sérlega vel. Sólinn á þeim er oft ívið harðari en á götuskóm og dempunin minni. En fáeinir kílómetrar gera manni ekkert til.

Á leið framhjá Kirkjubóli í Dýrafirði. (Ljósm: Sólrún Halla Bjarnadóttir).

Á leið framhjá Kirkjubóli í Dýrafirði. (Ljósm. Sólrún Halla Bjarnadóttir).

Kirkjubólsdalur
Vegalengdin frá Þingeyri að Kirkjubóli mældist 5,64 km og þegar við fórum þar um hlaðið sýndi klukkan 28:18 mín. Þetta jafngilti 5:01 mín/km, sem var nánast nákvæmlega sami hraði og ég hafði gert ráð fyrir. Þarna tók hinn hefðbundni bílvegur enda og við tók greiðfær slóði inn Kirkjubólsdal. Hjólreiðamenn sem höfðu keppt á þessari sömu leið daginn áður höfðu haft orð á því að vegurinn væri óþægilega blautur og jafnvel sleipur í hjólförunum. Þetta voru orð að sönnu, því að undirlagið var allt mjög blautt eftir langvarandi vætutíð. Nánast ómögulegt var að hlaupa í miðju hjólfari, en víðast mátti auðveldlega þræða þurrari kanta eða grasi gróna vegmiðjuna. Vegurinn inn dalinn er frekar lítið á fótinn, en leiðin liggur yfir nokkra smálæki og holt. Þarna var auðveldlega hægt að halda nokkuð jöfnum skokkhraða.

Við reiknuðum með að ómannaðri drykkjarstöð hefði verið komið fyrir neðarlega í dalnum, á að giska 7 km frá rásmarkinu. Stöðin lét bíða aðeins eftir sér en birtist svo eftir 9,24 km. Klukkan sýndi 47:16 mín, sem þýddi að meðalhraðinn frá Kirkjubóli hafði verið 5:16 mín/km. Það var betra en ég bjóst við miðað við aðstæður og greinilegt að við vorum farnir að koma okkur upp svolítilli innistæðu fyrir brekkurnar framundan. Áfram var svo haldið inn dalinn eftir vegarslóðanum sem enn var greiðfær. Smátt og smátt hækkaði landið eins og við mátti búast. Við þrír héldum enn hópinn, fórum okkur að engu óðslega, spjölluðum um daginn og veginn, gengum upp brekkur og hlupum þess á milli. Innst í dalnum tóku við sneiðingar upp á heiðina og þar gafst gott tækifæri til að líta yfir farinn veg. Stelpurnar voru enn í augsýn, kannski svona hálfum kílómetra neðar í brekkunum.

Efst í sneiðingunum var enn svolítill snjór, en ekkert þó til trafala. Og fyrr en varði vorum við komnir hæst upp á Álftmýrarheiði (544 m) og þar beið okkar björgunarsveitarbíll með drykki. Vegalengdin var komin í 13,95 km og klukkan sýndi 1:29:11 klst. Meðalhraðinn upp brekkurnar hafði samkvæmt þessu verið 8:54 mín/km, sem mér þótti harla gott. Í svona brattlendi býst ég sjaldnast við að halda meira en gönguhraða, þ.e. um 5-6 km/klst sem jafngildir 10-12 mín/km. Líkaminn var enn óþreyttur og í toppstandi að öllu leyti nema hvað ég hafði fundið fyrir óþægindum í maga á leiðinni upp brekkurnar. Datt í hug að það tengdist því að morgunmaturinn hafði verið í naumara lagi. Samt þótti mér líklegra að óþægindin stöfuðu af einhverju öðru. Naumur morgunmatur ætti ekki að valda neinum óþægindum öðrum en orkuleysi þegar líður á daginn.

Undanhaldið
Eftir stutta viðdvöl upp á heiðinni, sem er í raun ekki nema örfárra metra breið, héldum við áfram sem leið lá niður í Fossdal í Arnarfirði. Þarna var auðveldlega hægt að spretta úr spori, enda allt undan fæti. Mér duttu í hug orð Steins Steinars, „Og styrkur minn liggur allur í undanhaldinu“, enda er ég yfirleitt töluvert sprækari niður í móti en upp í móti. Á niðurleiðinni er gott að vera fótviss og þann eiginleika ræktaði maður í ósléttu landi bernskunnar. Niðurhlaup eru samt erfiðari en þau líta út fyrir að vera, sérstaklega fyrir lærin framanverð. Ég var hóflega undirbúinn fyrir undanhaldið eftir 2-3 Hafnarfjallsæfingar og fann að 2-3 æfingar í viðbót hefðu verið til bóta. Fyrir vikið fór ég örlítið varlegar en mig langaði til, því að ekki er gott að ofbjóða lærunum svona snemma hlaups. Klemens hafði greinilega sinnt þessum undirbúningi betur. Alla vega fór hann talsvert hraðar niður brekkurnar en við Borgnesingarnir. Segir nú fátt af ferðum okkar niður brekkurnar, nema hvað vegurinn var miklu betri en ég hafði búist við og enn voru óþægindin í maganum til staðar.

