• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júlí 2014
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Fimmta pébé sumarsins

Í markinu. Ljósm. Gunnlaugur Júl.

Í markinu. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Þegar ég var ungur drengur í sveitinni héldum við bræðurnir okkar eigin „einkafrjálsíþróttamót“ og að sjálfsögðu voru öll úrslit vandlega skráð í bækur. Þar kemur víða fyrir skammstöfunin „pm“ sem stendur fyrir „persónumet“. Löngu seinna litaðist tilvera mín af erlendum áhrifum og skammstöfunin í bókunum breyttist í „PB“ eða „personal best“. Hvað sem segja má um þessa málfarsþróun er ég búinn að setja 5 pébé það sem af er sumri. Þessi pistill fjallar um það fimmta, sem sett var í Ármannshlaupinu síðasta miðvikudagskvöld.

Ég bjóst ekki við neinu sérstöku í þessu Ármannshlaupi, nema því að þetta yrði skemmtilegt og að ég myndi koma glaður í mark. Vegalengdin var 10 km eins og jafnan í Ármannshlaupum og á þeirri vegalengd hafði ég einmitt sett PB í líffæragjafahlaupinu í Fossvogi í maí, 40:46 mín. Síðan þá hafði ég ekki æft sérlega vel, misst margar æfingar úr vegna vinnu og jafnvel bara tekið 2-3 æfingar í viku. Það er of lítið. Samt var ég svo sem í ágætu standi og heilsufar almennt prýðilegt.

Þetta var sjötta Ármannshlaupið mitt. Hef mætt í þessi hlaup annað slagið síðustu ár, já eða kannski áratugi. Tók fyrst þátt árið 1996 og setti þá PB (41:00 mín) sem stóð í tæp 18 ár, þ.e. þangað til í Fossvoginum í vor. Reyndar hljóp ég 10 km á braut haustið 1974 á 36:55 mín, nánar tiltekið vestur á Melavelli, en brautarhlaup teljast sem betur fer ekki með þegar talað er um árangur í götuhlaupum. Þess vegna byrjaði ég með „hreint borð“ þegar götuhlaupaferillinn hófst sumarið 1985.

Haustið 1974 var ég 17 ára og hlaupið á Melavellinum var sögulegt. Þetta tiltekna hlaup varð nefnilega til þess að árið 1974 luku hvorki meira né minna en 11 Íslendingar 10 km hlaupi. Það var „einsdæmi í íslenskri íþróttasögu“, eins og ég skrifaði í æfingadagbókina mína þá um kvöldið. Síðan eru liðin mörg ár. Í Ármannshlaupinu á miðvikudaginn skiluðu 444 hlauparar sér í mark.

Fyrir hlaup. Á leið að rásmarkinu með Gunnari Viðari (í gulum bol) og Gittu (hinum megin við Gunnar). (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Fyrir hlaup. Á leið að rásmarkinu með Gunnari Viðari (í gulum bol) og Gittu (hinum megin við Gunnar). (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hlaupið á miðvikudaginn, nema hvað þá var hlaupið frá Vöruhóteli Eimskips við Sundahöfn, að Hörpunni, snúið þar við, og sama leið hlaupin til baka. Þetta er ein besta 10 km braut sem maður kemst á á götum úti. Og veðrið var prýðilegt, dálítil gola úr óljósri átt, líklega humátt, súldarvottur um tíma og rétt rúmlega 10 stiga hiti. Birgitta dóttir mín og Borgnesingurinn Gunnar Viðar fylgdu mér á vettvang og tóku þátt í hlaupinu. Það er alltaf skemmtilegra að vera ekki einn í svona verkefnum. Reyndar hitti ég líka margt fleira fólk, enda hlýtur maður jú að rekast á nokkra kunningja í hópi 444 manna sem allir hafa sama áhugamál. Þarna var einvalalið á borð við Evu Skarpaas, Trausta hrausta og Friðrik í Melabúðinni, svo einhverjir séu nefndir, en allt þetta fólk er á svipuðu róli og ég í hlaupunum í mínútum talið. Svona almenningshlaup er ekki bara hlaup, þetta er líka góðra vina fundur.

Ég fór frekar hratt af stað að vanda. Gunnar Viðar fylgdi mér fyrsta spölinn en seig svo framúr. Hann hefur sýnt ótrúlegar framfarir á skömmum tíma og ég er alveg hættur að hafa við honum. Mér finnst gaman að fylgjast með svona þróun. Ég er heldur ekki í þessu til að vera á undan einhverjum öðrum, heldur til að sigrast á sjálfum mér og klukkunni.

Á snúningspunktinum eftir 5 km sýndi klukkan 20:28 mín. Ég bjóst við að bakaleiðin yrði ögn erfiðari og að líklegur lokatími yrði því eitthvað um 41:30 mín. Var vel sáttur við það. Tími umfram 42 mín. hefði hins vegar valdið mér vonbrigðum. En bakaleiðin var einhvern veginn léttari. Eftir 8 km var tíminn 32:36 mín og þá áttaði ég mig fyrst á því að ég gæti svo sem alveg slegið pébéið frá því í vor, þrátt fyrir allt. Með því að hlaupa þessa síðustu 2 km á sama hraða og fyrstu 8 km myndi þetta ekki taka nema 8:09 mín og það myndi duga. Og af því að mér finnast pébé svo skemmtileg bætti ég heldur í, enda lítið um þreytu í skrokknum. Kláraði þessa síðustu tvo á 7:51 mín og pébéið var í höfn, 40:27 mín.

Eftir hlaup. Félagi Gunnar Viðar í móttökunefndinni. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Eftir hlaup. Félagi Gunnar Viðar í móttökunefndinni. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Ég man ekki til þess að ég velti því mikið fyrir mér haustið 1974 hvaða tíma ég myndi ná í 10 km hlaupi 40 árum síðar. Ég er eðlilega svolítið lengur að þessu núna en þá, en hraðasti kílómetrinn minn á miðvikudaginn (3:53 mín á síðasta km) var samt hraðari en sá hægasti haustið 74 (3:56 mín á 6. km). Þetta er samanburður sem ég get glatt mig svolítið við.

Götuhlaup eru kannski hvert öðru lík og því takmörk fyrir því um hversu mörg þeirra sé hægt að skrifa langa bloggpistla án þess að endurtaka nánast orðrétt það sem sagt var í síðasta pistli. Ég afréð nú samt að skrifa enn einn pistilinn af þessu tagi til að tíunda árangur miðvikudagsins. Stundum efast ég um tilgang þessara skrifa, en fyrir og eftir hlaupið á miðvikudaginn hitti ég ókunnugt fólk sem sagðist lesa pistlana og hafa af þeim bæði gagn og gaman. Þetta fólk er mér innblástur og þessi pistill er tileinkaður því. Hann verður ekki sá síðasti.

PS: Af því að Ármannshlaupið á miðvikudaginn var þrítugasta 10 km götuhlaupið mitt frá upphafi ákvað ég að búa til einfalda mynd með ágripi af sögu allra þeirra hlaupa. Eigum við ekki að segja að þetta sé þroskasaga? Myndin er alla vega hér fyrir neðan og verður líklega læsileg ef smellt er á hana.

Þroskasaga þrjátíu 10 km götuhlaupa. (Myndin stækkar ef smellt er á hana).

Þroskasaga þrjátíu 10 km götuhlaupa. (Myndin stækkar ef smellt er á hana).

Eitt svar

  1. […] við, þannig að það var ekki fyrr en 9. júlí sem ég mætti í 8. keppnishlaupið. Þetta var Ármannshlaupið, sem hefur lengi verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Fyrri hluti hlaupsins var hálferfiður, […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: