• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júlí 2014
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hamingja, þakklæti og hlaup

???????????????????????????????Hamingjuhlaupið fór fram í sjötta sinn laugardaginn 28. júní sl. í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Að þessu sinni lá leiðin frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur, samtals tæplega 37 km leið, og eins og vænta mátti var hamingjan með í för allan tímann. Í samræmi við hefðina endaði hlaupið við tertuhlaðborð neðst á Klifstúninu á Hólmavík, þar sem hlaupararnir fengu að skera og snæða fyrstu tertusneiðarnar, svona rétt til að auka enn frekar á hamingjuna.

Ha? Hamingja!?
Eðlilegt er að spurt sé hvernig fólk geti orðið hamingjusamt með því að hlaupa klukkutímum saman um vegleysur. Við þessari spurningu eru mörg svör en hér verða aðeins þrjú þeirra tíunduð:

  1. Hamingjan felst í þakklætinu yfir því að geta hlaupið sér til ánægju eða yfirleitt yfir því að forsjónin og fólkið í kringum mann geri manni kleift að gera það sem mann langar til á þessum stað og þessari stundu.
  2. Hamingjan felst í því að vera úti í náttúrunni með öðru hamingjusömu fólki, rennandi vatni, lykt af lyngi, fuglahljóðum og víðáttu sem virðist óendanleg þar sem maður er staddur í smæð sinni.
  3. Hamingjan felst í því að vera þátttakandi í sameiginlegu verkefni, þar sem hamingjan er leiðarstefið. Þannig er það á Hamingjudögum á Hólmavík.

Hvernig byrjaði þetta?
Hamingjuhlaupin urðu upphaflega til fyrir tilviljun. Fjölskyldan mín og ég höfum sótt Hamingjudaga á Hólmavík í flest þau skipti sem þeir hafa verið haldnir og þá lá beint við að bregða sér í góðan hlaupatúr í kyrrðinni sem oft er svo áberandi á Hólmavík snemma morguns. Og af því að þetta var einhvern veginn orðinn árlegur viðburður lá beint við að tengja hann Hamingjudögum og bjóða öðrum að njóta með sér. Þessa sögu hef ég reyndar rakið áður og endurtek ekki þá frásögn hér. Alla vega þróaðist þetta þannig að fyrsta Hamingjuhlaupið var hlaupið frá Drangsnesi til Hólmavíkur sumarið 2009 – og síðan hefur þetta verið árvisst.

Þrátt fyrir hefðina er Hamingjuhlaupið afskaplega óhefðbundið hlaup. Þetta er t.d. ekki keppnishlaup, heldur fylgjast hlaupararnir alla jafna að og fara ekki hraðar en svo að flestum sé fært að skokka með einhvern hluta leiðarinnar. Og svo er hlaupaleiðin líka síbreytileg, þar sem ævinlega er reynt að finna nýja leið að ári til að gera upplifunina enn hamingjuríkari.

Á leiðinni á ball?
Móðir mín heitin var fædd og uppalin á Kleifum í Gilsfirði. Hjá henni heyrði ég fyrst um Vatnadal sem færa leið á milli byggða Breiðafjarðar og Húnaflóa, en þessa leið fóru eldri bræður hennar ríðandi á millistríðsárunum á leið sinni á böllin á Hólmavík. Hægt er að fara mismunandi leiðir upp úr Gilsfirði, en nú til dags er hentugast að fylgja veginum áleiðis upp á Steinadalsheiði, fyrst að þessi vegur er þarna á annað borð, og beygja síðan af honum þegar komið er upp fyrir Brimilsgjá og halda þaðan vestur yfir hæðina sem skilur að Brekkudal og Vatnadal. Þessari leið lýsti ég í bloggi á dögunum.

