• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2014
    S M F V F F S
    1234567
    891011121314
    15161718192021
    22232425262728
    2930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Fimmti Þrístrendingurinn

Sonja SSJ 160Gleðihlaupið Þrístrendingur var háð í fimmta sinn sl. laugardag, en í þessu hlaupi er skeiðað tvisvar þvert yfir Ísland sama daginn, að vísu þar sem það er mjóst. Hlaupið er hugarfóstur Dofra Hermannssonar, frænda míns frá Kleifum í Gilsfirði, en við frændurnir höfum hjálpast að við að láta það þroskast. Nú hefur hlaupið verið haldið fimm sinnum og alltaf verið framúrskarandi skemmtilegt (að okkar mati).

Fimmti Þrístrendingurinn hófst á hlaðinu á Kleifum, rétt eins og allir hinir Þrístrendingarnar. Ævi okkar Dofra hófst eiginlega líka á þessu hlaði, þ.e.a.s. ef tildrögin er rakin hæfilega langt aftur í tímann, til dæmis til ársins 1851 þegar Jón Ormsson, langalangafi minn og langalangalangafi Dofra settist að á Kleifum. Hann var talinn vel gáfaður, ráðhollur og gestrisinn. Þessir eiginleikar eru misarfgengir. Afkomendur Jóns bjuggu á Kleifum æ síðan þar til búskapur lagðist af einhvern tímann um aldamótin 2000. En hvað sem því líður var fríður hópur hlaupara samankominn þarna á hlaðinu  á 11. tímanum á laugardagsmorgun í býsna efnilegu veðri. Einhverjar spár gerðu ráð fyrir rigningu, en það gerðum við Dofri ekki. Í samræmi við það var þurrt, skýjað, hægur vindur, örlítil þoka til fjalla og hitinn rétt um 11°C. Þetta flokkast sem gott hlaupaveður.

Samtals lögðu 12 manns hlaupandi af stað frá Kleifum þennan morgun og einn á hjóli. Brottfarartíminn var ekki alveg samræmdur, þar sem sumir reiknuðu með að fara hægar yfir en aðrir 0g lögðu því fyrr af stað. En síðustu menn lögðu alla vega í hann stundvíslega kl. 10:51. (Þegar betur er að gáð á þessi tímasetning reyndar ekkert skylt við stundvísi, þar sem hlaupið átti annað hvort að byrja kl. 10:30 eða 11:00. Enginn veit hvort er rétt).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. (Ljósm. Þröstur Árnason).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. (Ljósm. Þröstur Árnason).

1. áfangi: Kleifar – Stóra-Fjarðarhorn, 18,88 km, 1:54:26 klst, 9,90 km/klst.
(Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að tölfræðin sem kemur hér fram í millifyrirsögnum skiptir engu máli, nánar tiltekið alls engu, sérstaklega ekki klukkustundafjöldinn. Þrístrendingur er tímalaust hlaup, þar sem þúsund ár verða sem einn dagur, eða öfugt. Hins vegar hefur höfundur pistilsins unað sér við leik að tölum í meira en hálfa öld og er illfáanlegur til að leggja þá áráttu til hliðar).

Leiðin lá að vanda niður heimreiðina frá Kleifum, þvert fyrir botn Gilsfjarðar og áleiðis upp Brekkudal upp á Steinadalsheiði. Ég fór mér hægt á uppleiðinni og spjallaði margt við Ragnar bónda á Heydalsá. Stefán sonur hans var þarna á hjóli, og þá verða ferðalög upp brekkur seinleg. Reyndar geta ferðalög upp þessar tilteknu brekkur verið seinleg á fleiri farartækjum. Stundum rifja ég upp bílferðir um þessar slóðir í lok 8. áratugs síðustu aldar. Fararskjótarnir mínir á þeim tíma áttu það til að hrökkva úr gír í brekkum, eða hreinlega að afþakka hvers konar klifur, sérstaklega í lausamöl. Þá var þrautalendingin að bakka upp.

Stefán Snær á leið upp Steinadalsheiðina.

Stefán Snær á leið upp Steinadalsheiðina.