Rétt í þann mund sem við vorum að komast niður á þjóðveginn út með Arnarfirði renndu tvær rútur fram hjá vegamótunum. Þar var verið að flytja hlauparana sem ætluðu að hlaupa hina hefðbundnu 24 km Vesturgötu að rásmarkinu í Stapadal. Í þann mund sem við komum niður á veginn og ösluðum yfir ána sem þar varð fyrir okkur sýndi kílómetramælirinn 19,64 km og klukkan 1:54:22 klst. Meðalhraðinn ofan af heiðinni hafði verið 4:26 mín/km. Við vorum greinilega komnir langt á undan upphaflegu áætluninni minni. Ég ákvað samt að láta alla hugarreikninga bíða þar til við kæmum í Stapadal.

Stapadalur
Það var gaman að koma í Stapadal, ekki bara vegna þess að þá var hinum óþekkta kafla hlaupsins lokið og troðnari slóðir framundan, heldur aðallega vegna þess að þar var saman kominn glæsilegur og glaðlegur hópur Vesturgötuhlaupara sem spöruðu ekki brosin og hvatningarorðin. Það er magnað hvað jákvætt fólk getur gefið manni mikla orku aukreitis. Ég sá líka Gittu minni bregða fyrir í hópnum en hún var einmitt að fara að leggja upp í sína fyrstu Vesturgötu. Það er alltaf best að vita af sínum nánustu nærlendis.

Ég gaf mér góðan tíma við drykkjarstöðina í Stapadal, ekki bara til að drekka vatn heldur líka til að horfa í kringum mig og íhuga framhaldið. Úrið mitt stóð í 20,94 km. Segjum bara að 21 km hafi verið að baki og 24 km eftir, því að þannig stemmir þetta við hina opinberu tölfræði. Klukkan sýndi 2:01:38 klst., sem þýddi að ég var rúmum 18 mín. á undan áætlun. Ég hafði jú reiknað með að ferðin frá Þingeyri að Stapadal tæki um 2:20 klst. Þetta þýddi að ég átti að geta lokið hlaupinu á 4:12 klst., sem var talsvert betra en ég hafði gert ráð fyrir. En auðvitað getur margt borið til tíðinda á langri leið og betra að spyrja að leikslokum.

Út fjöruna
Gunnar og Klemens voru lagðir af stað nokkru áður en ég kvaddi drykkjarstöðina í Stapadal og það góða fólk sem þar var. Ég náði þeim þó fljótlega, nánar tiltekið við lækinn sem er þarna rétt hjá. Ég hlakkaði til að fá nú annað tækifæri til að hlaupa þessa stórkostlegu leið út fjöruna í Arnarfirðinum, fram hjá björgum og milli bjarga, upp brekkur og utan í hlíðum. Þessi leið á engan sinn líka.

Einn af uppáhaldsstöðunum mínum á leið út með ströndinni skammt fyrir utan Stapadal. Myndina tók ég sumarið 2009.

Einn af uppáhaldsstöðunum mínum á leið út með ströndinni skammt fyrir utan Stapadal. Myndina tók ég sumarið 2009.

Kannski lumuðu fæturnir á góðum minningum frá Vesturgötuhlaupinu 2009 eða kannski var það tilhlökkunin sem gerði mig léttan í spori. Alla vega var ég allt í einu kominn spölkorn á undan félögum mínum. Ákvað að bíða þeirra ekki og halda mínu striki á þeim hraða sem gleðin bauð mér. Þeir myndu sjálfsagt ná mér fljótlega aftur og kannski myndum við fylgjast áfram langleiðina. En þetta gerðist ekki. Næst þegar ég leit um öxl hafði bilið breikkað og smám saman var ég orðinn einn míns liðs.

Í löngum hlaupum finnst mér nauðsynlegt að finna eitthvert annað verkefni fyrir hugann en að hugsa um allt erfiðið framundan. Í maraþonhlaupum snúast þessi verkefni að miklu leyti um tölulegar greiningar á síðustu 5 kílómetrum og spádóma um framhaldið út frá þeim. Í hlaupum eins og Vesturgötunni eru slík viðmið hins vegar öllu meira á reiki. Enginn kílómetri er öðrum líkur og viðmiðin fá. Ég ákvað samt að skipta því sem eftir var að leiðinni niður í 5 km kafla og taka millitímann á hverjum slíkum. Ef mér ætti að takast að hlaupa síðustu 24 kílómetrana á 2:10 mín þurfti ég augljóslega að ljúka hverjum 5 km kafla á innan við 27:30 mín. Ákvað að nota þá tölu sem viðmið. Kannski var 27:25 réttari tími en þetta var alla vega innan skekkjumarka, eða með öðrum orðum hæfilega ónákvæmt. Þetta verkefni skyldi hefjast þegar 20 km væru eftir.

20 km eftir
Í Vesturgötunni er viðhaft það skemmtilega fyrirkomulag að setja upp skilti sem sýna þann fjölda kílómetra sem er eftir í stað þess að sýna kílómetrana sem lagðir hafa verið að baki. Þegar ég kom að 20 km skiltinu stóð klukkan í 2:23:48 klst. Þar tók ég millitíma til að marka upphaf 5 km verkefnisins. Og svo hélt ég bara áfram að hlaupa og njóta þessarar stórbrotnu náttúru allt um kring. Í huganum ómaði 40 ára gamalt lag Alberts Hammond, The Peacemaker. Veit ekki hvernig það læddist þarna inn, en þetta sama lag ómaði einmitt í kollinum á mér í Víðavangshlaupi Íslands vorið 1974, einu fárra sigurhlaupa á ferlinum. Kannski var þetta fyrirboði, í það minnsta fyrirboði um að tímabært væri að uppfæra lagalistann í heilabúinu.

Um það leyti sem ég var kominn fram hjá eyðibýlunum tveimur í Lokinhamradal birtist skilti sem á stóð „Drykkjarstöð – 500 m“. Þetta gladdi mig, því að mér fannst einmitt kominn tími á vökvun. Ég hafði ákveðið í upphafi hlaups að bera enga drykki með mér. Eini farangurinn minn voru 7 bréf af orkugeli og 7 hylki af Saltstick steinefnahylkjum sem innihalda natríum, magnesíum, kalíum, kalsíSaltstickum og D-vítamín. Þessi hylki hafði ég keypt hjá Daníel Smára í Afreksvörum nokkrum dögum fyrr og ætlaði nú að nota þau í tilraunaskyni. Þau eiga að geta dregið úr líkum á krömpum, en oftar en ekki hef ég glímt við þá óáran undir lok lengstu hlaupanna. Hef svo sem aldrei gert neitt til að fyrirbyggja þetta, nema þá að reyna að vera í þokkalegu formi og e.t.v. að borða salthnetur. Orkugelið og steinefnin eiga það sameiginlegt að þeim þarf að skola niður með nægu vatni og þá er maður náttúrulega háður drykkjarstöðvunum ef ekkert vatn er með í farangrinum. En í þessu tilviki var ég greinilega of snemma á ferð enda fyrsti hlaupari dagsins. Drykkjarstöðin var nefnilega ekki komin á sinn stað. Henni mætti ég utar í hlíðinni, en það kom reyndar ekkert að sök því að þá var ég búinn að finna ágætan læk með góðu vatni sem gerði sama gagn. Drykkjarstöðvar eiga auðvitað að vera þar sem þær eiga að vera, en það er jú meira en að segja það að koma öllu á sinn stað í tæka tíð þar sem samgöngur eru jafn erfiðar og á Vesturgötunni. Svona frávik geta alltaf orðið við svona aðstæður.

15 km eftir
Það er erfitt að finna orð til að lýsa leiðinni út með Arnarfirðinum. Það eru einfaldlega forréttindi að mega upplifa þetta svæði á tveimur jafnfljótum. Fyrr en varði birtist skilti með áletruninni „15 km“. Síðustu 5 km hafði ég lagt að baki á 28:04 mín. og var þar með búinn að tapa hálfri mínútu miðað við 27:30 áætlunina mína. En mér var reyndar alveg sama um það. Leiðin var líka mishæðóttari en mig minnti. Mér leið vel og hafði alls ekki yfir neinu að kvarta, alls ekki!

Þegar þreytan gerir vart við sig í löngum hlaupum geri ég mér það oft til dundurs að bera vegalengdina sem eftir er saman við þekkta spotta sem ég hleyp oft á æfingum án þess að finnast það nokkurt tiltökumál. Hvað eru t.d. 12 km á milli vina? Það er bara eins og spottinn heiman að frá mér í Borgarnesi uppundir fólkvanginn í Einkunnum og heim aftur. Þann spotta hef ég oft skroppið eftir kvöldmat á virkum degi og ekki þótt það í frásögur færandi. Þetta var hreinlega að verða búið og allt lék í lyndi.

10 km eftir
Allt í einu var ég kominn að Svalvogum. Mér fannst tíminn hafa liðið hratt og þarna rifjuðust upp fyrir mér minningar frá hlaupinu 2009. Ég mundi nákvæmlega hvernig var að hlaupa þarna í þurrum sandi eftir allt harða undirlagið í hlíðinni og ég mundi líka eftir vindsveipum sem þyrluðu sandinum upp. Nú voru engir vindsveipir, bara hægviðri og blíða. Sólin var þó enn á bak við ský, sem mér fannst bara gott því að hitastigið fór greinilega hækkandi.

Svalvogar. Myndin var tekin sumarið 2009.

Svalvogar. Myndin var tekin sumarið 2009.

Ég bjóst kannski við að hitta nýjan hóp af hlaupurum við 10 km markið, því að þar átti að ræsa Hálfa Vesturgötu. Hins vegar mundi ég ekki alveg hvenær það átti að gerast. Alla vega var enginn mættur þarna til að klappa fyrir mér þegar mig bar að garði. Það var í góðu lagi, því að ég var alveg nógu glaður í sinninu hvort sem var. Klukkan sýndi að síðustu 5 km höfðu ekki tekið nema 26:20 mín. Ég hlaut því að vera nokkurn veginn „á pari“ miðað við drauminn um 4:12 klst. Heildartíminn var kominn í 3:18:13 klst. Þá voru sem sagt um 54 mín. eftir til að ljúka þessum 10 km. Það hljómaði sem raunhæf áætlun.

Þegar þarna var komið sögu var sú hugsun tekið að gerast áleitin að ég myndi kannski bara vinna þetta hlaup. Maður á aldrei að vera sigurviss, en ég var alla vega alveg aleinn í þessu hlaupi og hafði verið það lengi. Einu mannaferðirnar sem ég varð var við voru tveir eða þrír hjólreiðamenn og kannski einn björgunarsveitarbíll eða svo. Framundan var vegagerðarafrek Elísar Kjaran sem maður þreytist aldrei á að virða fyrir sér. Það er ótrúlegt að einn maður hafi tálgað þennan veg með lítilli jarðýtu utan í þverhnípt björg, án þess svo mikið sem að fá borgað fyrir það svo orð væri á gerandi.

Einhvers staðar á leiðinni inn Dýrafjörðinn mætti ég tveimur rútum. Þarna var verið að flytja 10 km hlauparana að rásmarkinu. Það er bara gaman að mæta rútu á þessari leið ef maður er hlaupandi. Hins vegar hefði ég ekki viljað vera á annarri rútu sem kom úr gangstæðri átt.

Á Vesturgötunni á leið inn í Dýrafjörð. (Ljósmynd: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á Vesturgötunni á leið inn í Dýrafjörð. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Keldudalur
Nokkru áður en Keldudalur opnaðist kom ég að 5 km merkinu. Nú var þetta alveg að verða búið! Síðustu 5 km höfðu tekið 28:10 mín. og ég ákvað að 4:14 klst. væri vel ásættanlegur lokatími. Klukkan stóð í 3:46:22. Það átti að vera auðvelt að klára síðustu 5 km á öðrum 28 mín.

Það var gaman að koma í Keldudal. Þarna hallar undan fæti um stund og landslagið er öðru vísi en í björgunum. Brekkan upp úr dalnum að innanverðu var kannski ekkert tilhlökkunarefni, enda líklega sú lengsta og hæsta á þessum 24 km kafla. En hún er samt bara hluti af upplifuninni. Það er ekkert erfiðara að hlaupa upp brekkur en á jafnsléttu, það er fyrst og fremst bara seinlegra. Það má líka alveg labba upp svona brekkur ef maður vill. Ég gerði það reyndar ekki, heldur skokkaði ég alla leiðina. Einhvers staðar ofarlega í brekkunni var ég búinn að leggja heilt maraþon að baki frá því um morguninn. Millitíminn þar var eitthvað um 3:57 klst. Mér finnst gaman að tala um millitíma eftir heilt maraþon. Og á brekkubrúninni voru ekki nema 2,5 km í mark.