Ferðasagan 2014
Að morgni laugardagsins fórum við átta saman á tveimur bílum frá Hólmavík um Þröskulda að Kleifum. Á svona ferðalögum er maður háður því að eiga góða að, því að bílarnir keyra sig ekki sjálfir til baka. Að þessu sinni tóku eiginkonan Björk og dóttirin Birgitta þessi hlutverk að sér. Björk er öllu vön í þessum fræðum, enda hefur hún aðstoðað mig í flestum þeim uppátækjum mínum sem snúast um að hlaupa frá einum stað til annars um fjöll og firnindi.

Við vorum komin tímanlega að Kleifum, þ.e.a.s. um hálftíma áður en hlaupið átti að hefjast. Þar voru fyrir tveir hlauparar sem höfðu beðið þar drjúga stund. Upplýsingar um tímasetninguna höfðu nefnilega verið svolítið misvísandi, því að hlaupið átti ýmist að hefjast kl. 9:50 eða 10:50 eftir því hvaða orðsendingar menn höfðu lesið. En þetta kom ekkert að sök, því að Hermann frændi minn og hluti af hans skylduliði var einmitt statt á Kleifum. Þau tóku vel á móti fólki og liðsinntu því á allan hátt.

Laust fyrir kl. 10:50 lögðum við í hann átta saman. Veðrið lék við okkur, hitinn var kominn vel yfir 10 stig, loft var skýjað en þurrt og svolítil gola blés af suðvestri. Einhver þoka sást á fjöllum en bara á hæstu tindum. Og veðurspáin gaf fyrirheit um lítil frávik frá þessu. Þetta hlaut að verða góður dagur.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v. Bryndís Óladóttir, Sævar Skaptason, Gunnar Viðar Gunnarsson, Birkir Þór Stefánsson, Stefán Gíslason, Arnar Barði Daðason, Kolbrún Unnarsdóttir og Hafþór Rafn Benediktsson. (Ljósm. Björk Jó).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v. Bryndís Óladóttir, Sævar Skaptason, Gunnar Viðar Gunnarsson, Birkir Þór Stefánsson, Stefán Gíslason, Arnar Barði Daðason, Kolbrún Unnarsdóttir og Hafþór Rafn Benediktsson. (Ljósm. Björk Jó).

Hamingjuhlaupin fylgja alltaf fyrirfram ákveðinni tímaáætlun sem gerir það mögulegt að slást í hópinn á ákveðnum stöðum í hlaupinu og tryggir sem best að allir skili sér til Hólmavíkur í tæka tíð fyrir tertuskurðinn. Misauðvelt er að áætla tímann, enda ræðst hraðinn í svona hlaupi af mörgum þáttum. Til dæmis er mun seinlegra að hlaupa í þúfum og stórgrýti þar sem hvergi mótar fyrir götu, heldur en á troðnum slóðum og bílvegum. Eins skiptir hæðarlegan miklu máli. Hvað sem þessu líður héldum við nokkurn veginn áætlun á fyrsta áfanganum, sem var rétt um 6 km spölur frá Kleifum og upp fyrir Brimilsgjá. Ferðalagið þangað tók um 45 mínútur, enda um 300 m hækkun inni í spilinu.

Á leið upp Steinadalsheiði. Þarna er eiginlega of bratt til að hlaupa.

Á leið upp Steinadalsheiði. Þarna er eiginlega of bratt til að hlaupa.

Næsti áfangi hlaupsins var seinlegri en sá fyrsti. Við beygðum sem sagt til vinstri út af Steinadalsheiðarveginum, óðum ána eða stukkum kannski yfir hana og tókum stefnuna beint upp vesturhlíð dalsins. Fyrst lá leiðin um blauta mýri og síðan tóku við brött malarholt. Sums staðar lágu skaflar í lautum enda undangenginn vetur snjóþungur sunnan til í heiðum.

Enn á uppleið. Horft norður Steindadalsheiði og í fjarska grillir í Heiðarvatn.

Enn á uppleið. Horft norður Steindadalsheiði og í fjarska grillir í Heiðarvatn.