Þegar komið var lengra upp í brekkurnar sást glöggt að nýliðinn vetur hafði verið óvenju snjóþungur sunnanvert í heiðinni. Hins vegar benti flest til að veturinn hefði verið snjóléttur að norðanverðu. Þetta kom heim og saman við staðhæfingar kunnugra um að snjóalögum hefði verið óvenju misskipt þennan vetur. Þannig er því líka oft varið með önnur heimsins gæði.

Efst á Steinadalsheiðinni var svolítil þoka, en samt var norðangolan ekki tiltakanlega köld. Þarna skildi ég við feðgana frá Heydalsá og einsetti mér að ná fyrstu mönnum. Það tókst ekki fyrr en komið var niður undir jafnsléttu að norðanverðu. Fátt bar annars til tíðinda, vöðin voru álíka blaut og venjulega og skórnir sömuleiðis, og sögurnar sem ég sagði líklega líka þær sömu og í fyrra.

Áning, Stóra-Fjarðarhorn, 20:12 mín, nokkrar skonsusneiðar og hópmynd
Við Stóra-Fjarðarhorn beið okkar bíll sem komið hafði með eitthvað af fólki og vistum frá Kleifum, þ.á.m. forláta kælibox sem ég hafði fyllt af mat og drykk fyrr um morguninn til að reyna að kaupa mér vinsældir. Veit ekki hvort það tókst, en eitthvað lækkaði alla vega í boxinu. Svo var tekin hefðbundin hópmynd, og eftir það hurfu sumir til síns heima og aðrir bættust í hópinn. Þrístrendingur er nefnilega svo frjálslegt hlaup að þar er fólki frjálst að koma og fara að vild. Hins vegar er bannað að týnast.

2. áfangi: Stóra-Fjarðarhorn – Gröf, 9,45 km, 1:31:12 klst, 6,22 km/klst.
Næsta mál á dagskrá var Bitruháls. Þar fer hlaupabrautin hæst í 400 m. y.s. sem er hæsti punktur leiðarinnar. Leiðin liggur upp Fjarðarhornssneiðinga sem voru einu sinni færir hestakerru, en síðan þá eru liðin mörg ár og fáein ræsi. Eitt þessara opnu ræsa er orðið að skyldumyndastað í Þrístrendingshlaupum, enda brúnir þess vel hlaðnar og Þrúðardalur grösugur í baksýn. Núna var reyndar þokuslæðingur þarna norðanvert í hálsinum og útsýni því nokkuð skert. En veðrið lék engu að síður við okkur með hægum vindi og hlýindum. Langermastakkar voru óþarfir.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga.

Atli og Sonja byggðu brú yfir ræsið svo að allir kæmust yfir.

Atli og Sonja byggðu brú yfir ræsið svo að allir kæmust yfir.

Meðal helstu kennileita á leiðinni yfir Bitruháls eru upptök Broddár. Þau eru merkileg meðal annars vegna þess að þar eru landamerki ættaróðalsins í Gröf. Að þessum landamerkjum kom ég þó ekki fyrr en á fullorðinsárum, einfaldlega vegna þess að ég átti ekkert erindi þangað. Á æskuárunum var erindisleysa lítið í tísku.

Greinileg upphlaðin hestagata liggur áleiðis niður Bitruhálsinn frá Broddá. Þegar komið er niður í svonefndan Móhosaflóa verður á vegi manns brú, eða öllu heldur eitthvað sem einu sinni var brú, búin til úr símastaurum og símavírakeflum. Nú hafa veður og fúi náð að tortíma keflunum, en staurarnir liggja eftir, líklega hættir að verða grænir aftur þótt sólin skíni, en engu að síður hentugir til jafnvægisæfinga.

Á brúnni í Móhosaflóa. Hún hefur látið mikið á sjá á örstuttum tíma (síðustu 45 árum).

Á brúnni í Móhosaflóa. Hún hefur látið mikið á sjá á örstuttum tíma (síðustu 45 árum).

Ég og skíðin sem pabbi smíðaði fyrir mig um daginn. (Ljósm. Dofri).

Ég og skíðin sem pabbi smíðaði fyrir mig um daginn. (Ljósm. Dofri).