Stutt eftir. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Stutt eftir. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Kominn í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Kominn í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Lokaspretturinn
Ég get alveg viðurkennt að ég réð mér varla fyrir kæti þessa síðustu kílómetra. Hlaupið endaði á langri brekku niður að markinu við Sveinseyri. Þarna gat ég leyft mér að bæta vel í hraðann enda fann ég varla fyrir þreytu. Ég ætla ekkert að lýsa því hvað mér leið vel þegar ég hljóp yfir marklínuna. Lífið hafði leikið við mig alla leið, ég kenndi mér einskis meins og hafði náð öllum mínum markmiðum og unnið hlaupið að auki. Er hægt að biðja um meira? Lokatíminn var 4:12:03 klst.

Marksvæðið
Eitt af því skemmtilegasta við almenningshlaup er stemmingin á marksvæðinu – og þessi stemming er óvíða betri en einmitt á Vesturgötunni. Þarna hitti ég marga gamla og nýja vini og þarna voru líka Björk og samferðamenn okkar úr Borgarnesi mætt til að taka á móti mér. Gleðin var í aðalhlutverki og sólin var meira að segja farin að skína. Hitastigið var líka komið í 18 gráður, en meiri hiti en það er ekki góður fyrir hlaupara. Reyndar fagnaði ég þessum hlýindum því að þau gerðu yfirhafnir óþarfar. Ég gat sem sagt sem best ráfað um marksvæðið á stuttbuxunum og stuttermabolnum sem ég hafði hlaupið í. Og ekki spilltu veitingarnar fyrir. Bæði leyndist ýmislegt góðgæti í tjaldinu sem þarna hafði verið sett upp og eins hafði Björk útbúið ríkulegt nesti að vanda. Reynsla mín segir mér að mikil og fjölbreytt næring strax eftir löng hlaup sé lykillinn að góðri líðan dagana á eftir. Það var þetta sem brást eftir maraþonið í París í fyrra þegar stigarnir í Louvre safninu urðu nánast ófærir daginn eftir.

Þegar ég hafði notið lífsins á marksvæðinu í nokkra stund fóru aðrir hlauparar að birtast í brekkunni, þeirra á meðal Gunnar og Klemens sem leiddust yfir marklínuna 4:27 klst. eftir að við vorum ræst í hlaupið á Þingeyri um morguninn. Svo tók verðlaunaafhending við og kveðjur að henni lokinni. Verðlaunin voru þau langglæsilegustu sem mér hafa áskotnast á ferlinum, hvorki meira né minna en nýir hlaupaskór, íþróttapeysa og lopapeysa að eigin vali frá dýrfirsku handverksfólki. Þetta kórónaði frábæra framkvæmd og ómetanlegt viðmót fólksins fyrir vestan sem hafði lagt nótt við dag við að skipuleggja þessa dásemd alla.

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Lærdómurinn
Maður lærir alltaf eitthvað nýtt í hverju hlaupi, bæði um sjálfan sig, um aðra og um ýmsa þætti sem skipta máli í hlaupinu sjálfu. Einn mikilvægasti þátturinn er vökvun og næring. Reynslan hefur kennt mér að ég þurfi að drekka u.þ.b. 300 ml. af vatni á hverja 10 km. Þetta getur samt verið svolítið breytilegt eftir hitastigi, áreynslu og almennri líðan. Í þessu hlaupi voru drykkjarstöðvar á 6-7 km fresti sem hentar mér mjög vel, þar sem mér finnst einmitt best að gleypa í mig orkugel með þessu millibili. Í lengri hlaupum nota ég alltaf  38 gramma gel af gerðinni High5, sem innihalda m.a. 23 g af auðmeltum kolvetnum. Í seinni tíð freistast ég alltaf til að nota gel með koffeini, en hvert bréf inniheldur um 30 mg af því. Þessu þarf að skola niður með tveimur góðum gúlsopum af vatni. Eins og ég nefndi hér að framan gerði ég í þessu hlaupi fyrstu tilraunina til að bæta Saltstick steinefnahylkjum á matseðilinn. Þessi hylki á að taka á 30-60 mín. fresti, sem passar ágætlega við tíðni gelátsins. Með þessu er alveg nauðsynlegt að drekka vatn, þannig að e.t.v. þarf að bæta svolítilli slettu við fyrrnefnda tvo gúlsopa. Ég ákvað samt að þetta væri allt innan skekkjumarka. Vatnsglösin á drykkjarstöðvunum voru þokkalega stór, en stundum finnast mér glösin sem boðið er upp á vera í naumara lagi. Til að vera alveg viss um að ég fengi nóg vatn bætti ég oftast í glasið eins og tolldi í því og drakk svo. Best finnst mér að taka glasið með mér en þá lendir maður oft í vandræðum með að losa sig við það aftur. Ekki vill maður henda rusli út um alla Vesturgötuna! Ég fann reyndar alltaf einhverjar leiðir til að komast hjá því. Í tvö skipti bað ég meira að segja fólk sem átti leið hjá í bílum að koma glasinu fyrir kattarnef.

Eins og sjá má tók ég hluta af Vesturgötunni með mér í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Eins og sjá má tók ég hluta af Vesturgötunni með mér í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Fyrst minnst er á úrgang get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ég sá svona mörg tóm gelbréf á Vesturgötunni þennan morgun. Þau hafa væntanlega tilheyrt hjólafólki sem fór þarna um daginn áður, því að ég var vel að merkja fyrsti hlauparinn sem átti þarna leið um. Maður getur svo sem alltaf misst gelbréfin frá sér, sérstaklega ef maður er á hjóli. En unglingavinnan er fámenn á þessum slóðum og ólíklegt að nokkur sé í aðstöðu til að hirða þennan úrgang upp af götunni. Gelbréfanna bíða því þau örlög að velkjast um í náttúrunni næstu aldir í félagsskap gelbréfa fyrri ára og komandi ára. Þetta brotnar nefnilega seint eða aldrei niður!

Eins og ég nefndi var steinefnahylkjaátið framkvæmt í tilraunaskyni. Niðurstöðurnar lofa góðu, því að ég fann aldrei fyrir minnsta votti af krampa, hvorki í hlaupinu sjálfu né eftir það. Slíkt heyrir til undantekninga þegar ég á í hlut. Að hlaupi loknu gat ég setið á hækjum mér, reimað skóna og leikið ýmsar svipaðar kúnstir sem oftar en ekki hafa reynst illmögulegar eftir löng hlaup. Ég get auðvitað ekki fullyrt að þetta sé allt hylkjunum að þakka, enda gerði ég enga samanburðarrannsókn. En þetta var alla vega öðru vísi en ég á að venjast.

Þakkir og lokaorð
Ég get ekki ímyndað mér hversu margar fórnfúsar vinnustundir liggja að baki Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum þetta árið. Þarna gekk allt upp og viðmótið var svo jákvætt og vinsamlegt að manni verður orða vant. Þeir sem einhvern tímann hafa komið nálægt skipulagningu almenningshlaupa eru ekki lengi að átta sig á því að fólkið fyrir vestan vinnur ótrúlegt þrekvirki með þessari framkvæmd á hverju ári. Það er heldur ekki eins og þetta sé bara eitt einfalt götuhlaup. Þetta eru nokkur hlaup, bæði í Óshlíðinni og á Vesturgötunni, og við þetta bætist svo sjósund, hjólreiðar og skemmtiskokk. Þetta er flókin framkvæmd og enn flóknari þar sem samgöngur eru seinlegar eins og raunin er á Vesturgötunni og þar sem menn geta ekki einu sinni treyst á farsímasamband til að koma skilaboðum á milli starfsmanna.

Þessum pistli lýkur með orðlausum þökkum til allra þeirra sem gerðu Hlaupahátíðina og þá sérstaklega Vesturgötuna að því ævintýri sem hún var. Mér detta fyrst í hug nöfnin Sigmundur Þórðarson og Guðbjörg Rós Sigurðardóttir, en á bak við þetta hljóta að vera a.m.k. 250 önnur nöfn. Öllu þessu fólki þakka ég innilega fyrir allt sem þau gerðu til að gera þetta eins skemmtilegt og raun bar vitni.

2 svör

  1. […] á dagskránni var Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Þangað fórum við nokkur saman, höfðum fengið lánað hús í Bolungarvík og höfðum allt […]

  2. […] en þessa leið fór ég fyrst sumarið 2014. Sú ferð var mikil gleðiferð eins og ráða má af þar til gerðum bloggpistli og eðlilega langaði mig til að endurtaka gleðina. Í stuttu máli sagt tókst það […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: