Stundum fallast okkur hendur þegar talið berst að umhverfismálum, einfaldlega vegna þess að okkur þykja viðfangsefnin yfirþyrmandi og erum þess fullviss að við getum engu breytt. Hvert okkar um sig er jú bara örlítill dropi í mannhafinu, nánar tiltekið bara einn einasti dropi af rúmlega sjöþúsund milljón dropum samtals. Það er því út af fyrir sig ekkert einkennilegt að okkur finnist við vera fá og smá – og reyndar gildir það sama hvort sem við lítum í eigin barm eða hugsum fyrir íslensku þjóðina alla. Þjóðin öll er jú heldur ekki ýkja margir dropar þegar á heildina er litið.
Ég hef einhvern tímann orðað það svo að stærsta umhverfisvandamál heimsins sé, þegar allt kemur til alls, hvorki loftslagsbreytingar, eyðimerkurmyndun né mengun vatns og jarðvegs, heldur sú trú eða skoðun einstaklingsins að það sem hann gerir eða gerir ekki hafi engin áhrif á heildina. Öll hin vandamálin eru eiginlega bara afleiðing af þessu vandamáli. Sú trú að við fáum engu breytt er að mínu mati beinlínis hættuleg. Hún er eiginlega fyrsta skrefið í algjörri uppgjöf, sem væri sjálfsagt kölluð UPPGJÖF 101 ef hún væri kennd í framhaldsskólum. Við getum nefnilega vel haft áhrif – og ef við getum það ekki getur það enginn. Allir hinir milljón skrilljón droparnir eru jú bara dropar eins og við þegar allt kemur til alls.
Nú er eðlilegt að spurt sé hvernig í ósköpunum við getum beitt þessari getu til áhrifa sem ég held fram að við búum yfir. Svarið við þessari spurningu er ekki einfalt, enda er auðvitað ekki til neitt eitt rétt svar hér frekar en annars staðar. En þrennt af því sem við getum gert til að hafa áhrif er alla vega að kjósa, að spyrja og að sýna. Þessi pistill fjallar um þessar þrjár mögnuðu en vanmetnu aðferðir.
Við getum sem sagt í fyrsta lagi breytt með því að kjósa. Það gerum við ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Með hverri svona ákvörðun höfum við áhrif.
Í öðru lagi getum við breytt með því að spyrja. Hér hentar aftur vel að taka Nettó og Bónus sem dæmi, já eða bara hvaða verslun sem er. Ef okkur er ekki sama um það hvaðan varan sem við kaupum kemur, hvað hún inniheldur og hvernig hún er framleidd – og ef við getum ekki fengið að vita nægju okkar um það með því að skoða merkin á umbúðunum eða lesa innihaldslýsinguna, þá eigum við að spyrja. Allar spurningar hafa að minnsta kosti tvíþættan tilgang. Tilgangurinn með því að spyrja er nefnilega ekki bara sá að fá svar, heldur líka að láta vita að manni sé ekki sama. Ef okkur vantar að vita eitthvað en spyrjum ekki, þá er okkur sama. Þá erum við með öðrum orðum að afsala okkur því valdi sem við höfum til að hafa áhrif. Nú halda kannski sumir að það sé tilgangslaust að spyrja einhverra svona spurninga í búðum, til dæmis spurninga um það hvort varnarefni hafi verið notuð við ræktun á vínberjunum eða hvort gallabuxurnar hafi verið bleiktar með nonýlfenólethoxýlötum. Fólk sem vinnur í búðum viti nefnilega ekkert um svoleiðis hluti. Þetta getur svo sem alveg verið rétt, en það er þá örugglega vegna þess að enginn hefur spurt um þetta áður. Allir hinir hafa líkast til líka haldið að það þýddi ekki neitt. Hér er vert að hafa í huga það sem almennt gildir í viðskiptum, að eftirspurn er ekki eftirspurn nema þeir sem sjá um framboðið frétti af henni.
Þriðja einfalda leiðin til að hafa áhrif er að sýna, nánar tiltekið að sýna gott fordæmi. Rannsóknir benda reyndar til að fátt eða jafnvel ekkert sé líklegra til að hafa áhrif að hegðun fólks en einmitt það hvernig fyrirmyndir þess hegða sér. Og öll erum við fyrirmyndir einhverra. Við erum til dæmis fyrirmyndir barnanna okkar, annarra í fjölskyldunni, vinnufélaganna, nemendanna og sjálfsagt margra annarra sem við vitum ekki einu sinni að líta upp til okkar og taka eftir því sem við gerum. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stöðva.
Reyndar geymir sagan ótal mörg dæmi sem ættu að duga til að sýna okkur fram á að það sem einstaklingurinn gerir eða gerir ekki getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir heildina. Hver hefur til dæmis ekki heyrt um eldhugann sem reif upp íþróttastarfið í smábænum þar sem flest hafði legið í láginni árum saman og hver hefur til dæmis ekki heyrt talað um Nelson Mandela. Allt í kringum okkur sjáum við dæmi um fólk sem tók ástfóstri við tiltekið viðfangsefni og hreif aðra með sér. Og fyrr en varði var þetta litla frumkvæði orðið að fjöldahreyfingu. Með tilkomu samfélagsmiðla gerist þetta jafnvel margfalt hraðar nú en nokkru sinni fyrr.
Niðurstaðan er í stuttu máli þessi: Hvert okkar sem er getur haft veruleg áhrif, bæði í umhverfismálum og á öðrum sviðum. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti, meðal annars með því að vera meðvitaður um að allar ákvarðanir sem við tökum fela í sér kosningu með eða á móti einhverju, með því að spyrja um allt sem við viljum vita, ekki bara til að fá svarið heldur líka til að láta vita að okkur sé ekki sama og með því að sýna öðrum gott fordæmi, því að þessir aðrir eru miklu fleiri en maður heldur. Niðurstaðan í enn styttra máli felst í orðum Edmunds Burke sem sagði á sínum tíma: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.
(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 mánudaginn 21. júlí 2014).
Filed under: Sjálfbær þróun, Stjórnmál, Umhverfismál |
Jæja Stefán,
Það klikkar nú aldrei hjá þér að taka mig föstum tökum með þínum pistlum. Þessi var enn eitt dæmi um það, mesta þrautsegi og dugnað í honum eins og alltaf! Það er nú reyndar alltof sjaldan að ég geri sjálfum mér glaðan dag við að flétta upp bloggsíðuna þína en í hvert einasta skipti sem ég geri það tekst þér að gripa mig, það er svo dagsatt sem þú skrífar hér og ég get ekki nema samþykkt með miklu virðingu fyrir að koma þessu svo vel að orði. Bestu þakkir fyrir það!
Cees frá Hollandi
Takk Cees, það skiptir mig miklu máli að fá svona umsögn. Það hvetur mig til að halda áfram á sömu braut! Bestu kveðjur út til Fríslands.