Segir nú ekki af ferðum okkar niður hálsinn að öðru leyti en því að við frændurnir gættum þess að segja öllum hlaupafélögunum frá því hversu einstaklega fótvissir við værum í ósléttu og grýttu landi, enda hefðum við alist upp við þessi skilyrði og lært að tipla fislétt á tám. Skipti það enda engum togum að ég rak tærnar í og steyptist fram yfir mig í grjótið. Þetta leit ekki vel út, eða var með öðrum orðum hvorki kúl né fallegt á að horfa. En meiðslin voru óveruleg. Þakklætið fyrir að hafa sloppið svona vel fylgdi mér það sem eftir var dagsins og næstu daga þar á eftir.

Hænsnakofinn ofan við túngarðinn í Gröf er að verða að föstum viðkomustað í Þrístrendingshlaupum, því að þar liggja enn skíðin sem pabbi smíðaði handa mér á ofanverðri síðustu öld. Þau höfðu sínar takmarkanir en voru engu að síður mikið notuð í skíðaferðum í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Sjálfur átti pabbi miklu stærri skíði sem hann notaði til ferðalaga. Mig minnir að hann hafi líka átt skíðastafi, en oftast notaðist hann þó við einn langan og þungan broddstaf sem hægt var að renna sér á einum og sér niður brattar brekkur. Þá list lærði ég aldrei.

Áning, Gröf í Bitru, 44:21 mín, gestrisni og pönnukökur
Rögnvaldur bróðir minn og Arnheiður sambýliskona hans tóku að vanda vel á móti hlaupurunum þegar þeir birtust á hlaðinu við nýja glæsihúsið í Gröf. Nokkrir úr hópnum brugðu sér í stutta skoðunarferð í gamla bæinn þar sem ég fæddist undir súð einhvern tímann fyrir löngu í frekar vondu veðri síðla vetrar, en aðalverkefnið í þessari hvíld var að gæða sér á pönnukökum húsfreyjunnar. Þessar pönnukökur eru fyrir löngu orðnar eitt helsta aðdráttarafl Þrístrendings. Algengt er að boðið sé upp á kökur að hlaupum loknum, en mikið vantar upp á að það sama sé gert í miðjum hlaupum. Þarna hefur Þrístrendingur nokkra sérstöðu. Að vísu hafa sumir haft á orði að erfitt sé að hlaupa áfram eftir þessar móttökur, en ég lít á það sem skammtímavandamál, eða kannski bara upprifjun á því hvernig manni leið í gamla daga þegar maður var kominn í stígvélin á leið aftur út í heyskap eftir góðan kaffitíma síðdegis.

Við veisluborðið í Gröf. Hér fylgist Arnheiður húsfreyja með því að Fjölnismenn (og Gunnar) vanhagi ekki um neitt.

Við veisluborðið í Gröf. Hér fylgist Arnheiður húsfreyja með því að Fjölnismenn (og Gunnar) vanhagi ekki um neitt.

3. áfangi: Gröf – Kleifar, 11,84 km, 1:30:02 klst, 7,89 km/klst.
Við Gitta mín fylgdumst að fyrsta spölinn frá Gröf áleiðis fram í Krossárdal. Fátt er skemmtilegra en að hlaupa með börnunum sínum – og það breytist ekkert þó að þau séu farin að nálgast þrítugt. Já, og við vorum sem sagt á leiðinni fram í Krossárdal, því að á mínum bernskuslóðum fer maður fram til dala og út til sjávar. Þetta veldur stundum misskilningi hjá þeim sem fara inn til dala og fram til sjávar.

Það teygðist töluvert úr hlauparahópnum á leiðinni fram dalinn, en þó ekki meira en svo að hver og einn sæi ekki til næsta manns á undan. Þannig minnka líkur á að einhver villist, en þarna er ekki greinileg slóð alla leið. Norðanmennirnir Gunnar Atli og Gísli Einar fóru mikinn á þessum kafla og Gunnar Viðar fylgdi þeim eftir, enda lítið fyrir að dragast aftur úr. Ekki sáust þreytumerki á nokkrum manni þó að kílómetrarnir væru farnir að nálgast fjórða tuginn. Sporin léttust enn frekar þegar komið var suður að Krossárvatni. Sumir gengu svo langt að leggjast til sunds í vatninu, en aðrir nutu þess að vera aftur komnir á greinilega götu og mjúkt undirlag.

Dofri á sundi í Krossárvatni. Tíkin Hneta er greinilega þreytt á þessu athæfi (en líklega vön).

Dofri á sundi í Krossárvatni. Tíkin Hneta er greinilega þreytt á þessu athæfi (en líklega vön).

Og þá opnaðist okkur sýn út á Breiðafjörð. (Ljósm. Sonja Sif).

Og þá opnaðist okkur sýn út á Breiðafjörð. (Ljósm. Sonja Sif).

Þykkir skaflar voru sums staðar í Kleifunum, en leiðin var samt öll greiðfær. Fyrr en varði opnaðist sýn út á Breiðafjörðinn og veðrið, sem hafði í raun leikið við okkur allan daginn, varð jafnvel enn betra. Sólin kíkti meira að segja á okkur til að auka enn á gleðina. Loks var ekkert annað eftir en að tipla niður Hafursgötuna og niður túnið á Kleifum. Þangað kom ég rétt fyrir klukkan 5. Atli, Gísli og Gunnar voru hvergi sjáanlegir, enda höfðu þeir brugðið sér út að hlaupa niður á þjóðveg. Dagleiðin var nefnilega ekki orðin nema rúmlega 41 km, og auðvitað fannst þeim ekki taka því að hætta fyrr en fullri maraþonvegalengd væri náð. Við hin létum það hjá líða, nema hvað ég skokkaði aftur upp túnið og uppundir Hafursgötu til móts við þá síðustu í hópnum.

Sonja Sif á brúninni. Góður dagur og 41 km senn að baki.

Sonja Sif á brúninni. Góður dagur og 41 km senn að baki.

Sögulok og kjötsúpa
Fyrr en varði höfðu allir skilað sér og eftir einhver fataskipti og almenna tiltekt í farangrinum var sest að veisluborði úti undir vegg á Kleifum. Þar hafði tengdamóðir Dofra galdrað fram dýrindis kjötsúpu sem var einstaklega vel þegin að loknu dagsverki. Þetta gat varla orðið betra!

Birna, Dofri og Birgitta á pallinum á Kleifum í kjötsúpuveislu að hlaupi loknu.

Birna, Dofri og Birgitta á pallinum á Kleifum í kjötsúpuveislu að hlaupi loknu.

Hlaupafélagar dagsins
Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2014:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Dofri Hermannsson
    Gautur Þorsteinsson
    Gísli Einar Árnason
    Gottskálk Friðgeirsson
    Gunnar Atli Fríðuson
    Gunnar Viðar Gunnarsson
    Karl Jón Hirst
    Magnús Jónsson
    Rósa Friðriksdóttir
    Sonja Sif Jóhannsdóttir
    Stefán Gíslason
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
    Birna Guðmundsdóttir
  • Tveir fjallvegir (Bitruháls og Krossárdalur):
    Birgitta Stefánsdóttir
  • Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
    Ragnar Bragason
    Stefán Snær Ragnarsson (hjól)
  • Einn fjallvegur (Krossárdalur):
    Hulda Lilja Guðmundsdóttir

4 svör

  1. […] á þessum reikningi má sömuleiðis finna eitt og hálft fjallvegahlaup yfir Leggjabrjót, 41 km Þrístrending og 37 km Hamingjuhlaup. Ég er þeirrar skoðunar að einstakir hlaupaviðburðir af þessu tagi […]

  2. […] 2. Þrístrendingur, laugardag 20. júní 2015 Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í sjötta sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasögur frá liðnum sumrum eru geymdar í gagnaverum víða um heim. Dæmi um það er ferðasagan frá sumrinu 2014. […]

  3. […] á dagskránni var svo skemmtihlaupið Þrístrendingur sem við Dofri Hermannsson, frændi minn, stóðum nú fyrir 5. árið í röð. Leiðin liggur […]

  4. […] 2. Þrístrendingur, laugardag 20. júní 2015 Í sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í sjötta sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasögur frá liðnum sumrum eru geymdar í gagnaverum víða um heim. Dæmi um það er ferðasagan frá sumrinu 2014. […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: