Hið árlega Hamingjuhlaup verður haldið í sjötta sinn laugardaginn 28. júní, en hlaupið tengist Hamingjudögum á Hólmavík. Að þessu sinni verður hlaupið frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Steingrímsfjarðar og áfram eftir veginum til Hólmavíkur, en þessa leið riðu móðurbræður mínir á millistríðsárunum áleiðis á böll á Ströndum. Þetta var kallað að fara Vatnadal.
Þegar farinn er Vatnadalur er hægt að velja milli a.m.k. þriggja leiða upp úr Gilsfirði. Ysta leiðin liggur upp með Mávadalsá milli Gilsfjarðarbrekku og Gilsfjarðarmúla, en mér er ekki fullljóst hvorum megin við ána er best að fara. Þetta var kallað að fara upp með Bergi, en Berg er líklega nafnið á klettabelti uppi í brúninni. Þarna þótti naumast óhætt að fara með hesta, en síðari tíma heimildir herma þó að ónefndur bóndi í Gilsfirði hafi einhvern tímann riðið þarna niður vel við skál. Það þótti glæfraför, en hún endaði giftusamlega.
Frá Kleifum var yfirleitt farið upp með Glámi eins og kallað var, en Glámur er stakur klettur í brúninni upp og út af Gilsfjarðarbrekku. Þá er farið skáhallt upp frá Brekkubænum. Þarna var sæmileg hestagata, en við Glám hefur mikið hrunið úr henni á síðari árum þannig að hún er vafalítið alveg ófær hestum núorðið. Að öllum líkindum vefst þessi kafli þó ekki fyrir vönum göngumönnum.
Þriðji möguleikinn er að fara upp grasi vaxna brekku sem teygir sig frá brúninni niður undir botn Brekkudals innan við bæinn á Gilsfjarðarbrekku. Þessi leið er líklega sú lengsta af þessum þremur. Ég geri ráð fyrir að móðurbræður mínir hafi ekki farið þessa leið, heldur annað hvort upp með Bergi eða upp með Glámi.
Í hamingjuhlaupinu á laugardaginn verður engin þessara þriggja leiða valin, heldur verður veginum fylgt til að byrja með inn Brekkudal og áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þarna hefur orðið sú breyting frá þeim tíma þegar bræður mömmu voru ungir menn, að þarna er kominn tiltölulega greiðfær vegur. Þegar komið er upp fyrir Brimilsgjá verður beygt þvert úr leið, til vinstri, yfir ána og upp svolitla hæð sem skilur að Brekkudal og Vatnadal. Besti staðurinn til að beygja út af veginum er líklega um 400 m ofan við háan staur sem stendur í vegkantinum ofan við gjána. Að þessum beygjupunkti eru nákvæmlega 5,9 km frá Kleifum eftir veginum.
Hlaupaleiðin niður Vatnadal liggur vestanvert í dalnum. Leiðin er seinfarin, því að þarna er svo sem engin gata og auk heldur talsverður hliðarhalli. Farið er yfir Draugagil og áfram með Melrakkagil á hægri hönd handan árinnar. Eftir það eykst hliðarhallinn enn og við tekur seinfarnasti spölur leiðarinnar meðfram Hraundalsmúla og niður í mynni Hraundals. Neðan við Hraundal fer undirlendið smám saman breikkandi og leiðin verður greiðari. Farið er um Sléttuhlíð, meðfram Miðdalsá að vestanverðu og niður fyrir Torffell. Þar er komið á jeppaslóða og eftirleikurinn því til þess að gera auðveldur. Frá Torffelli er rétt um 1 km niður að eyðibýlinu Tind. Drjúgum spöl fyrir neðan Tind liggur vegurinn yfir ána neðan við bæinn Gestsstaði og svo áfram fram hjá Klúku allt þar til komið er á aðalveginn til Hólmavíkur, rétt fyrir innan félagsheimilið Sævang. Frá þeim vegamótum eru um 11,5 km til Hólmavíkur eftir malbikuðum vegi.
Hér verður leiðinni ekki lýst frekar, en ofar og lengst til hægri á þessari síðu má sjá grófa mynd af leiðinni frá Kleifum niður á aðalveginn innan við Sævang. Hér fyrir neðan má svo sjá annars vegar nokkra GPS-punkta sem geta komið sér vel í hlaupinu – og hins vegar tímaáætlun sem reynt verður að fylgja út í ystu æsar. Hlaupinu á að ljúka á Hólmavík stundvíslega kl. 16:00, en þá verða hlaupararnir þess heiðurs aðnjótandi að fá að skera fyrstu tertusneiðarnar af hnallþóruhlaðborði heimamanna. Til að þetta gangi upp og til að gera fólk kleift að slást í hópinn einhvers staðar á leiðinni fer hlaupið fram eins og hver önnur strætóferð, í þeim skilningi að hlaupararnir verða á tilteknum stöðum á tilteknum tímum.
GPS-punktar:
Beygjupunktur ofan við Brimilsgjá á Steinadalsheiði 65°29,85’N – 21°39,02’V
Innarlega á Vatnadal 65°30,19’N – 21°41,34’V
Gegnt Melrakkagili 65°31,68’N – 21°40,68’V
Hraundalur 65°32,69’N – 21°40,41’V
Torffell 65°35,67’N – 21°38,31’V
Tindur 65°36,09’N – 21°38,30’V
Tímatafla:
Vonandi slást sem flestir í hópinn á laugardaginn, annað hvort á hlaðinu á Kleifum kl. 10:50 eða einhvers staðar á leiðinni. Meiri upplýsingar um hlaupið er m.a. að finna á hlaup.is. Þar eru líka tenglar á glaðlegar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.
(Leiðarlýsingin hér að framan er byggð á samtölum við Birgittu Stefánsdóttur eldri, Hermann Jóhannesson frá Kleifum og Ragnar Bragason, bónda á Heydalsá).
Filed under: Hlaup | Tagged: Hamingjudagar, Hamingjuhlaup, Hólmavík, Kleifar, Vatnadalur |
[…] Hamingjuhlaup á laugardaginn […]