Fyrr en varði vorum við komin efst upp á hæðina milli Brekkudals og Vatnadals. Ekkert okkar hafði farið þessa sömu leið áður og til öryggis hafði ég sett nokkra GPS-punkta inn í hlaupaúrið mitt. Slíkt er sérstaklega nauðsynlegt þar sem von getur verið á þoku. Fyrsti punkturinn var niðri í Vatnadal þar sem mér sýndist á korti að hentugt væri að fara niður í dalinn. Þarna uppi á hæðinni var hins vegar auðséð að nákvæm staðsetning niðurgöngunnar skipti litlu máli. Hlíðin er vissulega brött, en hvergi svo að erfitt sé að fóta sig. Við tókum því stefnuna á ská út og niður hlíðina til að stytta leiðina örlítið.

Á hæstu hæðum.

Á hæstu hæðum.

Þarna í hlíðinni lá gríðarþykkur brattur skafl sem var furðu erfiður yfirferðar þótt allt væri það á eindregnu undanhaldi. Þegar komið er fram á sumar er yfirborð svona skafla oftast meyrt, þar sem efsta lagið nær að bráðna svolítið yfir daginn. Líklega vorum við of snemma á ferð þennan dag til að þetta ætti við. Alla vega var yfirborðið svo hart að hlaupaskórnir mörkuðu naumast í það spor. Við aðstæður sem þessar skiptir máli að vera í góðum utanvegaskóm með grófum botni.

Bryndís á leið niður fannirnar í austurhlíð Vatnadals. Niðri í dalnum sést í Miðdalsána.

Bryndís á leið niður fannirnar í austurhlíð Vatnadals. Niðri í dalnum sést í Miðdalsána.

Ferðin niður skaflinn gekk áfallalaust og fyrr en varði stóðum við á bökkum Miðdalsár. Ætlunin var að hlaupa niður með ánni að vestanverðu og því var aftur tekið til við að vaða eða stökkva, allt eftir því hvaða skoðanir hver og einn hafði á eigin getu. Landið vestan við ána er auðveldara yfirferðar en að austanverðu. Að austan er hallinn meiri, auk þess sem þar skera brött gil hlíðina.

Hjálpast að yfir Miðdalsána.

Hjálpast að yfir Miðdalsána.

Þegar yfir ána var komið tók við hlaup áleiðis niður dalinn, eða öllu heldur hlaup og ganga til skiptis. Þarna eru engar sléttar grundir þar sem virkilega er hægt að spretta úr spori, heldur skiptast á blautar mýrar og grösugir móar. Eftir því sem neðar dregur í dalnum verða kindagötur gleggri og þar er auðveldara að hlaupa við fót en í ósnertum móum.

Kolla á ferð í dæmigerðu landslagi Vatnadals.

Kolla á ferð í dæmigerðu landslagi Vatnadals.

Samkvæmt tímaáætluninni lauk næsta áfanga hlaupsins gegnt Melrakkagili, skammt frá sýslumörkum Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu, já eða hreppamörkum Reykhólahrepps og Strandabyggðar. Þarna vorum við orðin u.þ.b. 10 mín. á eftir áætlun, enda leiðin heldur seinfarin auk þess sem eitt okkar hafði snúið sig lítillega á ökkla. Þau meiðsli reyndust ekki alvarleg en öll skakkaföll af þessu tagi seinka manni eðlilega ef eitthvað er. Tíu mínútna skekkja var þó ekkert áhyggjuefni, enda löng leið framundan og nógur tími til að vinna upp þennan tíma. Til vara hafði ég auk heldur gert ráð fyrir 12 mínútna tímajöfnun á vegamótunum innan við Sævang þar sem komið yrði inn á veginn norður Strandir til Hólmavíkur.

Af lýsingum að dæma bjóst ég við að næsti áfangi yrði seinfarinn, þ.e.a.s. leiðin frá Melrakkagili niður í mynni Hraundals sem gengur vestur úr Miðdal. Sú var þó ekki raunin. Þessi spölur reyndist furðu fljótfarinn, enda víðast greinilegar kindagötur og jafnvel slóð eftir jeppa sem stundum eru notaðir til að flytja smala þarna inneftir á haustin. Sums staðar eru líka nokkuð sléttar eyrar meðfram ánni. Við Birkir bóndi í Tröllatungu vorum fyrstir niður í Hraundal, enda tókum við okkur það fyrir hendur á leiðinni að komast fyrir nokkra hópa af kindum sem tekið höfðu á rás niður dalinn þegar þær urðu varar við þessar óvenjulegu mannaferðir. Það hefði verið leiðinlegt að smala öllu safninu til byggða svona um mitt sumar. Reyndar forðuðu þær sér flestar inn í Hraundal þar sem beitilandið er sjálfsagt engu síðra en á Vatnadalnum.

Birkir í Tröllatungu er vafalítið í hópi fótfráustu bænda enda ýmsu vanur úr skíðagöngum og löngum hlaupum síðustu árin. Viku fyrir Hamingjuhlaupið missti hann reyndar af skemmtihlaupinu Þrístrendingi, því að degi fyrr fékk hann óvænt far með sjúkrabíl suður á kant, þar sem grípa þurfti til aðgerða gegn bráðum krankleika sem á hann sótti. En vika er langur tími, alla vega fyrir Birki. Fátt benti til þess að hann væri nýstiginn upp úr sjúkrarúmi.

Við áðum um stund við Hraundalsá og gæddum okkur á nesti, sem var að vanda af léttari gerðinni. Í fjallahlaupum hentar hvorki að bera miklar byrðar né innbyrða mikið af mat. Næring og vökvun eru engu að síður afskaplega mikilvægir þættir ef ætlunin er að halda kröftum á langri leið.

Hópmynd við Hraundalsá kl. 13.01. Allt á áætlun, 13 km búnir og 24 eftir.

Hópmynd við Hraundalsá kl. 13.01. Allt á áætlun, 13 km búnir og 24 eftir.

Þegar við komum að Hraundalsá höfðum við unnið upp mínúturnar sem upp á vantaði við Melrakkagil – og reyndar gott betur. Sá ágóði hvarf þó í nestistímanum, þannig að þegar við lögðum aftur af stað var tímaáætlunin nokkurn veginn í járnum. Ég hafði reiknað með að næsti áfangi frá Hraundalsá niður fyrir Torffell væri frekar fljótfarinn. Hann reyndist þó drjúgur, því að þarna er enn töluvert um þúfur og skorninga sem koma í veg fyrir hröð hlaup. Þegar við komum niður að Torffelli vorum við aftur komin um 10 mínútum á eftir áætlun. En nú hlaut þetta að fara að ganga hraðar, því að framundan var greinilegur vegarslóði meðfram ánni og síðan upp túnið við eyðibýlið Tind.

Arnar Barði á leiðinni frá Hraundal niður að Tind. Vatnadalur í baksýn til vinstri og Hraundalur til hægri.

Arnar Barði á leiðinni frá Hraundal niður að Tind. Vatnadalur í baksýn til vinstri og Hraundalur til hægri.

Við Tind slóst níundi hlauparinn í hópinn, Ingibjörg Benediktsdóttir frá Hólmavík. Þarna voru líklega um 17 km eftir af hlaupinu. Svo langt hafði hún aldrei hlaupið, en eitt af því hamingjuríka við Hamingjuhlaupið er að í því felast tækifæri fyrir fólk til að takast á við nýjar áskoranir og ná nýjum markmiðum.

Ingibjörg Ben. nýlögð af stað frá Tind.

Ingibjörg Ben. nýlögð af stað frá Tind.

Við hertum heldur á okkur á næsta áfanga, enda komin á greiðfæran jeppaveg. Fyrr en varði vorum við komin að vaðinu á Miðdalsá neðan við Gestsstaði. Talsvert vatn var í ánni en engu að síður auðvelt að vaða hana þar sem botninn var tiltölulega sléttur og straumurinn hóflegur. Í fjallahlaupum hirðir fólk sjaldnast um að halda skónum sínum þurrum enda óvenjulegt að slíkt sé yfirleitt í boði. Góðir utanvegaskór eru líka þannig gerðir að vatn á álíka greiða leið út úr þeim eins og inn í þá. Oftast dugar því að stappa nokkrum sinnum niður fótum þegar yfir er komið. Þá er eins og ekkert hafi í skorist.

Bryndís komin upp úr Miðdalsánni fyrir neðan Gestsstaði.

Bryndís komin upp úr Miðdalsánni fyrir neðan Gestsstaði.

Við Miðdalsána bættist Magnús bóndi á Stað í hópinn og áfram var haldið niður að bænum Klúku. Þar beið Björk með vistir og þar slóst Birgitta í för með okkur. Hlaupurunum fjölgaði svo enn þegar komið var niður á malbikið á aðalveginum til Hólmavíkur. Um það leyti var ég hættur að hafa nákvæma tölu á hópnum, en þóttist þess þó fullviss að enginn hefði týnst á leiðinni. Þarna var ætlunin að viðhafa svolitla tímajöfnun, en þess gerðist ekki þörf, því að þegar inn á malbikið var komið var ferðalagið í fullu samræmi við tímaáætlunina. Framundan var 11,5 km malbikshlaup til Hólmavíkur.

Á leið upp Heiðarbæjarmela. Ingibjörg fremst, þá Birgitta og síðan Hafþór. 10,5 km eftir til Hólmavíkur.

Á leið upp Heiðarbæjarmela. Ingibjörg fremst, þá Birgitta og síðan Hafþór. 10,5 km eftir til Hólmavíkur.

Aðstæður á malbikinu eru auðvitað miklu staðlaðri en í óbyggðum. Þess vegna er frekar auðvelt að gera raunhæfar tímaáætlanir fyrir hamingjuhlaup á malbiki. Þar miða ég yfirleitt við að hver kílómetri sé hlaupinn á tæpum 7 mín, sem samsvarar rúmlega 8,5 km/klst. Þetta finnst eflaust mörgum hlaupurum hægt, en tilgangurinn er jú sá að sem flestir geti slegist í hópinn óháð aldri og fyrri íþróttaafrekum. Þetta gekk líka eftir því að meðfram leiðinni biðu sums staðar bílar og út úr bílunum kom fólk sem tók til fótanna með okkur.

Ég hafði gefið upp nokkrar staðsetningar í tímaáætluninni, sem ég notaði sjálfur til að ganga úr skugga um að allt væri á áætlun. Þetta var auðvelt verk og rétt um kl. 15:50 vorum við komin að lögreglustöðinni á Kálfanesskeiði í útjaðri Hólmavíkur. Þar var liðinu safnað saman og tekin hópmynd, sem sýnir svo ekki verður um villst að hópurinn hafði stækkað og taldi nú 25 manns, þar af 6 sem hlaupið höfðu alla leiðina.

Hópmynd við lögreglustöðina á Hólmavík. Reyndar eru bara 23 á myndinni, en það var vegna þess að tvo vantaði. (Ljósm. Björk).

Hópmynd við lögreglustöðina á Hólmavík. Reyndar eru bara 23 á myndinni, en það var vegna þess að tvo vantaði. (Ljósm. Björk).

Svo var beðið eftir merki frá Esther hamingjustjóra um það hvenær óhætt væri að taka á rás inn á hátíðarsvæðið. Þangað var ætlunin að mæta kl. 16:00, en eðlilega getur þurft að færa þá tímasetningu til um nokkrar mínútur til að allt sé tilbúið í tertuskurðinn. Að þessu sinni var allt innan skekkjumarka, þannig að strax að lokinni myndatöku var lagt upp í síðasta áfangann, svo sem 1400 m þægilegt skokk niður Sýslumannshallann, fram hjá Hvoli og Grímeyjarhúsinu og áfram sem leið lá inn á hátíðarsvæðið neðst á Klifstúninu út og niður af Brennuhól þar sem Hólmavíkurkirkja horfir yfir plássið. Að baki voru tæpir 37 km og rúmar 5 klst. frá því að við lögðum að stað frá Kleifum.

Móttökurnar við endamarkið voru glæsilegar að vanda. Þar var Esther búin að láta hamingjugesti mynda hamingjugöng sem við hlupum í gegnum síðasta spölinn. Við tóku hefðbundnar kveðjur og svo var ekkert annað eftir en að setjast í grasið og njóta veitinganna. Þetta var búinn að vera góður dagur og hamingjan breiddist yfir allt svæðið.

Hamingjugöngin. Hlauparar fá varla betri móttökur annars staðar! (Ljósm. Hamingjudagar).

Hamingjugöngin. Hlauparar fá varla betri móttökur annars staðar! (Ljósm. Hamingjudagar).

Takk!!!
Athuganir mínar benda til að hamingja og þakklæti séu nátengdar tilfinningar. Alla vega var ég ekki bara hamingjusamur að hlaupi loknu, heldur líka þakklátur, sérstaklega í garð forsjónarinnar, fjölskyldunnar minnar, hlaupafélaga dagsins, Estherar hamingjustjóra og Hólmvíkinga allra, svo fátt eitt sé nefnt. Það eru forréttindi að fá að njóta svona daga.

Eitt lítið sýnishorn af Hnallþóruhlaðborðinu (með stórum staf). (Ljósm. Björk).

Eitt lítið sýnishorn af Hnallþóruhlaðborðinu (með stórum staf). (Ljósm. Björk).

Hamingja, þakklæti og tertur að hlaupi loknu. (Ljósm. Björk).

Hamingja, þakklæti og tertur að hlaupi loknu. (Ljósm. Björk).

6 svör

  1. […] sömuleiðis finna eitt og hálft fjallvegahlaup yfir Leggjabrjót, 41 km Þrístrending og 37 km Hamingjuhlaup. Ég er þeirrar skoðunar að einstakir hlaupaviðburðir af þessu tagi skili miklu. Ég upplifi […]

  2. […] 3. Hamingjuhlaupið, laugardag 27. júní 2015 Þennan dag verður kominn tími á 7. Hamingjuhlaupið, en það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur. Þarna er hlaupið eftir fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hamingjuleiðin 2015 liggur um Laxárdalsheiði frá Klukkufelli í Reykhólasveit, inn fyrir Þiðriksvallavatn og svo sem leið liggur til Hólmavíkur. Vegalengdin er sjálfsagt rúmlega 30 km og þeir sem ekki treysta sér alla leiðina geta slegist í hópinn hvar sem er eftir að komið er niður í Þiðriksvalladal. Þetta verður allt kynnt miklu betur þegar nær dregur, en þangað til er hægt að stytta sér stundir við lestur eldri frásagna af Hamingjuhlaupum, t.d. frá sumrinu 2014. […]

  3. […] hefðbundna skemmtunin í þessum flokki var Hamingjuhlaupið í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík 28. júní. Að þessu sinni var lagt upp frá Kleifum […]

  4. […] 3. Hamingjuhlaupið, laugardag 27. júní 2015 Þennan dag verður kominn tími á 7. Hamingjuhlaupið, en það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur. Þarna er hlaupið eftir fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hamingjuleiðin 2015 liggur um Laxárdalsheiði frá Klukkufelli í Reykhólasveit, inn fyrir Þiðriksvallavatn og svo sem leið liggur til Hólmavíkur. Vegalengdin er sjálfsagt rúmlega 30 km og þeir sem ekki treysta sér alla leiðina geta slegist í hópinn hvar sem er eftir að komið er niður í Þiðriksvalladal. Þetta verður allt kynnt miklu betur þegar nær dregur, en þangað til er hægt að stytta sér stundir við lestur eldri frásagna af Hamingjuhlaupum, t.d. frá sumrinu 2014. […]

  5. […] 2014: Líf og yndi í grænum dal, […]

  6. […] var einnig hlaupinn í Hamingjuhlaupinu 2014, en þá var lagt af stað frá Kleifum í Gilsfirði og byrjað á að hlaupa áleiðis upp á […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: